12.12.1968
Efri deild: 27. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

89. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það er nú sjálfsagt unnið fyrir gýg að fara mörgum orðum um þetta frv. úr því, sem komið er. Meiri hl. hefur tekið afstöðu í því og er ákveðinn í að knýja frv. fram, hvað sem okkar rökum líður, og ég skal þess vegna ekki tala langt mál um þetta að þessu sinni. En hitt er þó ljóst, að hér er um stórmál að ræða og allar þær mörgu brtt., sem meiri hl. hefur nú flutt við frv., bera því vitni, að það hafi ekki verið vanþörf á því að skoða þetta mál öllu betur, áður en frv. þessu var skellt fram hér á Alþ.

En eins og fram kom í framsöguræðu hjá hv. 3. þm. Vestf., töldum við í minni hl., að það væri einmitt ástæða til þess að athuga frv. þetta enn betur og leita þar umsagnar þeirra aðila, sem mestra hagsmuna hafa að gæta í sambandi við þetta frv., og þá ekki sízt sjómannasamtakanna. En þess var ekki kostur að dómi meiri hl., og ekki var heldur talin ástæða til að kveðja fyrirsvarsmenn þessara samtaka á fund nefndarinnar. Efa ég þó ekki, að nefndarmenn, og þá ekki síður nefndarmenn í meiri hl., mundu hafa hafi gott af því að hlýða á þeirra raddir.

Hv. frsm. meiri hl., hv. 4. þm. Reykn., var að gefa hér einkunnir áðan fyrir frammistöðu við framsöguræðuflutning. Mér finnst sanngjarnt, að hann fari ekki héðan án vitnisburðar. Ég vil segja það út af hans framsöguræðu, að mér virðist hann á tiltölulega skömmum tíma hafa náð umtalsverðum framförum og leikni í þeim línudansi, sem hv. stjórnarstuðningsmenn verða nú nauðugir viljugir að dansa hér hvað eftir annað. Honum tókst að komast hjá því í sinni framsöguræðu að hreyfa við kjarna þessa máls. Hann vék ekki að þeim höfuðröksemdum, sem við höfum hafi uppi gegn samþykkt þessa frv. En höfuðröksemdin, sem við höfum haft uppi gegn samþykkt þessa frv., er sú, að með því sé brotið í bág við gildandi kjarasamninga á milli sjómanna og útgerðarmanna og lögþvingun beitt um sjómannakjör.

Það er að vísu ekki nýtt, að það séu sett gerðardómsákvæði um kaup og kjör, en ég hygg, að það hafi sjaldan eða aldrei verið gert án þess, að það hafi staðið yfir kaup- eða kjaradeila og að það hafi verið gert til lausnar á ákveðinni kjaradeilu. Ég hygg, að hitt sé fátítt, ef ekki einsdæmi, að það séu sett lög, sem fella úr gildi kjarasamninga, sem fyrir eru, án þess að það sé fyrir hendi nokkur deila um þá samninga, um kaup eða kjör. Það væri fróðlegt að heyra þau fordæmi, sem stuðzt er við í því efni. Ég hygg, að þau séu fá eða nær engin fyrir hendi. Og ég verð að segja það, að ég álít, að með þessu sé skapað ákaflega varhugavert og hættulegt fordæmi. Hvar er okkar réttarskipan, ef það á að vera hægt með löggjöf að koma og fella úr gildi samninga, sem gerðir hafa verið? Það er enginn kominn til með að segja, hver verður næstur, ef farið verður inn á þessa braut á annað borð. Ég held þess vegna, að hv. stjórnarstuðningsmenn ættu enn að hugsa sig um, áður en þeir knýja þetta frv. í gegn. Því það er áreiðanlegt, að með samþykkt þess eru þeir að skapa fordæmi, sem kann að eiga eftir að draga dilk á eftir sér.

