09.12.1968
Neðri deild: 25. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í C-deild Alþingistíðinda. (2656)

93. mál, verðlagsuppbót á tryggingabætur

Flm. (Kristján Thorlacius):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt af mér og hv. 2. þm. Reykn. og hv. 5. þm. Austf.

Á s. l. ári voru numin úr gildi ákvæði laga frá 1964 um verðtryggingu launa, þar sem m. a. var svo fyrir mælt, að verðlagsuppbót skyldi greidd á bætur frá almannatryggingunum og fleiri tryggingabætur, svo sem bætur samkv. 18. gr. fjárlaga. Þegar verðtryggingarlögin voru afnumin, féllu niður greiðslur verðlagsuppbótar á tryggingabæturnar eins og til annarra. Á s. l. vetri voru síðan gerðir samningar milli verkalýðsfélaganna og atvinnurekenda um takmarkaðar verðlagsuppbætur á laun, og síðar úrskurðaði kjaradómur, að verðlagsuppbót, einnig takmörkuð, skyldi greidd opinberum starfsmönnum. En samt sem áður eru bótaþegar almannatrygginga og aðrir tryggingabótaþegar enn þá án þess að fá greidda verðlagsuppbót á sínar bætur. Eru þetta þó þeir aðilar í þjóðfélaginu, sem helzt þurfa á því að halda, að laun þeirra hækki til samræmis við breytingar á verðlagi til hækkunar.

Það er margyfirlýst krafa launþegasamtakanna og er sannarlega alger lágmarkskrafa í kjaramálum, að stjórnarvöld komi í veg fyrir sífellda rýrnun umsaminna launa vegna verðlagshækkana, og það er hart fyrir launamenn og erfitt við það að búa, að allar kjarabætur séu jafnharðan étnar upp af verðhækkunum, og nú er það jafnvel svo, að stigin hafa verið skref aftur á bak í kjaramálum, svo að mörgum árum skiptir. En harðast er þetta fyrir ellilaunamenn og öryrkja, sem verða að sætta sig við lágar tryggingabætur og sjá svo þessar lágu tekjur sínar brenndar á báli óðaverðbólgu og dýrtíðar. Ellilaun hjóna ern nú 5517 kr. á mánuði og ellilaun einstaklinga 3065 kr. á mánuði. Samkv. upplýsingum, sem ég hef fengið hjá einu af elliheimilunum, er daggjaldið þar nú 215 kr. eða vistgjald á mánuði um 6500 kr. Nú munu sveitarfélögin yfirleitt greiða þann mismun, sem þarna er á vistgjaldi og ellilaunum. Samt sem áður sýna þessar tölur, að auðvitað eru ellilaun allt of lág, til þess að unnt sé fyrir menn að draga fram lífið af þeim. Það þarf meira til framfæris en húsnæði og fæði, sem fólk fær fyrir vistgjaldið á elliheimilinu, og auðvitað á þetta að vera svo. að ellilaun hrökkvi fyrir lífsnauðsynjum og fólk þurfi hvorki að leita til sveitarfélagsins né annarra í þessu sambandi.

Okkur flm. þessa frv. er það vel ljóst, að hér hrekkur það engan veginn til, að verðlagsuppbót verði tekin upp á ný á tryggingabætur, grunnupphæðirnar þurfa einnig að hækka stórlega. En verðlagsuppbótin tryggir, að bæturnar dragist ekki jafnóðum aftur úr verðlaginu. Þess vegna er þetta frv. flutt, og við leggjum áherzlu á, að greidd verði verðlagsuppbót á tryggingabætur og þær auk þess hækkaðar verulega að grunnlaunum til.

Varðandi það, hverjir eiga að verða aðnjótandi verðlagsuppbóta, er frv. efnislega samhlj. ákvæðum laga nr. 63 1964, um verðtryggingu launa.

Í frv. er lagt til, að verðlagsuppbót verði greidd frá 1. marz 1968, en samningar verkalýðsfélaganna um verðlagsuppbót giltu frá 18. marz s. l.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2, umr. og hv. heilbr.- og félmn.