21.10.1968
Neðri deild: 4. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

14. mál, ferðamál

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt til breytinga á l. um ferðamál nr. 29 30. apríl 1964. Nú, þegar liðið er á 5. ár frá því að lög um ferðamál voru sett, er nokkur reynsla fengin fyrir því, hvernig þessi lög hafa reynzt, og ekki er að efa, að samkv. þessum l. hefur margt verið unnið nytsamt í ferðamálum þjóðarinnar.

Ferðamálasjóður hefur veitt lán til lagfæringar á gisti- og veitingastöðum víðs vegar um land, þannig að það er allt annað nú heldur en var fyrir nokkrum árum að veita ferðamönnum viðtöku víðs vegar um landið. Hitt er svo annað mál, að Ferðamálasjóður hefur haft yfir of litlu fjármagni að ráða og enn er margt ógert í þessu efni til þess að uppfylla þær kröfur, sem eðlilegt er, að ferðamenn, bæði innlendir og erlendir, geri. En þetta stendur mikið til bóta.

Ferðaskrifstofur hafa verið starfandi samkv. þessum l. hér í landi, og hafa þær vitanlega átt mikinn þátt í því að skipuleggja ferðalög útlendinga til landsins og um landið. Það hefur orðið mjög mikil aukning á ferðamannafjölda til landsins hin síðari ár. Þess má geta, að fyrir 10 árum komu hingað til lands 10.111 ferðamenn, en það er talið, að á þessu ári muni ferðamannafjöldinn verða 42–43 þús. Þessir menn skila vitanlega talsverðum gjaldeyri, en það fer vitanlega eftir því, hversu lengi þeir dvelja í landinu, og einnig eftir því, hvernig þeir ferðast. Sé gert ráð fyrir, að hver ferðamaður skili í erlendum gjaldeyri sem dvalarkostnaði hér í landi 5 þús. kr., eru það 210–215 millj. kr. Auk þess ber að geta þess, að þeir útlendu ferðamenn, sem koma til landsins, ferðast svo til eingöngu með íslenzkum flugvélum, og væri gert ráð fyrir, að fargjaldið kosti 10–12 þús. kr. fram og til baka að meðaltali, er þar um að ræða 45–50 millj. kr. gjaldeyristekjur, sem útlendingarnir gefa, vegna þess að þeir ferðast með íslenzkum farkostum. Það má því áætla, að útlendir ferðamenn hafi skilað í erlendum gjaldeyri á þessu ári um 260–270 millj. kr. Það mætti gjarnan vera meira, og þetta verður vitanlega meira í framtíðinni, ef aukningin getur orðið áfram svo sem hún hefur verið nú í seinni tíð. En þetta sýnir, að það er þess virði að gefa ferðamálunum gaum, og ferðamálin geta orðið hér í landi þýðingarmikil og tekjumikil atvinnugrein ekki síður en víða annars staðar.

Það hefur að sjálfsögðu komið sér vel, að hér í Reykjavík hafa risið upp þrjú hótel á tiltölulega stuttum tíma, Hótel Saga, Hótel Loftleiðir og Hótel Holt, og menn spyrja nú, þegar þeir tala saman um ferðamál, hvernig var hægt að komast af áður en þessi hús voru

tekin í notkun? Það eru þó ekki meira en 6–7 ár, 6 ár líklega, síðan Hótel Saga tók til starfa, enn skemmri tími síðan Loftleiðir komu til og enn styttra síðan Hótel Holt byrjaði. Og það mun ekki langur tími líða þangað til þetta hótelpláss hér í höfuðborginni verður of lítið. En það er ekki nóg, þótt hótelrými sé hér, það þarf einnig að verða víðs vegar úti um land. Það virðist vera mjög vinsælt og vinsælla með hverju ári sem líður hjá útlendum ferðamönnum að ferðast um landið, auk þess sem það væri hollt og jafnvel hollara fyrir Íslendinga að gera meira að því að ferðast um sitt eigið land en fara til Mallorca eða annarra landa.

Frv. þetta samkv. 1. gr. kveður á um skilyrði til þess að geta öðlazt leyfi til rekstrar ferðaskrifstofa og sjá hv. þm. það, hvaða skilyrði það eru og tel ég, að það sé sjálfsagt að hafa þau nokkuð ströng, eins og hér er kveðið á um. Það er einnig samkv. 2. gr. frv. gert ráð fyrir því að hækka tryggingarféð upp í 11/2 millj., en samkv. gildandi l. er það aðeins 350 þús. En ferðaskrifstofur hafa umsvifamikinn rekstur. Þær taka við fjármunum manna, og veltan getur orðið upp á margar millj. og það er þess vegna eðlilegt, að þeir, sem með þessa starfsemi hafa að gera, leggi fram allháa tryggingu fyrir starfseminni, til þess að þeir, sem trúa ferðaskrifstofunum fyrir fjármunum sínum og fyrirgreiðslum, verði ekki fyrir tapi vegna vanhalda af þeirra hálfu.

Þá verður gert ráð fyrir því samkv. 3. gr. þessa frv., að þeir, sem reka ferðaskrifstofur, hafi nákvæmt bókhald skv. bókhaldslögum og að rekstrarreikningar og efnahagsreikningar skuli árlega sendir samgmrn., til þess að það eigi hægara með að fylgjast með rekstrinum. En það er vitanlega nauðsynlegt, að bæði Ferðamálaráð og rn. eigi þess kost á hverjum tíma.

4. gr. kveður á um það, hvenær leyfi til rekstrar ferðaskrifstofu geti fallið niður og 5. gr. um, hvernig fara skuli með, ef leyfishafi andast, að ekkju hans; sem situr í óskiptu búi, er þá heimilt að halda rekstrinum áfram í eitt ár, enda sé þá fullnægt öllum almennum skilyrðum.

Það er ekki ástæða til að fjölyrða öllu meira um þetta frv., sem hér liggur á borðum hv. þm. og skýrir sig sjálft, en ég ætla, að með því að lögfesta það verði nánar ákveðið um ýmislegt í framkvæmd l. um ferðamál og rekstur ferðaskrifstofa, og þetta frv. verði til þess að gera l. skýrari og öruggari en þau nú eru, enda er nú fengin nauðsynleg reynsla fyrir því, hvernig með þessi mál skuli fara, reynsla, sem vart var fyrir hendi, þegar lög um ferðamál voru sett 1964.

Herra forseti. Ég legg svo til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. samgmn.