24.10.1968
Sameinað þing: 5. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

1. mál, fjárlög 1969

Geir Gunnarsson:

Herra forseti, góðir hlustendur. Það fjárlagafrv., sem hér er til 1. umr., er tíunda fjárlagafrv. hv. núv. ríkisstj. Vegna vaxandi aflamagns og hækkandi afurðaverðs færði sjávarútvegurinn síaukin útflutningsverðmæti í þjóðarbúið allt þetta tímabil að undanskildum tveim s.l. árum, að útflutningsverðmæti hvors árs um sig hefur fallið niður í ámóta upphæð og árið 1962, en er þó hærra en öll árin þar á undan. Afleiðingarnar af því, að útflutningsverðmætið hefur ekki haldið áfram að hækka sem áður líka hinn tvö síðustu árin, eru þær, að hrun blasir við útgerðinni og geigvænlegt atvinnuleysi um land allt, ef ekki verður gripið til sérstakra ráða, og ríkisstjórnarflokkarnir hafa boðað nýjar efnahagsaðgerðir, sem hafa í för með sér stórfellda kjaraskerðingu hjá almenningi í landinu til viðbótar við þá kjaraskerðingu, sem þegar er komin fram. Það er ekki að undra, þótt almenningur spyrji: Hvers vegna þolir útgerðin ekki það aflamagn og afurðaverð, sem þjóðin bjó við fyrir svo sem fjórum árum og var þá hið mesta og hagkvæmasta, sem þá hafði nokkru sinni þekkzt? Ætti útgerðin og þjóðin öll jafnvel ekki að standa betur að vígi en þá, ef haft er í huga, að hún ætti nú að njóta þess afraksturs, sem á hverju áranna 1963, 1964, 1965 og 1966 fékkst fram yfir verðmætasköpun ársins 1962? Samanlagt nemur sú upphæð um 6 þús. millj. kr. á því gengi, sem þá gilti. Í umr. um efnahagsmál miða fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna aldrei við annað en þessi allra mestu toppár, en ætti ekki einmitt hinn stórkostlegi aukaafrakstur þeirra að auðvelda þjóðinni að mæta nú sömu verðmætasköpun þjóðarbúsins og 1962? Að sjálfsögðu, ef allt hefði verið með felldu um stjórnarstefnuna undanfarin veltiár, ef ríkisstjórnarflokkarnir hefðu einbeitt sér að baráttu gegn verðbólgunni í stað þess að kynda undir henni með öllum sínum gerðum þennan tíma og valda því, að nú búa útflutningsatvinnuvegirnir við allt annað og óhagkvæmara verðlag innanlands en árið 1962. Stjórnarflokkarnir hafa hiklaust framkvæmt hverjar verðbólguráðstafanirnar á fætur öðrum í trausti þess, að árleg aflaaukning og sífellt hærra markaðsverð fleytti útgerðinni áfram, en þessi stefna hefur leitt til þess, að jafnskjótt og það gerist, sem ávallt hlýtur að fylgja útgerð, að afli minnkar um tíma og afurðaverð lækkar niður fyrir það, sem það hefur hæst orðið skamman tíma, þá hrynur öll spilaborgin.

Vissulega hlýtur það jafnan að valda erfiðleikum hjá fiskveiðaþjóð, þegar aflaminnkun og lækkun á afurðaverði á sér stað, jafnvel þótt það verði í kjölfar langs tímabils sívaxandi aflaverðmæta, en það, sem sker úr um, hversu útgerðin og þjóðin í heild er í stakkinn búin til þess að mæta slíkum atburðum, er sú stefna, sem stjórnarvöldin hafa beitt í verðlagsmálum og efnahagsmálum almennt á því tímabili, sem á undan er gengið. Almenningur í landinu hefur nú þegar tekið á sig í ríkum mæli með skertum lífskjörum þá minnkun, sem orðið hefur í verðmætasköpuninni s.l. tvö ár. Aflahlutir sjómanna hafa hrapað stórlega, og verulegur samdráttur í vinnu hvarvetna á landinu hefur stórskert launatekjur, samtímis því sem framfærslukostnaður hefur hækkað mjög vegna aukinnar dýrtíðar. Þegar stjórnarflokkarnir boða nú, að til viðbótar því, sem orðið er, þurfi launþegar enn að taka á sig stórfellda lífskjaraskerðingu vegna nýrra efnahagsráðstafana, sem nauðsynlegar séu, til þess að útflutningsatvinnuvegirnir geti staðizt það að búa við ámóta verðmætasköpun og um var að ræða fyrir fjórum árum og var þó hin mesta í sögu þjóðarinnar, þá er alþýða landsins að súpa seyðið af viðreisnarstefnunni.

