04.12.1968
Sameinað þing: 17. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í C-deild Alþingistíðinda. (2661)

95. mál, Útgerðarstofnun ríkisins til atvinnujöfnunar

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Sunnl., Guðlaugur Gíslason, gerði hér nokkrar aths. við það frv., sem ég hef hér flutt. Hann taldi m. a., að sú stærð, sem í frv. er tiltekin að vera skuli á þessum skipum, sé ekki hin rétta. En í frv. segir, að skuttogararnir eigi að vera 1500–2000 smálestir og bátarnir 250–400 rúmlestir. Ég held, að ég treysti mér ekki til þess að deila við hv. þm. um þetta atriði. Ég verð að viðurkenna það, að persónulega er ég ekki nægilega viss í minni sök hvað það atriði snertir, en þó hafa menn, sem mjög kunnugir eru þessu máli, sagt mér, að þessi stærð mundi tvímælalaust vera talin hin heppilegasta, og þeir hafa með ýmislegum rökum getað sannfært mig um það, að miðað við allar aðstæður mundi þetta vera skynsamlegust lausn á málinu. En sem sagt, þetta er svo sannarlega ekkert trúaratriði hjá mér, og þetta atriði verður að sjálfsögðu að athuga nánar. Þetta verður að teljast með smærri atriðum.

Hitt meginatriðið, sem hv. þm. vék að, var spurningin um það, hvort ríkisvaldið ætti yfirleitt að skipta sér af slíkum atvinnurekstri eins og þessum. Og ég vil taka það skýrt fram, að þó að ég flytji hér frv. um ríkisútgerð togara, þá er það síður en svo, að ég vilji amast við því, að aðrir aðilar fáist við slíkan atvinnurekstur. En ég tel æskilegt, að ríkisvaldið leggi hins vegar hönd á plóginn á þessu sviði ásamt þeim aðilum, sem fyrir eru.

Við Alþb.-menn höfum flutt frv. og þáltill. á fyrri þingum um, að ríkisvaldið hafi forgöngu um smíði nokkurra skuttogara og að þessir togarar verði síðan framseldir einstaklingum og bæjarfélögum, og frv. eins og þetta er síður en svo í neinni andstöðu við þann tillöguflutning, heldur aðeins honum til viðbótar. Ég held hins vegar, að hv. þm. muni eiga fjarska erfitt með að telja nokkrum trú um það, að reynslan af nýsköpunartogurunum hafi verið slæm. Það held ég, að sé býsna mikill misskilningur hjá hv. þm. Fyrsta áratuginn, eftir að þessi skip voru keypt, sköpuðu þessi atvinnutæki mikla atvinnu víðs vegar um landið, ekki aðeins þeim sjómönnum, sem þar fengu pláss, heldur og fólkinu í landinu, og er ástæðulaust að rekja það hér. Einnig, er ástæðulaust að tíunda þær stórkostlegu gjaldeyristekjur, sem þessir togarar hafa veitt þjóðinni. Það er hægt að fullyrða það, að lífskjör þjóðarinnar hefðu verið talsvert önnur og miklu lakari á 5. áratug aldarinnar, ef þessi skip hefðu aldrei verið keypt.

Það er alveg rétt, að togaraútgerðin hefur oft verið rekin með tapi. Þar hefur verið um að ræða það, sem með réttu má kalla bókhaldslegt tap. En það hefur á sama tíma verið ótvíræður þjóðhagslegur gróði af útgerð slíkra skipa, og vandamálið hefur auðvitað verið það, að það hefur ekki verið búið nægilega vel að togaraútgerðinni. Efnahagsstefnan, sem fylgt hefur verið í landinu, hefur því miður oft og tíðum verið hlynntari ýmsum öðrum fyrirbrigðum efnahagslífsins heldur en sjávarútvegi. Það er alkunna, að það hefur ekki fyrst og fremst verið í sjávarútvegi, sem menn hafa safnað miklum auðæfum, heldur hefur það miklu frekar verið í ýmiss konar milliliðastarfsemi og verzlunarstarfsemi, og efnahagsstefnan, sem rekin hefur verið í landinu, hefur verið fyrst og fremst miklu hagstæðari slíkum atvinnugreinum. Það er skoðun mín, að ef fyrirtæki skilar mjög miklum gjaldeyri og er tvímælalaust þjóðhagslegt gróðafyrirtæki, þá skiptir hitt minna máli fyrir þjóðarheildina, þó að um sé að ræða taprekstur. Þá er sem sagt ekki lausnin sú að henda því fyrirtæki á hauga, heldur ber fyrst og fremst að laga þjóðfélagið eftir aðstæðum, þannig að það geri fært, að þetta þjóáhagslega hagstæða fyrirtæki sé líka rekið með bókhaldslegum gróða.

Hv. þm. gat þess, að bæjarútgerðir víða um land hefðu reynzt illa. En staðreyndin er sú, að á þeim eina stað, þar sem töluvert fjármagn hefur staðið á bak við slíka útgerð, eins og verið hefur hér í Reykjavík, þar sem Bæjarútgerðin hefur verið töluvert stór í sniðum, þar hefur þetta fyrirtæki staðið alla tíð, og mér er ekki kunnugt um það, að neinn flokkur í bæjarstjórn Reykjavíkur hafi nokkru sinni lagt það til, að Bæjarútgerð Reykjavíkur væri lögð niður. Það sýnir svo sannarlega, að menn hafa talið, að það væri nauðsynlegt og gott fyrirtæki.

Ég álít sem sagt, að ef svo stendur á, að einstaklingar eða fjárvana bæjarfélög og aðrir aðilar ráða ekki við að halda úti togurum og gera togara út, þá sé langeðlilegast, að hinn eini aðili hér á landi, sem getur leyst slík verkefni, hefur nægilegt fjármagn á bak við sig til þess að byggja það upp, svo að það sé hagkvæmlega rekið, eigi þá að grípa þarna í taumana og koma til skjalanna, þ. e. a. s. ríkisvaldið. Og ég vil alvarlega vara við því, að menn haldi enn á lofti þessum gömlu og löngu úreltu kreddukenningum um það, að ríkisvaldið megi ekki koma nálægt atvinnurekstri. Það hefur sýnt sig, að í þjóðfélagi okkar eru ekki margir aðilar, sem geta ráðizt í stór verkefni. Oft og tíðum er það þá ríkisvaldið eitt, sem getur ráðið við slík verkefni, og þá á það hiklaust að gera það. Mér sýnist á öllu, að togaraútgerð á Íslandi sé eiginlega komin í þann farveg, að ekki verði undan því vikizt, að ríkisvaldið grípi þar í taumana.