29.04.1969
Efri deild: 80. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í C-deild Alþingistíðinda. (2367)

44. mál, smíði fiskiskipa

Frsm. meiri hl. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Ég verð að fagna áhuga þessara hv. ræðumanna, sem hér hafa talað, hv. 11. þm. Reykv. og 3. þm. Vestf., fyrir áhuga um innlenda skipasmíði. En ég er nú hræddur um, að mörgum finnist einkennileg röksemdafærslan, sem fram hefur komið hjá hv. 3. þm. Vestf. Ég hef gaman af að heyra, hvað forsvarsmenn skipasmíða í hans heimabyggð, Ísafirði, hefðu að segja við slíkri röksemdafærslu. Samkvæmt þessu frv. er aðeins um heimild ríkisstj. að ræða fyrir byggingu 10 þús. rúmlesta, en yfirlýsing hæstv. forsrh. gengur miklu lengra. Hún segir, að nú skuli, og hann lofar því, að nú skuli verða settar á stað byggingar, sem nema um 50 millj. frá atvinnumálanefnd, og það sé 1/5 þess fjármagns. Það þýðir skipabyggingar upp á 250 millj. Ég samgleðst líka hv. 11. þm. Reykv., að hann skuli vera svo ánægður með ummæli forsrh. Eins og í nál. minni hl. er tekið fram, telja þeir, að 50 millj. fjárhæð, eins og atvinnumálanefnd hefur heitið til eflingar íslenzkum skipasmíðaiðnaði, sé hvergi nærri fullnægjandi. Hins vegar má benda á það, að hér er um að ræða 1/5 hluta af öllu því fé, sem atvinnumálanefnd ríkisins hefur til ráðstöfunar. N. hefur samþ. þessa lánveitingu einróma, og flokksbróðir þeirra hv. þm., sem hér hafa talað, sem sæti á í atvinnumálanefnd, hefur ekki séð ástæðu til þess að koma fram með neina brtt, eða aðrir nm. N. hefur verið einróma í að leggja til það lánsfé, þessar 50 millj.

Þessar 50 millj. eiga að taka við, þegar lán fiskveiðasjóðs og atvinnujöfnunarsjóðs, 80%, hefur komið til, og eins og ég sagði áðan, þessi upphæð þar með 5-faldast. Verða þá til ráðstöfunar fyrir skipabyggingar innanlands nú, þó að það sé kannske ekki til í dag, eins og kom fram í ræðu um fiskveiðasjóð hér í gær, það verða þó 250 millj., og ég efast ekki um, að það verði staðið við það.

Efasemdir, sem koma fram í nál. minni hl. um, að fjármagn til fiskveiðasjóðs hafi verið tryggt, eru óþarfar eftir svo skilyrðislausa yfirlýsingu hæstv. forsrh., sem hér hefur verið margminnzt á. Þá er fundið að því, að þessar ráðstafanir séu aðeins bundnar við 2 ára starfstímabil eða það tímabil, sem atvinnumálanefnd ríkisins er falið að starfa. Segir í nál. minni hl., að hér sé um framtíðarverkefni að ræða eða framtíðarviðfangsefni. Ég skil ekki, á hvern hátt hv. minni hl. hugsar, ef það skyldi eiga að vera framtíðarverkefni að smíða skip á „lager“, án þess að kaupendur kæmu til. Að mínum dómi getur það aldrei verið nema takmarkað viðfangsefni að byggja skip á „lager“. Skipin verða að sjálfsögðu að seljast og komast á fiskveiðar, þegar smíði þeirra er lokið. Þannig yrði hægt að velta áfram þeim fjármunum, sem í þetta færu, aftur og aftur, og þyrfti aldrei nema nokkuð takmarkað fjármagn í þessa smíði, nema út í það væri farið að smíða áfram, án þess að kaupendur væru fyrir hendi.

Af nál. minni hl. er það helzt að skilja, að áframhaldandi skipasmíðar fari fram án þess að nokkur markaður sé fyrir hendi. Þetta er að sjálfsögðu meinloka, sem ekki er hægt að taka alvarlega.

Hv. 3. þm. Vestf. minntist á getu fiskveiðasjóðs. Það er rétt, hann er fjárvana. En það verður ekki séð, að neitt ákvæði í l. um fiskveiðasjóð hindri það, að sjóðurinn geti tekið að sér það hlutverk, sem honum er hér fyrirhugað, þ. e. að lána til smíði fiskiskipa, þótt kaupendur séu ekki fyrir hendi, þegar smíðin er undirbúin og hefst. M. a. gerir 9. gr. l. um fiskveiðasjóð frá 1964 ráð fyrir, að sjóðurinn geti veitt viðskiptabönkum bráðabirgðalán til endurláns einmitt í slíkum tilvikum. Og ef slík ákvæði fullnægðu ekki þessum fyrirhugaða tilgangi, þá getur sjútvmrh. skv. 24. gr. l. sett með reglugerð nánari ákvæði um starfsemi fiskveiðasjóðs. Ég held, að þessi efasemd sé alveg óþörf, og ég vænti, að við getum allir verið sammála um það og fagnað því, að nú er fyrirhugað, að allar skipasmíðastöðvar komist í gang með því fjármagni, sem þegar hefur verið aflað og verður aflað.