23.04.1969
Sameinað þing: 43. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í D-deild Alþingistíðinda. (3969)

285. mál, rekstur Landssmiðjunnar

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er ekkert launungarmál, að ég hef aldrei talið ríkisrekstur eða ríkisfyrirtæki neitt ástfóstur mitt í stjórnmálum, en ég sé ekki ástæðu til þess að fara út í þá sálma nú, heldur skal ég svara þeirri fsp., sem beint er til mín um eitt ríkisfyrirtæki, sem heyrir undir rn. það, sem ég fer með.

Ég vil í fyrsta lagi, þrátt fyrir þessa almennu skoðun mína, mótmæla því eindregið, að ég í embættisfærslu minni hafi afrækt þetta fyrirtæki, því að það er ekki satt. Ég vil einnig mótmæla því, að ríkisstj. hafi með nokkrum ráðagerðum grafið undan þessu fyrirtæki, því að það er ekki heldur satt. Hitt er annað mál, að það hefur sífellt verið að grafa undan þessu fyrirtæki, en það kunna að liggja fyrir því allt aðrar ástæður og kannske er ein sú, að fyrirtækið er ríkisfyrirtæki. Það er algerlega rangt, að einkaaðilar í þessari atvinnugrein hafi í nokkurt skipti fyrr eða síðar mér vitanlega lagt áherzlu á, að Landssmiðjan væri ekki rekin eða dregið úr rekstri hennar, vegna þess að þau þyldu ekki samkeppni við Landssmiðjuna. Hér er hlutunum snúið við. Það getur verið, að Landssmiðjan hafi ekki þolað samkeppni við einkafyrirtæki, en Landssmiðjan var á sínum tíma sett upp sem verkstæði til þess að annast ýmsar viðgerðir, eins og kunnugt er og aðgerðir fyrir ríkisfyrirtæki, en með þeirri stækkun, sem hefur orðið og aukningu í atvinnulífinu frá þeim tíma og margháttuðum breytingum varð aðstaða Landssmiðjunnar allt önnur, ef hún átti að vera í samkeppni við einkafyrirtækin, sem á sama tíma höfðu risið upp í þessu landi, ef hún átti að standast þá samkeppni.

Til þess að færa orðum mínum stað um það, að Landssmiðjan hafi hvorki verið afrækt né af hálfu stjórnarinnar verið grafið undan henni, þá vil ég aðeins hafa þann stutta aðdraganda að svari mínu, sem gefur einnig verulega skýringu á svörunum, þegar að þeim kemur. Það er þá í fyrsta lagi, að ekki löngu eftir að ég tók við því embætti, sem Landssmiðjan heyrir undir, skipaði ég 7. okt. 1965 n. manna til þess að leitast við að gera sér grein fyrir, hvaða hugsanlegar leiðir væru fyrir hendi fyrir ríkisstj. til ákvörðunar um framtíðarstefnu í málefnum Landssmiðjunnar. Ég hafði engin afskipti haft sem ráðh. af þessari Landssmiðju þennan tíma, frá því að ég tók við embætti í nóv. 1963, önnur en sífelld vandkvæði, sem Landssmiðjan var að bera upp við ráðh. út af rekstrarlánaskorti og margháttuðum örðugleikum, sem hún væri í.

Með þessu bréfi, dags. 7. okt. 1965, þegar umrædd n. var skipuð, átti verkefni hennar að vera að kynna sér rekstraraðstöðu Landssmiðjunnar, gera sér ljósar þær leiðir, sem hugsanlegar eru við ákvarðanir um framtíðarhlutverk smiðjunnar, kosti þeirra og ókosti og gera grein fyrir þessum athugunum í skýrslu til rn. Nefndina, sem ég skipaði, skipuðu eftirtaldir menn: Jón Sigurðsson núv. ráðuneytisstjóri í fjmrn., en þá deildarstjóri í atvmrn., forstjóri Landssmiðjunnar, Guðlaugur Hjörleifsson, Pétur Pétursson forstjóri, Ólafur Björnsson prófessor og Sveinn Björnsson framkvstj. Iðnaðarmálastofnunar Íslands. Þessi n. skilaði ýtarlegu áliti 14. júní 1967. Niðurstöður n. í sem stytztu máli voru þær, að þrjár leiðir kæmu til greina en nál. er allt of ýtarlegt og margþætt, til þess að út í það sé hægt að fara hér nú. En þær leiðir, sem n. taldi, að kæmu til greina, voru: 1) Landssmiðjan verði byggð upp að nýju sem ríkisfyrirtæki með svipuðum markmiðum og verið hefur; 2) Landssmiðjan verði seld í einu lagi til einkaaðila; og 3) stofnað verði hlutafélag með þátttöku ríkisins um endurbyggingu smiðjunnar.

