20.12.1968
Sameinað þing: 25. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

1. mál, fjárlög 1969

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Fjvn. hefur á milli umr. tekið til nánari athugunar og afgreiðslu þá málaflokka, sem n. hafði enn ekki lokið við að gera till. sínar um, og eru nú umræddar brtt. n. og meiri hl. n. fluttar á sérstökum þskj. Um brtt. meiri hl. n. er að flestu leyti það sama að segja og um till. n. við 2. umr. málsins, að minni hl. stendur einnig að samþykkt þeirra flestra nema þeirra till., sem varða tekjubálk frv., og þeirra till., sem eru í sambandi við gengislækkunina. Svo sem vitað var, átti n. enn eftir að gera till. sínar um fjárveitingar við nokkra aðalútgjaldaliði fjárlagafrv., svo sem framlög til nýbygginga hafna, skóla, til sjóvarnargarða, fyrirhleðslna o.fl.

Ég mun þá víkja nokkuð að brtt. meiri hl. n., og þá kemur fyrst till. um fjárveitingu að upphæð 200 þús. kr. til Rannsóknaráðs ríkisins til greiðslu kostnaðar við fyrirhugaða ráðstefnu um samband milli hafíss, loftstrauma og veðráttu með sérstöku tilliti til Íslands. Ráðstefna þessi verður haldin hér í Reykjavík, en að henni standa Jarðfræðingafélag Íslands, Jöklarannsóknafélag Íslands, Sjórannsóknadeild Hafrannsóknastofnunar Íslands og Veðurstofa Íslands. Í grg., sem fylgdi erindi þessu, segir m.a., að undanfarin ár hafi borið meira á hafís hér við land en um langt árabil áður. Miklar umr. hafa átt sér stað um þetta, og hefur þeirrar skoðunar gætt, að um almenna breytingu til aukins hafíss kunni að vera að ræða. Jafnframt hefur borið á þeirri skoðun, bæði hér og erlendis, að breyting á veðráttu almennt kunni að vera fram undan eða hafin, þannig að kaldara tímabil sé í vændum en verið hefur undanfarna 4–5 áratugi. Eins og fyrr segir, taldi n. rétt að verða við umræddum tilmælum til að standast kostnað af ráðstefnunni og leggur því til, að veittar verði 200 þús. kr. í þessu skyni.

Þessu næst eru till. n. um framlag til nýbyggingar skóla. Þar er lagt til, að framlag til Héraðsskólans að Núpi hækki um 2.5 millj. kr. Nemur þá fjárveiting til Núpsskóla alls 4.5 millj., sem er talið, að nægi til þess að fullgera byggingu, sem í er sameiginlegt mötuneyti fyrir skólann ásamt starfsmannaíbúð. Talið var óhjákvæmilegt að fullgera þessa framkvæmd. Til byggingar gagnfræðaskóla utan 5 kaupstaða er lagt til, að fjárveiting hækki um 8 millj. 40 þús. kr. Verður þannig fjárveiting til umræddra skóla samtals 18 millj. 19, þús. Um framlag til einstakra skóla vísast að öðru leyti til sérstaks yfirlits í þskj.

Þá eru till. til byggingar barnaskóla á sama hátt hækkaðar um 16 millj. 512 þús. kr., og verður heildarfjárveitingin 116 millj. 655 þús. kr. Um framlag til einstakra barnaskóla vísast einnig til sérstaks yfirlits. Svo sem kunnugt er, hefur nýju fræðslul., þar sem ákveðið var, að hluti ríkisins til nýbyggingar skóla skyldi greiddur á þremur árum, verið breytt þannig, að greiðslutímabilið verður nú 4 ár. Við þessa breytingu er till. n. miðuð, jafnhliða því sem eldri skólar fá fjárveitingu samkv. fyrri reglu. Það er 5 ára tímabil með lokauppgjörið á 3 árum til viðbótar.

Þá er lagt til, að liðurinn „framlög til lista“, 14. tölul., „listamenn“, hækki um 470 þús. kr. í sambandi við setningu gildandi I. um listamannalaun lýsti hæstv. menntmrh. því yfir fyrir hönd ríkisstj., að tekin yrði til athugunar sú ósk Bandalags ísl. listamanna, að efnt yrði til starfsstyrkja til listamanna auk listamannalaunanna. Skipaði menntmrh. n. til athugunar á málinu, og hefur hún nú lokið störfum. Gert er ráð fyrir, að þessari hækkun fjárveitingar til listamanna verði varið til þess að koma á fót starfsstyrkjakerfi, sem menntmrh. setji nánari reglur um að höfðu samráði við Bandalag ísl. listamanna.

