12.02.1969
Sameinað þing: 28. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í D-deild Alþingistíðinda. (3799)

274. mál, kæra á hendur forstöðumanni vinnuhælisins á Litla-Hrauni

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir góðar ráðleggingar varðandi eftirlit á Litla-Hrauni, en eins og ég sagði, þá eru fangelsismálin og fyrirkomulag þeirra annað mál og verður að ræða þau frekar síðar.

Hv. fyrirspyrjandi segir, að hann hafi séð álitsgerð stjórnarnefndar vinnuhælisins og hún sé mjög í ósamræmi við niðurstöður rn. Ég vil aðeins segja, að álitsgerð stjórnarnefndarinnar er send rn. og hún er fyrir utan yfirheyrsluna, sem henni fylgir, á þremur vélrituðum síðum. Þessi álitsgerð var mjög gaumgæfilega yfirfarin í dómsmrn. og henni svarað í ítarlegri grg., þar sem rn. kemst að þeirri niðurstöðu, að ekki sé tilefni til frekari aðgerða í þessu máli, en í því felst ekkert um það, að álitsgerð n. sé í ósamræmi við niðurstöðu rn. og ég hef ekki heyrt orð um það frá nefndinni, að hún sé óánægð með niðurstöðu rn. eða óski annarra aðgerða af hálfu rn. heldur en þetta bréf, dags. 16. des., gefur tilefni til, — ekki orð.

Svo var aðeins eitt atriði, sem ég hefði kannske átt að víkja að í upphafi, en hv. þm. viðhafði þau orð, að það ætti ekki að fara með þessi mál eins og pukursmál, sem hér hefðu komið upp. Þetta hefur nú ekki verið meira pukursmál en það, að Morgunblaðið birti um þetta á útsíðu heilmiklar frásagnir fréttamanns frá sér og rn. svaraði því með yfirlýsingu og leiðrétti með henni margar missagnir og misskilning, sem voru í þessari fréttaklausu Morgunblaðsins og þar fyrir utan sendi rn. öllum dagblöðunum yfirlýsingu í sambandi við þetta mál. Hér hefur þess vegna sannarlega ekki verið um nokkurt pukursmál að ræða.

Í sambandi við yfirlýsinguna eða fréttagreinina í Morgunblaðinu vil ég láta þess getið, að 10 af 17 starfsmönnum vinnuhælisins á Litla—Hrauni sendu rn. yfirlýsingu, þar sem þeir lýsa því yfir, að fyrrnefnd grein sé þeim með öllu óviðkomandi og þeir vilji ekki vera neitt við hana riðnir né önnur slík blaðaskrif, eins og þar stendur.

Ég hygg, að það sé rétt til getið hjá hv. fyrirspyrjanda, að það sé nokkrum vanda bundið að stjórna vinnuhæli eða fangelsi eins og hér um ræðir. Mér er alveg ljóst, að skrif eins og því miður komu fram í Morgunblaðinu um þetta mál eru ekki fallin til þess að bæta úr skák, en út í þá sálma skal ég ekki frekar fara og takmarka mál mitt við það, sem nú hefur verið sagt í sambandi við svar við þessari fsp.