13.11.1968
Sameinað þing: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í D-deild Alþingistíðinda. (3621)

261. mál, Áburðarverksmiðjan

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Mér þykir ástæða til þess að vekja athygli á því í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram, að það er sannarlega kominn tími til þess að breyta þeim reglum, sem gilda á Alþ. um fsp. og ræðutíma ráðh.

Að þessu sinni höfum við hlustað á, að hér hefur verið borin fram fsp. Hún var rökstudd með nokkrum orðum og lesin upp. Síðan kemur ráðh. upp í ræðustólinn, og hann byrjar ekki á því að svara fsp., heldur á því að halda langa skammaræðu (Gripið fram í: Til þess að svara skammaræðu.) Til þess að svara skammaræðu? Hann hafði ekki verið skammaður neitt. Fsp. höfðu verið rökstuddar. Og hann heldur síðan langa skammaræðu yfir þm. Og þegar hann í lok máls síns víkur að fsp., er það ekki nema rétt í hliðargötu og má þá vitanlega ekki vera að því að svara þeim með eðlilegum hætti. Þetta er vitanlega alveg óþolandi, og það á að breyta þessum reglum, eins og fulltrúar frá öllum þingflokkum lögðu til og till. liggja fyrir um í þinginu.

Það er alveg sérstakt með hv. landbrh., hvernig hann hagar sér yfirleitt í þessum efnum, því að hann virðist ekki skilja, til hvers fyrirspurnatíminn er. Það er svo auðvitað mál út af fyrir sig, hvernig hann ræðir um þessi mál. Þegar hann fer að skamma fyrirspyrjanda í þessu tilfelli og bera honum á brýn fávizku í sambandi við þau mál, sem hér var verið að ræða um, hlaut hæstv. ráðh. auðvitað fljótlega að reka sig á, að hans málflutningur allur hlaut að hljóma allundarlega í eyrum þm., sem eitthvað hafa fylgzt með því, sem var að gerast í landinu.

Hæstv. landbrh. þarf ekki að halda, að það hafi aðeins verið hv. fyrirspyrjandi, hv. 6. þm. Sunnl., sem hafi heyrt það frá bændum í landinu, að þeir væru óánægðir með þann áburð, sem þeir yrðu að kaupa, vegna þess að við aðrir alþm. höfðum lesið fjöldamargar samþykktir, sem komið hafa frá samtökum bænda í landinu, þar sem þeir gera kröfu um að fá m.a. fullt frelsi til þess að velja þann áburð, sem þeir þurfa að nota. Þetta hefur ekki getað farið fram hjá hæstv. ráðh. Frammámenn í landbúnaðarmálum úr einstökum héruðum hafa komið fram í útvarpi með þætti, þar sem þeir gerðu kröfu um að fá þennan rétt. Svo kemur hæstv. landbrh. og segir yfir okkur alþm., að þetta sé bara fávizka eins þm., að vera að halda þessu fram. Hvað á svona málflutningur að þýða? Og þetta á að vera í svörum við tiltekinni fsp.

En það var svo margt annað, sem var fróðlegt í svörum hæstv. ráðh. eða í ræðumennsku hans. Þó er aðeins eitt, sem ég hef tíma til í mínum takmarkaða ræðutíma að minnast á. Það kom auðvitað í ljós, að hann vill viðhalda því verzlunar formi, sem nú á sér stað með áburð í landinu og hann er manna mest ábyrgur fyrir, því að hann knúði það í gegn með mikilli hörku á sínum tíma að leggja raunverulega niður stofnun, sem starfað hafði um alllangan tíma, Áburðarverzlun ríkisins og leggja hana undir stjórn Áburðarverksmiðjunnar, þannig að það væri alveg tryggt, að öll sjónarmið þess rekstrar yrðu ráðandi í sambandi við sölu á áburði. En nú segir hæstv. ráðh.: Það væri alveg ómögulegt að reka Áburðarverksmiðjuna nema tryggja henni þennan einokunarrétt. Hún verður, jafnvel þó að hún framleiði hér áburð við samkeppnisfæru verði, að hafa þennan rétt. Annars væri ekki hægt að reka hana. Það er fróðlegt í þessu efni að minnast á það, að þetta var eitt af því, sem við í hinni margumtöluðu EFTA–nefnd spurðum hina erlendu sérfræðinga um, sem hér mættu hjá okkur, hvernig yrði nú t.d. um rekstur Áburðarverksmiðjunnar og Sementsverksmiðjunnar samkvæmt EFTA—reglunum, hvort við hefðum þá leyf í til þess að reka þessar verksmiðjur á þann hátt, sem við gerum, að banna innflutning eða láta þær hafa sérrétt í sambandi við þessi efni. Og við fengum auðvitað alveg skýlaust þau svör, að samkvæmt EFTA—reglunum væri þetta óheimilt. Nei, það mun fara þannig fyrir þessum hæstv. ráðh., að það verður nokkuð erfitt fyrir hann að ætla að halda uppi slíkum reglum, sem hann vill hafa hér almennt í verzlunarmálum í landinu, eins og sérreglum í hverju einstöku tilfelli, þar sem honum þykir það henta. Það getur orðið nokkuð erfitt.

Ég held, að það sé sannarlega kominn tími til þess að breyta um skipan í sambandi við áburðarsölumálin. Þar ríkir hið mesta ófremdarástand, á því er enginn vafi. Enda er það svo, að þegar t.d. bóndi kemur hérna upp í ræðustólinn til þess að ræða um þessi mál, — bóndi úr Eyjafirði, sem hér talaði, — þurfti ekki lengi að hlusta til þess að heyra, hvers konar óánægja er um framkvæmdina á áburðarsölunni hjá bændum. En það virðist vera svo, að hæstv. landbrh. hafi ekki skilið það enn. Hann ætlar enn að lemja hausnum við steininn.

Vegna þess að ræðutími minn er búinn, skal ég ekki syndga verulega með því að fara fram yfir tilsettan tíma, en ég tel, að einmitt það, sem hefur gerzt í þessum málum í þessum fyrirspurnatíma, sýni mönnum, að það er orðin knýjandi nauðsyn að breyta þingsköpum varðandi fyrirspurnatíma, því að svo eru þeir misnotaðir af hálfu ráðh.