03.12.1968
Efri deild: 21. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

89. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég held, að það sé mjög misráðið af ríkisstj. að leggja þetta frv. fram nú. Mér sýnist það koma sem hnefahögg í andlit alþýðusamtakanna, sem nú nýlega hafa lokið miklu þingi, þar sem því var lýst yfir, að það væri alger forsenda samningsviðræðna við ríkisstj. um kjaramálin, að ekki væri gripið til neins konar lögþvingana. Ég held, að skynsamlegast væri fyrir stjórnina að draga þetta frv. til baka eins og a stendur. Ég vara við því, að þetta frv. sé drifið í gegnum þingið eins og sakir standa. Ég mun ekki samþykkja frv. eins og það liggur hér fyrir.

Það mál, sem frv. fjallar um, er hins vegar margþætt. Sumt í því má sjálfsagt skoða og færa til betri vegar. Þar má taka ýmislegt til athugunar eins og t.d. ákvæðin um ráðstöfun á hinum svo kallaða gengishagnaðarsjóði. Þetta frv. nefnist Frv. til l. um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenzkrar krónu. Ég held nú, að þetta heiti þyrfii að betrumbæta og það væri heppilegra að tala um ráðstafanir til stuðnings sjávarútvegi eða raðstafanir vegna sjávarútvegs. En það er nú aukaatriði. Um það dæma aðrir menn mér færari á því sviði.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er óneitanlega allflókið og fjallar um æðimörg og sundurleit efni. Þó má fyrst og fremst skipta því í þrjá höfuðþætti. Fyrsti þátturinn fjallar um tilfærslu á vissum hluta þeirrar verðhækkunar, sem verður á sjávarafla vegna gengisfellingarinnar. Annar þátturinn fjallar um útflutningsgjald af sjávarafurðum. Þar er um nokkrar hækkanir á útflutningsgjaldi í heild að tefla, nokkrar breytingar gerðar á ráðstöfun útflutningsgjaldsins og sem sagt í þessum kafla er að finna nokkrar breytingar frá gildandi lögum. Þriðji þáttur fjallar svo um ráðstöfun gengishagnaðar. Ég vil nú með fáeinum orðum víkja að hverjum þessara þátta um sig, en mun þó ekki fara ítarlega út í það að ræða um þá, enda hefur tæpast gefizt enn tími til þess að skoða þetta mál niður í kjölinn eða einstök ákvæði frv.

Fyrsti kafli frv. fjallar fyrst og fremst um gjald í Stofnfjársjóð fiskiskipa. Þar er svo ákveðið í 2. gr., að þegar fiskiskip selur afla í innlendri höfn eða afhendir afla sinn til vinnslu án þess að sala fari fram, skuli fiskkaupandi eða fiskmóttakandi greiða gjald til Stofnfjársjóðs fiskiskipa, er nemi 10% fiskverðs eins og það er ákveðið af Verðlagsráði sjávarútvegsins. Þó skuli greiða 20% af verði síldar og humars. Í 3. gr. er mælt fyrir um það, að þegar fiskiskip selur afla í innlendri höfn eða afhendir afla sinn til vinnslu án þess að sala fari fram, þá skuli fiskkaupandi eða fiskmóttakandi greiða útgerðarmanni eða útgerðarfyrirtæki hlutdeild í útgerðarkostnaði, er nemi 17% miðað við fiskverð eins og það er ákveðið af Verðlagsráði sjávarútvegsins. Hið sama gildir, þegar fiskiskip selur afla sinn til löndunar í innlendri höfn og greiðsla þessarar kostnaðarhlutdeildar kemur til framkvæmda við gildistöku nýs fiskverðs samkv. 1. gr. l. og síðan segir: „Kostnaðarhlutdeild kemur ekki til hlutaskipta eða aflaverðlauna og gildir þetta einnig um alla aðstöðu hjá Stofnfjársjóði fiskiskipa. Loks er svo í 4. gr. ákvæði um það, að þegar fiskiskip selur afla í erlendri höfn, skuli það greiða 22% af heildarsöluverði aflans til Stofnfjársjóðs fiskiskipa. Síðan segir þar, að þessi greiðsla komi til frádráttar frá heildarsöluverðmæti ásamt frádráttartölu kjarasamninga við ákvörðun aukaaflaverðlauna og hluts samkv. kjarasamningum.