Þá er till. um 50 þús. kr. fjárveitingu til þess að standa undir kostnaði við norrænt kirkjutónlistarmót, sem haldið verður í Reykjavík á komandi sumri. Slík mót eru haldin til skiptis á öllum Norðurlöndunum, en síðast var það haldið hér í Reykjavík árið 1952.

Þessu næst koma till. varðandi atvmrn. Þar er fyrst lagt til, að veittar verði 200 þús. kr. til hækkunar á liðnum til skóggræðslu og 500 þús. til framkvæmda á svo kallaðri Fljótsdalsáætlun. En þar er gert ráð fyrir að hefja framkvæmdir á nokkrum bújörðum bænda innan við Hallormsstað og er ætlunin að planta þar lerki. Hér er um nýmæli að ræða, sem ætlað er, að geti orðið nokkur stuðningur við búrekstur þeirra bænda, sem hér eiga hlut að máli. Talið er, að þessi staður sé sá hagstæðasti, sem um er að ræða, til þess að árangur náist í trjárækt, sem geti orðið atvinnuvegur.

Til sjóvarnargarða er lagt til, að fjárveiting hækki um 100 þús. kr. og verður þá alls 850 þús. kr. Um skiptingu á fjárupphæðinni vísast til sérstaks yfirlits á þskj. Þá er næst till. um fjárveitingar til fyrirhleðslna. Margar umsóknir bárust um styrk í þessu skyni hvaðanæva af landinu. Að þessu sinni var þörfin óvenjulega mikil, og sá n. sér ekki annað fært en að gera till. um, að fjárveitingin hækkaði um 1 millj. 125 þús. kr. frá því, sem var í fjárlagafrv., og um sundurliðun á þeirri upphæð vísast til sérstaks yfirlits.

Þá er næst till. n. um fjárveitingu til landþurrkunar. Er lagt til, að liðurinn hækki um 280 þús. kr. samkv. sérstöku yfirliti. Í því sambandi vil ég vekja athygli á því, að misprentun hefur átt sér stað varðandi 6. tölul. Þar á að standa Háfsósar í staðinn fyrir Hofsós. Háfsósar eru rétt hjá Þykkvabæ.

Þá er till. um hækkun, sem nemur 700 þús. kr., til Orkustofnunarinnar, sem er aukið fé til jarðborunarframkvæmda. Lagt er til að hækka liðinn „gjaldfærður stofnkostnaður við bændaskólann á Hvanneyri“ um 362 þús., en það er vegna kaupa skólans á húsi eins starfsmanns, sem hætti störfum við skólann, en bústaðurinn var eign starfsmannsins. Til byggingar húsmæðraskóla utan kaupstaða hækkar fjárveiting um 1 millj. 477 þús. kr., en um sundurliðun á upphæðinni vísast til sérstaks yfirlits á þskj.