Hv. frsm. nefndarmeirihl. var ákaflega hneykslaður yfir því, sem hann taldi vera okkar viðhorf — stjórnarandstæðinga — að við ætluðumst til þess, að ein stétt kæmist alveg hjá því að taka þátt í þeirri kjaraskerðingu, sem þjóðin yrði nú almennt á sig að taka, og átti þá við sjómannastéttina. Ég gat ekki skilið hans orð á aðra lund en þá, að hann teldi, að ef ekki væri tekið eitthvað af sjómannshlutnum með þessum eða öðrum hætti, þá bæru sjómenn ekki neitt viðlíka kjaraskerðingu eins og aðrar stéttir þjóðfélagsins. Ég held, að áður en þessu er slegið föstu, væri nú vissara að skoða málið niður í kjölinn og íhuga það t.d., hvers vegna þessar ráðstafanir, sem hér er um að ræða, hafa verið gerðarhvers vegna var gengislækkun framkvæmd, og hvers vegna er verið að samþykkja þessar ráðstafanir um stuðning handa útgerðinni? Er það ekki af því, að því er talsmenn stjórnarinnar segja, að þessi atvinnurekstur hefur orðið fyrir stórkostlegum áföllum á tveim s.l. árum, og það er sagt, að verðfall og aflabrestur valdi því, að afurðaverðmætið í heild sinni hafi lækkað um allt að því 45%? En ég held bara, að þessi lækkun hafi komið alveg hlutfallslega við sjómenn. Þeir hafa einmitt tekið á sig þá kjaraskerðingu, sem í þessu felst. Það liggur einmitt í eðli hlutaskiptanna, að þeir hafa tekið á sig verðfallið og aflabrestinn að sínu leyti. Þetta held ég, að liggi í augum uppi. Enda býst ég við því, að þeir verði fáir, sem halda því fram, að sjómenn hafi borið meir úr býtum á undanförnum tveimur árum, eða á þessu ári og hinu síðasta, heldur en sanngjarnt og eðlilegt má teljast. Og það er vissulega rétt, eins og hv. frsm. meiri hl. sagði, að það er nauðsynlegt að sigla. Okkur Íslendingum er nauðsynlegt, að það sé gert út. En ég held, að eitt frumskilyrði fyrir því, að útgerð verði hér rekin, sé það, að sjómenn — að duglegir og góðir sjómenn fáist á skipin. Ég held, að það sé fyllilega sanngjarnt, og ég held, að það verði að vera regla hér, ef að lag á að vera a þessum málum, og það verði að vera viðurkennd regla, að sjómenn hafi mun hærri tekjur heldur en þeir, sem í landi vinna. Og það er af þeirri einföldu ástæðu, að annars fást menn ekki til þess að stunda þetta starf, áhættusamt og erfitt. Ég gæti búizt við því, að það væri ekki óeðlilegt, að sjómenn þyrftu að hafa sem svaraði — ja, kannske 40%, til þess að segja eitthvað, meiri tekjur heldur en þeir, sem í landi vinna. Þetta verða menn að gera sér ljóst, og þetta verða menn að viðurkenna. Og þetta á auðvitað ekki sízt við nú, þegar útgerðin hefur færzt í það horf, að það verður að sækja miklu lengra og á fjarlægari mið en áður. Ég held þess vegna, að það sé staðreyndin, að sjómenn hafi að verulegu leyti — tekið á sig kjaraskerðingu. Ég held þess vegna, að það sé alveg óeðlilegt að tala eins og hv. frsm. meiri hl. gerði, að þeir yrðu ekki fyrir neinni kjaraskerðingu, ef það væri ekki tekið af þeim eitthvað, tekið af óskiptu eitthvað, og þeir fengju í sinn hlut það, sem þeir eiga að fá.

En ég vil aðeins undirstrika það, sem ég sagði við 1. umr. þessa máls, að ég vil ekki leggja neinn dóm á hlutaskiptin út af fyrir sig, hvort þau eru eðlileg eða sanngjörn. Það getur vel skeð, að aðstæður hafi breytzt frá því að síðasti hlutaskiptasamningur var gerður, sem hafi það í för með sér, að það sé eðlilegt að breyta þessum hlutaskiptum og að útgerðin þurfi að fá meira í sinn hlut. En fram hjá hinu verður ekki gengið, að þessa samninga hafa útgerðarmenn gert við sjómenn. Þetta eru frjálsir samningar, sem gerðir hafa verið, og þeir hafa gengizt undir þessi kjör, sem þessir hlutaskiptasamningar fela í sér. Og meira að segja veit ég ekki betur heldur en samkv. eldri hlutaskiptasamningum, þá hafi það einmitt verið svo, að sjómenn hafi tekið vissan þátt í rekstrarkostnaði, en það hafi verið fallið frá því og fellt niður það ákvæði í síðustu eða seinni hlutaskiptasamningum.

