18.12.1968
Sameinað þing: 24. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í D-deild Alþingistíðinda. (3198)

34. mál, ferðamál

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt þrem öðrum hv. þm. till. til þál. um ferðamál. Efni till. er, að skorað er á ríkisstj. að hlutast til um gerð þriggja ára áætlunar, sem miði að því að margfalda ferðamannastraum til landsins á áætlunartímabilinu og skapa sem traustastan grundvöll fyrir því, að Ísland geti orðið mikið ferðamannaland. Verði þetta gert með því að bæta á skipulegan hátt öll skilyrði til að veita auknum ferðamannastraumi alla nauðsynlega þjónustu með því að gera hvers konar hagkvæmar ráðstafanir til þess að opna leiðir að hinni ósnortnu náttúru landsins fyrir erlenda sem innlenda ferðamenn og með því að treysta fjárhagslega undirstöðu ferðamannaþjónustu.

Í till. er gert ráð fyrir, að áætlunargerðin verði falin samtökum þeirra aðila í landinu, sem fremur öðrum eiga beinna hagsmuna að gæta, varðandi umrætt málefni eða eru öðrum líklegri til að leggja þar gott til mála og kæmu þá enn fleiri aðilar til greina um afskipti af slíkri áætlunargerð en í till. eru nefndir. Loks er svo gert ráð fyrir því í till., að gerð áætlunarinnar verði hraðað, svo að hún geti legið fyrir Alþ., sem nú situr og byrjunar framkvæmdir samkvæmt henni geti komið til þegar á næsta ári.

Grg. sú, sem till. okkar fjórmenninganna fylgir, skýrir í öllum aðalatriðum, hvað fyrir þeim vakir með tillögugerðinni. Við erum þeirrar skoðunar, að hér sé um að ræða atvinnugrein, sem geti, ef rétt er á haldið, vaxið mjög hratt og orðið mikill styrkur efnahagslegri afkomu og efnahagslegu öryggi þjóðarinnar. Bent er á, að flestar þjóðir, jafnt hinar auðugri sem fátækar, hafa um langan aldur lagt mikla áherzlu á að laða til sín ferðamenn. Koma þar fyrst og fremst til fjárhagslegar og atvinnulegar ástæður. Einnig bendum við á, að í ýmsum löndum og ekki sízt í Vestur–Evrópu er ferðamannaþjónusta, „túrismi“, meðal mikilvægari atvinnugreina og sums staðar meðal hinna stærstu og ræður úrslitum um þjóðarafkomu, sérstaklega að því er gjaldeyrisbúskap snertir. Bent er á, að við Íslendingar höfum frá náttúrunnar hendi upp á að bjóða ýmislegt, sem stórir hópar þeirra, sem ferðast, hvort heldur er í sumarleyfum eða öðrum tilefnum, sækjast eftir. Við höfum óvenjulega heilnæmt loftslag, stórbrotna náttúrufegurð, hvert sem augum er litið, ósnortnar víðáttur öræfafjalla og jökla, náttúrlegar heilsulindir og ótölulegan fjölda fiskgengra stöðuvatna og fallvatna, þar sem þúsundir manna gætu unað sér við eina eftirsóttustu tómstundaiðju þeirra, sem þjakaðir eru af þröngbýli stórborganna og vilja og geta eytt nokkru af fjármunum sínum í að leita sér hvíldar og ánægju í stundarsambýli við þá ósnortnu náttúru, sem er óðum að glatast milljónaþjóðunum. Óbyggðir lands okkar má í raun og veru skoða sem einn risavaxinn þjóðgarð, sem býr yfir geysílegu aðdráttarafli vegna fjölbreytilegra náttúruundra, stórbrotinnar fegurðar og e.t.v. ekki sízt vegna þeirrar kyrrðar og friðsældar, sem verða flestum nútímamönnum hvort tveggja í senn framandi og eftirsóknarverð. Á þetta er bent því til augljósrar sönnunar, að land okkar hefur mikla möguleika sem ferðamannaland og að ýmsu leyti meiri en mörg önnur, sem eru stórveldi á þessu sviði. En þá vakna spurningarnar um það, að hve miklu leyti sé æskilegt að nýta þessa möguleika og hvernig þurfi að standa að verki, ef menn eru þeirrar skoðunar, að rétt sé og hagkvæmt að stuðla að eflingu ferðamannaþjónustu sem atvinnugreinar.

