13.03.1969
Neðri deild: 64. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í C-deild Alþingistíðinda. (2470)

166. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Skólakerfi þjóðar mótast annars vegar af löggjöf, sem ýmist setur sjálfu skólastarfinu almenna umgjörð eða ramma eða mælir hins vegar fyrir um hlutverk og skipulag einstakra skóla eða skólastiga. Hér á landi eins og víða annars staðar eru ákvarðanir löggjafans um framkvæmd fræðsluskyldu eða skólastarf á fræðsluskyldustigi fyrst og fremst í því fólgnar að kveða á um, að öll börn og unglingar séu fræðsluskyld á aldrinum 7–15 ára. Í gildandi l. um skólakerfi og fræðsluskyldu segir, að allir skólar, þeir sem kostaðir eru eða styrktir af ríkisfé, skuli mynda samfellt skólakerfi, sem skiptist í 4 stig: barnafræðslustig, gagnfræðastig, menntaskólastig og háskólastig. Í gildandi l. eru engin tæmandi ákvæði um það, hvað kennt skuli eða hvernig á barnafræðslustigi eða gagnfræðastigi. Námsefni á þessum skólastigum er ákveðið í námsskrá, sem menntmrn. er ætlað að gefa út. Hins vegar eru í l. ákvæði um skipulag á námsefni á menntaskóla- og sérskólastiginu, sem og á háskólastiginu. Þá er og í gildandi l. um skólakerfi og fræðsluskyldu ákvæði um, að miðskólum, sem eru ein af 3 skólategundum gagnfræðastigsins, en það eru unglingaskólar, miðskólar og gagnfræðaskólar, skuli ljúka með landsprófi, miðskólaprófi, sem veitir rétt til inngöngu í menntaskóla og sérskóla með þeim takmörkunum, er kunna að vera settar í lögum þeirra eða reglugerðum.

Þessi stefna löggjafans, sem mörkuð er í l. um skólakerfi og fræðsluskyldu frá 1946, að setja ekki lagafyrirmæli um einstök atriði skólastarfsins á fræðsluskyldustiginu, er tvímælalaust skynsamleg. Hún veltir yfirstjórn skólanna á fræðsluskyldustiginu og skólunum sjálfum ráðrúm og skilyrði til breytinga á skipulagi, námsefni, kennsluaðferðum og próftilhögun, eftir því sem æskilegt þykir hverju sinni.

Skömmu eftir að ég tók við starfi menntmrh., eða árið 1958, skipaði ég n., þar sem áttu sæti fulltrúar þingflokka og kennarastéttar og embættismenn undir forustu Halldórs Halldórssonar prófessors, til þess að kanna þá reynslu, sem af þessari lagasetningu hefði fengizt, og hvort ástæða væri til breytingar á þeirri umgjörð eða þeim ramma, sem skólakerfinu væri settur í löggjöfinni. Það varð nær einróma niðurstaða þessarar n., að ekki væri ástæða til þess að gera breytingar á grundvallaratriðum þessarar lagasetningar, þ. e. a. s. 7–15 ára fræðsluskyldu, heimildinni til þess að skipa námsefni fræðsluskyldustigsins með námsskrá, skiptingu skólakerfisins í hin 4 stig og því, að landspróf eða miðskólapróf skuli velta rétt til inngöngu í sérskóla og menntaskóla. Af þessum sökum hef ég á undanförnum árum talið rétt, að á löggjafarsviðinu yrði lögð megináherzla á endurskoðun löggjafarinnar um sérskólana.

Þegar þetta frv. verður að lögum, hefur á tiltölulega stuttu tímabili bókstaflega öll íslenzk löggjöf um einstaka skóla eða skólastig verið endurskoðuð eða sett ný löggjöf um skóla eða skólastig, sem engin löggjöf var til um áður. Þegar 1957 voru sett ný heildarlög um Háskóla Íslands, en fyrri lög voru frá árinu 1936. Síðan hafa ýmsar breytingar verið gerðar á háskólalögunum og margar og gagngerar breytingar á reglugerð háskólans, t. d. hefur námið í læknisfræði og í íslenzkum fræðum verið aukið og bætt og B.A.-náminu verið breytt verulega, þannig að nú er það fullgilt háskólanám fyrir framhaldsskólakennara í mörgum greinum. Á s. l. hausti var hafin kennsla í náttúrufræðum til B. A.-prófs og þar með lagður grundvöllur að stofnun vísindadeildar við háskólann. Á undanförnum áratug hefur tala kennara við háskólann meira en tvöfaldazt. Á þessu ári mun ljúka störfum n., sem skipuð var fyrir rúmum 2 árum til þess að gera till. um framtíðaruppbyggingu háskólans næstu 2 áratugina. Ný löggjöf var sett um kennaraskólann 1963, og var hlutverki hans og skipulagi gerbreytt frá því, sem áður var, þ. e. a. s. hann var þá gerður að stúdentaskóla. Sama ár var með löggjöf komið á fót Tækniskóla Íslands. Fram til þessa hefur hann veitt tæknifræðingum 3 ára menntun, en tvö síðustu árin hafa verðandi tæknifræðingar orðið að stunda nám erlendis. Nú nýlega hefur verið ákveðið að gera byggingartæknifræðingum kleift að ljúka námi sínu algerlega hér heima, og munu fyrstu íslenzku byggingartæknifræðingarnir, sem algerlega stunda nám sitt á Íslandi, brautskrást frá tækniskólanum 1971. Árið 1966 var sett ný iðnfræðslulöggjöf, þar sem víðtækar breytingar og endurbætur voru gerðar á iðnfræðslunni. Sama ár var sett ný löggjöf um vélstjóranám og um stýrimannaskólann í Reykjavík, en árið 1964 höfðu verið sett lög um nýjan stýrimannaskóla í Vestmannaeyjum. Árið 1962 var sett ný löggjöf um hjúkrunarskóla og árið 1965 um Húsmæðrakennaraskóla Íslands. Árið 1965 voru sett lög um Myndlistar- og handíðaskóla, en um þá menntun höfðu ekki áður verið til sérstök lög. Og árið 1963 voru sett lög um fjárhagsstuðning við tónlistarskóla, en um þá skóla höfðu engin lög verið til áður.