Það er glöggt af þessu, að þarna er ekki um neina smámuni að tefla. Það eru tekin 10–20% plús 17% eftir atvikum miðað við 10% eða 20% og 22% af verðmæti. Og það er auðsætt, að þarna er um stórar upphæðir að tefla. Þarna er um mjög stórar fjárhæðir að tefla. Það er augljóst og enda játað af hæstv. sjútvmrh. hér áðan, að með þessum ákvæðum er verið að færa mjög mikinn hluta af þeirri verðhækkun, sem verður á aflahlut sjómanna vegna gengisfellingarinnar, yfir til útgerðarmanns eða útgerðarfyrirtækis. Í frv. felst því — eins og líka hæstv. sjútvmrh. játaði – raunverulega breyting á gildandi kjarasamningum sjómanna um hlutaskipti. Um það er engum blöðum að fletta. Það má einnig segja - og það kom líka óbeint fram hjá hæstv. ráðh. — að í þessu frv, felist viss kaupgjaldsstefna, þ.e.a.s. sú stefna, að hlutasjómenn fái ekki meiri hækkun af sínum aflahlut en sem næst því eða svarandi til þeirrar kauphækkunar, sem verkamenn í landi hafa fengið og mundu fá miðað við það, að kaupgreiðsluvísitala verði bundin miðað við 1. desember. Hér er því raunverulega um kaupbindingu að ræða. Þessar tvær staðreyndir liggja þannig alveg ljósar fyrir og skiptir búningur þessa máls ekki máli að því leyti til. Þetta er hið raunverulega efni, sem í 1. kafla þessa frv. felst, þ.e. að breyta gildandi kjarasamningum um hlutaskipti og binda aflahlutinn.

Ég skal ekkert dæma um það, hvort hlutaskipti þau, sem nú gilda, eru í sjálfu sér eðlileg eða ekki. Ég tel mig ekki færan til þess að dæma um það eða meta það. Það má sjálfsagt orða það, að það hafi orðið ýmsar breytingar í því efni, þannig að skipin hafi orðið dýrari og þurfi meira til sín en áður, og því þurfi þau að fá meira í sinn hlut en áður. Þetta er atriði, sem skoðanir geta að sjálfsögðu lengi verið skiptar um. Ég hygg þó, að það sé nú nokkurn veginn sammæli þeirra, sem til þekkja, að sjómenn hafi yfirleitt nú að undanförnu ekki verið ofhaldnir af sínum aflahlut. Og ég hygg, að það megi svo sannarlega segja, að þeir hafi á þessum erfiðu undangengnu árum tekið á sig þá þegar hlut af þeirri kjaraskerðingu, sem svo mikið hefur verið um talað hér. Auðvitað batnar aðstaða þeirra við gengisbreytinguna og hlutur þeirra hækkar. En ég verð að segja það, að ég held nú einmitt, að það sé eðli hlutaskiptanna, að menn taka á sig áhættu. Þegar illa árar, bera menn skarðan hlut frá borði, en úr því að það er svo, þá verður það líka að vera þannig, að þegar betur aflast og betur gengur, eiga þeir að njóta þess. Slíkt hlýtur að vera eðli þessa fyrirkomulags. En hvað sem um það er, hygg ég nú líka, að það muni nú líka vera nokkurt sammæli manna, að viðunandi lífsskilyrði hér á landi muni nú og í næstu framtíð vera mjög undir því komin, að við eigum dugmikla og vel mannaða sjómannastétt. Og þess vegna er það auðvitað skylda og höfuðnauðsyn að búa henni sæmileg kjör. En sem sagt, ég skal engan dóm leggja á þessi hlutaskipti út af fyrir sig, hvort þau eru eðlileg eða ekki, sanngjörn eða ekki. En hitt er staðreynd, að um þau hefur verið samið — að um þessi hlutaskipti hefur verið samið. Útgerðarmenn hafa samþykkt þessi hlutaskipti. Það er að mínum dómi mjög óeðlilegt, að lög breyti gildandi samningum. Þar með er ég náttúrlega ekki að segja það, að slíkt sé með öllu óþekkt fyrirbæri hér á landi né heldur er ég að segja það, að slíkt geti ekki staðizt að lögum. En hvað sem um það má segja, er það alveg víst, að það er í fyllsta máta óeðlilegt og óheppilegt og getur haft ýmsar og ófyrirsjáanlegar afleiðingar, að löggjafinn leggi það fyrir sig að breyta gildandi samningum.

