27.11.1968
Sameinað þing: 15. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í D-deild Alþingistíðinda. (3664)

265. mál, akstursmælar í dísilbifreiðum

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 64 leyft mér að spyrja samgrh. um akstursmæla í dísilbifreiðum á þessa leið:

„Hvað líður undirbúningi að notkun á akstursmælum í dísilbifreiðum vegna þungaskatts?“

Eins og þm. muna, voru samþ. 9. apríl ný lög um þungaskatt o.fl. á bifreiðar. Þessi skattur var verulega aukinn, vegna þess að nauðsyn er að gera átak í vegamálunum, og í b–lið 4. gr. umræddra laga segir m. a., með leyfi forseta:

„Af bifreiðum, sem nota annað eldsneyti en benzín: Fyrir bifreiðar allt að 2.000 kg að eigin þunga greiðast 14.500 kr. Fyrir bifreiðar 2.001 kg og þyngri greiðast 14.500 kr. og auk þess 500 kr. fyrir hver full 100 kg umfram 2000 kg.

Ráðh. er heimilt að ákveða með reglugerð, að ökumælar skuli á kostnað eiganda settir í bifreiðar, sem nota annað eldsneyti en benzín og eru 5 tonn eða meira að eigin þyngd og að greiða skuli fyrir slíkar bifreiðar í stað árlegs þungaskatts sérstakt gjald fyrir hvern ekinn km samkv. ökumæli. Í reglugerð er ráðh. enn fremur heimilt að ákveða tvo gjalddaga árlega fyrir þungaskatt og allt að 4 gjalddaga árlega fyrir km–gjald, svo og kveða á um tegundir mæla, ísetningu þeirra, viðgerðir, viðurlög og refsingar fyrir brot gegn reglugerðinni.“

Nú er það vitað mál, að þungaskatturinn var ekki hugsaður sem nefskattur á eiganda bifreiðar, heldur sem gjald vegna notkunar á vegunum og allir vita, að akstur er mjög misjafn á þessum stóru dísilbifreiðum. Sumar eru nokkuð staðbundnar og mætti í því efni nefna Vestmannaeyjar. Þeir keyra nú ekki mörg þús. km þar. Hins vegar eru bifreiðar á öðrum stöðum á landinu, sem keyra jafnvel tugi þús. km. Þess vegna er það mjög óeðlilegt, enda ætlast löggjafinn ekki til þess, að þungaskatturinn sé föst tala, heldur miðaður við akstur. Þá eru ökumælarnir, sem lögin gera ráð fyrir, nauðsyn í hverja bifreið og mér leikur forvitni á að vita, hvað líður undirbúningi að ísetningu þeirra.