Eins og ég gat um áðan, er ástæða þess, að ég hef fram til þessa ekki lagt til við Alþ., að ný lög verði sett um skólakerfi og fræðsluskyldu, sú, að þessi löggjöf er rammalöggjöf og hægt er að gera allar breytingar, sem nauðsynlegar eru taldar á námsefni, kennsluaðferðum og próftilhögun og æskilegar þykja, án lagabreytinga. Meginþorri skólamanna og nemenda er þeirrar skoðunar, að því ákvæði l. um skólakerfi og fræðsluskyldu, að miðskólapróf eða landspróf skuli vera aðalleiðin til inngöngu í menntaskóla og sérskóla, eigi ekki að breyta. Ég minnist ekki heldur neinnar ýtarlegrar eða rökstuddrar till. um, hvað koma ætti eða komið gæti í staðinn fyrir almennt samræmt inntökupróf í menntaskóla eða sérskóla. Um það aðalatriði l. um skólakerfi og fræðsluskyldu, að börn og unglingar séu fræðsluskyld á aldrinum 7–15 ára, er það að segja, að skoðanir eru skiptar um það, hvort fræðsluskylduna eigi að lengja, t. d. um eitt ár, eða ekki. Persónulega er ég þeirrar skoðunar, að innan tíðar hljóti að koma að því, að skólaskylda verði lengd um eitt ár og verði 9 ár. Með hliðsjón af þeim miklu breytingum, sem gerðar hafa verið á fræðsluskyldustiginu og gagnfræða-, sérskóla- og háskólastiginu á undanförnum árum og varið hefur verið stórauknu fé til, hefur fram til þessa ekki verið fjárhagsgrundvöllur fyrir lengingu skólaskyldunnar. Hvort það er gert og hvenær það verður gert, er fyrst og fremst fjárhagsatriði. Það er Alþingis að ákveða, hvort það vill verja því fé, sem það veltir til skólamála og fer stórvaxandi ár frá ári, til þess að bæta og auka kennsluna á fræðsluskyldustiginu, eins og það er nú, sem og gagnfræða-, mennta-, sérskóla- og háskólastigi, eða hvort það vill verja fé til þess að lengja skólaskylduna eða gera allt í senn. Skólunum og kennarastéttinni er fátt að vanbúnaði að framkvæma lengingu fræðsluskyldunnar frá kennslufræðilegu sjónarmiði séð, en það gerir auðvitað nauðsynlegar nýjar skólabyggingar og eykur rekstrarkostnað skyldunámsskólanna. Þótt ég hafi talið rétt að leggja til við Alþ., að endurskoðun allrar sérskólalöggjafarinnar gengi fyrir, hef ég alltaf gert ráð fyrir því, að einnig kæmi til endurskoðunar á löggjöfinni um fræðsluskylduna, en ég hef talið, að það ætti ekki og þyrfti ekki að gerast, fyrr en tímabært væri að taka lengingu fræðsluskyldunnar á dagskrá.

Endurskoðun löggjafarinnar frá 1946 um fræðsluskylduna hefur verið undirbúin. Nú, þegar lokið er endurskoðun allrar löggjafarinnar um einstaka skóla og skólastig, tel ég orðið tímabært að leggja fram frv. að nýrri löggjöf um fræðsluskylduna. Ríkisstj. hefur samþ., að slíkt frv. verði lagt fyrir þetta þing. Eitt merkasta nýmæli þess verður, að heimilað verður að lengja fræðsluskylduna um eitt ár eða í 9 ár, þegar fé er veitt til þess á fjárlögum. Þegar það frv. hefur verið samþ., verður það Alþingis að ákveða með fjárveitingu, hvenær lenging skólaskyldunnar skuli koma til framkvæmda. Almennur lagagrundvöllur eða lagarammi væri þá fyrir hendi til 9 ára fræðsluskyldu.

