28.04.1969
Efri deild: 79. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í C-deild Alþingistíðinda. (2890)

141. mál, sala Holts í Dyrhólahreppi

Frsm. meiri hl. (Steinþór Gestsson) :

Herra forseti. Ég ætla mér ekki, þrátt fyrir þau orð, sem hér hafa fallið á undan og hafa verið sögð í gamansömum tón og jafnvel af nokkurri tilfinningasemi vitnað til fagurs útsýnis og fleira, að hafa þessa ræðu neitt tilfinningalega eða láta það verka á mig, sem mætti kallast tilfinningalegt. En ég verð að segja það, að ef íslenzkar ættfræðirannsóknir eiga að beinast að því fyrst og fremst að hjálpa manni við ákvörðun mála, þá held ég, að síðasti ræðum., hv. 4. þm. Reykn., hafi ekki verið á réttri leið í því efni. Því að að mínum dómi hefur þessu fólki ekki verið sýndur yfirgangur á neinn hátt. Eins og fram hefur komið í umræðunum, þá er jörðin keypt af þeim, vegna þess að hætta var talin á, að hún eyðilegðist af vatnaágangi við vissar framkvæmdir hins opinbera. Mér er ekki kunnugt um, að um það hafi verið neinn ágreiningur milli fyrrv. eiganda jarðarinnar, Þorsteins heitins Einarssonar, og ríkissjóðs, að slík ráðabreytni yrði á, að hann fengi sér aðra jörð og seldi þessa jörð, vegna þess að hún lá undir hættu. Mér er heldur ekki kunnugt um, að um það hafi verið synjað, að leiguafnot af þessu landi gætu áfram fallið til sonar Jóhönnu Sæmundsdóttur, Harðar Þorsteinssonar. Mér er ekki kunnugt um, hvort hann hefur farið fram á það, og hygg ég, að honum hafi ekki verið synjað um slíkt, og ég sé ekki betur, ef hann fengi þau leiguafnot, sem ég mundi telja að væri eðlilegt, að hann fengi, en hann stæði þá jafnvel að vígi til þess að nýta þetta land og hann nú stendur. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef um þetta, bæði af því að hafa komið á staðinn og eins af þeim umsögnum, sem um þetta mál hafa verið gefnar, þá eru á þessu landi í Holti ekki önnur mannvirki en eitt fjárhús, sem bóndinn í Nikhól notar að hausti til og eins síðari hluta vetrar til þess að hafa þar hlé fyrir fénað sinn, þegar hann kemur honum í hagagöngu í Holti og frá Nikhól. Ég get því ekki séð með neinu móti, að sú ákvörðun að láta ekki Holtið falt, standi á neinn hátt í vegi fyrir því, að jörðin geti notazt bóndanum í Nikhól, svo sem hún hefur gert, og ég veit ekki til annars en hann telji þau not nægileg, að fá sem sagt aukið haglendi fyrir sinn fénað á sumartímanum. Ég hygg, að það megi treysta því, sem landnámsstjóri segir um þetta á s. l. vetri, að það sé engan veginn útilokað, að jörðin skemmist meira og minna af vatnaágangi enn, þó það hafi ekki gerzt til þessa tíma. Mér er það og okkur öllum ljóst, að vötn í Skaftafellssýslu fram undan jöklunum eru það marglynd, að erfitt er að segja til um, hvar þau koma fram, og það er ómögulegt að útiloka þann möguleika enn, að skemmdir geti átt sér stað. Svo að ég geri ekki ráð fyrir því, að það komi nokkurn tíma til þess, að þessi jörð verði byggð sem sérstök bújörð, enda mun hún þykja nú of lítil til þess. En hitt er annað mál, og á það vil ég leggja ríka áherzlu, að þegar um er að ræða jörð, sem liggur á milli tveggja annarra stærri jarða, sem mega teljast mjög þokkaleg býli hvor fyrir sig, þá verða afnot slíkrar jarðar, séu þau í því formi, að það valdi verulegum truflunum á búrekstri hinna jarðanna, þegar ekki er hægt að skilja hana frá með neinni vörn, til þess tjóns, sem óbætanlegt kann að vera, og ekki er eðlilegt, að eigendur hinna jarðanna kæri sig um að liggja undir. Ég tel því, og vil leggja á það ríka áherzlu, að það sé mjög eðlileg afgreiðsla á þessu máli, sem meiri hl. landbn. leggur til við d., að viðhöfð verði.