Það kom greinilega fram í álitsgerð nefndarinnar, að hún taldi óhugsandi, að rekstri Landssmiðjunnar yrði haldið áfram á þeim stað og við þær aðstæður, sem hún er rekin. Það segir í bréfi, sem fylgdi þessu nál.:

„Í skipunarbréfi er tekið fram, að till. n. sé óskað um nýja stefnu í málefnum Landssmiðjunnar, ef n. telur sér fært að gera slíkar rökstuddar till. Hefur n. orðið sammála um, að hún gæti ekki gengið lengra, en benda á þær þrjár leiðir, sem í bréfi þessu greinir, þar eð valið milli þeirra geti einungis átt sér stað með pólitískri ákvörðun, en ekki sé mögulegt neitt hlutlægt mat né rökrétt niðurstaða um, hver þessara valkosta sé beztur.“

En um þessa þrjá valkosti hins vegar fer n. mjög ýtarlegum álitsorðum í nál. og birtir með því margar skýrslur og töflur, sem stuðla að því að gera sér grein fyrir, hverjir valkostanna mundu verða beztir.

Það var mín skoðun, að það væri vonlaust að reka Landssmiðjuna áfram á þessu stigi málsins, þegar þetta lá fyrir, við þær aðstæður, sem hún bjó við, í mjög óhentugu húsnæði á óhentugum stað og ef ríkið ætti að byggja landssmiðju, sem væri hæf til þess að keppa við einkasmiðjur í sömu atvinnugrein hér á landi, þá væri það vonlaust nema byggja þessa smiðju upp með nýtízkusniði. Í það hefðu að sjálfsögðu farið mjög miklir fjármunir, en auk þess fer ég ekki dult með það, að á því hafði ég engan áhuga að byggja upp slíkt ríkisfyrirtæki og upphaflegur tilgangur verksmiðjunnar er líka töluvert mikið annar, ef menn kynna sér lögin, sem um Landssmiðjuna gilda. Og ég taldi engum tilgangi þjónað með því að leggja ríkisfé í slíka aðgerð.

Um það atriði höfum við verið ósammála, hv. fyrirspyrjandi og ég, eins og þegar hefur komið fram og þýðir ekki um það að deila.

Svo var það næsta, að árið eftir að þetta nál. lá fyrir höfðu tekið gildi hér iðnfræðslulögin nýju um verknámið og þá var talið, að það yrði mjög örðugt að koma því eins fljótt og æskilegt var í framkvæmd með því að ljúka við þá byggingu, sem þegar var byrjað á að byggja á Skólavörðuholti og þá beindist athygli manna að því, hvort sú aðgerð í sambandi við Landssmiðjuna gæti verið heppileg að nota nokkuð af húsnæði hennar fyrir verknámsdeildirnar eða verknám, sem hafið yrði í húsnæði hennar og með þeim vélakosti, sem hún átti við að búa. Og það var 17. maí árið 1967, sem ég skipaði n. manna, Guðlaug Hjörleifsson forstjóra verksmiðjunnar, Óskar Hallgrímsson borgarfulltrúa, Þór Sandholt skólastjóra og Ólaf S. Valdimarsson deildarstjóra í iðnmrn., til þess að gera till. um, með hverjum hætti húsnæði og vélakostur Landssmiðjunnar yrði nýttur fyrir verknámsskóla. Þeir skiluðu svo bráðabirgðaáliti um sumarið, sem þótti hníga að því, að hér gæti verið um hentuga ráðstöfun að ræða, bæði frá sjónarmiði Landssmiðjunnar, frá sjónarmiði iðnfræðslunnar og fyrir fjárhagsaðstöðu ríkissjóðs og var þá falið að halda áfram frekari grg. um þetta mál og gera till. um það, með hverjum hætti húsnæði Landssmiðjunnar gæti hentað og yrði notað fyrir verknámið. Þeirri endanlegu álitsgerð skiluðu þessir aðilar 10. nóv. 1967.

Loks var það, að í júlímánuði 1968 skipaði fjmrh. — það snertir nokkuð þetta mál — nefnd manna til þess að gera till. um framtíðarskipun á verkstæða rekstri ríkisins og inn í þessa athugun á verkstæðarekstri ríkisins hefur svo einnig Landssmiðjan blandazt, sem ég síðar kem að. En verkstæðanefndin, sem við getum kallað, skilaði endanlegu áliti 17. marz 1969.

