07.11.1968
Neðri deild: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í D-deild Alþingistíðinda. (3148)

29. mál, rannsóknarnefnd vegna kaupa á Sjálfstæðishúsinu

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Hæstv. ráðh. hafði sig upp í býsna mikinn leikaraskap og þóttist vera að bera blak af forystumönnum Landssímans gegn persónulegum árásum mínum. Þessi leikaraskapur var gersamlega óþarfur. Það var ekki um neinar slíkar árásir að ræða hjá mér. Ég þekki vel forustumenn Landssímans og veit, að þeir eru bæði miklir hæfileikamenn og duglegir á sínu sviði. Það var ekki það, sem ég var að tala um. Ég var að tala um hitt, að stofnun, sem hefur þá aðstöðu, sem Landssíminn hefur, að hafa algera einokun á tiltekinni tegund þjónustu, þarf óhjákvæmilega á aðhaldi að halda. Og það aðhald þarf að koma annaðhvort frá viðskiptavinum stofnunarinnar eða frá Alþ. Ef menn hafa sömu aðstöðu og Landssíminn hefur haft, að þurfa aldrei að hafa neinar áhyggjur út af fjárfestingarframkvæmdum, heldur geta jafnóðum velt þeim yfir á viðskiptavinina, þá leiðir það til þess, að menn hafa þá þægilegu leið. Önnur fyrirtæki verða ævinlega að horfa í það, hvort þau kaupa fasteign fyrir 16—17 millj. í miðborg Reykjavíkur eða hagnýta sér aðrar lóðir, sem fáanlegar er hér í borginni og ekki þarf að greiða slíkt okurverð fyrir. Landssíminn hefur það fjárhagslega kerfi, að hann þarf ekki að hafa slíkar áhyggjur. Og ég tel, að það sé skylda Alþ. að fylgjast með því, að þessi aðstaða sé ekki notuð til þess að leggja á almenning hærri gjöld, en óhjákvæmilegt er.

Ég ætla ekki að halda áfram að deila við hæstv. ráðh. um einstök atriði í þessu sambandi. Hugmyndin var ekki sú, að við ættum kappræður í þingsölum um þetta, heldur að tekin væri upp raunveruleg rannsókn á málinu. Þegar þeirri rannsókn er lokið, getum við hæstv. ráðh. farið að ræða málin á grundvelli hennar. Það leysir ekkert mál, að við séum með deilur í þessum ræðustóli. Aðalatriðið er hitt, að rannsóknin verði framkvæmd. Og ég á enn ákaflega erfitt með að skilja, hvers vegna hæstv. ráðh. vill ekki á það fallast, að þarna verði um að ræða rannsóknarnefnd í samræmi við 39. gr. stjórnarskrárinnar. Hvað er það, sem hæstv. ráðh. óttast í því sambandi? Hvers vegna hefur hæstv. ráðh. ekki áhuga á því, að málið sé kannað á þann hátt? Ég er ekki að vekja neina ástæðulausa tortryggni. Ég er einmitt að gera till. til þess að bægja frá getsökum og tortryggni í þessu sambandi. Að lokinni slíkri rannsókn liggja málavextir nákvæmlega fyrir, eins og þeir eru eða eiga að gera, ef n. hefur getað lokið verkefni sínu. Og aðeins á þann hátt er hægt að bægja frá tortryggni og getsökum.

Út af því, sem hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði fallizt á kaup á lóð í Kirkjustræti, þá er það ekki rétt. Ég átti ekki sæti á þingi, þegar sú ákvörðun var tekin. Hitt vil ég enn leggja áherzlu á, að ég tel, að rannsóknarnefnd, sem skipuð verður, beri einnig að rannsaka allt baks við slíkra viðskipta hér í miðborginni, þetta ósæmilega lóðabrask, sem magnast ár frá ári og sjálf ríkisstj. og stjórnarstofnanir hafa haft forustu fyrir.

Hæstv. ráðh. sagði, að ekki hefði verið um önnur slík kaup að ræða en Kirkjustræti. Ég vil minna á, að Seðlabankinn hefur staðið fyrir fasteignakaupum hér í miðborginni, sem fóru langt fram úr venjulegu gangverði á þeim tíma og stuðluðu að því að stórhækka allt þetta okurverð í miðborginni.

Hæstv. ráðh. sagði einnig, að ég skyldi bera saman Sjálfstæðishúsið og húsin við Kirkjustræti. Ég minntist á það í framsöguræðu minni, að það skiptir ekki nokkru máli, hvernig Sjálfstæðishúsið er á sig komið. Eina áhugamál Landssímans er að losna við það og sennilega væri auðveldara að fjarlægja það, ef það væri lélegra en það er. Sennilega er það, að húsið er þó sæmilega á sig komið aðeins til aukins kostnaðar fyrir Landssímann. Keppikefli hans er að losna við það. En sem sagt, ég ætlaði ekki að fara út í deilur við hæstv. ráðh. um einstök málsatvik í þessu sambandi. Till. mín er um að fella slíkar deilur niður, en taka þetta sem rannsóknarverkefni.