23.04.1969
Sameinað þing: 43. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í D-deild Alþingistíðinda. (3370)

168. mál, sumaratvinna framhaldsskólanema

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykn. var að snupra mig í dag fyrir, að ég skyldi dyrfast að spyrja hæstv. félmrh. um mál, sem hann virtist telja einkamál sitt. Nú langar mig að spyrja þennan hv. þm., hvort hann telji málatilbúnað af því tagi, sem hann hefur hér gengizt fyrir, vera líklegan til árangurs. Hér hafa verið viðstaddir um það bil 10 þm. Sá ráðh., sem hv. þm, er að ræða við, er ekki viðstaddur í þingsölunum. Það voru allar horfur á því, að þegar hv. þm. lyki að flytja ágæta ræðu sína færi málið til n. Við skulum segja, að sú n. verði hraðvirkari en sumar þn. hafa verið að undanförnu, en naumast kemur árangur hennar fyrr, en í maímánuði og á þá Alþ. að samþykkja ályktun, sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að gera hið fyrsta ráðstafanir til þess að tryggja svo sem auðið er, að framhaldsskólanemar eigi kost góðrar sumaratvinnu.“

Dettur hv. þm. í hug, að atvinna skólanemenda verði tryggð, ef í maímánuði verður samþ. áskorun á ríkisstj. um að gera ráðstafanir hið fyrsta? Auðvitað er þetta tóm endaleysa. Það þýðir ekkert að halda þannig á þessum málum, úr því sem komið er. Þetta mál er komið í algeran eindaga. Ríkisstj. hefur svikizt um að efna loforð, sem hún er margbúin að gefa og hún hefur gefið í meira en heilt ár. Það, sem við alþm. þurfum að gera, er að flytja hreinlega till. um fjárveitingar til þessara athafna.

Þarna er um að ræða 8.000 nemendur. Við skulum segja, að þeir fari í almenna verkamannavinnu, þar sem kaupið er lágt, 10 þús. kr. á mánuði. Fyrir allan þennan hóp er þar um að ræða 80 millj. á mánuði. Menn munu þurfa a.m.k. þriggja mánaða vinnu, það eru 240 millj. Þetta er allveruleg upphæð, en engu að síður tel ég, að ríkisstj. geti lagt fram hluta af þessari upphæð og gert jafnframt ráðstafanir til þess, að atvinnureksturinn í landinu standi undir aukinni atvinnu þar á móti. En það er þetta, sem nú blasir við; barátta fyrir því, að hæstv. ríkisstj. standi við þau loforð, sem hún er búin að gefa fyrir löngu.

Raunar er eitt afl í þjóðfélaginu, sem ég held, að gæti ýtt allverulega við hæstv. ríkisstj. eins og er og það eru nemendurnir sjálfir. Það hefur komið í ljós aftur og aftur, að þegar nemendur láta að sér kveða, er látið undan þeim. Ég held, að það, sem nú þurfi að gera, sé að vísa þessu máli beint til nemendanna í framhaldsskólunum og benda þeim á, að þeir verði að heyja kjarabaráttu alveg á sama hátt og launafólkið á Íslandi.