16.04.1969
Sameinað þing: 40. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í D-deild Alþingistíðinda. (3928)

282. mál, málefni iðnnema

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Spurt er um, hvaða ráðstafanir ég hyggist gera til að koma í veg fyrir, að námssamningar séu brotnir á iðnnemum með því að halda þeim atvinnu— og kauplausum langtímum saman.

Skv. gildandi lögum eru námssamningar að sjálfsögðu bindandi fyrir báða aðila allan námstímann, sem venjulega er 4 ár. Til þess að ég geti gert ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir, að námssamningar séu brotnir, þurfa að liggja fyrir kvartanir um, að þeir séu brotnir. Þá mundi ég að sjálfsögðu láta rannsaka málið og gera þær ráðstafanir, sem við eiga til þess að tryggja, að samningar séu haldnir. Samning á að halda, en ekki brjóta. Sé um löglega gerðan samning við nemanda að ræða, á hann ekki að geta orðið atvinnu– og kauplaus á námstímabilinu.

Í menntmrn. eða hjá iðnfræðsluráði eru hins vegar engar kvartanir um, að námssamningar hafi verið brotnir á iðnnemum að þessu leyti. Ég vona, að öllum hv. alþm. sé ljóst, að ekki er hægt að ætlast til þess af neinum, hvorki ráðh. né öðrum, að hann rannsaki kvörtun, sem ekki hefur borizt, né komi í veg fyrir brot, sem honum hefur aldrei verið tilkynnt um, að eigi sér stað.

Hv. fyrirspyrjandi gerði að umtalsefni ályktanir, sem nemendur Iðnskólans hafa gert og þeir hafa fyrir stundu afhent mér. Ég hef fyrir um það bil klukkustundu átt mjög vinsamlegar viðræður við fulltrúa iðnnema um málefni þeirra. Og satt að segja verð ég að segja, að allur blær á þeim viðræðum var með mjög öðrum hætti en hv. fyrirspyrjandi virðist vilja að sé á okkar orðaskiptum á Alþ. En ég mun ekki láta hafa mig til þess að annza að neinu leyti ertni hv. þm., — pólitískri ertni hv. þm. Ég tel miklu meira um vert að ræða í alvöru og af áhuga um þau málefni, sem ég veit, að iðnnemarnir hafa áhuga á. Og það, sem er kjarni í ályktunum iðnnemanna og aðalatriði í málflutningi þeirra var, að þeir óska eftir nánara eftirliti með framkvæmd námssamninga, en nú á sér stað, þ.e.a.s. nánara eftirliti á framkvæmd meistara á námssamningi, en nú á sér stað.

Mér er fullljóst, að ekki er nægilegt aðhald að meisturum um það, að þeir sinni hagsmunum iðnnema, eðlilegum námskröfum þeirra eins og æskilegt væri. Ég hef áratugum saman verið þeirrar skoðunar, að það iðnfræðslukerfi, sem við og raunar fleiri grannþjóðir búum við, sé stórgallað eða réttara sagt það, sem við höfum búið við til skamms tíma, sé stórgallað. Á því hafa verið margs konar vandkvæði að breyta því og er öllum eldri alþm. kunnugt um, hvernig því er varið.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að iðnnám eigi alls ekki nema þá að mjög litlu leyti að fara fram hjá meistara, heldur eigi að fara fram sem verknám í iðnskóla. Þessi skoðun mín var undirrót þess, að ég á sínum tíma skipaði n. til þess að endurskoða íslenzka iðnfræðslukerfið. Sú n. vann mjög gott starf í tvö ár og samdi frv. að lögum, sem í öllum aðalatriðum var samþ. óbreytt hér, að mestu leyti samhljóða, fyrir nokkrum árum. Og grundvallaratriðið mér til mikillar ánægju í þessari nýju löggjöf er einmitt það, að verknám iðnnema er flutt af verkstæðunum, frá meisturunum og inn í verknámsskólann. Þessu nýja kerfi er nú verið að hrinda í framkvæmd. Enginn sanngjarn maður mun ætlast til þess, að slíka gerbyltingu á fyrirkomulagi iðnnáms sé hægt að framkvæma á fáum árum. Til slíks ætlast engir, nema ósanngjarnir stjórnarandstæðingar. En þessa breytingu er verið að framkvæma og ég tel, að fullyrða megi og geri það með góðri samvizku, að byggingar eða útvegun húsnæðis í þágu þessarar breytingar hafi gengið vonum framar. Allmiklar fjárveitingar hafa verið til hinnar nýju iðnskólabyggingar hér í Reykjavík, en þar eð fyrirsjáanlegt var, að sú bygging gat ekki gengið svo hratt, að unnt væri að hefja fullkomið verknám Iðnskólans í þeirri nýju byggingu, þá var sú ráðstöfun tekin, að mikið húsnæði, sem áður hafði verið í eign og á vegum Landssmiðjunnar, var tekið í þágu þessa nýja verknáms. Á s.l. ári, tiltölulega stuttu eftir að ný lög hafa verið samin um þetta efni, hafa um það bil 90—100 nemendur í járniðnaði, í málmiðnaði, fengið verknámskennslu innan Iðnskólans í því húsnæði, sem áður var Landssmiðja Íslands. Enginn vafi er á því, að í þessari grein hafa allar aðstæður til iðnnáms tekið stórkostlegum stakkaskiptum. Ég vil segja, að um byltingu hefur verið að ræða, frá því sem áður var. Verknámið sjálft hefur verið aukið og meiningin er, að hliðstæðar breytingar eigi sér stað í öðrum greinum, eftir því sem byggingu hins nýja iðnskóla miðar áfram.

