05.05.1969
Neðri deild: 88. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2182 í B-deild Alþingistíðinda. (2219)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég læt í ljós ánægju mína yfir því að sjá hæstv. utanrrh. aftur kominn til starfa hér á Alþ. eftir lasleika, sem hefur þjáð hann að undanförnu, og ég nota strax tækifærið til þess að beina til hans fsp. Fsp. geri ég í tilefni af því. að í dag hefst í London utanríkisráðherrafundur Evrópuráðsins, og eitt helzta málið á þessum fundi verður afstaðan til hinnar fasistísku herforingjastjórnar, sem fer nú með völd í Grikklandi og beitir þar miskunnarlausri kúgun, gengur æ harðar fram í því að skerða frelsi allrar alþýðu, og pyntar, fangelsar og myrðir leiðtoga frelsisafla þar í landi, beztu syni grísku þjóðarinnar. Vitað er að á þessum fundi verði tekin afstaða til till. um það að víkja Grikklandi úr Evrópuráðinu af framangreindum ástæðum, þ. e. a. s. í mótmælaskyni við fasistíska framkomu herforingjastjórnarinnar, halda Grikklandi fyrir utan þessi samtök Evrópuþjóða, á meðan þessi stjórn fer þar með völd. Meðal þeirra, sem flytja þessa till. eru þrjár Norðurlandaþjóðanna, Svíar, Danir og Norðmenn. Við Íslendingar erum ekki meðal flytjenda till., og ég harma það. Einnig harma ég það, að hæstv. utanrrh. skuli ekki sitja þennan mikilvæga fund, þó ég þykist hins vegar skilja ástæðuna til þess, þann lasleika, sem hefur þjáð hann að undanförnu.

En ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðh.: Hver er afstaða Íslands í þessu máli? Styður íslenzka ríkisstj. eða styður hún ekki þessa kröfu um það, að Grikklandi verði vikið úr Evrópuráðinu?