Viðreisnarstefnan hefur byggzt á því að láta blind gróðalögmál hins kapítalíska þjóðfélags algerlega um þróun atvinnuveganna, en afnema sem mest alla samfélagslega stjórn og skipulagningu á atvinnulífinu í landinu. Sú stefna hefur haft þau tvö grundvallarsjónarmið, að gjaldeyrisverðmæti frá útflutningsatvinnuvegunum skyldu vera til sem allra frjálsastrar ráðstöfunar fyrir þá einkaaðila, sem fjármagninu ráða, til innflutnings og fjárfestingar í gróðaskyni án nokkurs tillits til hagsmuna þjóðarheildarinnar og samhliða því fylgdi sem allra mest frjálsræði til álagningar.

Þessi tvö grundvallarstefnumið stjórnarflokkanna eru í beinni mótsögn við alla viðleitni til að sporna við þeirri verðbólgu, sem er útflutningsatvinnuvegunum hættulegust og hefur nú komið þeim á heljarþröm. Þessi stefna hefur skapað þann vítahring, að stjórnarflokkarnir hafa við afgreiðslu hverra fjárl. mætt afleiðingunum af þessari verðbólgustefnu sinni með neikvæðum ráðstöfunum, skattahækkunum og nýjum álögum, sem hafa enn aukið tekjukröfur ríkissjóðs og magnað verðbólguna. Slíkar ráðstafanir hafa hlaðið upp reksturskostnaðinn innanlands, og á þeim hefur ekkert lát orðið öll þessi ár, þegar aflamagn og afurðaverð fór þó síhækkandi ár frá ári. Þessi vítahringur viðreisnarinnar, vítahringur sjálfvirkrar verðbólgumyndunar, verður ekki rofinn nema með stefnubreytingu í fjárfestingar-, innflutnings- og verðlagsmálum. Það sést bezt nú, að sú stefnubreyting hefði þurft að vera komin á fyrir löngu. Þá væri við minni vanda að kljást. Efnahagsráðstafanir, sem gerðar yrðu nú án slíkrar grundvallarstefnubreytingar, kæmu að engu haldi og yrðu aðeins áframhald á þeim verðbólguvítahring, sem við höfum búið við, með enn afdrifaríkari afleiðingum í verðlagsmálum en nokkru sinni fyrr. Undanfarin ár, þegar við hefur verið að etja verðbólguáhrif stjórnarstefnunnar, hafa stjórnarflokkarnir hunzað allar tillögur Alþb. um jákvæðar lausnir. Um stjórn á fjárfestingar- og innflutningsmálum og öllum atvinnumálum og um niðurskurð á rekstrarkostnaði ríkisbáknsins og þar með minni skattheimtuþörf ríkissjóðs og um ráðstafanir til þess að lækka rekstrarkostnað útgerðarinnar með lækkun vaxta og hagkvæmari lánakjörum og með sérstökum ráðstöfunum til lækkunar á vissum rekstrarvörum, m.a. þeim að koma í veg fyrir óþarfakostnað af þreföldu dreifingarkerfi olíufélaganna, og síðast en ekki sízt með endurnýjun togaraflotans og sérstökum ráðstöfunum til meiri fullvinnslu aflans. En ríkisstjórnarflokkarnir völdu í hvert eitt sinn hinar neikvæðu aðgerðir, hærri álögur á landsmenn í því skyni m.a. að skila einhverjum af þeim aftur til útgerðarinnar, svo að hún gæti fleytt sér þar til hin nýju verðbólguáhrif af þessum sömu ráðstöfunum hefðu að fullu komið fram í efnahagskerfinu. Verulegur hluti af hinum árlegu auknu skatta- og tollatekjum var svo notaður til að þenja út ríkisbáknið.

