27.11.1968
Sameinað þing: 15. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í D-deild Alþingistíðinda. (3209)

55. mál, skylduþjónusta ungmenna

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þegar hv. Alþ. var sett að þessu sinni, var tilkynnt, að hv. 3. þm. Austf. gæti ekki tekið sæti sitt á Alþ. vegna anna. Nú lítur út fyrir, að hv. þm. hafi verið á fjöllum uppi, a.m.k. bendir til þess þál. sú, sem hér er til umr.

Það kann að vera, að í augum einhverra hafi löggjöf um þegnskylduvinnu verið nauðsynjamál fyrir og um síðustu kosningar. Á meðan allt lék í lyndi, næg atvinna var og kaupgjald þolanlegt miðað við verðlag í landinu, þá hvarflaði að ýmsum, að æskan þyrfti að kynnast sem mest undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar. Til þess að það mætti verða, yrði að setja löggjöf um eins konar þegnskylduvinnu, sem eins væri hægt að nefna verklegt skyldunám um undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar og á ég þá við landbúnað og fiskveiðar og það, sem þeim er tengt. Að í því liggi óviss hætta, að t.d. ýmsir, sem leggja út í langskólanám og að því námi loknu verða ráðgjafar og sérfræðingar stjórnarvalda, hafi aldrei komizt í snertingu við sjálft atvinnulífið í landinu eða slagæðar þjóðfélagsins, eins og sumir kalla það og sé því ekki þess að vænta, að þeir verði með þeim hætti eins vel vanda sínum vaxnir til að leysa þau verkefni, sem þeim eru falin. Í þessu sambandi benda margir á mistök liðinna ára máli sínu til sönnunar, enda varla þess að vænta eftir þá reynslu, sem fengizt hefur af lækningum þeirra á síðustu árum, enda er svo komið, að menn hafa það að máltæki víðs vegar um landið, þegar þeir heyra um eitthvað virkilega vitlaust, að það sé eins og hagfræðingar hafi sagt það. Svo hafa ráð og rökræður þessara manna ofboðið þjóðinni að undanförnu. Er illt til þess að vita, hvernig álit þjóðarinnar er nú orðið á þessari fræðigrein, sem á sannarlega annan sess skilið, en hún hefur nú í þjóðarvitundinni, en þar sannast hið fornkveðna, að ekki er sama, hver á heldur. En þó að fyrir því liggi sterk rök, að ýmsa þá, sem í daglegu tali eru kallaðir langskólagengnir, skorti mjög reynslu og þekkingu á atvinnuvegum þjóðarinnar og á aðstöðu þess fólks, sem við þá starfar, er ekki þar með sagt, að algeng þegnskylduvinna mundi ráða bót á því vandamáli, enda virðist ástandið í þjóðfélaginu vera þannig, að löggjafarþingið þurfi fremur um annað að fjalla næstu vikurnar, en semja og ræða löggjöf, sem legði þá skyldu á herðar allra ungmenna í landinu, að þau inni af hendi margra mánaða þegnskyldu. Ég held, að ef það er sprottið af umhyggju fyrir æskunni, að hv. 3. þm. Austf. hreyfir þessu máli, vil ég benda honum á, að það er annað langtum meira aðkallandi vandamál, sem nú er sannarlega frekar þörf á að finna skjóta lausn á fyrir þjóðfélagið allt og þá ekki sízt fyrir þroska og hamingju æskunnar í landinu, en það er að örva atvinnulífið, svo að öll ungmennin eigi þess kost að hafa atvinnu þann tíma, sem þau sitja ekki á skólabekk. Það er ofar mínum skilningi, hvernig foreldrar fara nú að því að hjálpa börnum sínum í gegnum skóla með tilliti til kaupmáttar launa venjulegra manna, þó að unglingarnir hafi sumarvinnu, hvað þá, ef enga vinnu er að fá yfir sumarmánuðina eða þau verða sett í þegnskylduvinnu lengri eða skemmri tíma. Og er nú á hitt að líta, að segja má, að þeir, sem mikinn áhuga hafa haft á því að koma á þegnskylduvinnu, geta nú sannarlega verið sæmilega ánægðir með það, sem er, þó að ekki sé lögfest þegnskylduvinna á meðan óbreytt ástand ríkir í launa—, atvinnu— og efnahagsmálum þjóðarinnar. Þeir geta huggað sig með því, að eftir þessa nýju útfærslu á jafnaðarstefnunni hér á landi, ekki þá sízt í sambandi við þessa síðustu endurreisn á viðreisninni, en hún virðist vera fyrst og fremst fólgin í því að gera hina ríku enn ríkari á kostnað fjöldans, — virðist manni launakjör alls almennings í landinu vera þau, að það sé ekki nema stigs munur á þeim kjörum og þeim, sem ungmenni hlytu að hafa, þó að þegnskylduvinna væri. Sýnist því ekki mikil þörf fyrir að samþykkja þessa þáltill. að öllu óbreyttu.

Í grg. með till. er þessi setning, með leyfi forseta: „Ég sé í anda fríðan hóp ungmenna, bæði pilta og stúlkur, með vorhug að planta og vökva rein við rein, sem hæfu starfið dag hvern við leiðsögn einbeitts verkstjóra og að morgni er gengið væri til starfs, væri sungið: Ég vil elska mitt land.“ Draumsýnin getur verið undurfögur og mjög hljóta þeir að vera hamingjusamir, sem geta stytt sér stundir í slíkum draumaheimi í órafjarlægð frá beizkum og helköldum veruleikanum, eins og hann blasir við venjulegum manni á þessu níunda ári viðreisnargöngunnar. Það kann að vera, að það verði stór hópur æskumanna, sem safnast utan um hv. 3. þm. Austf, þar eystra, ef þegnskylduvinnan verður lögfest á næstunni, en ekki kæmi mér það á óvart, þó að annað yrði sungið en „Ég vil elska mitt land“.