Enda þótt gildandi rammalöggjöf um skólakerfi og fræðsluskyldu hafi ekki verið breytt, jafngildir það að sjálfsögðu ekki því, að ekki hafi verið gerðar miklar breytingar á skólastarfinu á fræðsluskyldustiginu á undanförnum árum. Þegar skólamálanefnd, sem ég gat um áðan og skipuð var 1958, skilaði álíti 1959 og taldi ekki þörf grundvallarbreytinga á l. um skólakerfi og fræðsluskyldu, en gerði hins vegar till. um ýmsar breytingar á framkvæmd fræðsluskyldunnar, var lögð höfuðáherzla á að endurskoða námsskrána fyrir allt skólaskyldustigið. Var því verki lokið 1960 og gefin út ný námsskrá fyrir öll börn og alla unglinga á skólaskyldualdri. Hefur þessi nýja námsskrá smám saman verið að koma til framkvæmda á undanförnum árum.

Ég hygg, að óhætt sé að segja, að það sé skoðun yfirgnæfandi meiri hluta skólamanna nú á tímum, að ekki eigi að gera gjörbreytingar á skipulagi skóla og skólastarfi á nokkurra ára fresti, heldur eigi skólastarfið og skólaskipulagið að taka stöðugum breytingum, jafnhliða þeim breytingum, sem verða í þjóðfélaginu ár frá ári á svo að segja öllum sviðum, með breyttri tækni í atvinnugreinum, með flutningi fólks úr dreifbýli í þéttbýli, með þreyttri þekkingu og breyttum lífsviðhorfum. Það er þess vegna í raun og veru orðið alveg ófullnægjandi og úrelt viðhorf, að nægilegt sé að endurskoða skólalöggjöf þjóðar með vissu millibili, t. d. á 10–15 ára fresti, framkvæma allsherjarendurskoðun á námsefni og námsskrá öðru hverju. Breytingar á þekkingu og þjóðfélagi gerast smám saman og eru alltaf að eiga sér stað. Þess vegna þarf skólakerfi og námstilhögun í raun og veru að vera í sífelldri endurskoðun. Gildandi löggjöf um skólakerfi og fræðsluskyldu hér gerir slíkt einmitt mögulegt. Þannig hefur verið unnið undanfarin ár, og þannig tel ég, að vinna eigi áfram. Í samræmi við þessi sjónarmið var árið 1966 komið á fót sérstakri deild innan menntmrn., sem annast á stöðugar vísindalegar rannsóknir á skólakerfinu, og gera till. til úrbóta jafnóðum. Skólarannsóknadeildin hefur m. a. beitt sér fyrir og haft umsjón með ýmsum tilraunum með nýjungar í námsskipan og kennsluháttum á barna- og gagnfræðastiginu. Samkvæmt till. hennar var sérstakri n. falið að endurskoða námsefni og kennsluhætti í eðlis- og efnafræði í barna- og gagnfræðaskólum, og hefur n. skilað ýtarlegri álitsgerð um það efni. Hliðstæð endurskoðun að því er varðar líffræði er nýlega hafin. Í ársbyrjun 1968 var sett reglugerð um samræmt gagnfræðapróf, þar sem gert er ráð fyrir, að gagnfræðapróf verði samræmt landspróf í íslenzku, dönsku, ensku og stærðfræði. Skipuð var n. til að undirbúa og annast þessa samræmingu, og hefur hún samið drög að námsskrá fyrir gagnfræðadeildirnar, sem kennt er eftir í vetur í tilraunaskyni. Á s. l. hausti var einnig gengið frá drögum að námsskrá fyrir landsprófsdeildir og eru þau reynd í skólunum í vetur. Námsskrárnar verða síðan endurskoðaðar að fenginni þeirri reynslu. Um allt framangreint endurskoðunarstarf hefur skólarannsóknadeild menntmrn. haft hönd í bagga. Ýmsar tilraunir hafa og verið gerðar á sviði málakennslu á fræðsluskyldustiginu, og nú í vor eru fyrirhugaðar ýmsar breyt. á framkvæmd landsprófsins frá því, sem áður hefur verið.

Með þessu stutta yfirliti hef ég viljað gera tilraun til þess að skýra tengsl þessa frv. um menntaskóla við þá heildarendurskoðun íslenzkrar skólalöggjafar, sem átt hefur sér stað undanfarin ár og stendur enn yfir. Stefnan hefur verið og er sú að setja fyrst nýja löggjöf um alla sérstaka skóla og skólastig, en framkvæma samtímis breytingar í þeim skólum, þar sem fræðsluskyldan er framkvæmd, þar eð gildandi lög gera beinlínis ráð fyrir því, að nauðsynlegar breytingar innan skóla og skólastiga fræðsluskyldunnar séu framkvæmdar, án þess að lagabreyting þurfi að koma til, að þessu loknu eigi svo að setja ný lög um sjálfa fræðsluskylduna og taka ákvörðun um lengingu hennar, þegar það reynist fjárhagslega kleift. Breytingar hafa raunar einnig verið gerðar í framkvæmd á menntaskólastiginu sem eins konar tilraunastarfsemi til undirbúnings þeirri allsherjarlöggjöf, sem hér liggur nú fyrir. Á menntaskólastiginu hafa ýmsar þær nýjungar, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að skuli teknar upp í öllum menntaskólunum, þegar verið reyndar nokkur undanfarin ár. Tel ég það vera heilbrigða stefnu að gera ekki till. um gagngerar breytingar fyrr en nokkur tilraunareynsla hefur af þeim fengizt.