Að því er það snertir, sem hv. þm. sagði um atvinnuleysisskráninguna, sem fram fór á s.l. ári og í fyrra, er það að segja, að enginn þeirra manna, — það legg ég sérstaka áherzlu á og bið hv. þm. að draga af því þær ályktanir, sem rökrétt verður að teljast að draga, — enginn þeirra manna, sem skráðir hafa verið atvinnulausir, hefur kvartað eða kært um brot á námssamningi, hvorki við iðnfræðsluráð né heldur við menntmrn. Ástæðu fyrir því kann ég ekki að greina og skal ekkert greina, því að ég veit hana ekki. En það kann að tala sínu máli, að enginn þessara manna, sem þarna skráði sig atvinnulausan, hefur talið samning brotinn á sér. Hver sá, sem telur samning brotinn á sér og kemur með sitt mál, annaðhvort til iðnfræðsluráðs eða í menntmrn., skal sannarlega fá sitt mál athugað alveg ofan í kjölinn. Ég geri mér fullkomlega ljóst og um það voru ég og hinir ágætu fulltrúar iðnnema, sem við mig ræddu áðan, algerlega sammála, að hér getur verið um svo viðkvæm mál að ræða, að nemandi hiki við að gera það beinlínis að kærumáli eða opinberu lögreglumáli. En eins og ég sagði við fulltrúa iðnnemanna áðan, þá eru fleiri leiðir til í þeim efnum. Ég lýsti því yfir, að starfsmenn rn. eru að sjálfsögðu reiðubúnir til þess að taka á slíkum málum sem algerum trúnaðarmálum, eins og eðlilegt er, þar sem um nemendur er að ræða og það tilboð stendur og við það skal að sjálfsögðu verða staðið. Ég tel það skyldu iðnfræðsluráðs og menntmrn. að líta á mál þessara manna sem nemenda, sem geta verið vandmeðfarin og viðkvæm í eðli sínu og það er sjálfsagt að taka á þeim málum sem slíkum. En ef það ekki dugar til, til þess að réttur nemendanna sé tryggður, eins og sjálfsagt er, að hann sé, þá er rn. reiðubúið til þess að gera ráðstafanir lögum samkv. til þess að halda meisturum að sinni skyldu. Hins vegar er rétt, að það komi hér fram eins og kom fram í viðræðum mínum við nemendurna áðan og við vorum algerlega sammála um, að á margra vitorði er, að ýmsir gera námssamninga fremur til málamynda, en vegna raunverulegs iðnnáms. Ýmsir menn, sem búnir eru að vinna lengi að iðngrein sinni, afla sér réttinda með því að gera samning við tiltekinn meistara. Og þá er algengt, að slíkir menn fá greitt hærra kaup, annaðhvort samkv. samningi eða utan við samning, en samkv. sérsamkomulagi við meistarann. Ef slíkir menn missa síðan verkefni og verða atvinnulausir, er það kannske skiljanlegt, að þeir hiki við að telja það brot á samningi, sem við þá hefur verið gerður, vegna þess að þeir hafa notið meiri hlunninda hjá sínum meistara, en samningurinn raunverulega gefur tilefni til. Ég skal engum getum að því leiða, hvort þetta er meginskýringin eða kannske öll skýringin á því atvinnuleysi, sem skráð hefur verið við skráninguna, sem kölluð er atvinnuleysisskráning nemenda. En þetta má að sjálfsögðu sannarlega athuga. Ég hef sagt það við fulltrúa iðnnemanna og skal segja það aftur hér, að ef um er að ræða raunverulega nemendur samkv. eðlilegum námssamningi, sem eiga að búa við kaup lögum samkv., og samningi, sem ekki hafi fengið verkefni, þannig að þeir hafi misst af atvinnu og þar með af kaupi, þá er það mál, sem ég óska eftir að fá að athuga nánar og skal sannarlega ekki á því standa, að menntmrn. geri skyldu sína í þeim efnum, því að það er sannarlega skylda opinberra yfirvalda að sjá svo um, að námssamningar séu ekki brotnir. En ég ítreka, að ekkert slíkt mál liggur fyrir, hvorki hjá iðnfræðsluráði né hjá menntmrn. Og meðan svo er ekki, er það vægast sagt talsverð tilætlunarsemi, að rn. taki sig upp af jafnsléttu til þess að rannsaka mál, sem það veit ekki, hver eru og veit ekki, hvers eðlis þau eru.

