04.12.1968
Sameinað þing: 17. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í D-deild Alþingistíðinda. (3708)

80. mál, Vestfjarðaáætlun

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég hefði ekki blandað mér í þessar umr., ef menn hefðu haldið sig við fsp., en hæstv. ráðh. ræddi um Norðurlandsáætlun, þó að fsp. sé um Vestfjarðaáætlun og því ræðst ég í að segja hér örfáar setningar.

Fyrst vil ég minna á, að þessar áætlanir, sem talað er um, hafa ekki lagagildi og þær eru ekki ákvarðanir um að gera eitt eða annað, a.m.k. ekki það, sem peninga þarf til, vegna þess að það getur enginn nema Alþ. ákveðið það. Það þarf að ákveða fjárveitingar á Alþ., ef um er að ræða verkefni, sem kostuð eru af ríkinu eða lántökur, ef um er að ræða verkefni, sem á að kosta fyrir lánsfé, sem ríkið aflar. En samt sem áður geta þessar áætlanir verið mjög þýðingarmiklar og eru það vafalaust og mér skilst, að ætlunin sé sú, að Efnahagsstofnunin standi fyrir gerð þeirra. Nú hefur verið unnið að áætlun fyrir Vestfirði og verið er að vinna að áætlun fyrir Norðurland, en við þm. af Austurlandi höfum farið fram á það oftar en einu sinni að gerð yrði hliðstæð áætlun fyrir Austurland, en úr því hefur ekki orðið ennþá, en okkur hefur verið sagt að, að því mundi koma bráðlega.

Ég vil láta í ljósi óánægju yfir því, að það skuli ekki vera farið að vinna að Austfjarðaáætlun á vegum Efnahagsstofnunarinnar. Þó að mér sé kunnugt um, að hún hefur í mörg horn að líta, má slíkt ekki dragast og hefði átt að vera farið af stað að dómi okkar austanmanna.

Drátturinn á Austfjarðaáætluninni hefur orðið til þess, að sveitarfélög á Austurlandi hafa á vegum samtaka sinna lagt í allmikinn kostnað við að safna upplýsingum á Austurlandi varðandi ýmis málefni, sem safnað er á kostnað ríkisins í öðrum landshlutum og þykir okkur þetta vera ferlegt misrétti. Satt að segja vil ég vonast eftir því, að hæstv. fjmrh. styðji þá ósk, sem fyrir liggur, að ríkisvaldið styðji á einhvern hátt fjárhagslega þessa upplýsingasöfnun, sem er algerlega hliðstæð þeirri, sem aðrir fjórðungar, a.m.k. tveir, fá unna á ríkisins kostnað. Hér er um misrétti að ræða, sem ekki ætti að eiga sér stað. Það þarf sem sagt að ganga í gerð áætlunarinnar og það þolir ekki bið. Þetta eru bara frumdrög, sem safnað hefur verið þarna eystra.

Varðandi undirbúning áætlana að öðru leyti á vegum ríkisvaldsins vil ég segja, að ég tel það alveg sjálfsagðan hlut og ég vona, að hæstv. ríkisstj. fallist á, að það verði þannig í framkvæmdinni, að öllum alþm. sé gefinn kostur á að fylgjast sæmilega vel með þessum áætlanagerðum og koma sínum sjónarmiðum á framfæri, áður en áætlununum er lokað eða gengið er frá þeim. Annað er fullkomið siðleysi. Það er auðvitað fullkomið siðleysi, ef ekki er leitað til alþm. úr þessum byggðarlögum og þeim gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, áður en kallað er, að lokið sé einhverri áætlun. Þessar áætlanir eiga ekki að vera gerðar á vegum embættismanna og heldur ekki eingöngu á vegum þeirra og forráðamanna sveitarfélaganna, heldur er það sjálfsagt, að alþm. fái einnig að koma sínum sjónarmiðum þar á framfæri. Hitt er svo annað mál, að stofnun á vegum ríkisstj., eins og Efnahagsstofnunin, leggur síðustu hönd á áætlunina og þá er hún á ábyrgð ríkisstj. í raun og veru, en það er þá bara áætlun, sem á eftir að ganga í gegnum Alþ. En að alþm. viðkomandi kjördæma sjái hana fyrst, þegar hún hefur gengið í gegnum alla hreinsunarelda og á aðeins eftir síðasta stig á Alþ., finnst mér ekki skynsamleg eða heppileg vinnubrögð.

Ég vil vonast til, að það verði tekinn upp þessi háttur framvegis, hvernig sem farið hefur verið að fram að þessu. Satt að segja höfum við þm. af Austurlandi aldrei látið okkur detta annað í hug, en við fengjum að fylgjast með, þegar að því kæmi, að farið væri í Austfjarðaáætlunina, sem við höfum verið að vona, að yrði án tafar.

Það ætti ekki að þurfa að vera mjög flókið, hvernig að þessu á að vinna. Efnahagsmálastofnunin er umboðsaðili ríkisstj. í þessu efni og að sjálfsögðu á hún að hafa samvinnu við byggðarlögin og þá þann félagsskap, sem mestu lætur sig varða atvinnumál, eins og stéttarfélög og önnur slík og að því leyti er skynsamlega unnið að Norðurlandsáætluninni og svo eiga þm. í því kjördæmi, sem hlut á að máli, að sjálfsögðu að fylgjast með, svo að þeir geti komið sínum sjónarmiðum að.