Nú þegar boðaðar eru stórfelldar efnahagsaðgerðir vegna aflaminnkunar er ástæða til að rifja upp ráðstafanir stjórnarflokkanna nokkur hin síðustu ár, sem á undan eru gengin, þegar við engan slíkan vanda var að glíma, heldur féll þjóðinni í skaut árlega stórfelld aukning á útflutningsverðmætum, því að þær ráðstafanir ásamt því stefnumiði að viðhalda stjórnlausri fjárfestingu og hömlulausum innflutningi valda mestu um það, hvernig nú er komið og hversu illa framleiðsluatvinnuvegirnir eru undir það búnir að mæta aflaminnkun og lækkun á afurðaverði. Árið 1963 óx útflutningsverðmæti þjóðarbúsins um nálega 11.5% frá árinu áður. Fjárl. fyrir næsta ár, þ.e.a.s. 1964, voru afgreidd með 430 millj. kr. hækkun á sköttum og tollum, en það dugði hæstv. ríkisstj. ekki, heldur varð þegar í janúar að umturna nýsettum fjárl. með hækkun söluskatts úr 3 í 51/2% og leggja með því á landsmenn 300 millj. kr. nýjan árlegan neyzluskatt, sem þegar tók að hafa sín áhrif á verðlagsþróunina. Sumarið 1964 áttu verkalýðssamtökin frumkvæði að samningum við ríkisvaldið um að sporna við þessari óheillaþróun og gera tilraun til að stöðva verðbólguna. Á því ári, 1964, óx aflamagn enn um hvorki meira né minna en 25.5% og útflutningsverðmæti um 18%. Þetta var því gjöfulasta ár, sem þjóðin hafði lifað, og við setningu fjárl. á því hausti reyndi á, hverjar yrðu efndir ríkisstj. á samningunum við verkalýðsfélögin um raunhæfar aðgerðir til stöðvunar verðbólgunnar.

Nú reið á að gera sérstakar ráðstafanir til að skera niður rekstrarútgjöld ríkissjóðs og snúa víð af verðbólgubrautinni og stefna á heillavænlegri leiðir í efnahagsmálum, enda áttu allar ytri aðstæður að vera hinar hagkvæmustu til þess, að það væri unnt. En ríkisstjórnarflokkarnir völdu ekki jákvæða lausn frekar en fyrr. Þessu sérstaka tækifæri til þess að tryggja grundvöll undirstöðuatvinnuveganna til frambúðar með hemlunaraðgerðum í verðlagsmálum var kastað á glæ. Þess í stað sveik hæstv. ríkisstj. samkomulagið við verkalýðsfélögin með því að hækka enn söluskatt við afgreiðslu fjárl. úr 51/2 í 71/2%, og skattar og tollar voru ákveðnir 800 millj. kr. hærri en árið áður.

Hefði á þessu stigi, þegar um metaflaár var að ræða, verið gripið til jákvæðra ráðstafana, væri nú við minni vanda að etja í efnahagsmálunum en raun ber vitni eftir alla þá verðbólguþróun, sem fylgdi í kjölfar þessara neikvæðu ráðstafana ríkisstjórnarflokkanna. Við afgreiðslu fjárl. haustið 1964 í framhaldi af samningunum við verkalýðsfélögin voru einstakar aðstæður til þess að afgreiða fjárl. á þann hátt, sem betur væri í samræmi við hagsmuni þjóðarheildarinnar. Á það lagði ég sérstaka áherzlu við afgreiðslu fjárl. og lauk ræðu minni við 3. umr. fjárlaganna með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta: „Það eru mín síðustu orð í þessu máli að skora enn á ríkisstj. að fresta ákvörðunum um hækkun söluskatts og fresta afgreiðslu fjárl., en hefja þess í stað samninga milli fulltrúa allra þingflokka og forystu verkalýðssamtakanna um leiðir til þess að forða þjóðinni frá nýrri verðbólguskriðu.“

Á þetta var ekki hlustað þá. Þá treysti hæstv. ríkisstj. á það, að enn mætti láta allt vaða á súðum í þeirri von, að aflamagn héldi áfram að aukast og afurðaverð að hækka og framhald á fyrri þróun gæti gert útgerðinni kleift að jafna áhrifin af því stórhækkaða verðlagi innanlands, sem af ráðstöfununum hlaut að leiða.

