30.10.1968
Sameinað þing: 6. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í D-deild Alþingistíðinda. (3571)

256. mál, landhelgissektir

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það var aðeins út af þessari síðustu spurningu hv. 1. þm. Norðurl. e., – hvort ég gæti nokkuð svarað til um það, hvenær n. sú, sem skipuð var í byrjun októbermánaðar og hann vék að, mundi ljúka störfum. Ég get því miður ekki veitt neinar upplýsingar um það, en ég vil auðvitað láta í ljósi mína skoðun á því, að ég tel það mikla og brýna nauðsyn, að hún ljúki mjög fljótt störfum. Og þá vil ég árétta, vegna gagnrýni, sem komið hefur fram í blöðum á skipun þessarar n., að hún hefði átt að vera öðruvísi skipuð, — þ.á.m. fulltrúum hinna eða þessara aðila, — að menn verða að átta sig á því, að viðkomandi aðilar hafa látið í ljósi sínar skoðanir og þeirra ályktanir liggja fyrir. Og þegar við höfðum rætt um þetta okkar í milli, sjútvrh. og ég, var auðvitað tilgangurinn með fárra manna n., að hún hefði til meðferðar þau plögg, sem í þessum málum eru og ályktanir stærri samtaka og viljayfirlýsingar úr einstökum héruðum og reyndi að fóta sig í samráði við þingflokkana á einhverjum niðurstöðum í þessu. Meira treysti ég mér ekki um þetta að segja, en ég vil minna á, að óformleg n. allra þingflokkanna eða fulltrúar frá öllum þingflokkunum voru starfandi hér lengst af á síðasta þingtíma til þess að reyna að vinna að niðurstöðu í þessu máli. Hvað á ég þá við með niðurstöðu í þessu máli? Það er endurskoðun eldri laga og nýjar reglur, sem væru þess eðlis, að hægt væri að framfylgja þeim og taka einnig tillit til fleiri sjónarmiða en koma fram í lögum frá 1921 um bann við botnvörpuveiðum í landhelgi, því að sjónarmiðin eru náttúrlega gagnólík frá því sem var á þeim tíma, þegar þau lög voru sett.

Ég minni líka á, að í baráttu okkar fyrir víkkun landhelginnar byggðum við auðvitað á ýmsum rökum. En við drógum aldrei dul á þá röksemd, að við ættum landhelgina eða 12 mílna landhelgi og það hvíldi ekki aðeins skylda á okkur til þess, ef við vildum hafa hana fyrir okkur, að rányrkja hana ekki, heldur einnig að hagnýta hana til hagsbóta fyrir fólkið í landinu.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta, en ég vildi bara ekki láta undir höfuð leggjast að segja þessi fáu orð af þessari beinu fsp., en þetta er mál, sem ég tel að, að mörgu leyti gæti betur farið á, að við ræddum meira okkar á milli og þá vil ég segja fulltrúar allra þingflokka, heldur en á opnum fundum, eins og hér eru, þó að auðvitað verði ekki hjá því komizt að svara fsp., sem beint er til manns.