21.11.1968
Sameinað þing: 14. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í D-deild Alþingistíðinda. (3129)

62. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur fjær og nær. Um það er ekki deilt, að til stórfelldra og þungbærra aðgerða varð að grípa í efnahagsmálum okkar, atvinnuvegunum til aðstoðar til greiðslujafnaðar við útlönd og vegna verulegs halla ríkissjóðs. Um hitt er deilt, hvers vegna svo er komið, sem komið er. Stjórnarandstæðingar staðhæfa, að hér sé fyrst og fremst vanstjórn og óstjórn um að kenna, stjórnarsinnar, að höfuðástæðan sé aflabrestur og markaðshrun auk ýmissa þjóðfélagslegra aðstæðna, sem ekki hafi reynzt gerlegt að ráða við. Fyrir því hafa verið færð rök, sem stjórnarandstaðan hefur ekki treyst sér til að bera brigður á, að frá árinu 1966 og til ársins í ár hafi útflutningsverðmæti okkar lækkað fast að 45% og ætti þá engum að leynast, hve gífurlega aðstaða þjóðarinnar hefur breytzt til hins lakara. Að við höfum enn ekki fundið meir fyrir þessari tekjurýrnun þjóðarinnar í daglegu lífi okkar, en raun ber vitni, stafar af því, að gjaldeyrisvarasjóði þeim, sem skapaðist á árunum 1960–1966 hefur verið eytt til afbötunar tekjurýrnuninni. Segir þó stjórnarandstaðan ýmist, að hann hafi aldrei verið til nema á pappírnum eða það hafi verið óstjórn að eyða honum upp. Leynist víst engum, að tvísagan bendir á veikan málflutning, því að ekki getur hvort tveggja verið, að gjaldeyrissjóðurinn hafi enginn verið og þó ráðleysi að eyða upp á tveim árum því, sem ekki var. Auðvitað var gjaldeyrissjóðurinn til og nú liggur fyrir, að honum hefur verið eytt til að halda uppi svipuðum lífskjörum almennings árin 1967 og 1968 og þjóðin naut 1965 og 1966, þótt gjaldeyristekjur þjóðarinnar hefðu farið stórminnkandi. Það blasir nú við, að þetta var ofrausn. Það er auðvelt að vera vitur eftir á, en vandasamara er að sjá hluti fyrir. Hér er afsökunin sú, að ráðamenn hugðu aflabrest síldar og verðfall síldarafurða stundarfyrirbæri, sem hins vegar reyndist viðvarandi um lengra skeið. En sá stjórnarandstaðan betur fyrir? Hvatti hún til varúðar? Mælti hún fyrir lækkun á fjárl. í fyrra? Fylgdi hún aðgæzlustefnu í kaupkröfum, svo að rekstrargetu atvinnuvega yrði ekki teflt í tvísýnu? Hverjir minnast þessa?

Auðvitað hefðum við átt að herða mittisólina um nokkur göt strax í fyrra. Auðvitað hefðum við átt að taka upp 20% aðflutningsgjaldið strax á s.l. vori, eins og þingflokkur Alþfl. raunar lagði til, en yfirstjórn bankanna taldi þá ekki tímabært. En er hægt að segja, að það sé vanstjórn eða óstjórn að spá ekki alltaf rétt í framtíðina, sjá ekki alltaf 6 mánuði eða eitt ár fram í tímann?