Ég minntist á það í upphafi þessara orða, að nú væri nýlokið Alþýðusambandsþingi. Á þessu Alþýðusambandsþingi voru gerðar ýmsar ályktanir og þ. á m. var gerð ályktun um kjaramál og í þessari ályktun var m.a. því lýst yfir, — að nokkru sem andsvari við vissum tilmælum, sem fram hafa komið frá ríkisstj., en ríkisstj. hefur látið í það skina, að hún vildi hefja samninga við stéttarsamtökin og hafa við þau samráð, — að á þeim forsendum einum, að fyrir liggi ótvíræðar og óyggjandi tryggingar fyrir því, að engar lögþvinganir verði á verkalýðshreyfinguna lagðar, er hún reiðubúin til samvinnu við ríkisstj. og atvinnurekendur. Á þeim forsendum einum, að fyrir liggi ótvíræðar og óyggjandi tryggingar fyrir því, að engar lögþvinganir .verði á verkalýðshreyfinguna lagðar. Að þessari samþykkt, sem gerð var á Alþýðusambandsþinginu, stóðu ekki aðeins þeir menn, sem eru andstæðingar núv. ríkisstj. Það stóðu, eftir því sem ég veit bezt, allir, sem á þinginu voru, að þessum ályktunum, jafnt þeir, sem eru andstæðir núv. ríkisstj. og eins þeir, sem styðja hana leynt og ljóst, og meira að segja voru í þessum hópi, sem var á þessu Alþýðusambandsþingi, þm. eða a.m.k. þm. og varaþm. úr hópi stjórnarflokkanna, og þeir samþykktu þessa ályktun, að því er ég bezt veit, án nokkurra athugasemda. Ég hef það fyrir satt, að hún hafi verið samþykkt alveg einróma.

Í þeim hópi, sem stóð að samþykkt þessarar till., var formaður sjómannasamtakanna í landinu, sem er flokksmaður hæstv. sjútvmrh. og sem nú hefur tekið sæti í þeirri stjórn Alþýðusambandsins, sem ætlað var það hlutverk að taka upp samninga við hæstv. ríkisstj. Hvernig skyldi nú þessum mönnum lítast á þetta plagg, sem hér liggur fyrir? Hvernig skyldi formanni sjómannasamtakanna lítast á efni I. kafla þessa frv.? Ég held, að það fari ekkert á milli mála, að þarna er um lögþvingun að tefla, um það getur ekki verið deilt og sjálfsagt verður ekki heldur deilt um það, að sjómenn verði þó að teljast til verkalýðshreyfingarinnar. En þeir hafa lýst því þarna skýrt og skorinort, fulltrúarnir á Alþýðusambandsþingi, að það komi ekki til mála, að þeir gangi til viðræðna um kjaramálin, nema það liggi alveg ljóst fyrir og það séu gefnar fyrir því alveg ótvíræðar og óyggjandi tryggingar, að engar lögþvinganir verði lagðar á verkalýðsstéttina. Og daginn eftir að Alþýðusambandsþinginu lauk, þegar nýkjörinn forseti Alþýðusambandsins — og endurkjörinn — hv. þm. Hannibal Valdimarsson, átti viðræður við dagblaðið Vísi, sagði hann orðrétt, eftir því sem blaðið segir, með leyfi forseta:

Hann sagði, „að viðræður við ríkisstjórnina gætu þó því aðeins hafizt, að engar lögþvinganir yrðu lagðar á samningsréttinn, og ASÍ gæti mætt til viðræðnanna á frjálsum grundvelli.“

