12.02.1969
Sameinað þing: 28. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í D-deild Alþingistíðinda. (3277)

92. mál, fjárframlög vegna byggingaráætlunar í Breiðholti

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig alveg rétt, sem fram kom hér hjá hv. frsm. þessarar till., hv. 2. þm. Austf., að Húsnæðismálastofnunina og Byggingarsjóð ríkisins skortir mjög fé.

Húsnæðismálastofnunin hefur heimild til þess að lána margvísleg lán. Í fyrsta lagi almenn húsnæðismálalán, í öðru lagi viðbótarlán til fólks, sem er innan verkalýðshreyfingarinnar, — 75 þús. kr. lán til viðbótar — og í þriðja lagi eru lánuð sérstök lán til þeirra, sem fá lán úr lífeyrissjóðum, sem eru lægri, en hin almennu húsnæðismálalán. Þá getur sjóðurinn eða stofnunin ennfremur lánað til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis og til sveitarfélaga til byggingar leiguíbúða. Hann getur lánað og lánar til byggingaráætlana eins og þeirrar, sem hér hefur sérstaklega verið gerð að umtalsefni, þar sem lánveitingarnar eru 80% eða reyndar má nú segja, að þær séu í upphafi 90%, þar sem 5% eiga að borgast á ári tvö fyrstu árin eftir afhendingu. Og það má þess vegna auðvitað rökstyðja það, að þegar húsnæðismálastjórn veitir lán einhverrar sérstakrar tegundar eins og þessi, sem ég hef talið upp, verði það til þess að rýra möguleika húsnæðismálastjórnar til þess að lána öðrum. Það er auðvitað alveg ljóst, þar sem stofnunina skortir mjög fé. Þess vegna er út af fyrir sig hægt að segja, að það, sem lánað hefur verið til byggingaráætlunar í Breiðholti hefðu aðrir getað fengið, ef hún hefði ekki þurft að lána þangað og þannig má segja um allar þessar lánategundir, sem ég nefndi hér.

Hv. flm. vitnaði til þeirrar yfirlýsingar, sem ríkisstj. gaf út í júlímánuði 1965, þar sem stofnað var til þessara byggingaráætlana og þar sem hann sagði, að samið yrði við Atvinnuleysistryggingasjóð um lánveitingar út á þessar íbúðir, sem komi til viðbótar lánum frá húsnæðismálastjórn. Þetta stendur í yfirlýsingunni. Ég hef oft spurt þá menn, sem um þessi mál fjölluðu, áður en þessi yfirlýsing var gefin, hvað hefði verið meint með þessu, hvort þarna hefði verið átt við það, að húsnæðismálastjórn veitti venjuleg húsnæðismálastjórnarlán að viðbættum þessum verkalýðslánum, sem eru 75 þús. kr. á íbúð eða hvort meiningin væri, að það fjármagn, sem þyrfti umfram þetta, þar sem lánið væri svo hátt, ætti að koma annars staðar að, frá Atvinnuleysistryggingasjóði eða einhvers staðar annars staðar frá. Um þetta hef ég reyndar aldrei fengið nokkur skýr svör. Út af fyrir sig má kannske skilja þessa yfirlýsingu á þann veg, að þetta hafi verið hugsunin, en þeir menn, sem að þessu stóðu og um þessi mál sömdu, áður en yfirlýsingin var gefin út, treysta sér samt sem áður ekki til að fullyrða um það, segja bara, að þetta hafi kannske ekki verið athugað sem skyldi, menn hafi ekki hugsað sem skyldi út í þetta þá.

Aðalástæðan til þess, að ég stóð hér upp, var ekki sú að fara að rekja hér þennan þátt yfirlýsingarinnar og hvernig ætti að skilja hann, heldur var það annað atriði, sem mér fannst á skorta, að kæmi fram hjá hv. þm., og það er lagasetningin í árslok 1965, sem er beinlínis gerð í framhaldi af þessari yfirlýsingu og það eru lög, sem samþ. voru á Alþ. 15. des. 1965, og fjalla um breyt. á lögum frá 10. maí 1965 um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Þar segir meðal annars í 3. gr. þessara laga, þar sem verið er að rekja, hvers konar lánveitingar húsnæðismálastjórn megi veita. Þar er í 2. gr., sem komin er, minnzt á þessar sérstöku íbúðir, sem á að byggja samkvæmt byggingaáætlunum, og svo segir í 3. gr.

„Láglaunafólk í verkalýðsfélögum skal hafa forkaupsrétt á íbúðum þeim, sem byggðar eru samkvæmt 3. málsgr. 3. gr. þessara laga og er heimilt að veita meðlimum verkalýðsfélaga lán til kaupa á íbúðunum, sem nemur 4/5 hlutum af verðmæti íbúðar og skal þá telja gatnagerðargjald með verðmæti íbúðanna.“

Ég vil sérstaklega benda á þetta ákvæði, að þarna er það undirstrikað, að húsnæðismálastjórn hefur fullkomna lagaheimild til þess að lána 80% lán út á þessar íbúðir. Hún hefur fullkomlega lagalega heimild til þess samkvæmt þessu ákvæði,og þess vegna hefur húsnæðismálastjórn, þegar hún veitti þessi lán, ekki gert annað en það, sem henni var fullkomlega heimilt að lögum. Þar sem húsnæðismálastjórn hefur hins vegar ekki nægilegt fjármagn undir höndum, má auðvitað alltaf deila um, hvort hún hefði átt að veita þessi lán eða einhver önnur.

Mér finnst þess vegna skjóta nokkuð skökku við, að flytja um þetta þáltill., því að eftir eðli málsins finnst mér, að það hefði legið nær, að flm. hefðu flutt frv. til breyt. á þessum ákvæðum laga um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Það er fyrst og fremst þetta, sem olli því, að ég stóð hér upp, að mér fannst hv. frsm. ganga fram hjá þessu atriði, að samkvæmt gildandi lögum sem ég held, að enginn ágreiningur hafi verið um hér í þinginu og hv. frsm. hafi greitt sitt atkv. með, ef ég man rétt, að þá er þetta fullkomlega lögum samkvæmt, að Húsnæðismálastofnun hefur veitt 80% lán út á íbúðirnar í Breiðholti.