Að svo mæltu skal ég gera grein fyrir samningu þessa frv. og helztu breytingum, sem samþykkt þess hefði í för með sér á gildandi l. um menntaskóla og skólastarfinu á menntaskólastiginu.

Frv. er samið af n., sem menntmrn. skipaði 7. marz 1963 til þess að endurskoða gildandi laga- og reglugerðarákvæði um menntaskóla. Í n. voru skipaðir Kristinn Ármannsson rektor menntaskólans í Reykjavík, formaður, Ármann Snævarr háskólarektor, Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri, dr. Broddi Jóhannesson skólastjóri Kennaraskóla Íslands, Jóhann S. Hannesson skólameistari menntaskólans á Laugarvatni, dr. Jón Gíslason skólastjóri Verzlunarskóla Íslands og Þórarinn Björnsson skólameistari menntaskólans á Akureyri. Árna Gunnarssyni fulltrúa í menntmrn. var falið að vera ritari n. Sumarið 1964 var Magnús Magnússon skipaður varamaður háskólarektors, og gegndi hann því starfi þangað til í janúar 1966. Hinn 1. sept. 1965 skipaði ráðh. í n. þá Einar Magnússon, er hafði tekið við stöðu rektors menntaskólans í Reykjavík, og Guðmund Arnlaugsson rektor hins nýstofnaða menntaskóla við Hamrahlíð. Loks tók Steindór Steindórsson sæti í n. haustið 1966, er hann hafði verið settur skólameistari menntaskólans á Akureyri. Kristinn Ármannsson gegndi formennsku í n., þar til hann lézt í júlí 1966, þá var Þórarinn Björnsson skipaður formaður, en vegna veikinda hans tók Jóhann S. Hannesson við formennsku hans í ágúst 1966, og var hann skipaður formaður eftir lát Þórarins Björnssonar í febr. 1968.

Helztu breytingar, sem frv. gerir ráð fyrir, eru þessar: Tala menntaskóla verði ekki lengur ákveðin í l., heldur er gert ráð fyrir því, að um stofnun nýrra skóla fari eftir fjárveitingu Alþ. og ákvörðun ráðh. Ég hef orðið þess var, að í ákvæði 1. gr. frv. um það, að menntmrh. skuli ákveða, hvar menntaskóla skuli stofna og þeir starfa, felist einhver breyting frá þeirri almennu reglu, sem gildir í íslenzkri skólalöggjöf. En hér er um algeran misskilning að ræða, sem ég efast ekki um, að hv. alþm. er algerlega ljóst, en öðrum út í frá virðist ekki hafa verið svo ljóst sem skyldi. Í 2. gr. l. um skólakostnað, sem gildir um alla skóla, sem kostaðir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

Menntmrn. ákveður skiptingu alls landsins í fræðsluhéruð og skólahverfi og hvar stofna skuli heimangönguskóla og hvar heimavistarskóla, að fengnum till. fræðslumálastjóra, hlutaðeigandi skólanefnda (fræðsluráða) og sveitarstjórna og iðnfræðsluráðs að því er að iðnfræðsluskóla varðar.“

Ég hef aldrei orðið þess var, að nokkur brtt. hafi komið fram um þetta efni. Það er m. ö. o. á valdi menntmrn. að ákveða, hvar stofna skuli alla skóla í landinu, að sjálfsögðu að fengnum fjárveitingum til stofnunar skólanna. Í reynd er það auðvitað Alþ., sem ákveður, hvar stofna skuli og starfrækja skóla, og hafa skólakostnaðarlög þau, sem gilt hafa hér frá upphafi, ávallt verið skilin á þennan hátt. Engum hefur dottið í hug, að menntmrn. gæti neitað að stofna skóla, sem Alþ. hefur veitt fé til, né heldur að menntmrh. stofnaði skóla, sem Alþ. hefur ekkert fé veitt til. Hér er m. ö. o. um að ræða nauðsynlega stjórnarfarslega samvinnu Alþ. og framkvæmdavalds um það, hvar stofna skuli skóla í landinu. Menntaskólan. hefur talið, að eðlilegt væri, að það sama gilti um menntaskóla og alla aðra skóla í landinu, þ, e. að það skuli vera á valdi menntmrn. að ákveða stofnun þeirra, að sjálfsögðu að fengnum fjárveitingum hjá fjárveitingavaldinu. Eini munurinn, sem er á þessu frv. og gildandi l., er sá, að í gildandi l. segir, að menntmrn. ákveði, hvar stofna skuli skóla, en í menntaskólafrv. segir, að menntmrh. ákveði, hvar stofna skuli skóla, en allir alþm. gera sér auðvitað ljóst, að á þessu er enginn efnismunur, menntmrn. er menntmrh. og menntmrh. er menntmrn. Í lögum er það vald, sem rn. er falið, ýmist kennt við rn. sem slíkt eða kennt við ráðh. Þessi orð eru notuð alveg jöfnum höndum í íslenzkri lagasetningu, og hefur enga efnisþýðingu, hvort orðalagið er notað, hvort það vald, sem Alþ. felur stjórnvöldum með lögum, er kennt við hlutaðeigandi rn. eða hlutaðeigandi ráðh. En þessi orðalagsbreyting í menntaskólal. virðist vera grundvöllur fyrir misskilningi, sem vart hefur orðið um þetta efni. M. ö. o. það, sem hér er um að ræða, er ekkert annað en það að láta hið sama gilda um menntaskóla í landinu eins og gildir um alla aðra skóla, nema háskólann, þar eð hann er aðeins einn.

