04.12.1968
Sameinað þing: 17. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í C-deild Alþingistíðinda. (2660)

95. mál, Útgerðarstofnun ríkisins til atvinnujöfnunar

Guðlaugur Gíslason:

Það kom fram í ræðu hv. flm., að þm, mættu ekki láta fordóma um ríkisrekstur ráða afstöðu sinni til þessa máls. Það er öllum ljóst og vitað, að menn greinir mjög á um það, hvað mikil afskipti ríkisvaldið eða hið opinbera á yfirleitt að hafa af atvinnurekstrinum. Í þessu sambandi verður þó ekki fram hjá því gengið, að Íslendingar hafa verulega reynslu af afskiptum hins opinbera, sérstaklega í sambandi við togaraútgerð. Þegar nýsköpuninni svokölluðu var komið á fót hér eftir stríð, var um það mjög almenn stemmning um land allt og fór þá yfirleitt ekki eftir stjórnmálaskoðunum ráðandi manna, að hið opinbera ætti að taka verulegan þátt í þeirri nýsköpun. Ég hygg, eftir því sem ég man, að þá hafi 13 kaupstaðir af 14 kaupstöðum landsins haft meiri og minni afskipti af togararekstri. Ég held, að það sé rétt munað hjá mér, að aðeins Kópavogskaupstaður hafi einn staðið utan við afskipti af togararekstri, sem þá var komið á fót hér í stórum stíl með þeim nýsköpunartogurum, sem fluttir voru til landsins. Reynsla allra kaupstaðanna, — það er enginn kaupstaður þar undan skilinn, — var sú, að þeir reyndu við fyrsta tækifæri, eftir að þeir höfðu átt togarana í til þess að gera stuttan tíma, — þá reyndu þeir allir eða flestallir að losna við þá aftur og höfðu haft af þeim verulegt fjárhagslegt tjón.

Mér er þetta mál mjög vel kunnugt vegna afskipta minna sem eins af bæjarfulltrúum í Vestmannaeyjum, að sá kaupstaður réðst í kaup á tveimur þessara nýsköpunartogara og rak þá í nokkur ár og fékk af þeim verulegar fjárhagslegar byrðar, sem síðan varð að leggja á almenning til að losna við fyrirtækið aftur. Þessi sama reynsla fékkst hjá, að ég held, öllum öðrum kaupstöðum, mismunandi mikil að sjálfsögðu, og nú munu aðeins vera, eftir því sem ég man eftir, aðallega tveir, en þó munu það vera þrír eða fjórir kaupstaðir, sem hafa afskipti af togaraútgerð, þó að hún hafi alls staðar dregizt mjög saman, nema þá hér í Reykjavík og á Akureyri. Hafnarfjörður, sem um áratuga bil hefur haft með höndum togaraútgerð, hefur dregið þann rekstur mjög saman, og er það eingöngu vegna þess fjárhagslega tjóns, sem það bæjarfélag hefur haft af þessum rekstri síðasta áratuginn. Það er því ekki eingöngu um fordóma að ræða, eins og fram kom hjá hv. flm., sem markar afstöðu manna til þess, hvort ríkisvaldið eða það opinbera á að standa fyrir atvinnurekstri í jafnstórum stíl og þarna er gert ráð fyrir, heldur er það sú reynsla, sem við höfum þegar öðlazt af þessum afskiptum og ég hef hér bent á.

Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir kaupum á 5 skuttogurum, 1500–2000 smálestir að stærð, og 5 bátum af stærðinni 250–400 tonn, og er þessum atvinnutækjum ætlað að afla hráefnis til frystihúsa víðs vegar um landið. Ég er þeirrar skoðunar, að ef ríkið ætti að fara í bein afskipti af öflun hráefnis til frystihúsanna, ætti það að gerast með skipum af allt annarri stærð en þarna er tilgreint. Togarafiskur mun vera í dag og hafa verið undanfarin ár langdýrasta hráefni, sem aflað hefur verið til vinnslu í frystihúsunum. Það liggja fyrir um það opinberar skýrslur, enda öllum það ljóst, sem þessi mál þekkja, að til útgerðar togara er greitt úr ríkissjóði hlutfallslega meira á hvert einasta tonn fisks en greitt hefur þó verið til báta, sem aflað hafa hráefnis til fiskvinnslustöðvanna. Af þessu sést, að það hráefni, sem togararnir skila á land, er það langsamlega dýrasta, sem aflað er, og því hlýtur það að koma í huga manns, að eðlilegra væri að fara aðrar leiðir en þessar, ef ríkisvaldið ætlaði að skipta sér af þessu máli á þann veg að stuðla að meiri hráefnisöflun en nú er.

Útgerð 250–400 tonna báta, — ég hygg, að það liggi alveg ljóst fyrir í dag, að það er sú stærð skipa, sem langsamlega á erfiðast uppdráttar með rekstur sinn. Einnig það hlýtur að benda til þess, að það hráefni, sem aflað yrði á slíkum skipum, yrði enn dýrara en jafnvel hjá togurunum og örugglega dýrara en hægt væri að gera, ef um smærri fiskibáta væri að ræða, þannig að ég tel það grundvallaratriði, sem í þessu frv. er og fram kemur í 2. gr., — ég tel það byggt á röngum forsendum, þannig að ef Alþingi væri á því að fara einhverjar slíkar leiðir, eins og frv. gerir ráð fyrir, hlyti að verða farið í aðra stærð skipa en þarna er gert ráð fyrir.

