11.11.1968
Neðri deild: 12. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

52. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Þegar menn virða fyrir sér þessar efnahagsráðstafanir, sem ríkisstj. hefur nú boðað, þá held ég, að það hljóti að brenna þessi spurning á vörum hvers hugsandi manns: „Á hverju eiga nú láglaunabarnafjölskyldur að lifa?“ Og ég er hér um bil viss um það, að á flestum heimilum í þessu landi verður þessi spurning lögð fram:„Á hverju eiga nú láglaunabarnafjölskyldur að lifa, þegar afleiðingar af þessari gengislækkun eru komnar fram til fulls?“ Það hafa nokkrir hv. þm. minnzt á láglaunamenn, og hvernig þeir muni fara út úr þessum ráðstöfunum, en þó aðeins talað um það almennum orðum. Ég held, að hv. þm. ættu að leggja það alveg niður fyrir sér, hvað nauðsynjarnar kosta núna og hvaða þarfir menn verða að neita sér um, sem þeir hafa þó getað fullnægt áður.

Það er ekki nema síðan í fyrra, eitt ár liðið, að hv. þm. fengu í hendurnar mjög fróðlega skýrslu um neyzlurannsókn, sem fór hér fram á árunum 1964–1965. Sú skýrsla er grundvöllurinn undir því vísitölukerfi, sem við höfum núna. Þar er greint frá því, hvað þessar nauðsynjar manna kostuðu á verðlaginu eins og það var l. ágúst í fyrra. Þetta voru háar upphæðir. Þær voru reyndar ekki eins háar 1965, í ársbyrjun, því að á þessu tímabili hækkaði verðlagið hér um bil um 20%, frá 1. janúar 1965 til 1. ágúst 1966. Ef menn virða nú þessa skýrslu fyrir sér, held ég, að þeir ættu að gefa því gaum, hvað fólk muni nú helzt geta skorið niður, hætt að kaupa, neitað sér um, því að engum blöðum er um það að fletta, að nú verður fólk að neita sér um hlutina, ef á að framfylgja þeim boðskap hæstv. ríkisstj., að fólk eigi ekki að fá kauphækkun eftir 1. desember n.k.

Ég hef athugað nokkuð þessa skýrslu um neyzlu fjögurra manna fjölskyldu, eins og hún var birt í fyrra. Þetta eru ákaflega margir liðir að vísu og mjög misjafnlega stórir. Og ég tók saman þá liðina í þessari skýrslu, sem ég held, að engin fjölskylda geti neitað sér um. Og það eru 5 liðir. Það er maturinn, það er húsnæðið, það er fatnaður, það er nauðsynleg heilsuvernd og rafmagn og hiti. Mér datt nú í hug að taka þessa liði saman og athuga, hvort láglaunafólk, láglaunafjölskylda, gæti ekki veitt sér þessa 5 liði af öllu því, sem talið er upp í þessari skýrslu, ef hún sleppti öllu hinu.

Ég fór allnákvæmlega yfir þetta. Ég sé, að í 1. liðnum, matvörur og drykkjarvörur, má sleppa nokkrum liðum, ekki þó stórvægilegum, sem ekki geta talizt nein nauðsynjavara. Þar nefni ég sælgæti, ís, aldinmauk, áfengi og óáfenga drykki. Ég tók þetta allt frá, dró þessa liði frá. En þegar ég svo lagði hina saman, kemur það í ljós, að þessir 5 liðir kostuðu á verðlaginu 1. ágúst í fyrra um 155 þús. kr. Og er þó húsnæðisliðurinn ekki reiknaður hærra en um 3500 kr. á mánuði. Ég þekki reyndar ekki þær fjölskyldur í þessu landi, sem búa við þau kjör í húsnæðismálum. Samt er nú þetta svona. En svo hafa komið hækkanir síðan. Gengislækkunin í fyrra og ráðstafanir, sem henni fylgdu, höfðu í för með sér hækkanir og þær ekki litlar, og síðan um áramót hafa einnig orðið hækkanir. Við höfum þetta nokkuð veginn glöggt í hagtíðindum, hvað þessar hækkanir munu vera miklar. Og eftir því, sem ég get bezt séð, munu þessar hækkanir vera milli 15 –16% á þessum fimm liðum. En þá er þess að gæta, að húsnæðisliðurinn stendur svo að segja í stað. Hann er ekki látinn hækka. Hann var settur af handahófi inn í þennan vísitölugrundvöll eins og fyrri daginn, og hann er ekki látinn hækka, sem neinu nemur, er núna um 3700 kr. á mánuði. En þegar þessar hækkanir eru komnar, er verðlagið á þessum 5 nauðsynjaliðum hverrar fjölskyldu orðið um 179 þús.

