11.12.1968
Sameinað þing: 19. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í D-deild Alþingistíðinda. (3721)

72. mál, innheimta viðbótarskatta og skattsekta

Fyrirspyrjandi (Kristján Thorlacius):

Herra forseti. Í síðustu fjárlagaræðu gaf hæstv. fjmrh. nokkurt yfirlit um álagningu skattsekta og viðbótarskatta í sambandi við þau mál, sem rannsóknardeild ríkisskattstjóra hefur haft til meðferðar. Kom þar fram, að heildarhækkun á gjöldum í sambandi við athugun rannsóknardeildarinnar hefði numið frá upphafi 62.8 millj. kr. Mér finnst eðlilegt, að opinberlega sé upplýst, hvernig gangi að innheimta skattsektirnar og viðbótarskattana og leyfi mér því að spyrja hæstv. fjmrh., hve mikið hefur þegar verið innheimt af þeim viðbótarsköttum og skattsektum, sem rannsóknardeild ríkisskattstjóra, skattsektanefnd og dómstólar hafa lagt á frá upphafi.

Í öðru lagi: „Hve miklu hafa þessir viðbótarskattar og sektir numið samtals?“ Í þriðja lagi: „Hve miklu hafa aðrir skattar, tekjuskattur, eignarskattur og útsvar, numið hjá þeim aðilum, sem viðbótarskatt hafa hlotið og hafa þeir skattar verið innheimtir að fullu? Ef svo er ekki, hverjar eru þá óinnheimtar eftirstöðvar hjá þessum aðilum?“