Árið 1965 óx aflamagnið enn um 23.4% og útflutningsverðmætin um nálega 17% frá því árinu áður, en enn var sömu stefnunni haldið. Togaraflotinn látinn grotna niður, skattheimta til ríkisins aukin og hún áætluð 225 millj. kr. hærri en árið áður, en til að mæta stórauknum rekstrarkostnaði ríkisins voru verklegar framkvæmdir skornar niður. Létt var af ríkissjóði halla af Rafmagnsveitum ríkisins með því að velta 40 millj. kr. yfir á almenning og atvinnufyrirtæki með hækkuðu rafmagnsverði með tilheyrandi keðjuverkunum.

Næsta ár, árið 1966, var algert metár um aflabrögð og viðskiptakjör. Aflamagn óx enn um 3.4% og var nú orðið 75% meira en árið 1961 og útflutningsverðmætin tvöfalt meiri. Þetta haust var verið að setja fjárl. fyrir kosningaár og því talið nauðsynlegt að auka niðurgreiðslur og tala um stöðvunarstefnu. Fjárl. voru þó, þegar á heildina var litið, í hrópandi mótsögn við alla stöðvun, því þau gerðu ráð fyrir hvorki meira né minna en 850 millj. kr. hærri skattheimtu en árið áður, auk þeirra 40 millj. kr., sem rafmagnsverðið hækkaði um. Þetta hlaut að valda nýrri verðbólguskriðu, enda átti það eftir að koma á daginn. Þenslunni í ríkisrekstrinum var enn haldið skefjalaust áfram, m.a. voru fjárframlög til ýmissa dýrustu embættanna aukin um 30 til 50% á einu ári. Þann kostnaðarauka hefur enn ekki tekizt að skerða. Það hefur jafnan reynzt hægara að auka rekstrarkostnað embættanna í ríkiskerfinu en að draga úr honum aftur.

Við afgreiðslu fjárl. 1967, haustið 1966, voru hagsmunir verðbólgubraskaranna þannig enn hafðir að leiðarljósi og allt látið reka á reiðanum með skipulagslausa fjárfestingu og hömlulausan innflutning í trausti þess, að sífellt aukin afköst sjómanna og hækkað afurðaverð mundu vega upp verðþensluna innanlands og halda útflutningsatvinnuvegunum gangandi.

En við því var naumast að búast, að slík þróun yrði án enda, og 1967 kom nokkur afturkippur. Aflamagn var minna en næstu þrjú ár á undan, og við afgreiðslu núgildandi fjárl. í fyrrahaust hafði verðbólgan hert svo að ríkissjóði, að endar náðu ekki saman. Á fjárlagafrv. var gert ráð fyrir að bæta úr þessu með enn nýjum neikvæðum ráðstöfunum, enn nýjum verðbólguráðstöfunum, þ.e.a.s. lækkun niðurgreiðslna á brýnustu nauðsynjum almennings um 400 millj. kr. með þeirri verðbólguskriðu, sem það hafði í för með sér. Með þessu var þó einungis leystur augnabliksvandi ríkissjóðs sjálfs, en vanda útflutningsatvinnuveganna var gerð tilraun til að leysa með gengislækkun, sem efnahagssérfræðingarnir reiknuðu út, að ætti nákvæmlega að duga sjávarútveginum til að standa upp úr verðbólguflóðinu. Á þessum útreikningum var þó ekki meira að byggja en svo, að eftir s.l. áramót varð að grípa til sérstakra uppbótarráðstafana til aðstoðar sjávarútveginum ofan í gengislækkunina. Þannig hefur afgreiðsla fjárl. í tíð hæstv. núv. ríkisstj. einkennzt af þeirri óðaverðbólgu, sem stefna hennar hefur valdið. Sú verðbólga hefur verið svo ör, að samkv. skýrslum alþjóðlegra stofnana finnast slíks ekki dæmi annars staðar í heiminum, nema ef vera kynni hjá einhverri hinna alræmdu ríkisstjórna í Suður-Ameríku.