Nú koma nýjar aðgerðir, ný gengislækkun og nýjar verðhækkanir á öllum sviðum, og enn þá sér maður ekkí neitt votta fyrir því, að það eigi að draga neitt úr þessum hækkunum sérstaklega, þó að fólk sé lágt launað. Það sagði einhver hv. þm. í ræðu hér í dag, að hann gerði ráð fyrir því, að hækkanirnar, sem núna kæmu, gætu orðið 18–20%. Ætli megi ekki taka á betur? Það er nefnilega komin fram 18–19% hækkun, ef húsnæðisliðurinn er ekki tekinn með, sem ekkert er að marka, 18–19% hækkun frá því 1. ágúst í fyrra og þangað til 1. ágúst í ár, og þó ekki frá 1. ágúst í fyrra, heldur frá 1. október í fyrra er þessi hækkun komin. Og gengislækkunin í fyrra var þó ekki nema helmingur af því, sem nú á að framkvæma. Halda menn þá, að verðhækkanir af þessum ráðstöfunum verði ekkert meiri en þær, sem þegar eru komnar fram af ráðstöfunum í fyrra? Við skulum gera ráð fyrir því, að það verði nú ekki meiri hækkanir, til þess að sýna enga ósanngimi í þessum áætlunum, að afleiðingarnar af þessum ráðstöfunum verði ekki nema 18% hækkanir. Það er reyndar ekki hægt að ímynda sér, að svo vel, ef vel má kalla, geti farið, þegar gjaldeyririnn hækkar um 54.4%, en í fyrra hækkaði hann þó ekki nema um 32.6%, sá sem hækkaði mest, en sterlingspundið hækkaði minna, ef ég man rétt eitthvað um 13–14%. Það eru því held ég engar ýkjur, að þessi gengislækkun er a.m.k. helmingi þungbærari en sú, sem kom í fyrra. Hafði hún þó þessar afleiðingar. En hvað kosta nú þessir fimm liðir í nauðsynjavörum og þjónustu fólks, ef þeir eiga að hækka um 18%, aðeins um 18%? Þá virðist mér, að þeir kosti 211 þús. kr. En auðvitað skiptir máli, hver laun fólksins eru, þess fólks, sem á að búa við þessar hækkanir. Ég hef veitt því athygli, hver laun Dagsbrúnarverkamanna eru, eins og þau eru núna. Og tek ég þá ekki 1. taxta Dagsbrúnar, þann lægsta, ég sleppi honum. Ég tek 2., 3. og 4. taxta Dagsbrúnarverkamanns. Þetta kaup er núna á 2. taxta 51.18 kr. í dagvinnu, en 53.74 kr., ef verkamaður hefur unnið í tvö ár. Hjá þeim, sem vinna á 3. taxtanum, eru það kr. 53.10, en kr. 55.74, hafi menn unnið í tvö ár. Og þeir, sem eru á 4. taxta Dagsbrúnar, hafa 53.97 kr., en 56.61 kr., ef þeir hafa unnið 2 ár. Hvað eru nú þetta mikil árslaun? Ég ætla, að árið sé eitthvað nálægt 2200 vinnustundir, ef maðurinn vinnur alla virka daga. Þá verða árslaun þessara manna, sem ég nefndi, frá 112.6 þús. kr. upp í 124.5 þús. kr. Þá verður maður að segja, að útlitið er ekki gott fyrir þetta fólk, ef maður með 112 eða 125 þús. kr. árslaun, á að borga lífsnauðsynjar, bara þessa 5 liði, þessa 5 útgjaldaliði vísitölugrundvallarins, sem kosta kannske yfir 200 þús. kr. En það eru ekki aðeins verkamenn, sem eiga erfitt eftir þessar aðgerðir. Það eru líka opinberir starfsmenn. Laun þeirra núna eru ekki hærri en það, að þeir, sem eru í 4. launaflokki, fá eftir þriggja ára þjónustu rúmar 110 þús. kr. í árslaun. Þeir, sem eru í 6. launaflokki, fá eftir þriggja ára þjónustu tæpar 120 þús. kr. í árslaun. Þeir, sem eru í 8. launaflokki, fá eftir þriggja ára þjónustu 125.7 þús. kr. í árslaun. Þeir, sem eru í 10. launaflokki, fá tæpar 133 þús. kr. Þeir, sem eru í 12. launaflokki, fá rúmlega 143 þús. kr.,og þeir, sem eru