09.04.1969
Sameinað þing: 39. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í D-deild Alþingistíðinda. (3891)

278. mál, félagsheimilasjóður

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans, þó að þau gefi því miður ekki mikla ástæðu til þess að fagna. Hann talar um, að málið sé í athugun, talar um ríkistryggð skuldabréf í þessu sambandi. Mig minnir, að það hafi verið nákvæmlega það sama, sem hann sagði í fyrra, þegar spurt var um þetta mál. Ég get ekki sagt um þingin áður, því að þá átti ég ekki sæti hér.

Svo segja mér þm., sem hafa átt sæti lengur en ég, að ekki alls fyrir löngu, þ.e.a.s. fyrir nokkrum árum, 2—3 árum, hafi hæstv. ráðh. gefið loforð um það hér á hinu háa Alþ., að sett yrði saman lagafrv. til að leysa þessi mál og væri fróðlegt að fregna nánar af þeirri hugmynd.

Hvað sem líður útleggingum hæstv. ráðh. varðandi þessi 40%, sem félagsheimilasjóði var ætlað að greiða eða heimild var til að greidd yrðu úr félagsheimilasjóði af stofnkostnaði félagsheimila, — hvað sem ráðh. segir um þetta, þá var það þannig túlkað af fólki yfirleitt, að á þetta mætti treysta og því er nú komið, sem komið er.

Upplýsingar hæstv. ráðh. varðandi skuldir eða ógoldin framlög félagsheimilasjóðs eru næsta alvarlegar. Á einföldu máli sýnist mér, að þær séu svona: Skuldir eða ógoldin framlög vegna þeirra félagsheimila, sem fullbúin eru, mundu vera um 52—53 millj. kr. Ógoldin framlög vegna þeirra félagsheimila, sem eru í smíðum — eru ekki fullbúin — mundu vera um 68 millj., samtals 120 millj. Þetta er mikil skuld og alvarleg, og þeim mun alvarlegri að mínum dómi og eflaust að dómi hæstv. menntmrh. líka, — þeim mun alvarlegri, sem hún bitnar á þeim aðilanum, sem sízt ætti að þurfa að eiga við fjárhagsörðugleika að etja, en það er hin margrómaða menning okkar.

En þó eru þessar 120 millj. að sjálfsögðu ekki nema brot af allri þeirri skuld, sem hið opinbera stendur í við menninguna yfirleitt. Það, sem á vantar til skólabygginga og vísindastarfa og annarra greina menningarinnar, er auðvitað margfalt þetta. En það er önnur saga og miklu meira mál og alvarlegra en svo, að hægt sé að gera því nein teljandi skil í stuttum fsp.–tíma.

Tilgangur okkar fyrirspyrjendanna með þessari fsp. var sem sagt aðeins sá að minna enn einu sinni á þá erfiðleika, sem félagsheimilin eiga við að stríða, vegna þess að stjórnarvöldin hafa illa staðið við þau fyrirheit, sem í upphafi voru gefin í sambandi við félagsheimilasjóðinn. Og um leið og ég endurtek þakkir minar til hæstv. ráðh. fyrir svör hans, vil ég enn einu sinni nota tækifærið til þess að láta í ljós samúð mína með honum vegna þess hörmulega hlutskiptis að vera menntmrh. í ríkisstj., sem hefur sennilega komizt einna lengst allra ríkisstj. í því að safna skuldum gagnvart menningunni.