16.05.1969
Neðri deild: 95. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í C-deild Alþingistíðinda. (2380)

207. mál, eyðing svartbaks

(Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Ég fór ekki út í það að skýra einstakar greinar reglugerðarinnar. Ég vil aðeins taka það fram, að hún er það þröng, að ekki má nota þetta lyf í annað en egg. Og eftir því sem dr. Finnur Guðmundsson sagði okkur í landbn., er ekki hætta á því að nokkur villt dýr, hvorki fleyg né á fæti, taki egg, nema veiðibjallan, hrafninn og kjóinn, og svo máske refur. Þar af leiðandi taldi hann , að örninn færist ekki á því að taka þetta agn, og það var algerlega það, sem réð afstöðu þess, að hún aðhyllist þessa leið til bráðabirgða a. m. k.

Sem sagt, ég vil leggja áherzlu á, að það var fullkomlega álit dr. Finns Guðmundssonar, sem er allra manna fróðastur um hætti fugla, að það væri útilokað, að örninn tæki egg, hvorki úr hreiðrum né sem út eru borin.