Þessi þróun hefur m.a. lýst sér í því, að algerlega hefur reynzt ókleift að gera áætlanir um tekjur og gjöld ríkisins eitt ár fram í tímann, hvað þá lengur, heldur hefur hvað eftir annað orðið að raska fjárl. skömmu eftir að þau hafa verið afgreidd með nýjum skattaálögum eða niðurskurði verklegra framkvæmda. Í fyrrahaust náðist ekki einu sinni að afgreiða frv., heldur varð að umturna því milli fyrstu og annarrar umr., svo til hverjum einasta lið, vegna efnahagsráðstafana, gengislækkunar, sem gripið var til meðan frumv. var til afgreiðslu á Alþ. Í fjárlagafrv. sjálfu var í fyrrahaust gert ráð fyrir 400 millj. kr. lækkun á niðurgreiðslum, stórfelldar nýjar álögur voru síðar ákveðnar með gengislækkuninni, sem framkvæmd var eftir að fyrsta umr. fór fram um frv., og að lokum varð að raska því með enn nýjum aðgerðum í marz s.l.

Svipuð örlög bíða án efa þess fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir og lagt hefur verið fram til þess að fullnægja ákvæðum stjskr. um, að fjárlagafrv. skuli lagt fram í þingbyrjun. Frv. á vafalaust eftir að taka slíkum breytingum, að tilgangslaust er að ræða það í einstökum atriðum í þeirri bráðabirgðamynd, sem það er lagt fyrir hv. Alþ. Þó má taka það fram, að langsamlega minnsti hluti þeirrar lækkunar á ríkisútgjöldum, sem samþ. var s.l. vor, var lækkun á rekstrarkostnaði, eða aðeins um 27 millj. kr. af 137 millj. kr. heildarlækkun. 110 millj. kr. lækkanir fólust í fyrsta lagi í frestun verklegra framkvæmda, í öðru lagi í því, að verkefnum var velt yfir á aðra aðila í þjóðfélaginu, og í þriðja lagi í því, að lána var aflað til framkvæmda í stað þess að greiða þær með framlögum úr ríkissjóði á þessu ári. Lækkun á framlagi ríkissjóðs til þessara framkvæmda er enn haldið í fjárlagafrv. nú og að auki lækkuð framlög til ýmissa annarra framkvæmda. Ekki er þó í fjárlagafrv. gert ráð fyrir þeim stuðningi við útgerðina, sem var forsenda fyrir niðurskurðinum s.l. vor og fólst í uppbótum á línufisk og styrk til frystihúsa. Innheimta á tekjum ríkissjóðs er ekki heldur lækkuð sem þessu nemur, heldur er fjárhæðin nú þess í stað notuð til þess að standa undir auknum rekstrarkostnaði ríkisins og dugir þó ekki til, því að tekjuhliðin er til viðbótar hækkuð um nálega 230 millj. kr.

Það er því hæpinn sannleikur, þegar hæstv. fjmrh. heldur því fram, að ekki þurfi nýja skatta til þess að standa undir útgjöldum við ríkiskerfið á næsta ári. Það fer ekki á milli mála, að ríkisvaldið telur sig nú þurfa hundruð millj. kr. í auknar tekjur á næsta ári til þess að standa undir auknum rekstrarkostnaði ríkisins sjálfs, án þess að í því felist nokkur nýr stuðningur við atvinnuvegina, heldur minni. Rekstrarkostnaður ríkisins verður því ekki minnkaður, heldur stóraukinn, en ríkisstjórnarflokkarnir eru ekki í vafa um, hverjir eigi að herða ólina, það er verkafólkið í landinu. Verkamaður, sem þarf að framfleyta fjölskyldu sinni og standa undir húsnæðiskostnaði og sköttum með kaup, sem er 2365 kr. á viku samkv. Dagsbrúnartaxta, á í óðaverðbólgu og minnkandi atvinnu að taka á sig afleiðingarnar af óstjórninni og sóuninni í þjóðfélaginu undanfarin ár og herða enn ólina.

