02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í C-deild Alþingistíðinda. (2487)

166. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil láta í ljós þakklæti til hv. menntmn. fyrir það, hversu vel og ötullega hún hefur unnið að afgreiðslu þessa máls, og jafnframt þakklæti fyrir jákvæða afstöðu hennar til þess.

Því vildi ég svo einungis bæta við varðandi málefni kvennaskólans, að það er auðvitað rétt, eins og hv. frsm. gat um í sinni ræðu, að n. skrifaði menntmrn. og taldi ekki eðlilegt, að beiðni kvennaskólans um að fá að brautskrá stúdenta yrði sinnt á jákvæðan hátt með því móti að hagnýta undanþáguheimild 5. gr. frv., eins og það liggur fyrir, en höfundar menntaskólafrv. höfðu lýst því yfir, að þeir teldu menntmrh. hafa samkvæmt þeirri grein heimild til þess að velta skóla eins og kvennaskólanum leyfi til þess að brautskrá stúdenta, ef hann teldi, að slíkt ætti að gera. Ég hafði lýst yfir í framsöguræðu minni með frv., að ég teldi eðlilegast, að Alþ. tæki ákvörðun um það mál, og skil ég niðurstöður hv. menntmn. þannig, að hún sé einnig á því máli, og þess vegna hefur hún skrifað menntmrn. og stungið upp á því, að sérstakt frv. yrði flutt um þessi réttindi kvennaskólans. Ég er því persónulega fylgjandi, að kvennaskólanum verði veitt slík réttindi, en ég hef kynnt mér málið meðal hv. þm. og raunar veit um afstöðu einstakra nm. í menntmn. um þetta efni, og með hliðsjón af því, að einhver ágreiningur mun vera uppi um málið í öllum fjórum stjórnmálaflokkunum á Alþ., þá taldi ríkisstj. að athuguðu máli það vera eðlilegasta afgreiðslu málsins, að menntmn flytti sérstakt frv. um þetta efni, ef meiri hl. reyndist í n. fyrir flutningi slíks frv. Í morgun munu hafa átt sér stað viðtöl milli formanns menntmn. og embættismanna í menntmrn. um framkvæmd þessa máls, enda hafði rn. tilkynnt menntmn. þessa afstöðu ríkisstj. En sem sagt, í morgun munu hafa átt sér stað viðtöl milli menntmn. og embættismanna í menntmrn. um málið og niðurstaðan orðið sú, að sjálfsagt sé af hálfu menntmrn. að láta í té tæknilega aðstoð við samningu slíks frv., sem menntmn. Nd. fengi síðan til þeirrar meðferðar, sem hún teldi æskilegasta. Ég vona, að í hv. menntmn. reynist meiri hl. fyrir því, að slíkt frv. nái fram að ganga. Ég vona líka, að á Alþ. reynist meiri hl. fyrir því, en það á og verður að koma í ljós á sínum tíma, þegar hv. alþm. fá slíkt frv. til meðferðar og það fær lögmælta afgreiðslu á hinu háa Alþingi.