Ég hef einnig orðið þess var, að ákvæði frv. um, að tala menntaskóla skuli ekki lengur ákveðin í l., heldur háð fjárveitingum Alþ. og ákvörðunum ráðh., jafngildi breytingu á þeim ákvæðum gildandi l., að stofna skuli menntaskóla á Ísafirði og Austurlandi. Hér er einnig um algeran misskilning að ræða. Ég tel sjálfsagt, að ráðh. stofnsetji menntaskóla á þeim stöðum, sem Alþ. veitir fé til, að menntaskólar séu reknir. Ég get þess vegna lýst því yfir, að ég tel þá ákvörðun Alþ., að menntaskólar skuli vera á Ísafirði og Austurlandi, vera í fullu gildi og mun ákveða stofnun menntaskóla þar, þegar Alþ. hefur veitt nægilegt fé til þess, en að sjálfsögðu ekki fyrr, enda teldi ég það ekki heimilt.

Tekin er upp heimild fyrir aðra aðila en ríkið til að stofna og starfrækja menntaskóla að fengnu leyfi rn. og samkvæmt reglum, sem það setur. Það er og heimilað að setja á stofn menntaskóla í tilraunaskyni, sem óháðir séu tilteknum ákvæðum l. Ég lít þannig á, að í þessari grein felist heimild til þess t. d. að koma á fót skóla, þar sem væri ein námsbraut á tilteknu sviði, t. d. á sviði þjóðfélagsfræða, þrátt fyrir ákvæði 9. gr. um námsefni menntaskóla, eða t. d. til þess að veita Kvennaskólanum í Reykjavík heimild til þess að verða stúdentaskóli þrátt fyrir ákvæði 4. gr. um, að menntaskólar séu jafnt fyrir pilta og stúlkur. Ég tel rétt, að Alþ. sjálft taki ákvörðun um það, hvort heimild þessarar gr. verði notuð til þess að gera Kvennaskólann í Reykjavík að stúdentaskóla, enda þarf sérstaka fjárveitingu til þess, að slíkt geti orðið. Próf úr bóknámsdeild miðskóla verður áfram beinasta inngönguleið í menntaskóla, en skýlausari heimild en er í núgildandi l. er veitt til að taka nemendur í menntaskóla af öðrum skólastigum, teljist undirbúningur þeirra fullnægjandi. Ákvæði um 16 ára lágmarksaldur til inngöngu er afnumið.

Tekin er upp nýskipan á skiptingu námsbrauta innan skólanna, og raskar hún verulega núverandi deildaskiptingu og bekkjakerfi. Námsefni verður þríþætt: kjarni, kjörsvið og frjálsar valgreinar. Kjarninn er það námsefni, sem er sameiginlegt öllum nemendum skólans, hvaða námsbraut sem þeir velja sér. Kjörsviðin, sem verða grundvöllur deildaskiptingar, eru flokkar samstæðra greina, og skal hver nemandi velja einn slíkan flokk í heild. Frjálsar valgreinar eru það námsefni hvers nemanda, sem ekki telst til kjarnans eða kjörsviðs hans. Er gert ráð fyrir, að þar geti bæði verið að ræða um viðbótarnám í skyldugreinum og nýjar greinar. Af um 144 einingum heildarnámsefnis má kjarninn nema allt að 100, kjörsviðið skal nema a. m. k. 24 einingum og frjálsar valgreinar a. m. k. 14 einingum. Kennslugreinar eru ekki tilteknar í l., svo sem nú er, en gert ráð fyrir, að í námsskrá og reglugerð verði nánar ákveðið um efnisinnihald kjarna, kjörsviða og frjálsra valgreina. Heimilað er að skipta skólaárinu í námsáfanga eða annir, og skal í lok hvers áfanga úrskurðað um hæfni nemanda til að hefja nám í næsta áfanga. Losað er um ákvæði varðandi árspróf, en lokapróf í hverri grein skal halda, þegar kennslu í henni lýkur að fullu. Stúdentsprófi er náð, þegar nemandi hefur staðizt öll lokapróf á kjörsviði sínu og lokið prófi í öðrum greinum eftir fyrirmælum reglugerðar. Heimilað er að setja í reglugerð ákvæði um námsefni og prófkröfur, er miðist við annað fullnaðarpróf úr menntaskóla en stúdentspróf, þ. e. fyrir þá, sem stefna ekki að háskólanámi.