Ég held, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, eins og það er úr garði gert, sé ekki hægt að skoða öðruvísi en beina ögrun við þessar viljayfirlýsingar verkalýðshreyfingarinnar, — sem jafngildandi hreinni stríðsyfirlýsingu, því að ég fæ ekki séð, hvernig verkalýðshreyfingin ætti, eftir samþ. þessa frv. og sínar yfirlýsingar, að geta mætt hjá ríkisstj. til viðræðna við hana um kjaramálin. Og ég fæ ekki séð, hvernig hæstv. ríkisstj., sem hefur lesið þessar yfirlýsingar, getur ætlazt til þess, eftir að hún hefur lagt þetta frv. fram, að hún fái til viðræðna við sig fyrirsvarsmenn stéttarsamtakanna. Hér er þess vegna um það að ræða einfaldlega, hvort hæstv. ríkisstj. vill reyna að halda friði í kjaramálunum eða efna til ófriðar. Ég fæ ekki betur séð, en hún hafi með þessu frv. kastað stríðshanzkanum, því að ef hún hefði viljað fara samningaleiðina, eins og hún hefur látið orð að liggja, hefði hún ekki látið þetta frv. koma fram. Og hvers vegna sýndi hún þetta frv. þá ekki fyrr? Hvers vegna sýndi hún það ekki áður en Alþýðusambandsþing var haldið eða á meðan Alþýðusambandsþingið stóð yfir, svo að fulltrúarnir á Alþýðusambandsþingi gætu séð þetta frv. og tekið alveg beina afstöðu til þess? Þá hefði hæstv. ríkisstj. vissulega ekki þurft að vaða í neinni villu eða svima um það, hver viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar og sjómannastéttarinnar yrðu gagnvart slíku frv. Það þarf hún heldur vitaskuld ekki nú, vegna þess að þær yfirlýsingar, sem liggja fyrir, eru svo ótvíræðar í þessu efni. Og það var af þessari ástæðu, sem ég lét svo ummælt í upphafi míns máls, að ég teldi það mjög misráðið af hæstv. ríkisstj. að leggja þetta frv. fram, eins og nú standa sakir, og ég teldi það rétt, að þetta frv. væri dregið til baka. Það getur aldrei orðið til þess að greiða fyrir lausn kjaramálanna. Þvert á móti hlýtur það að verða til þess að magna ófrið í kjaramálunum.

Vissulega skal ég játa, að hér er um mikið vandamál að tefla. Það er nefnilega fram komið, sem við stjórnarandstæðingar sögðum, áður en gengisfellingin var gerð, að gengisfellingin ein út af fyrir sig mundi ekki leysa þann vanda, sem við er að tefla. Sannleikurinn er sá, að þessi mál eru komin í sjálfheldu alveg eins og við spáðum. Það er þess vegna öfugmæli algert, sem hæstv. sjútvmrh. var að segja, að gengisfellingin hefði verið gerð til að skapa sjávarútveginum heilbrigð rekstrarskilyrði. Hann varð jafnskjótt og hann hafði sagt þessi orð að fara að, telja það upp og tíunda, að það yrði einmitt nú að fara að gera sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja rekstur sjávarútvegsins, vegna þess að reksturskostnaður hans hefði hækkað svo af völdum gengisfellingarinnar og að það yrði að gera sérstakar ráðstafanir til þess, að þeir útgerðarmenn, sem hefðu keypt skip og skulduðu erlendis, gætu staðið undir greiðslum afborgana og vaxta af stofnlánum. Og enn fremur og í þriðja lagi yrði að gera sérstakar ráðstafanir til þess að hægt væri að greiða tryggingar. Það liggur sem sagt alveg ljóst fyrir, að gengisfellingin ein hefur ekki leyst þann vanda, sem sjávarútvegurinn átti við að glíma og á enn við að glíma.