Nú skal ég ekki fara nánar út í þessa sálma. Þetta var aðdragandi, sem ég vildi aðeins minnast á til þess að gefa mönnum svolítið yfirlit um það, með hverjum hætti og af hvaða ástæðum hefur á undanförnum 3–4 árum verið fjallað um málefni Landssmiðjunnar, en að svo mæltu snúa mér að því að svara fsp., sem beint er til mín af hv. 6. þm. Reykv. Ég vil biðja hv. þm. velvirðingar á því, að ég mun ekki nota sömu töluröð í svörum eins og er í fsp. hans, en ég hygg, að það komi ekki að sök, þar sem mér þótti það henta betur að breyta nokkuð um röðina vegna tímaákvarðana, sem teknar hafa verið, og það félli betur inn í heildarmyndina.

Ég vil þá nefna fyrstu spurninguna, sem er liður 6 á þskj.: „Hvers vegna var húsakostur Landssmiðjunnar þrengdur með því að setja þar upp verknámsdeild Iðnskólans í stað þess að ljúka við fokhelda byggingu við Iðnskólann í Reykjavik?“ Þessu svara ég þannig: Það hefur verið ljóst um nokkurt skeið, að húsakostur sá, sem Landssmiðjan á í dag, er ekki hagkvæmur fyrir meiri háttar málmsmíðaverkstæði. 2. hæðin, sem Iðnskólinn hefur nú á leigu, var notuð af tréskipasmiðum. Þessi starfsemi hafði mjög dregizt saman vegna fækkandi tréskipa. Einnig hefur Iðnskólinn á leigu mest alla 1. hæð. Á sama tíma var ljóst, að verknám yrði að komast í gang, áður en byggingaráætlun iðnskólahúss gerði það mögulegt. Þörfin fyrir slíkt var augljóslega brýn, þar sem nú hafa verið 90 nemar í allan vetur við málmsmíði í húsnæði Iðnskólans í Landssmiðjunni auk venjulegrar kennslu í verklegri trésmíði húsasmiða. Iðnskólinn hefur á leigu samtals 1.168 fermetra eða um 1/4 hluta af heildar húsakosti Landssmiðjunnar.

Þá er 2. spurning: „Hver var kostnaður við breytingar á því húsnæði Landssmiðjunnar, sem verknámsdeild Iðnskólans notar nú?“ Það er liður 7 á þskj. Kostnaður við breytinguna á húsnæði því, sem Iðnskólinn hefur í Landssmiðjunni, var um 1 millj. 850 þús. kr. og á þá eftir að framkvæma nokkra lagfæringu á trésmíðadeild, sem ekki hefur verið endanlega ákveðið um. Inni í þessum kostnaði eru kaup á handverkfærum, hefilbekkjum og fleiri tækjum, sem skólinn getur alls staðar notað.

3. spurning: „Hefur Landssmiðjan fengið greidda húsaleigu fyrir það húsnæði, sem verknámsdeildin notar?“ Það er liður 8 á þskj. Ákveðið var, að tveir matsmenn skyldu fengnir til þess að meta leigu fyrir húsnæðið, sem Iðnskólinn hefur tekið á leigu. Var mat þeirra á leigunni 50 kr. á fermetra eða 701 þús. kr. á ári, og hefur sú leiga verið greidd fyrir s.l. ár.

4. spurning: „Hafa viðskipti ríkisstofnana við Landssmiðjuna dregizt saman síðustu árin, og ef svo er, hvers vegna?“ Þetta er liður 2 á þskj. Viðskipti ríkisstofnana við Landssmiðjuna hafa dregizt verulega saman síðustu ár. Ástæðurnar eru þær, að mörg ríkisfyrirtæki, sem Landssmiðjan vann áður fyrir, hafa sett upp sérstök verkstæði, skipum hefur fækkað, eins og hjá Ríkisskip o.fl. Heildarviðskipti ríkisstofnana við Landssmiðjuna voru árið 1966 26.5 millj. kr., 1967 voru þau 14.5 millj. kr. og 1968 15 millj. kr., eða árið 1966 38% af heildarveltu Landssmiðjunnar, árið 1967 29.4% og árið 1968 hlutfallslega mest eða 39.2% af heildarveltu Landssmiðjunnar.

5. spurning: „Hvers vegna eru ýmis ríkisfyrirtæki látin reka málmiðnaðar verkstæði í stað þess að fela Landssmiðjunni þau verkefni?“ Þetta er liður 3 á þskj. Í þeirri viðleitni ríkisstj. að koma á sem hagstæðustum rekstri ríkisstofnana hefur verið ljóst , að hin mörgu og dreifðu verkstæði, sem ríkisstofnanir reka, þyrftu endurskoðunar við. Var því skipuð n. til að gera till. um framtíðarskipan á verkstæðis rekstri ríkisins í þeim tilgangi að koma á hagkvæmari vinnubrögðum og draga úr kostnaði. Ber n. sérstaklega að kanna leiðir til aukinnar sérhæfni, þar sem afkastagetan sé við það miðuð, að verkstæðin geti annað eðlilegri viðgerðarþjónustu, sem stofnanir og fyrirtæki ríkisins þurfi á að halda.