í 14. launaflokki, fá 154.5 þús. kr. 14 launaflokkar opinberra starfsmanna eru svo langt fyrir neðan það, að unnt sé að kaupa þessar nauðsynjar, sem ég nefndi áðan, hvað þá meira. Fari svo, að verðhækkanir vegna þessara ráðstafana verði ekki nema 18%, mundu matvörurnar einar, sem ég nefndi áðan, kosta um 88.5 þús. kr. hjá fjögurra manna fjölskyldu, 88.5 þús. kr. Er ég þá búinn að draga frá þessar óþarfa vörur, sem ég nefndi. Hafi nú maðurinn ekki nema 125 þús. kr. árslaun eins og margir þeirra, sem ég nefndi áðan, þá á hann ekki eftir nema 36 þús. kr. Við skulum segja, að hann noti það í húsnæðiskostnaðinn. En hann má þá ekki borga nema 3 þús. kr. á mánuði í húsnæðiskostnað, þá eru árslaunin búin — maturinn og 3 þús. kr. í húsnæðiskostnað, þá eru árslaunin búin. Enginn fatnaður, enginn hiti eða rafmagn. Hann má engu eyða í heilsuvernd eða sjúkrasamlag eða læknishjálp af neinu tagi. Því síður má hann hafa síma, útvarp eða sjónvarp. Hann má ekki kaupa bækur. Auðvitað má hann ekki eiga bifreið. Hann má heldur ekki kosta upp á nokkra flutninga af neinu tagi, og hann má ekki borga skatta, hvorki tekjuskatt né útsvar. Þetta er það, sem blasir við okkur núna. Ég held, að ég muni það rétt, að stjórnarblöðin og hæstv. ráðh. hafi verið margorðir um það núna undanfarna mánuði, að það þurfi að leggja byrðar á alla, en það sé jafn sjálfsagt að leggja þær sem réttlátast á alla þegna landsins. Og hæstv. viðskmrh. lagði á það áherzlu hér áðan, í þessari stuttu ræðu sinni í dag, að Alþfl. hefði alveg sérstakan áhuga á því að gæta hagsmuna láglaunafólksins í landinu, eins og hann orðaði það. Ég hef sýnt hérna sýnishorn af því, hvernig hann og þeir hæstv. ráðh. eru að gæta hagsmuna láglaunafólksins í landinu. Þegar hann sagði þetta áðan, og ég gerði mér grein fyrir því, hvernig þetta væri nú gert með þessum væntanlegu ráðstöfunum, þá datt mér í hug heildsalinn, sem vildi ekki selja kaffið, nema hann fengi greiddan þann hugsanlega tapreikning, sem hann kynni að koma með á eftir. Og hann fór upp í stjórnarráð, sjálfsagt til bankamálaráðh., og hefur að því er manni skilst farið fram á það, að hann borgaði þann reikning, sem hann kæmi með yfir tap, sem hann hefði af því að selja kaffi í nokkra daga, sem hann ætti eftir að borga erlendis. Og hann fór út frá ráðh., ég held mjög fljótlega og greiðlega, með þau svör, að hann fái þetta allt borgað.

Er nú ekki ráð fyrir þessar fjölskyldur, sem geta kannske ekkert keypt nema matinn, að fara líka með sinn tapreikning upp í rn. til hæstv. viðskmrh. og biðja hann að borga hann? Á fjölskyldan ekki jafnmikinn siðferðilegan rétt á því, að ráðh. borgi þann reikning eins og hinn? Ég verð í fáum orðum að segja það sem mína skoðun, að þessar ráðstafanir, þessar byrðar eins og á að dreifa þeim á þjóðina, í þeim felst meira mannúðarleysi en ég hef orðið nokkurn tíma var við fyrr í þessu landi.

Þeir eru sennilega komnir heim til sín að borða, hæstv. ráðh. Þeir þurfa ekkert að hafa áhyggjur af því, að þeir geti ekki keypt sér í matinn. En hafa þeir engar áhyggjur af því, hvernig öðrum gengur að kaupa í matinn, þar sem fjölskyldan er kannski 6 eða 8 manns, eftir að þessar ráðstafanir eru komnar í framkvæmd?