04.12.1968
Sameinað þing: 17. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í D-deild Alþingistíðinda. (3711)

80. mál, Vestfjarðaáætlun

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. taldi sér ekki fært að svara spurningu minni varðandi stuðning ríkisstj. við gerð áætlunar um rafvæðingu dreifbýlisins og á ég að sjálfsögðu ekki neina kröfu á því, að hann svari henni á þessum fundi.

Í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. sagði um mannfjöldaþróun og mannfjöldaáætlanir, vil ég vekja athygli á því, að ég efast um, að hæstv. ráðh. hafi gert sér fyllilega grein fyrir þessu máli eða a.m.k. þeirri hlið þess, sem var mér efst í huga, þegar ég ræddi það. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. ráðh. og aðrir hv. þm. hafi veitt því athygli, að t.d. í einum hluta landsins er mannfjöldaþróunin á þá leið og hefur verið undanfarið, að fólki hefur stöðugt fækkað. Ef ætti að gera mannfjölda þróunaráætlun fyrir þennan landshluta, miðað við það, sem átt hefur sér stað undanfarið, þá verður hún að byggjast á þessu lögmáli, sem hefur verið ráðandi undanfarin ár, að fólkinu hefur fækkað og þarna sýnist mér, að kynni að vera töluverð hætta á ferðum fyrir aðra hluta áætlunarinnar. Um þetta skal ég svo ekki ræða meira. En ég vil segja það almennt út af þeim umr., sem hér hafa farið fram um landshlutaáætlanir, bæði um Vestfjarðaáætlun, Norðurlandsáætlun og Austurlandsáætlun, sem einnig hefur borizt hér inn í umr., þó að ekki hafi verið unnið að henni enn þá af hálfu landsstjórnarvalda, að það er skoðun mín á þessu máli, að Efnahagsstofnunin sé ekki heppilegur aðili til þess að vinna að þessum áætlunum eingöngu eða hafa frumkvæði að þeirri vinnu. Það kemur auðsæilega fram, að Efnahagsstofnunin á annríkt og trúlega stafar það af því, að ekki stóðst, að Norðurlandsáætlunin kæmi 1967 og eftir því, sem hæstv. ráðh. sagði, stenzt ekki heldur, að áætlunin komi á árinu 1968. Hæstv. ráðh. hefur að líkindum misreiknað sig á afkastagetu Efnahagsstofnunarinnar. Ég held, að heppilegasta aðferð í sambandi við gerð slíkrar landshlutaáætlunar sé, að samtök sveitarfélaga eða fjórðungssamtök í landshlutunum vinni að þessum áætlunum a.m.k. á fyrsta stigi. Þau þekkja bezt alla aðstöðu og eru að mörgu leyti beztu sérfræðingarnir í þessum málum. Að sjálfsögðu á þetta þó að gerast með stuðningi frá ríkisvaldinu því að þetta er í heild þjóðmál og ég álít, að sá stuðningur yrði veittur á hagkvæmastan hátt með fjárstuðningi við starfsemi sveitarfélagasambandanna á þessu sviði. Þar að auki gæti sjálfsagt verið æskilegt, að þau ættu kost á ráðunautum. Á síðara stigi gæti svo að sjálfsögðu verið eðlilegt, þegar slíkar áætlanir eru fullbúnar, að þær færu í gegnum einhverja skoðun á vegum þjóðfélagsins í heild. Þetta finnst mér eðlileg aðferð og ég álít, að sú aðferð, sem beitt hefur verið, hafi verið skökk, sé óheppileg og valdi því m. a., hvað þetta hefur gengið seint. Vonandi er þetta áætlunarverk fyrir Norðurland nokkuð á veg komið og sjálfsagt að sjá til, hvernig árangurinn verður af því, en vegna framtíðarinnar vil ég láta í ljós þessa skoðun, að á þennan hátt eigi að vinna að þessum málum og t.d. þegar farið verður að vinna að áætlunum fyrir Austurland, þá á að fela það verk Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, sem nýlega hefur verið stofnað með miklum myndarbrag og það á að vinna að gerð þeirrar áætlunar fyrst um sinn með þeirri aðstoð ríkisvaldsins, sem ég hef nefnt. Þannig kemur mér þetta mál fyrir sjónir og þannig hygg ég, að heppilegast væri að haga þessum vinnubrögðum.