Þess vegna er það, að ef þessum kjarasamningum á að breyta, þá á auðvitað að fara samningaleiðina í því efni, og þessir aðilar, sem hafa samið um þessi kjör, sem nú gilda, eiga að semja um breytingar á þeim. Nú hefur hv. meiri hl. n. flutt brtt. við 8. gr. frv. Hún er á þá lund, að kjarasamningum milli útvegsmanna og sjómanna, sem samkv. ákvæðum þeirra var ætlað að gilda til ársloka 1969, er heimilt að segja upp án fyrirvara eftir gildistöku þessara laga. Verði þetta frv. samþykkt, þá þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það, miðað við þær yfirlýsingar, sem sjómannasamtökin hafa gefið, að samningum þessum verður sagt upp án fyrirvara. Þá verður að semja um hlutaskiptakjörin miðað við þær aðstæður, sem orðnar eru eftir samþykkt þessa frv. Og nú segja menn og hafa haldið því fram, að hlutaskiptakjörin hafi verið og séu óeðlileg eins og þau eru nú, prósenta sjómanna sé of há. Hvernig halda menn, að sjómenn muni semja um þessi mál í næstu kjarasamningum, eftir að þetta frv., sem hér hefur verið samþykkt, hefur verið afgreitt? Ætli þeir fari ekki fram á eitthvað hærri prósentur? Ég held, að samþykkt þessa frv. sé vísasti vegurinn til þess að leggja grundvöll að enn óeðlilegri hlutaskiptakjörum, ef menn vilja orða það svo, en nú gilda. Það held ég sé alveg augljóst.

Ég skal ekki fara frekar út í það að ræða þetta frv. eða einstök ákvæði þess, ég vil aðeins leggja áherzlu á það, að það er augljóst og viðurkennt og var viðurkennt af hæstv. sjútvmrh. í ræðu hans, þegar hann mælti fyrir málinu, að hér væri í raun og veru um það að ræða, að gildandi kjarasamningum væri breytt og nokkuð af þeirri verðhækkun, sem leiddi af gengisbreytingunni og sem ætti að koma í hlut sjómanna, væri fært yfir til útgerðarinnar. Þetta stendur alveg óhaggað og enn fremur hitt, að í þessu frv. felst viss kaupgjaldsstefna. Þessari stefnu, sem þannig felst í þessu frv., hefur verið harðlega mótmælt af stéttasamtökunum, af Alþýðusambandsþinginu, af miðstjórn Alþýðusambandsins, af sjómannasamtökunum, eins og rakið hefur verið hér í nál. minni hl. Og í þessum ályktunum, sem þessir aðilar hafa látið frá sér fara, eru mjög alvarlegar aðvaranir, en það virðist svo sem að hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsmenn ætli að láta þær aðvaranir sem vind um eyru þjóta. Þó eru þeir um leið að stofna til samninga við þessa aðila. Þetta verð ég að segja, að eru óeðlileg vinnubrögð, og ég álít það, að þau vinnubrögð eigi eftir að hefna sín.

Ég ætla ekki hér að fara að ræða um þær víðtæku heimildir, sem í þessu frv. felast til handa hæstv. sjútvmrh. og sem eru auðvitað á allan hátt mjög óeðlilegar og mjög óeðlilega víðtækar. Að því vék ég við 1. umr. þessa máls og að því var vikið af hv. frsm. minni hl.