Það bar vott um það hugarfar, sem liggur að baki fsp. hv. þm., að hann rakti það, að iðnnemar hefðu snúið sér bréflega til mín út af þessu atvinnuleysis skráningarmáli og ekki fengið viðtal. Ég hélt nú satt að segja, að kannske mætti ýmislegt um mína embættisfærslu segja annað en það, að ég væri ekki reiðubúinn til þess að sinna þeim mönnum, sem til mín leita í rn., hvort heldur það er bréflega eða munnlega. Það er rétt, að ég fékk á sínum tíma, — í febr. mun það hafa verið, — bréf um þessa atvinnuleysisskráningu. Ég gerði þá þegar athugun á því, hvort nokkur kvörtun lægi fyrir á grundvelli þessarar atvinnuleysisskráningar, annaðhvort í rn. eða hjá iðnfræðsluráði og fékk algerlega neikvætt svar við. Ég lét þá í ljós við mína samstarfsmenn í rn. og iðnfræðsluráði, að ef slík kvörtun bærist, — ef dæmi kæmi um það, að iðnsamningur væri brotinn af þessu tagi, — vildi ég þegar í stað fá upplýsingar um það, það mál teldi ég þurfa að athuga. Til þessa dags eða þessarar stundar hefur ekkert slíkt erindi borizt á fjörur rn. eða iðnfræðsluráðs. Og má þá hver sem vill lá mér, að ég skuli ekki að fyrra bragði hafa gripið til sérstakra ráðstafana í þessum efnum.

Að því er viðtalsbeiðninni viðvíkur er það að segja, að ég lét þann starfsmanninn, sem skilaboðin flutti, benda á það, að ég hef viðtalstíma einu sinni í viku, 3–4 tíma í hvert skipti og er þá að sjálfsögðu reiðubúinn til viðtals við alla þá, sem til mín leita og er einum slíkum viðtalstíma nýlokið, sem var meira að segja alveg óvenjulega langur, þar eða hann stóð fram yfir kl. 1, svo að ég held, að ástæðulaust sé a.m.k. að gera pólitískt veður út af því, að ég sé ekki reiðubúinn til að tala við þá, sem við mig þurfa að tala. Ég veit ekki um nokkurn aðila, sem hefur ekki átt kost á því að koma skoðunum sínum á framfæri við mig, hvort sem það er umkvörtun eða beiðni eða eitthvað annað, einmitt vegna þess, að ég geri mér far um það, jafnvel þó að heilsan leyfi það ekki algerlega, að vera til viðtals á þeim tíma, sem ætlazt er til, að ráðh. séu til viðtals.

