04.03.1969
Efri deild: 54. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í C-deild Alþingistíðinda. (2853)

126. mál, dragnótaveiði í fiskveiðilandhelgi Íslands

Flm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð út af ræðu hv. 5. landsk. þm. Ég vil fyrst taka það fram, að það ástand, sem skapazt hefur, þrátt fyrir þetta vísindalega eftirlit, sýnir okkur, að við getum ekki látið þetta standa óbreytt. Það er mín skoðun. Og ég hygg, að það ætti að vera gleggsta dæmið um, hvernig komið er í þessum efnum, þegar hægt er að sýna fram á það, að aflamagnið á þessu svæði hefur minnkað á aðeins þremur árum úr rúmlega 7300 tonnum niður í aðeins 697 tonn. Og þetta er bara afleiðingin af því, hvernig komið er með fiskistofnana hér í Faxaflóa. Og ég vil þá spyrja í þessu sambandi: Hvað á aflamagnið að verða lítið til þess að þeir vitru menn, þessir vísindalegu sérfræðingar, sjái ástæðu til þess að ætla, að það sé hætta á ferðum? Það er rétt, að l. gera ráð fyrir því, að leitað sé umsagnar sveitarfélaganna, sem eiga hér hlut að máli kringum Faxaflóa. En mér er kunnugt um það, að þrátt fyrir það, að meiri hl. hafi verið á móti því, að veiðarnar væru leyfðar, þá hafa þær samt sem áður stundum verið leyfðar og þá eftir till. fiskifræðinganna. Og afleiðingarnar af þessum veiðum liggja á borðinu í dag.

Eins og hv. 5. landsk. sagði, má deila um, hvort það skipti miklu máli, hvort haldið verði áfram að veiða þessi 697 tonn eða ekki. Það má á sama hátt segja það eins og með 18 fiskana. Ég vil í því sambandi vísa til þess, sem ég sagði í minni framsöguræðu. Hér er í aðalatriðum um að ræða veiðisvæði, sem eru utan fiskveiðilandhelginnar. Þess vegna er það brýn nauðsyn, að við Íslendingar tökum upp viðræður og samvinnu við aðrar þær fiskveiðiþjóðir, sem hér eiga hagsmuna að gæta, og reynum að koma á aukinni friðun og stemma stigu við þessari ofveiði á ókynþroska fiski. Það skiptir ekki máli, hvort við eigum 18 eða 50 af 100 fiskum ókynþroska, sem veiddir eru í botnvörpuna. Það skiptir aðalmáli, að það verði komið í veg fyrir, að sú rányrkja haldi áfram og eigi sér stað. Og ég er einmitt þeirrar skoðunar, að það verði í framtíðinni okkar sterkasta vopn í þessum efnum eins og það hefur verið til þessa, að við sýnum sjálfir gott fordæmi. Og þar sem svo er nú komið hér í Faxaflóa. að fiskistofnarnir eru sýnilega að ganga til þurrðar á öðrum tíma ársins heldur en yfir háhrygningartímann, þegar fiskurinn, sem eftir er, gengur hér að ströndinni til að hrygna, þá eigum við að veita þá vörn í þeim efnum, sem við höfum ráð yfir. Og það mun vafalaust verða tekið tillit til þess og horft með athygli á það, hvað Íslendingar aðhafast sjálfir í þessum efnum.