En ég hygg, að brýnna sé fyrir þjóðina í heild og þá sérstaklega sjávarútveginn að gera allt aðrar ráðstafanir en í þessu frv. felast. Skortur sá, sem verið hefur á öflun hráefnis til hinna ýmsu fiskvinnslustöðva víðs vegar um landið, byggist að mínum dómi á því, að við höfum ekki getað komið okkur saman um enn þá hér á hv. Alþingi að nýta þau fiskimið, sem í kringum landið eru, á þann hagkvæmasta hátt, sem þau hljóta að verða nýtt í framtíðinni, ef fiskiðnaður á að eiga sér nokkra framtíð hér á landi. Án efa sýnir sú reynsla, sem við þó höfum af nýtingu fiskimiðanna, — á ég þar við þá reynslu, sem við höfum af togveiðum smærri báta, bæði við Suðvesturland og einnig við Norðurland, — að það má halda fiskiðnaðinum gangandi með mjög eðlilegum hætti, ef fiskimiðin á þessum stöðum og annars staðar við strendur landsins eru nýtt á eðlilegan og skynsamlegan hátt.

Það þarf ekkert að vera að eyða orðum að því, að togveiðarnar hafa að sumu leyti, nokkrir segja að verulegu leyti, stuðzt við veiðar, sem ekki samrýmast þeim reglum og þeim lögum, sem þar gilda um. Nú hefur nýlega verið gefin út tilkynning frá hæstv. dómsmrh., þar sem þeim aðilum, sem kunna að hafa reynzt brotlegir í sambandi við þessar veiðar, er veitt sakaruppgjöf, og það jafnframt vitað, að í verki mun þessum lögum verða framfylgt. Öllum, sem þessi mál þekkja og við sjávarsíðuna búa og hafa fylgzt með öflun hráefnis yfir sumartímann, er ljóst, að ef svo vindur fram sem nú horfir og ef Alþingi gerir ekkert til að leysa þessi mál eða ég vil segja vindur ekki bráðan bug að því að leysa þessi mál, munu stöðvast tugir báta, sem þessar veiðar hafa stundað víðs vegar um land. Ég tel því, að það liggi allt annað fyrir hv. Alþ. nú í dag í sambandi við öflun hráefnis til vinnslustöðvanna í kringum landið heldur en fara að stofna til nýrrar útgerðar á vegum ríkisins og þá á skipum, eins og ég hef bent á, sem eru langsamlega dýrust í rekstri og skila til fiskvinnslustöðvanna langsamlega dýrasta hráefni, sem þær taka á móti. Ég hygg, að það megi nokkuð tryggja atvinnuástandið, ekki einasta fyrir sjómenn og þá afkomu vélbátanna, heldur einnig og frekar fyrir hið vinnandi fólk á hinum ýmsu stöðum í kringum landið, með því að Alþ. komi sér saman um skynsamlega nýtingu þeirra fiskimiða, sem við búum við og getum nýtt þjóðinni allri til hagræðis, ef það er gert á eðlilegan og skynsamlegan hátt. Fiskiskipafloti okkar, sem þessar veiðar stundar, hefur að vísu dregizt nokkuð saman, og hlýtur að koma að því, að opinber afskipti koma til við að endurbyggja hann að einhverju leyti, og mín skoðun er sú, að það verði bezt gert með því, eins og verið hefur, að hann verði rekinn af einstaklingum, en ekki því opinbera. En ef það verður gert, og ef settar verða reglur um nýtingu fiskimiðanna, þar sem önnur veiðarfæri en handfæri, lína og net verða leyfð, þá frekast yfir sumartímann, þá hygg ég, að afla megi fiskvinnslustöðvunum nægjanlegs hráefnis, til þess að atvinnuástand á hinum ýmsu stöðum í sjávarþorpunum geti haldizt með nokkuð eðlilegum hætti. Ég er alveg sannfærður um það, að slík ráðstöfun yrði mun heilladrýgri fyrir þjóðarheildina heldur en þó að ráðizt yrði í fyrirtæki eins og gert er ráð fyrir í þessu frv.

Eins og ég sagði í upphafi, greinir menn sjálfsagt á um það, hefur alltaf greint á um það og um það munu í framtíðinni einnig verða skiptar skoðanir, að hve miklu leyti ríkisvaldið á að verða beinn þátttakandi í atvinnurekstrinum. En ég vil undirstrika það, sem ég sagði einnig í upphafi, að við höfum vissulega fengið verulega reynslu um afskipti hins opinbera af þessum málum, og á ég þar við þátttöku hinna ýmsu sveitarfélaga í útgerð nýsköpunartogaranna, sem hingað komu til landsins eftir stríðslok. Sú reynsla, sem þá fékkst, hlýtur að vera nokkur aðvörun til ráðandi manna í þjóðfélaginu um að fara þar gætilega og ekki stofna á ný til slíkrar útgerðar, nema önnur ráð til öflunar hráefnis til fiskvinnslustöðvanna séu ekki fyrir hendi. En ég tel, að sú aðstaða sé ekki fyrir hendi í dag. Það er mín sannfæring, að það megi með allt öðrum og miklu einfaldari aðgerðum auka verulega hráefnisöflun til handa fiskiðjuverunum, það megi gera á allt annan og auðveldari hátt en þetta frv. gerir ráð fyrir, og hef ég af þeim ástæðum viljað láta þessar aths. og ábendingar koma fram nú við 1. umr. þessa máls hér.