Kveðið er á um, að við hvern menntaskóla skuli skipað í eftirtalin störf auk kennara og skólastjóra: 1) Umsjónar- og ráðgjafastörf, þ. e. störf yfirkennara og aðstoðarskólastjóra, bókavarðar, námsráðunauta, deildarkennara og félagsráðunauta. Þessir starfsmenn allir mega vera úr hópi kennara, og fela má sama manni fleiri en eitt starfanna. 2) Störf á skrifstofu, þ. e. fulltrúastarf og gjaldkerastarf. 3) Önnur störf, þ. e. starf húsvarðar og tækjavarðar. 4) Starf húsbónda og húsfreyju í heimavistarskólum. Fela má sama starfsmanni fleiri en eitt slíkra starfa. Tölu fastra kennara skal miða við, að eigi komi fleiri en 20 nemendur á hvern, en eftir núgildandi l. skal að jafnaði skipaður einn fastur kennari á hverja bekkjardeild. Skilgreint er nánar í frv. en gert er í gildandi l., hvaða kröfur eru gerðar um háskólamenntun menntaskólakennara. Nú segir, að menntaskólakennari skuli hafa lokið fullnaðarprófi við háskóla eða sambærilega stofnun, en í frv. segir, að hann skuli hafa í aðalkennslugrein sinni lokið prófi, sem sé sambærilegt cand. mag. prófi frá Háskóla Íslands. Kennarar, er eigi fullnægi menntunarkröfum, skulu að fengnum meðmælum skólastjórnar eiga rétt á allt að 2 ára orlofi til fullrar menntunar. Ákvæði eru í frv. um skyldunámskeið fyrir menntaskólakennara þeim að kostnaðarlausu. Þá er heimilað að veita kennurum orlof með launum að nokkru leyti eða að öllu leyti til að vinna að gerð kennslubóka eða kennslugagna.

Sérstakur kafli er í frv. um húsrými og tæki, án hliðstæðu í gildandi l. Er þar ákveðið, að í hverjum skóla skuli séð fyrir húsrými, sem nægi til allrar starfsemi skólans, og í því sambandi taldar ýmsar tegundir húsnæðis. Setja skal sérstaka reglugerð um lágmarkskröfur í þessum efnum. Sérstök ákvæði eru um bókasöfn og lestrarsali. Kveðið er á um, að kennslustofur skólanna skuli eftir föngum vera fagkennslustofur, þ. e. hver stofa miðuð við þarfir ákveðinnar kennslugreinar. Samin skal skrá um nauðsynlegan og æskilegan rit- og tækjakost.

Mynda skal í hverjum skóla skólaráð, skipað yfirkennara og fulltrúum almenns kennarafundar svo og fulltrúa nemenda. Skólastjóri og skólaráð mynda skólastjórn. Í hverjum skóla skal vera nemendaráð, er sé fulltrúi nemenda gagnvart skólastjórn og henni til aðstoðar í málefnum nemenda. Skólastjórar allra skóla á menntaskólastiginu skulu mynda samstarfsnefnd.

Þá er gert ráð fyrir því, að auk skólalækna séu skipaðir skólahjúkrunarkonur og í reglugerð séu sett ákvæði um heilsuvernd í heimavistarskólum.

Um kostnaðarauka af þeirri skipan, sem frv. gerir ráð fyrir, er ekki rætt í grg. n. Ýmis nýmæli frv. eru þannig vaxin, að mjög torvelt er að segja um, hvaða breytingar á kostnaði þau muni hafa í för með sér. Á það einkum við um þá breytingu, sem frv. gerir ráð fyrir á kennsluháttum skólanna, nýskipun deildaskiptingar og upptöku valgreina. Hér munu ýmis framkvæmdaatriði varða miklu um tilkostnaðinn. Gera verður ráð fyrir, að settar verði reglur um lágmarksfjölda nemenda, til þess að kennslu verði haldið uppi í valgreinum. Einnig kann fækkun sameiginlegra skyldugreina jafnvel að leiða til lækkunar á kennslukostnaði í vissum tilvikum. Verkaskipting milli skóla kemur og til greina sem leið til þess að geta veitt kost á fjölbreytilegri námsbrautum með hagkvæmari nýtingu kennslukrafta. Ljóst er, að hin nýja skipan mun krefjast mikils skipulagsstarfs, en fyrir fram er ekki auðsætt, að hún muni óhjákvæmilega hafa mikla kostnaðaraukningu í för með sér. Ég gat þess áðan, að þegar væru í einstökum menntaskólum hafnar tilraunir með margbreyttari deildaskiptingu en ráð er fyrir gert í gildandi l. Að því er starfslið skólanna varðar, gerir frv. að vísu ráð fyrir, að lögfest verði ýmis störf, sem ekki eru tiltekin í gildandi l., hins vegar er að verulegu leyti um að ræða störf, sem þegar eru unnin af kennurum gegn sérstakri greiðslu eða afslætti í kennsluskyldu, þótt misjafnt sé eftir skólum. Vafalaust mundi lögfesting frv. leiða til einhvers kostnaðarauka á þessu sviði. Til töluverðs kostnaðarauka horfir það, að gert er ráð fyrir, að hver menntaskólakennari eigi a. m. k. á 5 ára fresti kost á að sækja sér að kostnaðarlausu námskeið í aðalkennslugrein sinni. Hér yrði væntanlega ýmist um að ræða beint námsskeiðshald eða styrki til að sækja námskeið erlendis. Þá ber og að geta ákvæðis um orlof handa kennurum, sem vilja afla sér fullgildrar menntunar, en gert er ráð fyrir, að þeir haldi á meðan launum að einhverju leyti, ef ekki koma aðrir styrkir til. Að því er húsrými og tækjabúnað snertir, er öllu fremur um það að ræða, að frv. miði að því að tryggja, að fullnægt verði þeim kvöðum, sem þegar hafa verið gerðar í sambandi við nýjar byggingar fyrir menntaskóla, en fitja ekki upp á kostnaðarsömum nýmælum.