Þá koma brtt. n. varðandi fjárlagaliði, sem heyra undir dóms- og kirkjumrn. Þar kemur fyrst till. um, að laun við sýslumannsembættið í Borgarnesi hækki um 100 þús. kr., en hér er um leiðréttingu að ræða. Þá er lagt til að hækka fjárveitingar til fangaklefa lögreglunnar í Reykjavík um 2 millj. kr. Verður þá liðurinn samtals 3 millj. 723 þús. kr. Með þessari fjárveitingu er gert ráð fyrir, að bætt verði úr því vandræðaástandi, sem ríkjandi er í þessum málum hér í borginni, þannig að þessir nýju klefar við nýju lögreglustöðina verði notaðir fyrir fanga til styttri dvalar og þá fangageymslan í Síðumúla fyrir fanga, sem dveljast um lengri tíma í fangahúsum. Með hliðsjón af því, að um næstu áramót koma til framkvæmda lög nr. 83 1967 um breyt. á almannatryggingalögunum, breytast nokkrir fjárlagaliðir fjárlagafrv. þannig, að heildarframlag til Landsspítalans lækkar úr 139 millj. 850 þús. í 48 millj. 627 þús., eða þar lækkar liðurinn um 91 millj. 223 þús. kr. Til fæðingardeildar Landsspítalans lækkar úr 16 millj. í 1 millj. 495 þús. kr., eða um 14 millj. 794 þús. Til geðveikrahælisins á Kleppi lækkar fjárveiting úr 29 millj. 21 þús. kr. í 12 millj. 413 þús., eða um 16 millj. 608 þús. kr. Fjárveiting til heilsuhælisins á Vífilsstöðum lækkar úr 15 millj. 397 þús. í 4 millj. 803 þús. eða um 10 millj. 594 þús. kr. Til heilsuhælisins í Kristnesi lækkar fjárveiting um 473 þús., og til fávitahælis í Kópavogi lækkar fjárveiting um 3 millj. 441 þús. kr. Til sjúkrahúsa samkv. lögum lækkar fjárveiting úr 12 millj. 420 þús. í 8 millj. 420 þús. kr., eða um 4 millj. kr. Samtals er þá lagt til, að framlag til þessara stofnana lækki á þessum liðum um 141 millj. 97 þús. kr. Þá er lagt til, að fjárveiting til byggingar sjúkrahúsa o.fl. hækki um 2 millj. 450 þús., og um skiptingu á upphæðinni vísast til sérstakrar sundurliðunar í þskj. Fjárveiting til St. Jósefsspítala hér í Reykjavík og Fransiskusspítalans í Stykkishólmi er lagt til, að verði felld niður. Er það einnig bein afleiðing af framkvæmd fyrrgreindra laga, svo sem ég hef áður vikið að.

Liðurinn „fávitar, framfærsla“ er lagt til, að hækki um 1 millj. 988 þús., og verður þá samtals 36 millj. 509 þús. Þá er till. um, að tekinn verði upp nýr liður, sem er til aðstoðar við sjúklinga, sem leita þurfa læknishjálpar erlendis. Þar er till. um 700 þús. kr. fjárveitingu, sem er hliðstæð upphæð við það, sem er í fjárl. á yfirstandandi ári. Á síðasta þingi var samþ. þáltill., sem fól í sér áskorun á ríkisstj. um, að hún léti endurskoða lög um almannatryggingar. Sú samþykkt hefur ekki enn þá komið til framkvæmda, og á meðan slík endurskoðun hefur ekki farið fram, er talið nauðsynlegt að hafa slíka upphæð sem þessa inni í fjárlagafrv. Þessu næst eru till., sem falla undir fjárlagaliði félmrn. Þar er fyrst lagt til, að framlag til Tryggingastofnunar ríkisins hækki um 192.9 millj., sem einnig er afleiðing fyrrgreindra laga nr. 83 1967, um breyt. á almannatryggingalögunum, sem koma til framkvæmda frá næstu áramótum. Þegar fjárlagafrv. var samið, var hins vegar byggt á eldri lögum, þar sem þá var ekki fengin endanleg niðurstaða á framkvæmd l. og þá gert ráð fyrir, að þessir fjárlagaliðir yrðu endurskoðaðir í meðförum þingsins. Þegar allt er tekið með, sem leiðir af þeirri endurskoðun, sem nú hefur átt sér stað, verður um heildarhækkun útgjalda á fjárl. að ræða í sambandi við framkvæmd þessara l., sem nemur 50 millj. 29 þús. kr.