Önnur höfuðröksemd stjórnarandstöðu fyrir því, að óstjórn og vanstjórn sé megin orsök núverandi vandræðaástands í efnahagsmálum okkar, er sú, að framleiðsluverðmæti þjóðarinnar séu nú ekki undir meðaltali áranna 1962–1964 og hafi þjóðin þó þá lifað sældar– og uppgangslífi á framleiðslu sinni og atvinnuvegirnir staðið með hinum mesta blóma. Hinu skýtur stjórnarandstaðan undan, að nú þurfa framleiðsluverðmætin að fæða fjölmennari þjóð en fyrr, standa undir fleiri og meiri afborgunum fjárfestingarframkvæmda og vöxtum en fyrr og greiða drjúgum hærri kostnað við verðmætasköpunina, en fyrr. Þannig mætti lengur telja. Nú sjáum við að vísu öll eftir á, fyrst mál hafa þróazt, svo sem þau hafa gert, að við hefðum þurft með einhverjum hagstjórnaraðgerðum að halda eftir verulegum hluta af gróðakúf áranna 1965 og 1966, fjárfesta minna í óarðbærum framkvæmdum, hleypa síldargróðanum minna út í verðlag og kaupgjald. Það er auðvelt að vera vitur eftir á. En hugleiðið samt, hlustendur góðir, hvort nokkurri stjórn hefði haldizt slíkt uppi þessi ár, eins og stórgróða gállinn var þá á okkur. Man nokkur til þess, að stjórnarandstaðan varaði þarna við? Minnast nokkrir þess t. d., að hv. 4. þm. Austf. og 2. flm. vantrauststill. þeirrar, sem hér er til umr., Lúðvík Jósefsson, varaði við þjóðhættulegri offjárfestingu í síldarverksmiðjum á Austfjörðum þessi árin? Man nokkur til þess, að stjórnarandstaðan varaði við ótímabærum kauphækkunum, sem leiddu til verðbólguaukningar og lömunar á rekstrargetu atvinnuvega, ef harðnaði í ári? Var stjórnarandstaðan hófsöm i kröfum sínum á hendur ríkissjóði og hverjir vildu taka gjaldeyrisvarasjóðinn til fjárfestingarframkvæmda í stað þess, að hann væri kornforði feitra ára til magurra? Ég er ekki með þessum orðum að ásaka stjórnarandstöðuna fyrir að hafa ekki séð hlutina fyrir 1965 og 1966, eins og þeir birtast í dag. En minnast skyldi hún þess, að það, sem hún kunni ekki að spá fyrir, getur hún ekki með góðri samvizku álasað öðrum fyrir að hafa ekki kunnað að reikna rétt út. Ég vil enn fremur vekja athygli á, að jafnvel þótt ríkisstj. og stjórnarliðar hefðu verið svo miklu framsýnni 1965 og 1966 en stjórnarandstaðan, að sjá þá fyrir núverandi aðstæður og þá jafnframt gera sér fulla grein fyrir, hvað gera þurfti til að afstýra vandanum, mundi það hafa verið takmarkað, sem ríkisvaldið hefði komizt fram með að gera af þeim ráðstöfunum. Þetta þykja kannske stór orð, en það er engum til gagns að horfast ekki í augu við það, hvar við erum á vegi stödd með stjórnfestu. Við látum ekki létt að stjórn, Íslendingar. Og skilningur okkar á heildarhag er takmarkaður. Í þjóðfélaginu ráða mjög öflugir hagsmunahópar, sem eiga það til að beita afli sínu miskunnarlaust sér til framdráttar, þótt almannaheill bjóði annað. Íslenzk ríkisstj. hefur ekki að baki boðum sínum öfluga lögreglu, sem geti gefið framkvæmdavaldinu áherzlu þunga, þaðan af síður her, sem betur fer. En af þessu leiðir, að engin ríkisstj. kemst lengra í ráðstöfunum sínum, en almenningur, eirir gerðum hennar, hve skynsamlegar og nauðsynlegar, sem þær annars eru og þarf enda ekki alltaf almenning til. Takmarkaðir hagsmunahópar geta komið hér á afdrifaríkan hátt við sögu. Hér er það, sem ábyrgð og vandi stéttarsamtaka og hagsmunahópa er ekkert barnameðfæri. Festa og víðsýni er þar nauðsyn, en óbilgirni og þröngsýni bráður háski. Af þessum sökum mætti ætla, að það væri skynsamlegt og mjög til bóta, að ríkisvaldið veitti hinum ýmsu stéttarsamtökum víðtækari og nákvæmari upplýsingar í efnahagsmálum þjóðarinnar, en verið hefur siður til þessa. Kynni það að eyða óþarfa tortryggni og væri forustu samtakanna mjög til fróðleiks. Á sama hátt er skynsamlegt og enda fróðlegt að veita stjórnarandstöðunni slíkar upplýsingar, svo að gagnrýni hennar byggist meira á staðreyndum, en ímyndunum og blekkingum, svo sem stundum hefur þótt vilja brenna við, vísast af fáfræði og skorti á upplýsingum. Á þessu var einmitt byrjað á mjög ýtarlegan hátt í haust, þar sem stjórnarandstöðunni voru veittar allar tiltækar upplýsingar um efnahagsástandið í sambandi við umr. um hugsanlega breikkun stjórnarsamstarfs, og er nú eftir að sjá, hve drengilega stjórnarandstaðan notar þessar upplýsingar og hvort henni tekst að reka gagnsamlegri gagnrýni, en þótt hefur vera undanfarið, því að um það eru ekki skiptar skoðanir, að ákveðin og blekkingarlaus stjórnargagnrýni er þjóðarnauðsyn. Engin stjórn er gallalaus og því síður algóð. Allir hafa sína galla og gera sínar skyssur. Þegar ég hins vegar sá vantrauststill. hv. stjórnarandstöðu s.l. mánudag og nú er hér til umr., duttu mér í hug orð Jónasar frá Hriflu um Steingrím í Nesi, er hann hafði snúizt gegn Jónasi, en með Birni á Brún í framboði til Alþ. Vetri fyrr hafði Steingrímur verið hætt kominn, legið týndur, svo dægrum skipti í hraungjótu og ritað síðan um hugrenningar sínar þar athyglisverða grein af trúarlegum toga. Jónas mælti: „Ekki hefur Steingrímur vitkazt við það að sjá guð í Aðaldalshrauni.“