Ríkisstjórnarflokkarnir kosta nú kapps um að fá almenning í landinu til þess að taka nýrri stórfelldri kjaraskerðingu sem sjálfsögðum hlut, vegna þess að útflutningsverðmæti hefur fallið niður fyrir það mark, sem hæst náðist í örfá ár í sögu þjóðarinnar. En staðreyndirnar sanna, eins og ég hef rakið, að jafnvel á árum sífellt aukinnar verðmætasköpunar tókst viðreisnarflokkunum að halda svo á málum, að þeir gripu stöðugt til endurtekinna neikvæðra efnahagsráðstafana og skildu svo við mesta aflatímabil og veltiár, sem þjóðin hefur orðið aðnjótandi, að hvarvetna blasa við þrot framleiðsluatvinnuveganna. Við höfum séð árangurinn af úrræðum stjórnarflokkanna í góðærinu, og það er að verða ljóst öllum almenningi, að þau neikvæðu úrræði koma enn síður að haldi nú. Stefna, sem braut niður framleiðsluatvinnuvegina í góðærum, bjargar þeim sízt af öllu, þegar harðnar í ári. Allar varnir, sem reyndar kunna að verða til þess að verja útflutningsatvinnuvegina áföllum, eru dæmdar til að bresta, ef ekki er tekið fyrir eyðileggjandi áhrif þeirrar stefnu, sem rekin hefur verið í fjárfestingar-, innflutnings- og verðlagsmálum.

Á tímum mestu verðmætasköpunar í sögu þjóðarinnar hafa kröfur verðbólgubraskaranna ráðið fjárfestingunni, svo að við sitjum nú uppi með flæmi af verzlunarhúsnæði, sem færir þjóðinni engan arð, en leggst sem kostnaðarauki á allt vöruverð í landinu, því allt þetta greiða neytendur áður en lýkur, auk þess bankabyggingar fyrir hundruð millj. kr. og skipulagslausa fjárfestingu hvarvetna. Hvert sem litið er, blasa við gjaldþrota fyrirtæki og gagnslaus fjárfesting, sem ráðizt hefur verið í fyrir lánsfé úr bönkunum, opinberum sjóðum, hvar sem þeir útvöldu, sem aðgang hafa að þessu fé, hafa eygt gróðavon sér til handa. Á sama tíma hefur framleiðsluatvinnuvegunum verið haldið í lánsfjárkreppu og grundvallaratriði í uppbyggingu sjávarútvegsins verið látin sitja á hakanum. Togararnir hafa týnt tölunni einn af öðrum og hefur fækkað um 30 á tímum viðreisnarstjórnarinnar. Skyldu gjaldeyristekjur þjóðarinnar ekki hafa verið snöggt um meiri á þessu ári, ef togaraflotinn hefði fengið þá endurnýjun, sem Alþb. hefur ávallt gert kröfu um? Á sama tíma hafa aðrar þjóðir, sem lakari aðstöðu hafa til slíkra veiða en við, staðið í byltingarkenndum framkvæmdum í togaraútgerð. Floti vélbáta innan við 150 tonn hefur verið að ganga úr sér, en einmitt þeir bátar, ásamt togurunum, eru þau atvinnutæki, sem bezt geta tryggt atvinnuöryggi í verstöðvum hvarvetna á landinu, og í stað þeirra getur ekkert komið um langa framtíð.

Afleiðingarnar af verðbólgustefnunni og þeirri vanrækslu viðreisnarstjórnarinnar að tryggja ekki, að fjármagni verði veitt til uppbyggingar og reksturs þessara atvinnutækja, í stað þess að það hafnaði í óarðbærum verzlunarhöllum og bankahúsum í Reykjavík og hvers kyns vitleysisinnflutningi og rekstri, eru svo þær, að geigvænlegt atvinnuleysi ríkir víða um land, og uggvænlegast er þó, að allar horfur eru á, að enn kreppi verulega að. Þessi hefur þróunin verið undanfarin ár, og hún er sérstaklega táknræn í mínum heimabæ, Hafnarfirði. Þar hefur togurunum fækkað úr 7 í 2 á örfáum árum, og vélbátum, sem gerðir eru þaðan út á vertíð, hefur fækkað um nálega 2/3, en á sama tíma hefur bankastarfsemin vaxið úr því, að þegar togararnir voru 7, var þarna ein bankastofnun í litlu húsnæði, en nú, þegar togurunum hefur fækkað í 2, eru þar 3 bankastofnanir í veglegum nýjum byggingum, sem varið hefur verið í tugum millj. kr. til að reisa.

