22.04.1969
Efri deild: 77. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í D-deild Alþingistíðinda. (3167)

53. mál, frjáls umferð Íslendinga á Keflavíkurflugvelli

Frsm. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Minni hl. allshn. hv. Ed., 6. þm. Sunnl. og hv. 4. þm. Sunnl. ásamt mér, leggur til, að þessi till. verði samþykkt og teljum hana hvorki fráleita né ástæðulausa, eins og fram kemur á nál. hv. meiri hl. Ég mun gera örstutta grein fyrir þessu áliti okkar, án þess að ég fari í neinar kappræður um það, hvort Íslendingar telji það sér henta eða sæma að þurfa að fara gegnum herstöðvarhlið, þegar þeir fara að eða frá aðalflugstöð íslenzka ríkisins, eins og nú er orðið. En staðreyndin er, að það þurfum við að gera með því fyrirkomulagi, sem nú er haft á þessu.

Keflavíkurflugvöllur hefur á síðari árum orðið miðstöð millilandaflugs Íslendinga. Meginhlutinn af millilandaflugi Loftleiða er fluttur á Keflavíkurflugvöll. Það er búið að úrskurða, að Reykjavíkurflugvöllur sé ekki hæfur lendingarstaður fyrir þotu Flugfélags Íslands og þau erlend flugfélög, sem hafa hér viðkomu, munu oftast nær, að ekki sé sagt í öllum tilfellum, hafa viðkomu á þessum flugvelli. En þannig háttar til, eins og hér hefur raunar komið fram, að þessi flugvöllur og flugstöðvarbygging er á yfirráðasvæði varnarliðsins, bandaríska varnarliðsins í Keflavík og um það svæði allt er hafður hervörður. Þess vegna er það, að í gegnum flugvallarhliðið þurfa allir að fara, sem erindi eiga á þennan stað og í þessu flugvallarhliði er íslenzkur lögreglumaður ásamt varðliða frá varnarliðinu. Og þó að það kunni að vera rétt, sem hv. frsm. sagði hér áðan, að af þessu sé ekki verulegur farartálmi, þá er á þessu heldur leiðinlegur svipur, sem æskilegt væri, að hægt væri að bæta úr, svo að ekki sé nú fast kveðið að orði. Þetta gefur heldur ekki þeim útlendu ferðamönnum, sem hingað koma, skemmtilega fyrstu sýn af landinu eða viðkunnanlega hugmynd um stöðu þjóðarinnar. Það má vera, að það sé hægt að útskýra það fyrir öllum ferðamönnum. En það er tafsamt og það væri gott að vera laus við það, ef hægt væri.

Ég get út af fyrir sig fallizt á það, sem hér var sagt áðan, að það muni ekki hafa orðið miklir árekstrar í þessu hliði, a.m.k. hef ég ekki heyrt um það núna upp á síðkastið, að svo hafi verið og það er rétt, sem hv. frsm. sagði, að samkvæmt upplýsingum deildarstjórans í varnarmáladeild hafa þessi samskipti gengið mjög friðsamlega fyrir sig. En að það sé svo, að öllum, sem þarna aka í einkabíl, sé bara veifað áfram, hygg ég ekki vera. Ég a.m.k. minnist þess að hafa verið stöðvaður þarna í þessu hliði. Ég er náttúrlega ekki þm. Reykn. og það kannske gerir nokkurn aðstöðumun. En allt var það friðsamlegt og alls ekki neinir árekstrar. Því vil ég engan veginn halda fram. En ég get ekki fallizt á, að flutningur þessarar till. eigi neitt skylt við hótfyndni, eins og hv. 4. þm. Reykn. vildi kalla það hér áðan. Ég veit, að þetta mál hefur verið alllengi í athugun, m.a. í stjórnarráðinu og a.m.k. annar stjórnarflokkurinn, Alþfl., hefur oft haft þetta við orð, að það þyrfti að koma þessum málum öðruvísi og betur fyrir. Þess vegna held ég, að það sé engin goðgá, þó að hv. Alþ. samþykki áskorun á hendur ríkisstj. um það, að einhverjar ráðstafanir svipaðar því, sem hér er lagt til, væru gerðar. Ég get ómögulega trúað því, að það sé óviðráðanlegur kostnaður að girða af aðra hvora þessara leiða, sem liggja inn að flugvallarbyggingunni eða flugstöðinni. Þarna er eins og allir vita um tvo vegi að ræða og annan þó miklu skemmri. Ég tel sjálfsagt, að athugunum mundi verða beint að veginum, sem liggur upp úr Njarðvík og ég hygg, að þessari girðingu mætti auðveldlega koma fyrir, þannig að til mjög lítils trafala þyrfti að vera vegna umferðar á flugvellinum. Það verða margir fleiri en íslenzka ríkið að girða lönd sín. Það er alltaf verið að girða. Bændur eru að girða og húseigendur eru að girða og að tala um það sem eitthvert óviðráðanlegt verkefni, að þessi braut verði afmörkuð inn á flugvöllinn, slíkan málflutning felli ég mig ekki við og fæ satt að segja ekki skilið. Og ég tel það engu máli skipta í þessu sambandi, þó að það sé talað um, að eftir 4—8 ár verði þessum málum einhvern veginn öðruvísi fyrir komið. Það er ástand þessara mála í dag, sem við erum að ræða um og flm. og við, sem stöndum að nál. minni hl., teljum, að það ætti að láta fara fram athugun á þessu og meira en það. Ég trúi því ekki, fyrr en ég tek þá á því, að kostnaðurinn þurfi að vera svo gífurlegur, að ekki sé hægt að hrinda málinu í framkvæmd þess vegna. Og satt að segja finnst mér það sýna litla alvöru í þessum málum, að varnarmáladeildin skuli ekki einu sinni hafa haft fyrir því að gera þó ekki væri nema lauslega kostnaðaráætlun um það, hvernig þessu yrði fyrir komið. Og auðvitað sýnir það, að í varnarmáladeildinni er, eins og hér, talað um óþarfamál og hótfyndni einstakra nöldurmanna, sem ekki vilji gera sér það að góðu, að allir, sem um Keflavíkurflugvöll fara, bíði eftir, að einhver vinki til þeirra, svo að þeir megi reka erindi sín á íslenzku landi, eins og hér er um að tefla.

Við leggjum til í minni hl., að till. verði samþykkt.