Þessu næst er till. um, að liðurinn „vatnsveitur aðrar“ hækki um 175 þús. kr., en það eru styrkir til nokkurra aðila, sem ekki koma undir vatnsveitulögin, en verða hins vegar fyrir óeðlilega miklum kostnaði við vatnsveituframkvæmdir. Til sumardvalarheimila, dagheimila og fleira er lagt til, að liðurinn hækki um 150 þús. kr., en hér er um rekstrarstyrk til dagheimilanna að ræða. Til UMFÍ er lagt til, að liðurinn hækki um 150 þús. kr. og verði þá samtals 400 þús. Þá er lagt til, að upp verði tekinn nýr liður, dagheimili, byggingarstyrkur að upphæð 525 þús. Er hér um hliðstæða fjárveitingu að ræða og verið hefur í fjárl. undanfarinna ára, en um skiptingu á upphæðinni vísast til sérstaks yfirlits. Þá er lagt til, að tekinn verði upp nýr liður að upphæð 2 millj. kr. til Geðverndarfélagsins, byggingarstyrkur. Svo sem kunnugt er, stendur Geðverndarfélagið fyrir byggingu þriggja vistheimila að Reykjalundi, sem ætlað er, að hafi rúm fyrir 12 sjúklinga. Byggingum þessum er nú vel á veg komið, en fjármagns til að standa undir byggingarkostnaði hefur Geðverndarfélagið að mestu leyti aflað með frjálsum samskotum almennings. Stjórn Geðverndarfélagsins fór að þessu sinni fram á það við fjvn., að tekin yrði upp í heimildargrein fjárlagafrv. heimild um að leyfa Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins að leggja 25 aura, er gangi til Geðverndarfélags Íslands, á hvern vindlingapakka, sem hún selur. Það er einróma álit fjvn., að hinir ýmsu tekjustofnar, sem nú ganga til margvíslegra félagssamtaka og til styrktar vanheilum, þurfi að endurskoðast með það fyrir augum, hve þörfin er rík í þessu tilfelli, því að eins og nú er, virðist það vera nokkuð handahófskennt, hve stór upphæð kemur í hlut hvers aðila. Það má því gera ráð fyrir, að fjvn. muni bera fram síðar á þessu þingi þáltill., sem muni fela í sér áskorun á ríkisstj. um, að mál þetta verði allt tekið til endurskoðunar. Það er því till. n. að þessu sinni, að Geðverndarfélagið njóti fjárveitingar úr ríkissjóði að upphæð 2 millj. kr., eins og ég áðan sagði.

Þá er næst till. um fjárveitingu að upphæð 100 þús. kr. til Íþróttasambands Íslands. Skal upphæðinni varið til að standast kostnað vegna landsmóta, sem haldin verða.

Liðurinn „styrktarfé og ýmis eftirlaun“ er lagt til, að hækki um 413 þús. kr. og liðurinn „styrktarfé og eftirlaun, ekkjur og börn“ hækki um 642 þús., eða þessir tveir liðir samtals um 1 millj. 55 þús. kr., en um sundurliðun á upphæðinni vísast til sérstaks yfirlits á þskj. Þá er lagt til að hækka liðinn „símakostnaður og símtöl fyrir stjórnarráðið“ um 800 þús. kr. vegna kaupa á nýrri símstöð fyrir stjórnarráðsbygginguna og er í beinu sambandi við gengislækkunina.

Þessu næst koma fjárlagatill., sem falla undir samgöngu- og iðnmrn. Er þar fyrst till. um hækkun á fjárveitingu til að halda uppi byggð og gistingu fyrir ferðamenn, og nemur hækkunin 57 þús. kr. Þá eru næst till. n. um framlag til nýbyggingar hafna og lendingarbóta. Leggur n. til, að liðurinn hækki alls um 25 millj. 585 þús. kr. Er hér að öllu leyti farið eftir framkvæmd hinna nýju hafnalaga og þá hluti ríkissjóðs greiddur að fullu á framkvæmdaárinu. Hér er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir viðkomandi sveitarfélög og allt önnur og betri aðstaða fyrir þá aðila, sem í framkvæmdum standa, heldur en áður hefur átt sér stað. Að þessu sinni er hæsta fjárveiting til einstakrar hafnar 8.4 millj. kr., en það er til Ísafjarðar. Að öðru leyti vil ég vísa til sérstaks yfirlits um sundurliðun á framkvæmdafénu til einstakra hafna.

Þá er lagt til, að liðurinn „ferjubryggjur“ hækki um 150 þús. kr., og vísa ég einnig í því sambandi til sérstaks yfirlits um skiptingu fjárupphæðarinnar. Liðurinn „hafnarmannvirki og eftirstöðvar framlaga“ er lagt til, að hækki um 2 millj. kr. og verði þá samtals 12 millj.

