02.05.1969
Efri deild: 84. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í C-deild Alþingistíðinda. (2867)

126. mál, dragnótaveiði í fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. meiri hl. (Pétur Benediktsson) :

Herra forseti. Mér finnst afstaða hv. 5. landsk. þm. í þessu máli stórfurðuleg. Hann talar hér við hv. þd. eins og hér séu inni menn, sem aldrei hafi heyrt orðið dragnót fyrr en nú í þessari viku. Ég veit ekki annað heldur en ég fyrir mitt leyti hafi fylgzt með þessu máli í næstum 50 ár, frá því að Danir byrjuðu fyrst að skarka á miðunum út af Norður-Þingeyjarsýslu, og faðir minn var meðal þeirra manna, sem tóku upp vörnina fyrir íslenzka fiskimenn og fyrir fiskigöngur við þetta land. Það er nú ekki skemmri tími heldur en þetta, sem ég hef fylgzt með málinu, og ég veit, að hv. 2. þm. Vesturl. hefur fylgzt með því álíka lengi. Og það er sagt, að sá viti bezt, hvar skórinn kreppir, sem sjálfur ber hann. Hann er úr einu af þeim byggðarlögum, sem hafa orðið fyrir barðinu á þessu skemmdartæki. Og ég vil bara frábiðja mér svona fræðslu eða áskoranir um, að við eigum að fara að fresta málinu út af því, að það séu ekki allir ánægðir með afgreiðslu Fiskifélagsins á því. Það vita bæði guð og menn, að afstaða þess hefur alltaf verið hlutdræg.