Það liggur ljóst fyrir, að það verður sjálfsagt að gera eitthvað til þess að bjarga þessum málum úr þeirri sjálfheldu, sem þau eru komin i, en hér er auðvitað um viðkvæmt hagsmunamál að tefla, þar sem um hlutaskipti er að ræða. Þar kemur til hagsmunaárekstur á milli útgerðarmanna og sjómannanna, og það lítur auðvitað hvor þessara aðila á málið frá sínu sjónarmiði. En ég held, að það sé á engan hátt sanngjarnt og að það sé á engan hátt framkvæmanlegt að ætla að leysa þessi mál jafneinhliða á kostnað sjómanna og hér er gert ráð fyrir. Ef það ætti að fara inn á þá leið að taka eitthvað til hliðar af heildarverðmæti aflans og leggja í Stofnfjársjóð til þess að standa undir afborgunum af lánum og vöxtum þeirra, ætti vitaskuld að mínum dómi að leggja það þannig inn, að það væri lagt inn á reikninga viðkomandi aðila hjá Stofnlánasjóðnum í þeim hlutföllum, sem hlutaskiptin segja til um, þannig að sjómennirnir ættu líka þar í sinn hlut og að þeir þá smám saman eignuðust með sínum framlögum hlutdeild í þessu skipi, sem þeir eru að greiða niður með sínum aflahlut. Vissulega er þetta ekki flóknara reikningsdæmi og bókfærsluatriði heldur en margt annað í þessum lögum. Ég segi, að þetta ætti að vera lágmark, ef eitthvað slíkt ætti að koma til greina. Það á ekki að vera að taka af þeim þeirra eign, heldur eiga þeir þá að eiga hana eftir sem áður, sem hlutdeild í þessu verðmæti, sem þeir auðvitað hafa hagsmuni af að gangi.

Ég skal nú ekki fara fleiri orðum um þennan l. kafla frv. Ég hef lýst áliti mínu á honum. Ég veit náttúrlega ekki, hvernig sjómannasamtökin og sjómennirnir kunna að bregðast við þessu, en það er ólíklegt, að þeir sætti sig nú við svona aðfarir. Og ég tel, að það hefði verið tvímælalaust skylda stjórnarinnar að reyna að fara samningaleið í þessu efni til þess að leysa þessi vandamál í stað þess að grípa til svona lögþvingunaraðgerða til þess að breyta gildandi kjarasamningum og færa yfir frá sjómönnum til útgerðarfyrirtækisins. En það er það, sem er óumdeilanlega verið að gera með ákvæðum þessa frv., og ég spái því, að það eigi eftir að hafa óheppilegar afleiðingar. Ég spái því, að það hefði betur verið látið ógert að koma fram með þetta frv. á þessu stigi málanna.

Ég skal nú ekki fara mörgum orðum um II. kafla frv., sem fjallar um útflutningsgjöld af sjávarafurðum. Það er, eins og ég hef þegar tekið fram, að þar eru gerðar nokkrar breytingar á álagningu gjaldsins. Það er í sumum tilfellum hækkað, öðrum tilfellum nokkuð lækkað, en í heild er áætlað, að hækkun útflutningsgjaldsins nemi — burt séð frá hækkun af völdum gengisfellingarinnar- 48 millj. eða nær 50 millj. kr., og það er óneitanlega talsverður baggi til viðbótar, sem þar er lagður á útgerðina. Það hefur verið stefna Framsfl. og kom fram m.a. í þeim viðræðum, sem áttu sér stað á milli stjórnmálaflokkanna, að það ætti að reyna að létta af þessum sérstöku gjöldum, sem lögð hafa verið á atvinnuvegina. Það ætti að reyna að lækka þessi gjöld eða fella þau jafnvel alveg niður, þar sem fært þætti, vegna þess að atvinnuvegirnir og þ. á m. sjávarútvegurinn hefur ekki verið fær um það að inna þessi gjöld af hendi á undanförnum árum, það sýnir reynslan, vegna þess að jafnframt því, sem þessi gjöld hafa verið lögð á, hefur alltaf þurft að gera sérstakar ráðstafanir til þess að bæta sjávarútveginum það upp og meira til. Þess vegna álít ég, að hér sé um alranga stefnu að ræða varðandi þetta útflutningsgjald, að það hefði átt að stefna að því að lækka það í stað þess að ganga inn á þá braut að hækka það. Að öðru leyti má náttúrlega segja, að það sé að verulegu leyti í samræmi við þá löggjöf, sem nú gildir. Þó hafa, eins og ég sagði, verið gerðar nokkrar breytingar á bæði álagningunni og ráðstöfun gjaldsins.