Svo er 6. spurning, sem er liður 4 á þskj.: „Er ekki unnt að auka samvinnu Landsvirkjunar og Landssmiðju í sambandi við framkvæmdir og járniðnaðarvinnu við vatnsaflsvirkjanir?“ Samvinna við Landsvirkjun er hæpin umfram það, sem þegar er. Á s.l. ári reisti Landssmiðjan tvo olíugeyma fyrir gasaflstöð Landsvirkjunar við Straumsvík. Öll meiri háttar verk, sem Landsvirkjun hefur með höndum, eru boðin út.

Þá eru 7. og 8. spurning. Það eru liðir 5 og 1 á þskj.: „Hvers vegna eru Landssmiðjunni ekki falin þau verkefni, sem hún getur annazt fyrir Síldarverksmiðjur ríkisins, Sementsverksmiðju ríkisins, Skipaútgerð ríkisins, Kísilgúrverksmiðjuna og fleiri ríkisstofnanir? Hverjar eru ráðagerðir ríkisstj. um frambúðarrekstur Landssmiðjunnar?“ Nú er að vísu Kísilgúrverksmiðjan ekki ríkisstofnun, heldur hlutafélag. En svarið er þetta: Í framhaldi af þeirri breytingu, sem verið er að koma á um útgerð skipa ríkisins og með hliðsjón af till. nefndar þeirrar, sem unnið hefur að athugun á verkstæðismálum ríkisstofnananna, er ætlun ríkisstj.:

1) Landssmiðjan taki að sér reglubundið viðhald og eftirlit skipa ríkisins, þ.e. ríkisskip, eins og kunnugt er og varðskipin og síldarleitarskip, hafrannsóknarskip og nokkur fleiri skip. Tekur það ekki til meiri háttar viðgerða né flokkana, það mun ekki geta átt sér stað þar. Skal allt viðhald fara fram í samráði við og með umsjón fjármálastjóra Ríkisskips, sem nú hefur nýlega verið skipaður. Sé allt viðhald og eftirlit skipulagt fram í tímann, eftir því sem unnt er.

2) Verkefni, sem Landssmiðjan getur ekki annazt, eins og meiri háttar flokkanir, sem ég nefndi, verði Landssmiðjunni falið að sjá um, að aðrar smiðjur annist. Hafi Landssmiðjan jafnframt á hendi allt eftirlit og umsjón með verkefnum, sem falin eru öðrum smiðjum.

3) Landssmiðjan taki að sér dísilvéla viðgerðir Rafmagnsveitna ríkisins, og flytjist núverandi verkstæði þeirra í Landssmiðjuna. Enn fremur taki Landssmiðjan að sér viðgerðir fyrir Jarðboranir ríkisins, eftir því sem við á.

4) Gert er ráð fyrir því, að Landssmiðjan verði áfram sjálfstætt fyrirtæki með aðskilið reikningshald, en verði skipt í tvær deildir, skipaþjónustudeild annars vegar og verzlun og rekstur fasteigna hins vegar. Endurgreiði Landssmiðjan ríkissjóði af hagnaði síðarnefndu deildarinnar áhvílandi skuldir við ríkissjóð, sem ríkissjóður hefur þurft að leggja út á undanförnum árum fyrir Landssmiðjuna.

5) Sett verði þriggja manna stjórnarnefnd og hefur ríkisstj. fallizt á það við Landssmiðjuna. Skulu eiga sæti í henni fulltrúar frá atvmrn., fulltrúi frá fjmrn. og fjármálastjóri Skipaútgerðar ríkisins. Skal það vera verkefni stjórnarinnar að taka undir yfirstjórn ráðuneytis sameiginlegar ákvarðanir um öll meiri háttar mál, er varða rekstur Landssmiðjunnar.

Eins og menn sjá, hefur komið fram af svörunum, að Landssmiðjunni er fyrst og fremst ætlað að verða skipaþjónustumiðstöð fyrir skip ríkisins, en geta þó sinnt minni háttar verkefnum fyrir ríkisfyrirtæki, sem hún hefur unnið fyrir, svo sem Landssíma, ríkisspítala og fleiri, auk þess sem verknámið hefur fengið inni í Landssmiðjunni, eins og áður hefur verið vikið að. Ég vona, að með þessu séu nokkurn veginn tæmdar þær spurningar, sem til mín hefur verið beint. Um hitt skal ég ekki fara fleiri orðum, hvort eigi að reka slík atvinnufyrirtæki sem ríkisfyrirtæki eða ekki, og það má liggja milli hluta mín vegna á þessum vettvangi.