Frsm. minni hl. gerði líka grein fyrir því, hvernig við höfum viljað snúast við því vandamáli, sem hér er verið að fjalla um og sem við höfum aldrei gert lítið úr og sem ég hef enga tilhneigingu til að gera lítið úr. En það má segja, að í stuttu máli hafi okkar viðbrögð verið þau, að við höfum viljað taka til athugunar og ráðast gegn kostnaðarhliðinni og reyna að færa þar eitthvað niður, en það er eins og að það megi aldrei nefna, hvorki hjá atvinnuvegunum né heldur hjá ríkinu. Það er bara alltaf farið í það að leita að því, hvar er hægt að ná í fé til þess að brúa bilið. Aldrei má spara eða hagræða eða taka þann þáttinn til meðferðar. Ég held þó, að það sé tími til þess kominn, og við höfum bent á ýmsa þætti, t.d. í útgerðarkostnaðinum, sem mætti lækka. Við höfum bent á vextina, það er auðvitað ekki neitt vit í því að láta greiða þá vexti, sem greiddir eru. Það getur enginn atvinnuvegur staðið undir því að greiða þá vexti. Það er ekki sanngjarnt heldur að skipta þannig á milli fjármagns og vinnu, eins og gert er með þeim vaxtaákvörðunum, sem hér eru í gildi. Og við höfum bent á vátryggingar fiskiskipanna. Þar mætti spara, þar mætti lækka. En um það sagði hv. frsm. meiri hl. aðeins, að þar væri við draug að glíma frá tíð vinstri stjórnarinnar. Ég verð að segja það, að ef að svo er, sem ég skal nú ekki fullyrða um, þá hefur sá draugur setið á fjósbitanum hjá hæstv. ríkisstj. og þrifizt vel, því að svo að segja með hverju einasta ári, sem hefur liðið, hafa milljónir milljóna tugir bætzt við þá upphæð, sem varið er til vátryggingar fiskiskipa. Auðvitað veit hvert mannsbarn, að það verða stórtjón á fiskiskipum hér, það er óhjákvæmilegt, aðstæðurnar eru þannig. En það fær enginn mig til að trúa, að þessi mál séu í lagi. Það er þörf á að lagfæra þetta. Það hefur verið viðurkennt, því var lofað á síðasta þingi, þegar mál þessi voru til umræðu, að hér skyldi verða hafizt handa og gert mikið átak í því efni. En því miður hefur það hingað til, að mestu a.m.k., setið við orðin tóm, en minna orðið úr framkvæmdum. Það er gott að gefa enn fyrirheit um, að gegn þessum kostnaðarlið eigi að ráðast, en efndirnar eru það, sem máli skiptir.

Auðvitað eru það svo mýmargir aðrir hlutir, sem hv. frsm. minni hl. minntist líka á, sem mætti taka til skoðunar, þyrfti að taka til athugunar, og ætti að vera hægt að lækka. Og eins og ég hef áður sagt, þá skal ég engan dóm leggja á þessi hlutaskipti í sjálfu sér. Ég býst við því, að það geti vel komið til greina að breyta þeim á ýmsa lund. Ég býst m.a. við því, að það væri ekki fjarri lagi að hverfa aftur að fyrri reglunni, að láta sjómennina sjálfa taka að nokkru þátt í rekstrarkostnaðinum. Ég hygg, að með þeirri aðferð gæti ef til vill skapazt meira aðhald en nú á sér stað, um að halda öllum kostnaðarliðum niðri svo sem hægt er. Ég held, að það væri ágætt, að þeir hefðu beinna hagsmuna að gæta einmitt í sambandi við ýmsa þessa kostnaðarliði, eins og t.d. vátryggingar, olíukaup o.fl. En um þetta á auðvitað að semja við sjómennina, og þetta á að ákveða með samningum á milli útgerðarmanna og sjómanna, og ég held, að það sé óeðlileg svartsýni að ganga út frá því sem gefnu fyrir fram, að það muni ekki vera hægt að komast að skynsamlegum samningum um þessi efni, því að auðvitað er sannleikurinn sá, að hagsmunir þessara aðila, sjómanna og útgerðar eru algerlega samtvinnaðir. Og því er það á engan hátt ólíklegt, að hægt sé að ná skynsamlegum samningum um þessi efni. En þá leið á vitaskuld að fara í stað þess að vera með eins konar ögranir í garð sjómannastéttarinnar, eins og óneitanlega er verið að gera með því að samþykkja þetta frv. Og það telur sjómannastéttin. Hún hefur lýst því yfir, hvernig hún mundi líta á samþykkt þessa frv. Og ég býst við því, að ef alþm. væru í svipaðri aðstöðu og sjómenn og það væri verið að setja lög, sem væri ætlað að sneiða af þeirra köku með svipuðum hætti eins og hér er gert ráð fyrir, að því er sjómenn varðar, þá mundu hv. alþm. snúast nokkuð til varnar. Ég held, að það væri hyggilegt fyrir hvern og einn að líta í eigin barm.