23.04.1969
Sameinað þing: 43. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í D-deild Alþingistíðinda. (3964)

212. mál, sumaratvinna skólafólks

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það er aðeins vegna þess, að það hefur borizt í tal hér í þessum umr., hvaða ráðstafanir ætti að gera til þess að útvega framhaldsskólafólki atvinnu og hvaða ráðstafanir Reykjavíkurborg og aðilar þar hefðu í hyggju, að mig langar til þess að segja um þetta örfá orð.

Eins og hv. alþm. vafalaust er kunnugt, var atvinnumálanefnd Reykjavíkur sett á stofn 19. sept. 1968 eða fyrir rúmum 7 mánuðum. Hún var þannig skipuð, að allir flokkar í borgarstjórn áttu þar fulltrúa. Auk þess voru fulltrúar frá samtökum vinnuveitenda og launþega. Verkefni þessarar n. var tvenns konar. Annars vegar átti hún að beina störfum sínum að því að útrýma eftir föngum því ískyggilega atvinnuleysi, sem fyrirsjáanlegt var á þeim vetri, sem þá fór í hönd og hins vegar átti þessi n. alveg sérstaklega að hyggja að verkefnum fyrir framhaldsskólanemendur, þegar þeir kæmu úr skólum núna á þessu vori.

Verk þessarar n. eru þau, að hún hefur velt þessu heilmikið fyrir sér að sjálfsögðu og þegar atvinnumálanefnda skipan hæstv. ríkisstj. var tekin upp, var þessari n. nokkuð breytt í samræmi við það, sem þá var gert um land allt, þó ekki meira en svo, að ég hygg, að breytingin sé sú ein, að einn maður hefur horfið úr n. En árangurinn, — það er ekki tími til þess að rekja þetta hér í löngu máli, — árangurinn er samt sá um fyrra verkefnið, að nú fyrir nokkrum dögum, á hávertíð í miklum afla, eru þó enn 600 skráðir atvinnulausir í Reykjavík, og satt að segja hygg ég, að atvinnumálanefndin hafi mjög litlu getað komið til leiðar til þess að draga úr atvinnuleysinu og litlu öðru en því að útvega nokkurt fjármagn til hitaveituframkvæmda.

Um seinna verkefnið var á síðasta borgarstjórnarfundi upplýst, að ekkert hefði verið gert til þess að útvega framhaldsskólanemendum atvinnu í sumar, en því lýst yfir, að könnun á atvinnuástandi nemendanna mundi fara fram í skólunum einhvern næstu daga. Ég geri þá ráð fyrir, að þeirri könnun sé um það bil lokið nú, án þess að ég viti það. Nú sögðu allir, sem viðstaddir voru á þessum borgarstjórnarfundi, að það væri kannske varla von, að atvinnumálanefnd Reykjavíkur gæti miklum sköpum skipt í þessu, þar sem hún hefði ekkert vald og það þyrfti að leita til ríkisvaldsins til þess að koma einhverjum umbótum í verklegar framkvæmdir. Og menn settu traust sitt þar á hæstv. ríkisstj., samþykktu þar áskorun til hæstv. ríkisstj. um að láta nú hendur standa fram úr ermum í því að útvega framhaldsskólanemendum sumaratvinnu. En nú höfum við fengið upplýsingar um það, hvað hæstv. ríkisstj. hefur aðhafzt í þessu máli. Það eina, sem mér fannst vera alveg áþreifanlegt í svari hæstv. ráðh. var það, að hæstv. ríkisstj. ætlaði að fylgjast með þeirri könnun, sem atvinnumálanefnd Reykjavíkur ætlar að láta fara fram í skólunum á því, hversu marga framhaldsskólanemendur vanti vinnu. Þetta er það, sem hefur verið gert af hálfu yfirvalda borgarinnar og ríkisins til þess að sjá skólafólkinu fyrir atvinnu í sumar. Og þegar það er haft í huga, að eftir örfáa daga kemur fyrsti hópur framhaldsskólanemendanna úr Verzlunarskólanum á vinnumarkaðinn og síðan hver af öðrum, þá sé ég ekki annað, en hér sé fullkomið öngþveiti framundan.