Að allra síðustu skal ég svo víkja örfáum orðum að byggingarmálum Iðnskólans. Ég hef undanfarin ár lagt á það mikla áherzlu, að fjárveitingar væru sem mestar til iðnskólanna, einmitt vegna nauðsynjarinnar á því, að verknámshugmyndinni innan iðnskólanna verði komið sem fyrst til framkvæmda. Hitt má öllum ábyrgum mönnum, öllum alþm. vera ljóst, að hér er um geysilega dýrar framkvæmdir að ræða og þess vegna var það, sem ég greip það tækifæri fegins hendi, þegar húsnæði losnaði í Landssmiðjuhúsinu, að hagnýta það í þágu verknámskennslu á þessu tiltekna sviði, þ.e.a.s. í járniðnaði eða í málmsmíði. Ég hika ekki við að endurtaka, að ég tel þessa ráðstöfun hafa verið til mikilla bóta. Hitt skal ég ekki fullyrða, að kennsluaðstaða þar sé eins fullkomin og hún ætti að vera, þ.e.a.s. eins fullkomin og hún mundi verða í nýbyggðum iðnskóla. Það hvarflar ekki að mér, enda er ekki hægt að ætlast til þess, að hægt sé að breyta gamalli verksmiðju, þ.e.a.s. gömlu verkstæði, í alfullkominn verkstæðisskóla fyrir nemendur. Það væri til allt of mikils mælzt að ætlast til þess. En hitt fullyrði ég, að það horfði til mikilla bóta, að húsnæði Landssmiðjunnar skyldi fást. Og ég vi líka staðhæfa, að kennsluaðstaða þar er eins góð og við er að búast í fyrirtæki, sem áður var starfandi verkstæði. Hitt er svo annað mál, að við því má búast og því má treysta að þegar byggingu sérstaks vinnuhúsnæðis í venjulegum iðnskóla, fyrst og fremst í iðnskólanum hérna, — þegar því lýkur, mun aðstaðan þar auðvitað verða mun betri, miklu betri, en nokkurn tíma getur orðið í því húsnæði, sem Landssmiðjan hefur um þessar mundir yfir að ráða.

Með þessu móti vona ég, að talizt geti, að ég hafi svarað þessari fsp. Ég hef haft mikinn áhuga á því tvennu, annars vegar að endurskoða iðnfræðslulöggjöfina, þ.e.a.s. að bæta lagarammann fyrir iðnfræðslunáminu annars vegar og svo hins vegar að hrinda sem fyrst í framkvæmd þeim byggingum og þeim aðbúnaðarbreytingum, sem nauðsynlegar eru, til þess að hin nýju iðnfræðslulög geti sem fyrst komið til fullra framkvæmda. Lagasetningin er þegar fyrir hendi og mér vitanlega hefur hingað til enginn borið brigður á, að sú lagasetning hafi verið stórkostlegt framfaraspor á sínum tíma og hún leggi grundvöll að stórbættu iðnnámi á Íslandi, frá því sem áður hefur verið. Hitt, hversu fljótt tekst að skapa hinu nýja iðnfræðslukerfi grundvöll í byggingum og aðstæðum, er að sjálfsögðu fyrst og fremst fjárhagsatriði og það er komið undir fjárveitingum Alþ., hversu hratt tekst að hrinda þeim ágætu hugmyndum í framkvæmd, sem í iðnfræðslulöggjöfinni felast. En ég hef áhuga á því, að það megi takast sem fyrst, því að ég er þeirrar skoðunar, að það helzta, sem betrumbæta þurfi í íslenzku skólakerfi, beinlínis eitt helzta, sem betrumbæta þurfi í íslenzku skólakerfi, sé annars vegar iðnfræðslan og hins vegar tækninámið. Á báðum þessum sviðum hafa verið stigin mjög stór spor undanfarið. Í fyrsta lagi með hinum nýju iðnfræðslul., sem eru smám saman að koma til framkvæmda, og svo í öðru lagi með stofnun Tækniskólans, sem nýlega hefur verið tekin ákvörðun um, að muni útskrifa byggingartæknifræðinga sem fullgilda tæknifræðinga, þegar námi þeirra manna, sem nú eru í Tækniskólanum, er lokið. Þetta tvennt á að haldast í hendur, annars vegar góð iðnfræðslulöggjöf, sem smám saman kemur til framkvæmda, eins og allir sanngjarnir menn hljóta að játa, að verður að koma og hins vegar uppbygging Tækniskólans, sem er í fullum gangi. Ef þetta tvennt gerist og fær að haldast í hendur, bætt iðnnám og aukið tækninám, þá hygg ég, að vel sé séð fyrir einum mikilvægasta þættinum í íslenzkum skólamálum og íslenzkum uppeldismálum.