Um álagningu gjaldsins vil ég segja það, að á síðasta þingi var að því horfið að hækka mjög útflutningsgjaldið á síld. Það hefur nú sýnt sig, að það reyndist rétt, sem við bentum á í því sambandi, að það væri ekki hægt að gera ráð fyrir slíku hækkuðu útflutningsgjaldi þaðan eins og gert var ráð fyrir. Nú er að nokkru leyti gengið til móts við það sjónarmið og lækkað nokkuð gjaldið, sem síldarafurðunum er ætlað að greiða, en þó er það svo, að enn er það gjald, sem þeim er ætlað að inna af hendi, nokkru hærra eða talsvert mikið hærra heldur en flestum öðrum afurðum er ætlað að bera. Ég held, að hér sé vægast sagt um mjög hæpna ráðstöfun að tefla. Ég held, að það sé alveg brostin forsenda fyrir því nú eftir þetta s.l. sumar að ætla síldarafurðunum að bera hærra útflutningsgjald heldur en öðrum afurðum. Ég hygg, að hagur þeirra, sem við þann atvinnuveg fást, sé þannig, að það sé ekki sanngjarnt.

Um þá ráðstöfun á útflutningsgjaldinu, sem segir í 10. gr., skal ég nú ekki á þessu stigi gera sérstakar aths. við. Hún er í megindráttum í samræmi við það, sem verið hefur. Þó er það náttúrlega athugunarefni, að í lögum þessum um útflutningsgjaldið, sem hafa nú held ég tekið breytingum frá einu ári til annars alltaf upp á síðkastið, þá hefur alltaf sótt í sama horf, að það hefur alltaf verið hækkuð sú prósenttala af útflutningsgjaldinu, sem ættuð er til vátryggingar fiskiskipa. Á árinu 1967 — með lögum, sem samþykkt voru á árinu 1967minnir mig að það hafi verið ætluð 72% eða þar um bil til greiðslu vátryggingariðgjaldanna. Samkv. þeim lögum, sem við samþykktum síðast um það efni, var aftur áætluð hærri upphæð, og nú er hún komin upp í 80%. Þetta er nú aðeins merki þess, hvernig háttað hefur verið hér í vátryggingarmálum fiskiskipanna, að þau hafa sífellt þurft að fá meira og meira til sín.

Ég vil aðeins gera aths. við það, að í 1. og 7. liðnum í 10. gr. er gert ráð fyrir því, að sú ráðstöfun, sem þar er um að tefla, fari fram samkv. reglum, sem sjútvmrn. setur. Ég held, að það væri heppilegra að gefa ekki slíkt svigrúm í þessu efni sem þarna er gert og það væri æskilegra, að það væru settar fastari reglur um þetta, og það er nú eðlilegt og skiljanlegt, að við stjórnarandstæðingar a.m.k. erum ákaflega lítið hrifnir af því að fela ráðh. og rn. mjög frjálst mat um ráðstöfun stórkostlegra verðmæta eins og þarna er um að tefla, milljónaverðmæta.