Ekki hefur stjórnarandstaðan vitkazt við efnahagsupplýsingar, datt mér í hug. Hér er sem sagt nákvæmlega sama till. á ferðinni og í fyrravetur um svipað leyti og þá var sungið og messað út af sem mest. Vitandi þá sem og nú, að efnahagsráðstafanir varð að gera og báðir stjórnarandstöðuaðilar þá eins og töldu gengislækkun hagfelldustu úrlausnina, þótt þá skorti hreinskilni til að viðurkenna það, heldur reyndu þá eins og nú að þyrla upp moldviðri kringum málið. Eða því beið hv. stjórnarandstaða 5 vikur af þingi með það að koma með vantraust á ráðlausa og dáðlausa ríkisstj. að sínum dómi? Hélt vonin um ráðherrastóla í þjóðbjörgunarhemilinn á þeim svona lengi, eða vildu þeir vera vissir um, að gengislækkunin kæmist örugglega á, þá fyrst væri óhætt að hefja messu? Og hví hefja þeir tvísönginn, áður en vitað er um hliðarráðstafanir ríkisstjórnarflokkanna? Skipta þær afstöðu þeirra engu? Allt eru þetta spurningar, sem hljóta að leita á hugann, en þótt svör við þessum spurningum kunni að þykja forvitnileg, varða þau engan þjóðarvanda.

Þjóðarvandinn er, að hér hefur orðið enn ein gengislækkun af illri nauðsyn að dómi okkar, sem töldum okkur ekki geta skorazt undan því að greiða henni atkv. á Alþ. Og hvers vegna, spyr þú sjálfsagt, hlustandi góður? Ég get aðeins svarað fyrir mig persónulega. Ég hefði talið æskilegra, að um þær efnahagsaðgerðir, sem nú verða gerðar, hefði náðst víðtækari samstaða á Alþ. en raun ber vitni. Ég veit, að þær verða svo sársaukafullar og snerta svo hag hvers einasta einstaklings, að miklu hefði varðað, að um þær hefði náðst samstöðufriður, svo að þær næðu sem víðtækustum árangri án átaka milli stétta, sem tefðu fyrir og drægju úr efnahagsbata. En fyrst þetta náðist ekki, tel ég núverandi stjórnarflokka eiga að standa eða falla með aðgerðum sínum til úrbótar vandanum. Vafalaust höfum við sums staðar teflt skakkt í leiknum, leik og skulum þá ekki skorast undan afleiðingum leikblindunnar. En í megindráttum tel ég rétt leikið og því ekki þörf að hvika.