Þau stjórnarvöld, sem þannig hafa leikið hina innlendu framleiðsluatvinnuvegi, benda svo þeim, sem vinnu höfðu við þennan atvinnurekstur, suður í hraunið og segja: „Hvar væri nú þetta fólk statt, ef við hefðum ekki fengið því álverksmiðjuna?“ Mér kemur helzt í hug til samlíkingar ökumaður, sem æki á fullfrískan mann, lemstraði hann á báðum fótum, fengi honum síðan hjólastól og segði með samblandi af hreykni og hroka: „Hvar værir þú nú kominn, ef ég hefði ekki útvegað þér hjólastól?“

Hjá þeim útgerðarfyrirtækjum í Hafnarfirði, sem nú eru á gjaldþrotabarmi eftir öll góðærin til sjávarins, ásamt þeim, sem þegar eru horfin, vann miklu fleira verkafólk en áætlað er, að verði hjá þeim erlenda auðhring í Straumsvík, sem nýtur allra forréttinda fram yfir ísl. atvinnufyrirtæki og flytur úr landi arðinn af vinnu Íslendinga. Fólkið í landinu vill eiga sína eigin fætur heila, og hvarvetna í verstöðvum landsins veit alþýða manna, að allt atvinnuöryggi á þessum stöðum byggist á blómlegri útgerð. Engir hjólastólar erlendrar stóriðju koma þar í staðinn. Innflytjendur í Reykjavík hafa heimtað og fengið hömlulausan umráðarétt yfir gjaldeyrinum og flutt inn á undanförnum árum hverja þá vöru, sem þeir hafa talið líkur á, að gæti aukið þeirra persónulega gróða, þó að sá innflutningur hafi kostað þjóðina það, að fyrirtæki, sem framleiða samsvarandi vöru innanlands, hafi verið drepin eitt af öðru, og fólk, sem atvinnu hafði af framleiðslunni, gangi atvinnulaust og fjárfestingin sé arðlaus.

Þannig hefur stjórnarstefnan verið að drepa miskunnarlaust niður innlenda iðnaðinn, vegna þess að einkahagsmunir innflytjenda hafa verið látnir sitja í fyrirrúmi. Kaupmannavaldið í Reykjavík hefur ekki aðeins fengið að ráða því, í hvaða átt væri ekið á Laugaveginum og beygt þar alla valdhafa undir sína hagsmuni og kröfur, heldur hefur það kaupmannavald ráðið algjörlega allri stefnunni í innflutnings- og verðlagsmálum. Dýrmætum gjaldeyri hefur verið sóað í hvers kyns óþarfa, vegna þess að hann hefur getað skilið eftir ríflegan gróða í vasa innflytjenda. Það má nefna sem dæmi, að á s.l. 3 árum hafa verið flutt inn nálega 100 tonn af niðursoðnum fiski fyrir um 3 millj. kr. á innkaupsverði, á s.l. 2 árum um 118 tonn af tyggigúmmíi fyrir um 7.6 millj. kr. og á s.l. 3 árum hafa verið flutt inn 2270 tonn af kökum og kexi fyrir 76.2 millj. kr. á innkaupsverði. Á fundi hjá Verzlunarráði Íslands nú fyrir skemmstu létti hinn nýkjörni form. Alþfl., hæstv. viðskmrh. Gylfi Þ. Gíslason, af verzlunarauðvaldinu í Reykjavík öllum þeim hugsanlegu áhyggjum, sem það kynni að hafa af því, að ef til vill yrði gjaldeyrisrýrnunin að undanförnu til þess, að innflytjendur fengju ekki að sóa gjaldeyrinum í hvað sem vera skal á næstunni. Hæstv. ráðh. tók það skýrt fram, að þær efnahagsráðstafanir, sem ráðgerðar eru, mættu undir engum kringumstæðum fela í sér minnstu skerðingu á valdi heildsalanna til þess að ráða notkun gjaldeyrisins, engar hömlur á notkun hans kæmu til greina.

Því yrði fagnað, ef hæstv. ráðh. gæti jafnauðveldlega létt af þeirri alþýðu til lands og sjávar, sem skapar þennan gjaldeyri, þeim áhyggjum, sem hún ber í brjósti um afkomu sína í sambandi við þær efnahagsaðgerðir, sem nú vofa yfir. Svo mikla kjaraskerðingu hefur almenningur nú þegar á sig tekið með minnkandi atvinnu, og svo mjög hefur nú verið þrengt að kjörum láglaunafólks með vöruverðshækkunum samtímis tekjumissinum, að hinar venjulegu neikvæðu ráðstafanir viðreisnarstjórnarinnar, sem verst hafa gefizt undanfarin ár — að sækja fé til hinna lægst launuðu og færa til útgerðarinnar — eru nú ekki lengur færar, það ættu jafnvel hæstv. ráðh. að gera sér ljóst. Reynslan ætti líka að hafa sýnt nægilega, að slíkar neikvæðar ráðstafanir leysa ekki vanda útflutningsatvinnuveganna.