Annars má það segja, að það væri ástæða til þess í þessu sambandi að víkja nokkuð að vátryggingarmálum fiskiskipa, en það hefur einmitt verið lögð á það mjög þung áherzla af okkar hálfu, að í þeim efnum þyrfti að gera sérstakar ráðstafanir. Það þyrfti að gera ráðstafanir til þess að koma þeim málum í betra horf en verið hefur og lækka þann kostnað, sem er tryggingunum samfara. En það hefur stöðugt sigið á ógæfuhlið í því efni. Hæstv. ráðh. vék nokkuð að því efni og sagðist hafa skipað nefnd s.l. vor til þess að athuga þessi mál. Hún hefði þegar skilað nokkrum till., en þó væri ekki búið að ganga alveg frá þeim. Það er skaði. Ég held, að það hefði einmitt verið endinn sem hefði átt að byrja á, þ.e. að fá fram till. um þessi efni til þess að lækka hina ýmsu kostnaðarliði útgerðarinnar og þar væru vátryggingarnar áreiðanlega ofarlega á blaði. Hæstv. ráðh. sagði, að mér skildist, að þetta fyrirkomulag, sem hér væri upp fundið, væri nú harla gott. Ég er alls ekki viss um það, að það sé harla gott að hafa þannig sameiginlegan sjóð, sem greiðir svo tryggingarnar fyrir alla. Ég er alls ekki viss um það. Ég er alls ekki viss um, að það sé heppilegt frá tryggingarlegu sjónarmiði eða frá almennu sjónarmiði. Ég hefði haldið, að það væri meira aðhald að mönnum, ef þeir ættu sjálfir að greiða iðgjöldin. Ég held, að þetta fyrirkomulag, sem þarna hefur verið tekið upp, sé einmitt eða geti haft í för með sér vissar hættur. Og eitt er víst, að tryggingarnar hafa alltaf orðið kostnaðarsamari og það hefur alltaf þurft meira og meira fé í þennan tryggingarsjóð. En nú segir ráðh., að fara eigi inn á nýja braut og það eigi að setja nýjar reglur um þetta. Gott er að heyra það, en auðvitað hefði verið æskilegra að fá að sjá þær reglur og þær hefðu hér verið lagðar fram, því að þetta er eitt mesta nauðsynjamálið, sem um er að tefla, og hér er orðið um alvarlegt mál að ræða, þegar sem sagt gert er ráð fyrir því, að um 80% af útflutningsgjaldinu, sem ekki eru neinir smámunir, fari til þess að greiða tryggingar skipanna. Ég tel sem sagt, að ákvæði, sem er í 10. gr. um þetta og á nú að vera einhver skrautfjöður og gert er nokkurt veður úr — að mér skilst í aths. með frv. — sé alls ekki fullnægjandi. Það segir að vísu í þeim reglum um greiðslu á vátryggingariðgjaldi fiskiskipa, er um getur í l. lið — 1. málsl. — þessarar greinar, að m.a. megi setja það sem skilyrði fyrir greiðslu iðgjalds, að hlutaðeigandi tryggingarfélög séu aðili að endurtryggingasamtökum félaganna og hlíti tilteknum reglum um ákvörðun iðgjalda, tryggingarskilmála og vátryggingarfjárhæð. Ég held, að það þyrfti að ganga frá þessum málum með allt öðrum og tryggilegri hætti, og ég held, að það sé langt frá því, að það sé hægt að fullyrða jafnmikið og hæstv. ráðh. gerði, þegar hann sagði, að framkvæmd till. um tryggingarmálin væri tryggð með samkomulagi aðila.