Af þeim gögnum, sem okkur þm. hafa verið lögð í hendur, og af þeim athugunum, sem ég hef sjálfur getað gert, tel ég engan vafa á, að stórfelldum efnahagsaðgerðum varð ekki frestað. Ég dreg enga dul á, að ég hafði mikla tilhneigingu til að fylgja svonefndri niðurfærsluleið, því að mér hrýs hugur við smækkun krónunnar, sérstaklega með spariféð í huga. En ástæður fyrir því, að ég fylgdi gengislækkun sem úrlausn nú, voru þessar helztar.

Gengislækkun mundi fljótar örva atvinnulífið og þar með glæða atvinnu manna, en atvinnuleysi er flestu böli erfiðara. Gengislækkun yrði almenningi ekki eins snöggleg kjaraskerðing og aðrar efnahagsaðgerðir og gæfi fólki meiri tíma til að aðlaga sig hlutunum, t.d. færa ýmiss konar neyzlu af erlendri vöru á innlenda. Gengislækkun kæmi nýjum og í fjölmörgum tilfellum fátækum húsbyggjendum ekki eins erfiðlega og aðrar aðgerðir. Launþegasamtökin mundu betur eira gengislækkun, en öðrum efnahagsþrengingum og hún væri brota minnst í framkvæmd. Efnahagssérfræðingar ríkisstj., en á þeim mundi verulega mæða framkvæmd málsins, virtust helzt hallast að þessari efnahagsaðgerð. Ég skammast mín ekkert fyrir að viðurkenna, að sem leikmaður taldi ég mig ekki geta horft framhjá skoðunum þeirra.

Nú er mér ljóst, að mikið veltur á framkvæmd þessara mála, hvernig almenningur og ýmis hagsmunasamtök taka þeim og hvað gert verður til að bera þyngstu blökin af þeim, sem sízt mega við auknum byrðum. Samkomulag er um að verja 150 millj. kr. til að forða bótaþegum almannatrygginga frá tekjurýrnun af gengislækkuninni. Fyrirhugaðar eru ráðstafanir í skattamálum, sem miði til hagræðis barn mörgum fjölskyldum. Sjúkrakostnaður verði frádráttarbær. Afla á aukins fjár til íbúðabygginga og freistað verður að stuðla að atvinnuaukningu, þar sem þess er brýnust þörf. En allt er þetta enn á athugunarstigi, og sér hver, sem af góðvild vill hugsa málið, að hér þarf nokkurn tíma til. Skiptir því afar miklu, að engir flasi að andstöðu við aðgerðirnar, meðan þær eru í mótun, heldur noti áhrifavald sitt til að stuðla að uppbyggingu þeirra, sem bezt og hraðast. Þar geta launþegasamtökin og ýmis önnur hagsmunasamtök haft úrslitaþýðingu, hvort vel eða illa tekst um þessar aðgerðir allar. Ef þau standa með ríkisvaldinu að þeim, munu þær takast landi og þjóð til hagsældar. En snúist þau gegn þeim, höfum við brotið enn á ný út úr krónunni okkar aðeins til stundarfriðar. Kannske er það þetta, sem vantraustsmennina dreymir? Þó held ég ekki. Þetta eru sómamenn, en ekki misindismenn, að ég bezt þekki. Væri okkur ekki öllum sæmst að taka höndum saman og vinna saman landi og þjóð til farnaðar, en ekki sundrungar? Hér þarf allra góðra krafta við. Svo mikið er í húfi. — Lifið heil.