Spurningunni um það, hvort æskilegt sé að nýta þá þjóðarauðlegð, sem hér er fyrir hendi, svara ég fyrir mitt leyti á þann veg, að ég tel á því engin vandkvæði, ef rétt er á málum haldið, hvorki frá félagslegu sjónarmiði né heldur frá sjónarmiði náttúruverndar. Því verða hin hagrænu sjónarmið þung á metum. Sem dæmi þess, hve ferðamannaþjónusta skipar stórt rúm í viðskiptum þjóðanna, má nefna, að árið 1965 nam heildarvelta hennar samkvæmt alþjóðlegum hagskýrslum 11.6 billj. Bandaríkjadala eða um 6.2% af allri heildarveltu heimsbyggðarinnar í vörum og þjónustu. Á árinu 1966 fóru 128 millj. manna í leyfum sínum til annarra landa, og hlutu Evrópulönd 95.5 millj. af þeim ferðamannafjölda, og óefað fara svo hliðstæðar tölur hækkandi ár frá ári.

Enda þótt hlutur okkar hafi farið vaxandi í þessum viðskiptum, er hann enn furðulega lítill, þegar þess er gætt, hve stórfelld þau eru í heild sinni og möguleikar okkar miklir. Á árinu 1966 var tala erlendra ferðamanna, sem til landsins komu til einhverrar dvalar, meira en einnar nætur í sambandi við flug, tæp 35 þús. manns eða tæplega 40 af hverjum 100 þús., sem gistu Evrópulönd á því ári. Skráð gjaldeyriskaup þessa hóps var á sama ári aðeins um 94 millj. til eyðslu innanlands, en samt mun það vera svo, að heildartekjurnar munu hafa orðið um eða yfir 300 millj, kr., ef tekið er með í reikninginn, að flestir hinna erlendu ferðamanna nota íslenzka farkosti, fyrst og fremst flugvélar, svo og kaup þeirra í fríhöfn Keflavíkurflugvallar. Ef dæmið er þannig reiknað, verður útkoman sú, að ferðamannaþjónustan hafi gefið okkur í gjaldeyri sem svarar 5.4% af öllum útflutningi okkar. Það liggur því fyrir, að ferðamannaþjónustan er nú þegar orðin — þrátt fyrir að hún er örsmátt brot af heildarviðskiptum Evrópulanda — umtalsverð atvinnugrein og gjaldeyrisgjafi. Og rétt er að muna, að þeim fer nú hríðfjölgandi, sem leggja leið sína til landsins og um leið aukast þær tekjur, sem þjóðin nýtur af þjónustu við þá. En að áliti okkar flm. þessarar till., gæti þróun þessarar atvinnugreinar orðið stórfellt örari með viðeigandi ráðstöfunum, bæði þeirra, sem beinastra hagsmuna hafa að gæta og hins opinbera. Í þeim tilgangi er till. flutt, að grandskoðað verði af þeim, sem gerzt ættu til að þekkja, hvernig hagkvæmast sé að standa að þeim aðgerðum, sem líklegastar eru til þess að efla þessa atvinnugrein á næstu árum. Við flm. erum bjartsýnir á, að árangur geti orðið mikill, ef allir þessir aðilar leggjast á eitt.

En þó að möguleikarnir séu vafalausir, er hitt líka auðsætt, að við ýmis vandamál er að stríða og á þeim þarf að sigrast. Í fyrsta lagi kemur það til, að landkynningar– og auglýsingastarfsemi er skipulagslítil og algerlega ónógu fjármagni er til hennar varið. Þessa starfsemi þarf að sameina sem allra mest og samræma og auka fjármagn til hennar.

Þátt samgangna í ferðamálum þarf að gaumgæfa og taka til rækilegrar athugunar nauðsynlegar aðgerðir í þeim með tilliti til þróunar ferðamálanna. Þar á meðal þarf að opna sumarleiðir um óbyggðir landsins og notkun flugvéla til öræfaferða og o.fl.