Ég efast ekki um, að hæstv. fjmrh. hefur leitað eftir því í stofnunum ríkisins, að útgjöld yrðu skorin niður. Hann veit sjálfur bezt, að árangurinn er harla rýr og ríkisbáknið krefst hundruðum millj. kr. meira næsta ár til rekstrar en í ár. Hvað getur þá hæstv. ráðh. hugsað sér, að fjölskylda með 10 þús. kr. mánaðartekjur, sem eygir yfirleitt ekki orðið, hvernig á að láta launin endast til næstu mánaðarútborgunar, geti skorið niður af útgjöldum sínum, þegar allt verðlag fer hækkandi með degi hverjum, og hvað mætti þá segja u,m þá, sem hafa einar saman greiðslur frá almannatryggingum til þess að sjá sér farborða?

Í nær áratug hefur nú staðið tilraun Sjálfstfl. og Alþfl. til þess að innleiða á Íslandi hagkerfi hins óhefta kapítalisma, þar sem þróun atvinnulífsins hefur algjörlega verið lögð á vald hinna blindu lögmála einkagróðans, að fjármagnið leiti þangað, þar sem það getur skapað þeim, sem því ráða, sem mestan gróða án tillits til hagsmuna þjóðarheildarinnar. Á þessu tímabili hafa ytri aðstæður verið miklu hagstæðari en áður eru dæmi til um. Á meðan útflutningstekjur jukust meir á ári hverju vegna aflaaukningar og verðhækkunar afurða en þekkzt hefur annars staðar á byggðu bóli, lék þessi stefna undirstöðuatvinnuvegina svo, að grípa varð til síendurtekinna efnahagsráðstafana til þess að halda þeim gangandi allt þetta tímabil. Áður en að því kom, að afli minnkaði og afurðaverð lækkaði, voru sjávarútvegur og iðnaður þegar að þrotum komnir, og nú blasir hrunið við strax og á móti blæs. Þrátt fyrir það að þessi undanförnu ár hafa vegna hagstæðra ytri aðstæðna fært þjóðinni margra þús. millj. kr. verðmæti umfram það, sem átt hefði sér stað í venjulegu árferði, er hagur verkafólks sá, að verkamanni er ókleift að framfleyta fjölskyldu sinni af launum 8 stunda vinnudags.

Bitur og dýr er reynslan af þeirri stefnu, sem keppzt hefur verið við að halda uppi, að hafna allri samfélagslegri stjórn og skipulagningu á atvinnulífinu í landinu og láta óbeizlaða gróðahvöt einkabrasksins um þróunina. Við þessari óheillastefnu, sem hefur haft hrun útflutningsatvinnuveganna í för með sér, varaði Alþb. í upphafi og hefur alla tíð síðan reynt að opna augu almennings í landinu fyrir því, hvað gerast mundi.

Alþb. mun beita því afli, sem það hefur yfir að ráða, til þess að tryggja hagsmuni hinna lægst launuðu við þau reikningsskil, sem nú verða í þrotabúi viðreisnarinnar, og heitir á allan almenning í landinu til samstarfs og stuðnings í þeirri baráttu.

Stjórnarflokkarnir hafa meirihlutavald á Alþ. til þess að knýja fram þær efnahagsaðgerðir, sem þeir helzt kjósa og efnahagssérfræðingar viðreisnarinnar hvísla í eyru forystumanna þeirra, en þær aðferðir þekkir allur almenningur í landinu mætavel, og finni þessir flokkar, að hinir lægst launuðu gangi þegjandi undir höggið, munu aðgerðirnar verða í samræmi við það. Á því er þess vegna hin brýnsta þörf, að á næstu vikum verði nógu virk og samstillt barátta alþýðunnar utan þings og fulltrúa hennar á Alþ. fyrir hagsmunum láglaunafólks, lífshagsmunum allra þeirra, sem lakasta aðstöðu hafa til þess að taka á sig afleiðingarnar af viðreisnarstefnunni. — Góða nótt.