12.02.1969
Sameinað þing: 28. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í D-deild Alþingistíðinda. (3235)

67. mál, húsnæðismál

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt tveimur öðrum hv. þm. till. til þál. um húsnæðismál. Efni till. er, að skorað er á hæstv. ríkisstj. að láta gildandi ákvæði laga um Húsnæðismálastofnun ríkisins um byggingar hagkvæmra, staðlaðra íbúða, sem láglaunafólk í verkalýðsfélögunum hafi forkaupsrétt að með sérstökum lánskjörum, koma til framkvæmda hvarvetna utan höfuðborgarinnar, þar sem brýn þörf er aukinna íbúðabygginga og tryggt er, að þeim skilyrðum, sem lögin setja, verði fullnægt.

Till. til þál. efnislega eins og þá, sem hér er flutt, flutti ég hér á hv. Alþ. á s.l. ári, þ.e.a.s. ekki á s.l. þingi, en hún varð þá ekki útrædd, en á síðasta þingi taldi ég mál horfa svo, að líkindi væru til, að látið yrði að margítrekuðum óskum og kröfum verkalýðsfélaganna, sveitarfélaganna og Alþýðusambands Íslands, enda hafði þá félmrn. skipað svokallaðar framkvæmdanefndir byggingaáætlana í nokkrum kaupstöðum, falið þeim í fyrsta áfanga að kanna byggingaþörf á viðkomandi stöðum og gera áætlanir um framkvæmdir. Taldi ég því ekki efni standa til að taka málið upp að nýju, þar sem telja varð, að með þessum ákvörðunum rn. væri í raun gefið sterkt vilyrði fyrir framkvæmdum.

Nú er hins vegar alllangt um liðið síðan framkvæmdanefndirnar luku athugunum sínum, a.m.k. nokkrar þeirra, en ekkert bólar heldur á því, að nokkurt fjármagn fáist til framkvæmda, eins og vænzt var. Höfum við flm. því talið nauðsynlegt að kanna vilja hv. Alþ. í þessu máli með flutningi þessarar till.

Forsaga þessa máls er í aðalatriðum rakin í grg. með till. og er auk þess svo kunn utan þings sem innan, að ég tel ekki þörf á að rekja hana hér að þessu sinni, en minni aðeins á hin skýlausu loforð frá 1965 til verkalýðsfélaganna í Reykjavík um byggingar 1.250 íbúða á 5 árum með tilteknum lánskjörum til handa þeim, sem framkvæmdanna áttu að njóta. Í annan stað minni ég á lagabreytingu, sem í kjölfarið fylgdi og staðfesti, að hin nýju og hagstæðu lánakjör yrðu ekki Reykvíkingum einum til hagsbóta, heldur láglaunafólki um land allt, þar sem þarfir þess væru sambærilegar, enda raunar um svo sjálfsagt réttlætismál að ræða, að ekki gat verið umdeilt.

Það verður ekki annað sagt, að í reynd og framkvæmd hafi hin gefnu loforð og þau sterku vilyrði; sem í löggjöfinni fólust gagnvart láglaunafólki úti um land, orðið mjög á annan veg en vonir stóðu til og að mjög þurfi að færa mál þessi til betri vegar, ef viðunandi eiga að vera og að sumu leyti ekki beinlínis til tjóns fyrir eðlilega og æskilega byggingastarfsemi í landinu.