Þessu næst koma brtt. á rekstrarliðum nokkurra B-hluta stofnana. Í því sambandi vil ég sérstaklega vekja athygli á þeim breytingum, sem verða hjá sjúkrahúsunum og sem leiðir af áðurgreindri lagabreyt. nr. 83 1967 og hefur áhrif á tekjur sjúkrahúsanna fyrir seldar vörur og þjónustu. Samtals nemur hækkun hjá þessum stofnunum samkv. tölul. 45–51 137 millj. 133 þús. kr. Að öðru leyti vil ég vísa til sundurliðunar á upphæðinni, eins og fram kemur á þskj. nr. 200. Sömuleiðis verða breytingar hjá Tryggingastofnun ríkisins, framlög úr ríkissjóði vegna sjúkratrygginga. Þar hækkar liðurinn um 192 millj. 900 þús. kr. og verður þá alls 616 millj. kr.

Þá koma brtt. við 6. gr., heimildagr. fjárlagafrv. Þar eru nýjar till., um að ríkisstj. verði heimilað að verja hluta af tekjum byggingar Rannsóknastofnunar sjávarútvegsins af útflutningsgjaldi til greiðslu kostnaðar fiskiðnnámskeiða. Að ábyrgjast allt að 3 millj. kr. lán til greiðslu á byggingarskuldum Kvennaheimilisins Hallveigarstaða gegn þeim tryggingum, sem hún metur gildar. Samhljóða till. var í fjárl. yfirstandandi árs, en var ekki notuð og þess vegna talið nauðsynlegt að endursamþykkja till. nú. Að endurgreiða aðflutningsgjöld og söluskatt af vísindatækjum, sem rannsóknastofnanir atvinnuveganna eiga kost á að fá frá erlendum vísindastofnunum. Að endurgreiða Surtseyjarfélaginu aðflutningsgjöld og söluskatt af vísindatækjum, sem félagið fær að gjöf eða láni erlendis frá á árinu 1969. Að selja húseignina Litla-Gvendarhús í Vestmannaeyjum til flutnings eða niðurrifs. Að kaupa hús fyrir allt að 6 millj. kr. til afnota sem vistheimili fyrir sjúklinga við Kleppsspítala og taka nauðsynleg lán vegna þeirra kaupa. Að ábyrgjast allt að 185 millj. kr. lán eða jafnvirði þess í erlendri mynt til smíði hafrannsóknaskips. Að endurgreiða aðflutningsgjöld og söluskatt af bæklingum og ritum, sem seld eru eða dreift erlendis til landkynningar. Að ábyrgjast fyrir Landsvirkjun lán allt að 220 millj. kr. eða jafnvirði þess í erlendum gjaldeyri til kaupa á gasaflsstöð. Að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán til handa Tryggingasjóði fiskiskipa allt að 66.3 millj. kr. vegna greiðsluörðugleika sjóðsins. Að ábyrgjast allt að 8 millj. kr. vegna Lánasjóðs ísl. námsmanna. Og að kaupa, ef fáanlegt er, hentugt húsnæði fyrir Matsveina- og veitingaþjónaskólann og taka nauðsynleg lán í því sambandi.

Við tekjubálk fjárlagafrv. hefur meiri hl. n. leyft sér að bera fram brtt. við tvo liði, eins og fram kemur á sérstöku þskj. Þar er lagt til, að liðurinn „tekjuskattur einstaklinga“ hækki um 65 millj. kr., en af því leiðir, að framlag til Byggingasjóðs ríkisins hækkar um 650 þús. kr. Þá er lagt til, að liðurinn „hluti af umboðsþóknun og gengismun viðskiptabankanna“ hækki um 15 millj. kr., eða tekjuliðir þá samtals um 80 millj.

Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir þeim till., sem meiri hl. fjvn. og fjvn. sameiginlega hafa leyft sér að flytja við þessa umr. Verði þessar till. samþykktar, kemur greiðsluyfirlit ríkissjóðs til með að líta þannig út, að tekjurnar verða samtals á greiðsluyfirlitinu 7 milljarðar 96 millj. 482 þús., en gjöldin verða 7 milljarðar 720 þús. kr., og eru því tekjur umfram gjöld 95 millj. 762 þús. Greiðslujöfnuður á rekstrarreikningi er þá tekjur umfram gjöld 95 millj. 762 þús., en á lánahreyfingum út eru 86 millj. 18 þús. kr. og þá greiðsluafgangur 9 millj. 744 þús. kr.

Herra forseti. Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir brtt. meiri hl. fjvn. og fjvn. sameiginlega. Ég vænti þess, að alþm. samþykki þessar till. og að fjárlagafrv. verði þannig afgreitt til hæstv. ríkisstj.