Ég skal þá aðeins ljúka máli mínu með því að víkja örfáum orðum að síðasta kafla þessa frv., sem er um ráðstöfun hins svo kallaða gengishagnaðar. Gengisfellingin er náttúrlega staðreynd úr því sem komið er, og það er búið að ákveða það, að þessi svo kallaði gengishagnaður verði lagður til hliðar og út af fyrir sig má segja, að það sé ekki svo óeðlileg ráðstöfun, ef honum er réttilega varið og til þeirra aðila, sem hann er tekinn frá. En þarna er hreint ekki um neina smámuni að ræða samkv. upplýsingum þeim, sem eru í þessu frv. eða aths. við það, en þar er gert ráð fyrir því, að hér sé um að ræða hvorki meira né minna en 740 millj. kr., en þá er reiknað með því, að andvirði birgða sjávarafurða muni mega áætla um 1000 millj. kr. og þessi fjárhæð Gengishagnaðarsjóðsins er miðuð við þá áætlun. Nú er það hins vegar svo, að í skýrslu, sem ég hef um þróun efnahagsmála, nokkrar yfirlitstölur, sem gefnar eru af Seðlabankanum og sem sjálfsagt eru látnar út ganga með vissum fyrirvara, þá er sagt, að birgðir í októberlok séu ekki áætlaðar að nema 1000 millj., heldur 1505 millj. Og ég verð að segja það, að á þeim stutta tíma, sem liðið hefur frá októberlokum og til gengisfellingardags, finnst mér þetta nokkuð óeðlileg breyting og því mætti nú ætla, að þarna gæti verið um talsvert mikið meiri fjárhæð að ræða heldur en gert er ráð fyrir í aths. frv. Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. kann á þessu nokkra sérstaka skýringu. En hvort heldur er um að ræða, þá fer það ekkert á milli mála, að þarna er um geysilegar fjárhæðir að tefla og um ráðstöfun þessara fjárhæða eru ákvæði í 14. gr. og 16. gr., og samkv. 14. gr. á að greiða nokkrar fjárhæðir, sem þar eru taldar, áður en féð er lagt inn á hinn svo kallaða Gengishagnaðarsjóð. Um þá ráðstöfun, sem 14. gr. fjallar um, skal ég ekkert sérstakt segja. En að því er 16. gr. varðar, vil ég vekja athygli sérstaklega á því, að þar er gert ráð fyrir því, að þessum Gengishagnaðarsjóði skuli ríkisstj. ráðstafa í þágu sjávarútvegsins á þann hátt, sem þar er nánar fram tekið, en þar er um að ræða, að allt að 34.5% fari til þess að greiða hluta gengistaps af lánum vegna fiskiskipa, sem byggð eru erlendis, og allt að 16.4% til þess að auðvelda síldveiðibátum, sem stunduðu veiðar á norðausturmiðum sumarið og haustið 1968, að standa í skilum með greiðslu vaxta og afborgana af stofnlánum frá árinu 1968 með öðrum hætti en nýjum lánum og vöxtum afborgana. Og í þriðja lagi, að allt að 13.5% gangi til þess að auðvelda síldarverksmiðjum, sem starfræktar voru til móttöku síldar af norðausturmiðum á sumar- og haustvertíð 1968, að standa í skilum með greiðslu vaxta og afborgana af stofnlánum eftir nánari ákvörðun sjútvmrn. Og að höfðu samráði við fulltrúa síldarverksmiðja eiga svo allt að 18.2% að ganga til greiðslu á vátryggingariðgjöldum fiskiskipa til viðbótar því, sem áður er búið að ákveða til þeirra, og í þriðja lagi á svo afgangurinn að renna til Fiskveiðasjóðs til veitingar stofnlána til bolfiskvinnslu, eins og þat segir. En það, sem er athyglisvert við þetta, er það, að í öllum þessum tilvikum er um það að tefla, að það á að hjálpa útgerðarmönnum til þess að greiða lán, afborganir lana; það á að hjálpa síldveiðiskipum til þess að standa í skilum um greiðslu vaxta og afborgana og það á að auðvelda síldarverksmiðjum hið sama. Þetta á allt að gera samkv. nánari reglum, sem sjútvmrh. eða rn. setur: Greiðslurnar af lánunum vegna fiskiskipanna á að inna af hendi samkv. reglum, sem sjútvmrn. setur að fenginni umsögn Landssambands íslenzkra útvegsmanna. Aðstoðin við síldveiðibátana á að gerast þannig, að sjútvmrn. setur reglur um greiðslur þessar að fenginni umsögn Landssambands íslenzkra útvegsmanna og aðstoðin við síldarverksmiðjurnar á líka að fara eftir nánari ákvörðun sjútvmrn. Og afgangur Gengishagnaðarsjóðsins á að renna til Fiskveiðasjóðs til veitingar stofnlána eftir reglum, sem sjútvmrn. setur. Þarna finnst mér allt of mikið lagt á vald sjútvmrh. Og mér finnst í raun og veru alls ekki hægt fyrir hv. Alþ. að ganga frá máli á þennan hátt. Það er verið hér að baksa við það að setja fjárlög, þar sem settar eru reglur um greiðslu tiltölulega lágra fjárveitinga, en svo er komið með svona heimildir, þar sem ráðstafað er milljóna hundruðum á þann veg, að ráðh. er fengið mjög mikið svigrúm um það, hvernig þessu a öllu að koma nánar fyrir. Það er ekkert smáræðis vald, sem þarna er lagt í hendur viðkomandi ráðh. Á sama hátt mætti náttúrlega fara að flýta fyrir sér með afgreiðslu fjárlaga með því bara að fela hv. fjmrh. að skipta þessu niður svona nánar. Þetta er ekki hægt. Með svona starfsháttum er þingið á villigötum.

Herra forseti. Ég skal nú ljúka mínu máli. Ég vil endurtaka aðvaranir mínar. Ég held, að stjórnin ætti að athuga sinn gang, áður en hún leggur í það að knýja þetta mál í gegnum þingið. Ég held, að hún hefði verið betur á vegi stödd, ef hún hefði aldrei sýnt það, en það verður nú ekki aftur tekið, sem gert er, og ég held, að mál þessi öll hefðu verið á betri vegi stödd, ef þetta frv. hefði ekki verið sýnt. En úr því að það hefur verið gert, þá held ég að bezt fari á því, að þetta frv. sé sett í frystingu og geymt þar. Ég held, að þetta frumvarp, og auðvitað umfram allt samþykkt þess, mundi verka á ástandið nú í kjaramálum og á þau mál, sem þeim eru skyld, eins og olía á eld.