Er þar fyrst til að taka, að loforðin frá 1965 hafa í framkvæmdinni orðið fyrir allmiklu hnjaski, að sumu leyti vafalaust af afsakanlegum ástæðum, en að öðru leyti af orsökum, sem skyldari hljóta að teljast brigðum en efndum. Framkvæmdir hér í Reykjavík við hinar 1.250 íbúðir hafa gengið miklu hægar, en lofað var og verður sýnilega ekki lokið á tilsettum tíma. Verður af því mikið óhagræði og beint fjárhagstjón fyrir þá, sem vænzt geta úrlausnar sinna húsnæðisþarfa í sambandi við þær. Reykjavíkurborg hefur ekki staðið við skuldbindingar sínar, sem voru að taka á sig 1/5 hluta framkvæmdakostnaðar. Er Reykjavíkurborg því raunverulega skuldug við Breiðholtsframkvæmdirnar um marga milljónatugi, hefur aðeins lagt fram um 13 millj. kr. af heildarkostnaði, sem er orðinn um 330 millj. eða var það í október s.l. samkvæmt upplýsingum hæstv. félmrh., sem hann gaf hér á hv. Alþ. 23. okt. s.l. Engin sérstök fjáröflun hefur farið fram vegna Breiðholtsframkvæmdanna, svo sem flestir munu hafa vænzt og raunar hlaut að vera óhjákvæmilegt, að öðru en því, að Atvinnuleysistryggingasjóður hefur lánað til þeirra 30 millj. kr. á árinu 1967 og sömu upphæð á árinu 1968. Afleiðing þessa hefur svo orðið sú, að Breiðholtsframkvæmdirnar hafa hvílt með óbærilegum þunga á starfsemi Húsnæðismálastofnunarinnar, sem hafði til okt. s.l. lagt fram til þeirra 243 millj. kr. af 331 millj., sem heildarkostnaðurinn þá nam. En aðeins 941/2 millj. af þeirri upphæð eru hin venjubundnu lán stofnunarinnar til íbúðakaupenda. Nærri því 150 millj. kr. eða fast að helmingi heildarkostnaðarins er því raunverulega skuld við Byggingasjóð ríkisins, sem svo kemur fram sem illþolanlegur baggi á starfsemi hins almenna veðlánakerfis og torveldar, að það geti svarað lánaþörf húsbyggjenda með fullnægjandi hætti. Mun það láta nærri, eftir því, sem mér sýnist, að ef skuldasöfnun Breiðholtsframkvæmdanna við byggingasjóð verður við lok þeirra hlutfallsleg við það, sem hún er nú, þýði hún lánasamdrátt í veðlánakerfinu, sem nemur lánum til svipaðs íbúðafjölda og byggður verður í Breiðholti á vegum framkvæmdanefndarinnar, þegar þær eru fullgerðar, þannig að niðurstaðan verður því sú, að það verða alls ekki byggðar fleiri íbúðir í landinu þrátt fyrir þessa framkvæmd. Það er þó e.t.v. ekki svo mjög um það að fást, þó að Breiðholtsframkvæmdirnar dragi nokkuð úr öðrum byggingaframkvæmdum í Reykjavík, þó að það hafi tæpast verið ætlun þeirra, sem að samkomulaginu um þær stóðu 1965, enda er ávinningurinn samt augljós, þ.e.a.s. lækkaður byggingarkostnaður vegna stöðlunar og hagstæð áhrif þeirrar lækkunar á íbúðamarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu og svo að sjálfsögðu hin tiltölulega hagstæðu lánskjör, sem gert hafa og væntanlega halda áfram að gera nokkrum hluta launafólks unnt að skapa sér viðunandi húsnæði, sem hefði tæpast átt þess kost með öðrum hætti.

