11.12.1968
Sameinað þing: 19. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í D-deild Alþingistíðinda. (3759)

91. mál, ráðstafanir til að bæta úr rekstrarfjárþörf atvinnuveganna

Fyrirspyrjandi (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég held, að það sé óhætt að fullyrða, að eitt af því, sem veldur forustumönnum atvinnufyrirtækja mestum áhyggjum nú, sé rekstrarfjárskorturinn. Menn hafa varla á undanförnum veltiárum komið svo saman á stéttarþingum, að þeir hafi ekki ályktað um þennan bölvald atvinnulífsins og gildir einu, hvort teknar eru fram ályktanir útvegsmanna, bænda, iðnrekenda eða yfirleitt hvers konar atvinnurekenda, sem vera skal. Þá hljóta menn að minnast fjölmargra ályktana frá aðalfundum ýmissa fyrirtækja, hlutafélaga jafnt sem samvinnufélaga, þar sem því er lýst, hvílíkur þrándur í götu fjárskorturinn hafi verið í rekstri þeirra. Þessar ályktanir hafa heldur engan veginn verið tilefnislausar. Ástandið hefur vissulega verið slæmt í mörgum fyrirtækjum af þessum sökum, það vita áreiðanlega allir, sem hér eru inni.

En hvernig ætla menn þá, að umhorfs sé í þessum málum nú, eftir að verð á erlendum gjaldeyri hefur með einu pennastriki verið hækkað um hvorki meira né minna en 54%, og raunar um 100% á einu ári? Ég hygg, að hver og einn geti svarað því sjálfur, hvernig slíkur kostnaðarauki komi við þann atvinnurekstur, sem fyrir hækkunina var sárþjáður af fjármagnsskorti. Það þarf áreiðanlega ekki að lýsa því hér.

Því er haldið fram með nokkrum þunga, að gengislækkunin tryggi atvinnuvegunum heilbrigðan rekstrargrundvöll, rétt eins og Íslendingar séu í fyrsta skipti að kynnast þvílíkum ráðstöfunum. Rétt er þó auðvitað, að þau fyrirtæki, sem framleiða vörur til útflutnings, fá fleiri krónur fyrir þær afurðir, sem aðrar þjóðir kaupa af þeim, samkeppnisaðstaða innlends iðnaðar batnar eitthvað gagnvart innfluttri vöru og bændur fara kannske eitthvað nær því að fá verðlagsgrundvallarverðið vegna hækkunar á því, sem þeir selja út. En allt er þetta þó vitanlega því skilyrði bundið, að atvinnurekendurnir komi starfseminni í gang. Það stoðar lítið fyrir íslenzka útgerðarmenn, að verðið sé hátt á fisknum í sjónum, ef þeir komast ekki út til að veiða. Það hefur lítið gildi fyrir iðnrekendur, að verð innfluttrar vöru hækkar hér á landi, ef þeir geta ekki framleitt vörur vegna rekstrarfjárskorts til að mæta samkeppninni eða til þess að taka þátt í samkeppninni. Þetta finna fleiri en framsóknarmenn. Meira að segja hefur eitt stjórnarblaðið nýlega lýst ástandinu þannig, að það væri eins og búið væri að láta benzín á tankinn, en rafhlaðan væri tóm og því kæmist vélin ekki í gang. En á meðan vél atvinnulífsins kemst ekki í gang, vegna þess að neista fjármagnsins vantar, fellur vinnan niður og atvinnuleysið gengur í garð.

Nýlega héldu útvegsmenn þing. Þeir ályktuðu eitt og annað, eins og gengur, m.a. ályktuðu þeir að skora á ríkisstj. og stjórnir bankanna að stuðla að því, að eftirfarandi ráðstafanir verði gerðar í lánamálum útvegsins:

„a) Að Seðlabanki Íslands láni fiskverkendum út á afurðir þeirra 70% af áætluðu söluverði varanna og að viðskiptabankarnir láni til viðbótar sem svarar 30% af Seðlabankaláninu. Telur fundurinn, að þessi lágmarkslán séu alger forsenda þess, að fiskvinnslustöðvarnar geti greitt vinnulaun og hráefni jafnóðum.

b) Að rekstrarlán til fiskiskipa verði hækkuð í samræmi við tvær síðustu gengisbreytingar. Telur fundurinn, að núverandi upphæð rekstrarlána sé algerlega ófullnægjandi til að búa báta á veiðar og standa í skilum með andvirði veiðarfæra, olíu og viðhalds bátanna, þar eð alls staðar er nú krafizt staðgreiðslu.

c) Að útvegsmönnum verði veitt hagstæð lán til langs tíma til greiðslu á lausaskuldum. Skuldir þessar eru víða orðnar svo miklar, að ómögulegt er að halda áfram eðlilegum viðskiptum við þjónustufyrirtæki og aðra aðila, ef jafnframt eigi að forða skipunum frá fjárnámum og uppboðum af þeim sökum.“

Skömmu áður hélt Alþýðusamband Íslands þing og gerði nokkrar ályktanir, eins og þar er venja, mig minnir, að þær væru aðallega 9. Ein þeirra fjallar um, að gerðar séu víðtækar ráðstafanir til stuðnings atvinnuvegum landsins og megináherzla lögð á eflingu útflutningsatvinnuveganna og í því sambandi er bent á ýmis gjöld, sem þingfulltrúar samþykktu, að stefna bæri að, að létta af atvinnuvegunum og fer ég ekki nánar út í það að svo stöddu. En í annarri ályktuninni segir, að skuldamál atvinnuveganna verði tekin til rækilegrar athugunar og ráðstafanir gerðar til að létta skuldabyrði atvinnufyrirtækja, svo að þau geti búið við viðunandi rekstrargrundvöll.

Hér hef ég vitnað til tveggja stærstu samtakanna, annars vegar atvinnurekenda og hins vegar launþega. Báðum þessum aðilum er ljóst, eins og öllum hlýtur að vera ljóst, að atvinnuvegirnir þurfa aðstoð, en þeir benda að nokkru á sína leiðina hvor. L.Í.Ú. bendir á, að afla þurfi meira fjármagns, A.S.Í. bendir hins vegar á, að til viðbótar því séu kannske aðrar leiðir, sem til greina komi, niðurfærsluleiðir.

En hvaða skoðun, sem menn hafa á þessum leiðum, þá er ljóst, að þetta er sú spurning, sem heitast brennur í dag: Hvað verður gert í rekstrarfjármálum atvinnuveganna? Hæstv. ríkisstj. hefur lækkað gengið og aukið þar með tilkostnað atvinnuveganna. Hins vegar hafa ekki enn komið frá henni till. um þá spurningu, sem hér er borin fram og ég hygg, að mörgum muni leika forvitni á að heyra svar við henni.