Hagkvæmni í byggingum gisti– og veitingastaða og ekki kannske sízt sumarhúsa á öræfum og við veiðivötn er örugglega mjög mikilvægt atriði og þá jafnframt nýting fjárfestingar í því sambandi, en það hefur lengi verið eitt helzta vandamál íslenzkrar ferðamannaþjónustu, hve annatími slíkrar starfsemi á ári hverju er skammur, en ýmsar athyglisverðar hugmyndir eru uppi meðal þeirra, sem við ferðamál fást, um úrbætur í þeim efnum. Framkvæmd þeirra kostar auðvitað nokkurt fé, en af þeim mætti líka vænta verulegs árangurs í því að nýta betur, en nú er gert, þá fjárfestingu, sem í þessum fyrirtækjum liggur.

Aukin ræktun laxfiska í ám og vötnum er vafalaust mikilvægt atriði og eru þar vel samrýmanlegar hugmyndir manna um vaxandi framleiðslu og útflutning þessara fisktegunda og um aukna arðsemi af sportveiði. Í þessu sambandi má nefna, að verðlag á veiðileyfum er lágt hér á landi, sé miðað við það, sem tíðkast t.d. í Bretlandi og víða annars staðar. Munurinn er svo mikill, að svara mundi til þess, miðað við fárra daga veiðileyfi, að það mundi borga sig fyrir brezkan sportveiðimann að kaupa sér flugfar til Íslands og heim aftur, fremur en að sæta brezka verðlaginu miðað við það íslenzka. Þykir okkur Íslendingum þó, að veiðileyfi í laxveiðiám hér séu í ærið háu verði.

Ef stefna á að því að efla ferðamannaþjónustu sem atvinnugrein á skömmu tímabili, verður að útvega verulegt fé til fjárfestingar í margvíslegum framkvæmdum. Virðist mér auðsætt, að leita beri eftir erlendu lánsfjármagni í því sambandi, enda eru miklar líkur taldar til, að slíkt fjármagn væri tiltölulega auðfengið, ef traustar áætlanir um framkvæmdir og arðsemi þeirra lægju fyrir og ekki sízt, ef þeir mörgu og a.m.k. að hluta nokkuð fjársterku aðilar, sem með ferðamál fara, stæðu saman að framkvæmd slíkrar áætlunar, sem hér er um rætt. Einhverjum mun kannske finnast; að við höfum um þessar mundir fremur öðrum hnöppum að hneppa ,en að sinna mikið þeim málefnum, sem hér er rætt um, þegar svo er ástatt, að atvinnuvegir okkar, þeir sem hafa verið okkar eina lífsbjörg, eru að hruni komnir og endurreisn þeirra þolir enga bið. En ég held þó, að ef betur er að gáð, sé hér um að ræða málefni, sem á engan hátt nema síður sé getur orðið andstætt endurreisn okkar hefðbundnu atvinnuvega, heldur getur átt með henni fullkomna samleið og raunar stutt mjög að því að efla og styrkja aðrar atvinnugreinar með beinum og óbeinum hætti. Ferðamannaþjónusta skapar vafalaust víkkaðan markað fyrir framleiðslu landbúnaðar og iðnaðar. Hún eflir verzlun og viðskipti og kynnir framleiðslu okkar meðal erlendra manna og greiðir þannig götu þeirra á erlendum mörkuðum. Og síðast en ekki sízt þurfum við að auka fjölbreytni í atvinnuvegum okkar og skapa hverjum manni ört vaxandi þjóðarverkefni við þjóðhagslega hagkvæm störf. Ekkert úrræði má liggja ónotað, sem hér má að gagni verða. Og sannist það hvort tveggja við þá athugun, sem hér er lagt til, að verði gerð, að aukin ferðamannaþjónusta sé ein ódýrasta leið okkar til þess að auka gjaldeyristekjur og stofnfjárframlag til framkvæmda sé auðfengið, er ekki um að villast, að okkur ber að snúa okkur af alefli að skjótum aðgerðum í þessu máli.

Ég legg svo til, herra forseti, að till. verði vísað til hv. fjvn.