18.12.1968
Sameinað þing: 24. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í D-deild Alþingistíðinda. (2979)

57. mál, störf unglinga á varðskipum

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um þessa litlu till. Það er mín skoðun, að íslenzk æska þurfi að kynnast sem flestum þjóðnýtum störfum, sem unnin eru í þjóðfélagi hennar. Æskilegt er einnig, að hún taki þátt í þeim eftir því, sem aðstaða leyfir. Milli skólaæskunnar og athafnalífsins má aldrei myndast tómarúm vanþekkingar og áhugaleysis. Unga fólkið verður að skilja þýðingu hinna ýmsu starfsgreina, sem lífsafkoma landsmanna byggist á.

Í till. þeirri, sem hér liggur fyrir til umr., er lagt til, að Alþ. skori á ríkisstj. að gefa allt að 30 unglingum á aldrinum 15–17 ára tækifæri til þess að vinna um borð í skipum Landhelgisgæzlunnar um þriggja mánaða skeið á hverju sumri. Skal tilgangurinn með þessari þjónustu vera sá að þjálfa unglingana í sjómennsku og kenna þeim jafnframt þau störf, sem unnin eru á vegum Landhelgisgæzlu og slysavarna við strendur landsins. Þess skal gætt við val umsækjenda um þessi störf, að þeir séu úr hinum ýmsu landshlutum.

Með till. þessari er í stuttu máli lagt til, að nokkrum unglingum skuli árlega gefinn kostur á að vinna að sumarlagi um borð í skipum Landhelgisgæzlunnar í því skyni að þjálfa þá í sjómennsku. Jafnframt eiga þeir að læra þau störf, sem unnin eru á vegum Landhelgisgæzlu og slysavarna við strendur landsins. Um það ríkir ekki ágreiningur, að því er ég hygg, að gagnlegt er, að slík kennsla og þjálfun fari fram. Í öllum landshlutum er þörf á, að sem flestir kunni til björgunarstarfa. Það er einnig hollt ungum mönnum að kunna nokkur skil á hinum þýðingarmiklu störfum, sem unnin eru á skipum hinnar íslenzku Landhelgisgæzlu. Dvölin á sjónum og kynni af sjómennsku mundu einnig verða unglingunum heilsusamleg og herðandi. Eðlilegt væri að minni skoðun, að þeim yrðu greidd nokkur laun fyrir störf sín, t.d. allt að hálfum launum auk fæðis og einhverra vinnu– og hlífðarfata.

Það er skoðun flm. þessarar till., að hér sé um tilraun að ræða, sem vel sé þess verð, að hún sé gerð. Íslendingar eru fiskveiða– og siglingaþjóð. Stefna ber að því, að siglingar verði í framtíðinni atvinnugrein, sem dregur drýgri gjaldeyristekjur í þjóðarbúið ,en okkar litli farskipafloti gerir nú. Þess vegna er nauðsynlegt að örva áhuga ungra Íslendinga á siglingum og farmennsku. Dvölin um borð í varðskipunum gæti einnig haft holl uppeldisáhrif á unglingana. Kynnin af löggæzlustörfum varðskipsáhafnanna gætu glætt þegnlegan þroska og ábyrgðartilfinningu hinna ungu pilta. Landhelgisgæzlan annast vörzlu sjálfstæðis íslenzku þjóðarinnar. Það er skoðun flm., að æskilegt sé, að þeir, sem til þessara starfa ráðast, séu úr hinum ýmsu landshlutum.

Ég vil svo taka það fram, að ég hef haft samráð við forstjóra Landhelgisgæzlunnar, Pétur Sigurðsson, um flutning þessarar till., sem er því meðmæltur, að þessi tilraun verði gerð og hefur rætt hana við nokkra skipherra sína og mér er ekki kunnugt um annað en þeir telji þessa till. mjög vel framkvæmanlega og hyggilegt, að hún sé gerð.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að óska þess, að umr. um till. verði frestað og henni vísað til hv. allshn.