20.11.1968
Sameinað þing: 13. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2146 í B-deild Alþingistíðinda. (2190)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það var eingöngu vegna þess, að hv. 3. þm. Norðurl. v. vitnaði í mín ummæli. Það er rétt, að ég átti tal við hann um það að hraða meðferð málsins á dögunum, en ég hygg mig muna það rétt, að ég lagði megináherzlu á þægindi í innlendum viðskiptum. Ég fjallaði út af fyrir sig ekki um það, hvort þetta mundi baka Íslandi mikið vantraust erlendis. Ég ber ekki neitt á móti því, sem hæstv. viðskmrh. segir um það, en minn málflutningur byggðist eingöngu á hinu, að það væri nauðsynlegt fyrir eðlilegan gang viðskipta hér, að gjaldeyrisverzlunin yrði lokuð sem allra skemmst. Og þetta hygg ég, að ekki verði um deilt. Það liggur svo í augum uppi, að þegar hætt er að skrá gengi þess gjaldeyris, sem við verzlum mest með, af þeirra eigin heimaþjóðum, getum við ekki haldið áfram þeirri verzlun. Það segir sig alveg sjálft. Enda er ekki um það deilt. Og þess vegna eigum við ekki annars úrkosti, heldur en að gera þá ráðstöfun, sem hér hefur verið gerð. Ég skal játa, að mér kom algerlega á óvart, að það mundi hafa svo víðtækar verkanir, þessi lokun, sem maður heyrði um í útvarpinu í morgun, að kauphöllum hefði verið lokað í París og London og Bonn, að vísu var sagt, að það væri almennur frídagur í Bonn. Og þó maður hefði heyrt um erfiðleika á skráningu frankans — að halda honum uppi, — gerði ég mér ekki grein fyrir, að þeir örðugleikar mundu hafa svo skyndilega verkun, að bönkum í okkar helztu viðskiptalöndum yrði lokað varðandi gjaldeyrisverzlunina. Það er sitt hvað, þó að eitt land eigi í örðugleikum, eins og Frakkland, að afleiðingarnar breiðist jafnört út eins og hér ber raun vitni. Um þetta tjáir hins vegar ekki að deila. Þetta liggur hér fyrir, og um sjálfa þá athöfn, sem hér hefur verið gerð, finnst mér ekki vera neinn ágreiningur.

Ég endurtek það, að ég mat það við hv. stjórnarandstöðu á dögunum, að málið var þá, umrætt mál, afgreitt á einum degi eða þannig, að ekki þurfti af þessum sökum að loka algerlega fyrir gjaldeyrisverzlun hér nema einn dag. Það er að vísu svipað því, sem áður hefur verið stundum. Þetta hefur staðið nokkuð misjafnlega af sér, en alltaf hafa menn leitazt við að hafa slíkan frest sem skemmstan; menn hafa alltaf leitazt við það. Eins og það hefur verið föst venja, svo lengi, sem ég man, að þrátt fyrir harðan ágreining á milli stjórnmálaflokka hafa stjórnarandstæðingar orðið við óskum ríkisstjórnar um að afgreiða mál, jafnvel mjög flókin mál á mjög skömmum tíma, þegar það hefur verið ljóst, að afgreiðslan ein mundi verka mjög truflandi, ef hún drægist, vegna þess að menn hafa þá hugsað sér, að hægt væri að halda áfram deilum um efni málsins síðar, þó að það yrði ekki umflúið, sem hvort eð var ljóst orðið, að gert mundi verða.