Ég hef verið og er þeirrar skoðunar, að stúdentsaldur hér á landi sé of hár, þ. e. nemendur ættu að geta byrjað menntaskólanám einu ári fyrr en þeir nú gera og þá háskólanám sömuleiðis einu ári fyrr en nú á sér stað. Í gildandi l. segir, að lágmarksaldur fyrir inngöngu í menntaskóla sé 16 ár. Frá þessu ákvæði hefur hins vegar verið vikið í reynd, ef nauðsynlegt hefur verið talið, en skipulag barna- og miðskólanámsins er þó við það miðað, að menn hefji ekki menntaskólanám fyrr en við 16 ára aldur, og á því byggist ákvæði núgildandi menntaskólalöggjafar. Eins og ég hef þegar getið um, er í þessu frv. lagt til, að þetta ákvæði um lágmarksaldur sé fellt niður, sé numið úr l. Miklar umr. hafa átt sér stað um það meðal embættismanna á sviði fræðslumála og skólamanna, hvort æskilegt sé að lækka stúdentsaldurinn, og ef það sé talið æskilegt, hvernig að því skuli farið. Menntmrn. skipaði á sínum tíma n. til athugunar á þessu máli, og lauk hún störfum. Engra frekari lagabreytinga er þörf til þess að lækka stúdentsaldurinn. Rammalöggjöfin um skólakerfi og fræðsluskyldu er einmitt þannig, að í framkvæmd er hægt að gera þá breytingu á fræðsluskyldustiginu, sem gæti gert nemendum kleift að ljúka landsprófi 15 ára í stað 16 ára nú. Skoðanir meðal skólamanna eru hins vegar talsvert skiptar um það, hvort slíka breytingu ætti að framkvæma, og þó einkum, hvernig hana eigi að framkvæma. Menntmrn. mun gera ráðstafanir til þess, að á næsta vetri verði á fræðsluskyldustiginu hafin tilraun til breytingar á skipulagi fræðsluskyldunnar, sem geri nemendum kleift að ljúka landsprófi 15 ára í stað 16 ára nú. Mun þetta verða gert í trausti þess, að þetta frv. verði að l. í síðasta lagi á næsta þingi. Hefði ákvæðið um 16 ára lágmarksaldur til inngöngu í menntaskóla þá verið afnumið og miðskólanemendur þar með getað átt þess kost að ljúka landsprófi 15 ára, gætu þeir þá hafið nám í menntaskóla um 15 ára gamlir og lokið stúdentsprófi 19 ára gamlir. Tilraunir í þessum efnum á næsta vetri mundu geta leitt í ljós, hvaða framtíðarskipun eða aðferðir í þessum efnum væru skynsamlegastar.

Þá skal ég að síðustu fara nokkrum orðum um húsnæðismál menntaskólanna. Ég hef heyrt þeirri spurningu hreyft, hvort hægt mundi vera að framkvæma þá breytingu á menntaskólanáminu, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, í þeim húsakosti, sem menntaskólarnir hafa nú yfir að ráða eða er fyrirhugaður. Í þessu sambandi verður fyrst að geta þess, að um áratugaskeið voru húsnæðismál menntaskólastigsins mjög vanrækt. Menntaskólahúsið við Lækjargötu er meira en 100 ára gamalt, og við það var í næstum heila öld engu húsnæði bætt nema bakhúsi, sem áður hafði verið fjós. Fyrir um það bil 4 áratugum var gagnfræðaskólinn á Akureyri gerður að menntaskóla. Árið 1953 var síðan menntaskóla komið á fót á Laugarvatni og byggt yfir hann sérstakt hús. En í höfuðborginni var enn ekkert aðhafzt áratugum saman í húsnæðismálum menntaskólans. Ekki var það þó af því, að yfirmenn menntamála eða forvígismenn skólans gerðu sér ekki grein fyrir nauðsyn aukins húsnæðis, heldur strönduðu framkvæmdir allar fyrst og fremst á langvinnum deilum um það, hvort menntaskólar í Reykjavík skyldu vera einn eða tveir, þ. e. hvort flytja ætti menntaskólann við Lækjargötu á annan stað í bænum og þá hvert, en um 3 staði a. m. k. var deilt í þessu sambandi, eða hvort gamli skólinn skyldi starfa áfram við Lækjargötu og reistur yrði nýr. Á þennan hnút var ekki höggvið, fyrr en núverandi ríkisstj. tók um það ákvörðun árið 1961 að gera hvort tveggja, halda áfram starfrækslu hins gamla menntaskóla við Lækjargötu og byggja jafnframt á þeirri lóð nýtt hús fyrir skólann, sem einkum skyldi ætlað til ýmiss konar sérkennslu, og reisa jafnframt nýjan skóla annars staðar í bænum. Á árunum 1963–1964 var hið nýja hús menntaskólans við Lækjargötu reist, og er það stærra en gamla húsið og búið nýtízku kennslutækjum. Auk þess hefur menntaskólinn við Lækjargötu fengið þriðja húsið til umráða, Þrúðvang við Laufásveg. Árið 1965 var einnig hafin bygging Hamrahlíðarskólans og hefur þegar verið byggt þar húsnæði, sem er 3068 m2 og í eru 16 kennslustofur. Árið 1964 var einnig hafizt handa um stækkun menntaskólans á Laugarvatni um helming með því að byggja þar ný heimavistarhús, og verður þeim framkvæmdum lokið á næsta ári.