Hitt er sýnu lakara og ámælisverðara, að svo skuli að þessu máli öllu hafa verið staðið, að óviðunandi mismunun veldur milli íbúa höfuðborgarinnar og þeirra, sem byggja kaupstaði og kauptún úti á landi. Er þar ekki einasta, að skuldasöfnun við byggingasjóð veldur beinum samdrætti í íbúðabyggingum víðsvegar um land, heldur einnig hitt, að láglaunafólki utan höfuðborgarsvæðisins er meinað að njóta þeirra hagsbóta, sem hin nýja skipan lánamála í sambandi við Breiðholtsframkvæmdirnar veitir. Því að eins og ég áður sagði, hefur enn ekkert fé verið veitt eða þess aflað til hliðstæðra framkvæmda annars staðar þrátt fyrir brýnar þarfir og tryggingar fyrir uppfyllingu allra skilyrða, sem fullnægja ber samkvæmt lögunum. Er þessi mismunun enn berari, þegar þess er gætt, að fjár til framkvæmdanna er, eins og nú er háttað, að svo til öllu leyti aflað að hlutfallslega jöfnu um land allt, þ.e.a.s. með launaskatti, sem hvílir jafnt á atvinnurekstri hvar sem er í landinu og skyldusparnaði og iðgjöldum til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Með framkvæmdinni, eins og hún er og hefur verið, er því raunverulega verið að draga í verulegum mæli fé úr hinum dreifðu byggðum og frá fjárvana byggðarlögum til höfuðborgarsvæðisins. Og það er að mínu viti ekki góð byggðastefna. Enginn skilji þó þessi orð mín svo, að ég eða við flm. þessarar þáltill. sjáum ofsjónum yfir framkvæmdunum í Breiðholti. Þeirra var vissulega brýn þörf, og í alla staði var það eðlilegt og sjálfsagt, að slík tilraun og byrjun til skipulegs átaks í húsnæðismálum láglaunafólks væri hafin hér á höfuðborgarsvæðinu, þar sem húsnæðisskortur og húsnæðisokur hafa á undanförnum árum sorfið einna sárast að. En á binn bóginn verður ekki séð, að með nokkru móti verði réttlætt, að til langframa gildi ekki hinn sami réttur í þessum efnum hvar sem er í landinu, enda er nú svo komið, að þarfir verða að teljast jafnbrýnar á íbúðabyggingum a.m.k. allvíða utan höfuðborgarsvæðisins eins og þar. Það er því skýlaust réttlætis– og nauðsynjamál, að heimildarlög um byggingar staðlaðra íbúða með hinum sérstöku lánskjörum til láglaunafólks verði þegar látin koma til framkvæmda með því að útvega fjármagn til þeirra framkvæmdanefnda byggingaráætlunar, sem myndaðar hafa verið og lagt hafa fram sannanir fyrir byggingaþörf á viðkomandi stöðum og uppfyllt verða öll lögbundin skilyrði til annarra, sem það kunna að gera. En þetta verður ekki gert með því einu að halda áfram að þrengja að útlánastarfsemi Húsnæðismálastofnunarinnar á vegum hins almenna veðlánakerfis, eins og gert hefur verið. Þvert á móti þarf að vinna að því að afla sérstaks fjármagns til byggingaáætlananna, helzt svo að unnt væri að greiða skuldir Breiðholtsframkvæmdanna við Byggingasjóð ríkisins hið fyrsta og örva þannig hina almennu byggingastarfsemi, sem nú er að komast í algeran öldudal vegna fjármagnsskorts og stórfelldra hækkana á öllum byggingakostnaði í kjölfar tveggja gengisfellinga. Það er vafalaus þjóðhagsleg nauðsyn að halda byggingastarfsemi sem jafnastri frá ári til árs, en ástandið er þannig nú, að annars vegar blasa við hundruð ef ekki þúsundir af hálfgerðum íbúðum, sem húsbyggjendur ráða ekki við að halda áfram framkvæmdum við vegna vanmáttar lánakerfisins, og stórfelldur samdráttur í byggingarframkvæmdum við byggingar. Á hinu leitinu blasir m.a. við, sem bein afleiðing, stórfellt atvinnuleysi byggingariðnaðarmanna um allt land. Ef hér á ekki að stefna í algert óefni, verður að taka mannalega á vandanum og gera fullnægjandi ráðstafanir, til að byggingariðnaðurinn, svo mikilvægur sem hann hlýtur ávallt að vera og verða í okkar atvinnulífi, geti starfað jafnt og eðlilega.

Nú, þegar byggingarkostnaður hefur vaxið svo gífurlega, sem raun ber vitni, en kjör almennings og framkvæmdageta skerzt samtímis, er vafalaust, að bætt lánskjör til bygginga og aukin lánastarfsemi eru grundvallaratriði, ef á að vera unnt að bægja frá atvinnuleysi í þessari starfsgrein og forða þeim háska að þjappa saman byggingarþörf þjóðarinnar, sem síðar leiðir svo til þess, að þessi þörf brýzt fram með margvíslegum skaðlegum afleiðingum fyrir allt efnahagskerfi þjóðarinnar. Í þeim efnum höfum við ærið dýrkeypta reynslu, sem ætti að verða okkur að kenningu.

Að öðru leyti læt ég svo nægja, herra forseti, að vísa til grg. okkar flm. með till. og vænti þess, að hv. Alþ. láti með samþykkt hennar í ljós ótvíræðan vilja sinn um það jafnréttis– og nauðsynjamál, sem hér er flutt. Ég legg svo til, að till. verði vísað til hv. fjvn.