17.12.1968
Neðri deild: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

115. mál, verðlagsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Nú ætla ég að koma form. þingfl. Framsfl. mjög á óvart. Sannleikurinn er sá, að ég er þannig gerður, svo að ég víki að sjálfum mér, fyrst hann lýsti mér allrækilega, að ég hef miklu meiri ánægju af því að vera sammála mönnum en ósammála, og þess vegna þykir mér mjög vænt um það að geta tekið það fram, og það var erindi mitt í ræðustól, þó að form. þingflokks Framsfl. hefði ekki kvatt sér hljóðs, að taka það fram, að ég er í öllum aðalatriðum sammála því, sem háttv. 4. þm. Reykv., Þórarinn Þórarinsson, sagði í sinni ræðu um efni þess máls, sem hér er um að ræða.

Ég er honum alveg sammála um það, að það samkomulag, sem á sínum tíma var gert milli launþegasamtaka annars vegar og vinnuveitenda hins vegar með aðild ríkisstjórnarinnar, var skynsamlegt á sínum tíma, og það á að haldast. Ég er honum einnig sammála um, að full ástæða er til þess að vara við oftrú á verðlagseftirliti. Ég hef enga oftrú á verðlagseftirliti, og tel menn hér á landi yfirleitt ekki hafa það, þannig að fyllsta ástæða er til að það komi skýrt fram, að þó að við séum andstæðingar í almennum stjórnmálum, þá erum við sammála um þetta, að verðlagseftirlit er ekkert allsherjarráð til þess að tryggja kaupmátt launþega, og þeir mega ekki hafa of mikla trú á því, að þeir með hjálp verðlagseftirlits geti tryggt sér kaupmátt launa sinna einmitt af þessu. Auk þess hefur framkvæmd verðlagseftirlits hér á landi verið mjög gölluð að mörgu leyti um áratuga skeið, og jafnvel svo, að í grundvallaratriðum er hún byggð á mjög hæpnum reglum. En við háttv. þm. erum sammála um það, að eins og nú háttar í íslenzkum efnahagsmálum og í íslenzku þjóðfélagi, þá væri það til mikils tjóns, ef verðlagseftirlit væri skyndilega afnumið, eins og fulltrúi Framsfl. í fjhn. hefur lagt til. Einmitt vegna þessa, að ríkisstj. er þeirrar skoðunar, sem ég hef nú gert grein fyrir, og mér þykir mjög vænt um það, að hv. þm. Þórarinn Þórarinsson er alveg á sömu skoðun, þá höfum við gert ráðstafanir til þess, að samið verði frv. um vörn gegn einokun og vörn gegn hringamyndun og misnotkun hringa á sinni valdaaðstöðu í verðlagskerfinu. Að þessu frv. hefur verið unnið um nokkurt skeið undanfarið, m.a. með aðstoð dansks sérfræðings í þessum málum, og fyrirmyndin er sú löggjöf, sem gildir í Danmörku um þessi efni. Hann er skrifstofustjóri í danska einokunareftirlitinu, monopolráðinu danska, einn fróðasti maður í Danmörku um þessi efni. Ákvörðun hefur ekki verið tekin um það enn, hvort eða hvenær þetta frv. verður lagt fram, en ég vona, að þingfl. geti fengið það til athugunar og meðferðar nú þegar á þessu þingi, þannig að það geti — hér er um mjög flókið og vandasamt mál að ræða — a.m.k. komið til athugunar hjá þingfl. áður en næsta þing kemur saman. Að þessu leyti geta þessar umr. endað ánægjulega, þegar maður, sem ég vona að mér sé óhætt að taka meira mark á sem málsvara Framsfl. en fulltrúa flokksins í fjhn., er mér og ríkisstj. í grundvallaratriðum sammála um þetta mál, og þetta kom raunar einnig fram, mér til mikillar ánægju, í ræðu sjálfs form. þingflokks Framsfl.

En í þessu sambandi get ég þó ekki látið hjá líða að geta þess að þrátt fyrir ágætar yfirlýsingar formanns Framsfl. og eins hins valdamesta þm. hans um afstöðu þeirra í verðlagsmálum, þá verð ég að láta það koma fram hér, ég segi nú því miður, að þegar opinberlega hafa birzt fregnir um afstöðu þess eina framsóknarmanns, sem á sæti í verðlagsnefnd, hafa þær verið með talsvert öðrum hætti heldur en hér koma fram, þ.e.a.s., þeir hafa báðir lýst því yfir, að þeir telji undir núverandi kringumstæðum verðlagseftirlit vera nauðsynlegt og skynsamlegt, það er einnig mín skoðun, og það er einnig skoðun ríkisstjórnarinnar. En eftir því, sem fram hefur komið opinberlega í blöðum, þá hefur fulltrúi Sambands ísl. samvinnufélaga, sem allir vita, að er framsóknarmaður, og átti að kannast við það sjálfur, því ég hef ekki skrökvað neinu upp á manninn, haft talsvert aðra afstöðu. Hann notar hvert tækifæri, sem hann fær, til þess, eftir því sem hefur komið fram opinberlega, ég er ekki að segja frá neinu, sem er einkamál n., til þess að berjast fyrir afnámi verðlagsákvæða, og í hvert skipti, sem það kemur á dagskrá, að afnumið skuli verðlagseftirlit, þá styður þessi fulltrúi Sambands ísl. samvinnufélaga, þessi framsóknarmaður í n., þá ákvörðun. Og hann styður hverja einustu till., sem fram kemur um hækkun á álagningu, þrátt fyrir það, sem þessir menn segja hér á hinu háa Alþ., og þrátt fyrir það, sem getur að lesa í Tímanum um þessi efni. Þetta var auðvitað ein af ástæðunum til þess, að ég vildi fá að vita hér í upphafi, hver talaði fyrir hönd Framsfl., fulltrúi hans í fjhn. eða einhverjir aðrir, sem höfðu lýst yfir þveröfugri skoðun. Nú eru komnar tvær skoðanir fram hér í hv. deild af hálfu Framsfl. í málinu, en sá maður, sem völdin og áhrifin hefur af hálfu Framsfl., er á móti verðlagseftirliti og hann greiðir atkv. með hverri einustu till. til hækkunar á álagningu, ef hann fær tækifæri til.

Þetta er svar mitt við ræðu form. þingflokks Framsfl. Þetta hafði hann upp úr sínum orðum. (Gripið fram í.) Og hv. fulltrúa Framsfl. í fjhn. vildi ég kveðja með þessum orðum, að mér er ánægja, að hann fær ekki að ráða skoðun og stefnu Framsfl. í málinu, en bara segja að síðustu, að mér hefur alltaf þótt og þykir enn skoðun bóndans og skáldsins Skúla Guðmundssonar bæði skynsamlegri og skemmtilegri en skoðanir framsóknarmannsins Skúla Guðmundssonar.