Til þess að gera þessar framkvæmdir mögulegar hafa fjárveitingar til byggingar menntaskóla verið margfaldaðar á undanförnum árum. Árið 1960 voru fjárveitingar til byggingar menntaskóla 1.1 millj. kr., umreiknað til verðlags í des. 1968. Árið 1965 hafa þær verið auknar upp í 12.1 millj. kr. Og á þessu ári nema þær 38.1 millj. kr. Þótt hér sé augljóslega um mjög miklar fjárveitingar að ræða, má engu að síður spyrja þeirrar spurningar, hvort aukningin sé nógu mikil samt. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að hinir óvenjulega stóru árgangar áranna á eftir stríð eru nú á menntaskólastiginu og á leið inn í háskólann. í menntaskólunum 4 eru nú alls 2200 nemendur. Eins og nú er, rúma þeir 1460 nemendur, miðað við einsetningu. Er þannig um 50% tvísetningu að ræða, þ. e. að tvísett er í helming menntaskólahúsnæðisins. Auk þess eru um 100 nemendur við stúdentsnám við menntadeild kennaraskóla og lærdómsdeild verzlunarskóla. Á næsta hausti mun nemendafjöldi menntaskólanna aukast um nálega 360 nemendur. Það húsnæði, sem nú er í byggingu, mun taka 240 nemendur, miðað við einsetningu. Tvísetningarhlutfall mun því haldast miðað við þær byggingarframkvæmdir, sem nú er unnið að, ef litið er á menntaskólahúsnæðið í heild, en aðalviðbótin verður á Akureyri, og ekki getur meginhluti hinna nýju menntaskólanemenda sótt nám þangað. Þess vegna er nú í sérstakri athugun að hefja í sumar byggingu fjórða áfanga Hamrahlíðarmenntaskólans, en þeirri framkvæmd var frestað um ár fyrir 2 árum, til þess að unnt væri að hraða byggingu Akureyrarskólans. Auk þess er til athugunar að taka á leigu eða kaupa einhvern af gagnfræðaskólunum í Reykjavík til afnota fyrir menntaskólakennslu. Ég vona fastlega, að næsta haust verði til ráðstöfunar fyrir menntaskólanna meira húsnæði en það, sem nú er í byggingu fyrir þá; þannig að tvísetningarhlutfallið geti lækkað og að um nemendur á menntaskólastiginu rýmki. Fjölgunin mun enn aukast 1970, og verða væntanlega á næstu fjárlögum gerðar ráðstafanir til þess að auka þá húsnæði menntaskólanna enn til þess að mæta þeirri aukningu. Samþykkt þessa frv. mun auk þess tvímælalaust gera nauðsynlegt að auka enn byggingarhraðann á menntaskólastiginu, þar eð nauðsynlegt verður að draga úr tvísetningu frá því, sem nú er, ef sú nýskipan námsefnis og kennsluhátta, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, á að koma nemendum að fullum notum.

Ég vona, herra forseti, að með þessum orðum hafi ég gert grein fyrir þeim meginbreytingum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir á menntaskólalöggjöfinni og starfsemi menntaskólanna, þeim ráðstöfunum, sem ég tel rétt að gera, um leið og þessi nýskipan kemur til framkvæmda, þ. e. möguleika á lækkun stúdentsaldurs, ástandi í húsnæðismálum menntaskólanna og framtíðarþörfum á því sviði og tengslum þessa frv. við þá endurskoðun skólalöggjafar og skólastarfs, sem átt hefur sér stað og stendur yfir. Það er skoðun mín, að með samþykkt þessa frv. væri stigið stórmerkt spor í íslenzkri skólalöggjöf og í íslenzku skólastarfi. Þess vegna leyfi ég mér að vænta þess, að það hljóti góðar undirtektir hér á hinu háa Alþ. Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr, og hv. menntmn.