07.05.1969
Sameinað þing: 47. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í D-deild Alþingistíðinda. (3987)

224. mál, fréttastofa sjónvarps

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. þm. spyr um, hvaða reglur gildi um stjórnmálafréttir útvarpsins, innlendar og erlendar.

Þær reglur, sem eru til, eru allar prentaðar. Það eru ákvæði um þetta í útvarpslögum frá 1934, í reglugerð útvarpsins 1958 og í sérstökum reglum, sem gefnar voru út af Ríkisútvarpinu 1945. Allt eru þetta prentaðar heimildir, sem hv. þm. á að sjálfsögðu aðgang að, — þarf ekki að fara lengra, en í skrifstofu Alþ. til þess að geta lesið sér til um þær reglur, sem gilda. Engu að síður skal ég lesa 5. gr. gildandi laga um útvarpsrekstur ríkisins, sem fjallar um þetta, en hún hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Útvarpsráðið tekur ákvarðanir um það, hversu dagskrá skuli hagað í höfuðefnum og leggur fullnaðar samþykki á dagskrá, áður en hún kemur til framkvæmda. Það setur reglur um fréttaflutning útvarpsins og aðrar þær reglur, er þurfa þykir til gæzlu þess, að við útvarpið ríki skoðanafrelsi og fyllsta óhlutdrægni gagnvart öllum flokkum og stefnum í almennum málum, atvinnustofnunum, félögum og einstökum mönnum.“

Svo mörg eru þau orð útvarpslaganna sjálfra um þetta efni og ég legg áherzlu á, að það er útvarpsráð, sem er æðsti yfirmaður fréttaflutnings í útvarpinu, en ekki menntmrh. Ég hef aldrei gert minnstu tilraun til þess og veit ekki til, að nokkur minna fyrirrennara hafi reynt að hafa áhrif á hvorki þær almennu reglur, sem gilt hafa um fréttaflutning í Ríkisútvarpinu og hið sama á við um sjónvarpið, né heldur á flutning einstakra frétta. Á þetta vil ég leggja sérstaka áherzlu.

Í reglugerð um Ríkisútvarpið frá 1958, sem að sjálfsögðu tekur einnig til sjónvarpsins, eru ákvæði í 111. kafla um fréttaflutning og auglýsingar, 10.–16. gr. Ég eyði ekki tíma hv. þm. til þess að lesa þessar reglur, en hef látið ljósrita þá grein úr útvarpslögunum, sem ég las áðan og sömuleiðis alla reglugerðina og skal með ánægju afhenda hv. þm. það, ef hann kýs að kynna sér þetta nánar. Sömuleiðis hef ég meðferðis prentað eintak af reglum um flutning innlendra frétta Ríkisútvarpsins frá árinu 1945 og skal með ánægju einnig afhenda honum það, ef hann hefur áhuga á að kynna sér þetta rækilega. Það er nokkur lestur.

Þá spyr hv. þm., hvers vegna aldrei séu birtar fréttir frá Alþ., nema ráðh. séu taldir hafa sagt eitthvað frásagnarvert. Í raun og veru tel ég, að Alþ. hefði átt að neita að samþykkja þessa fsp., því að það er gegn þeim reglum, sem um fsp. gilda á Alþ., að í fsp. sé farið með rangar staðhæfingar, farið með ósannindi. En hér er farið með ósannindi. Það er ekki rétt, að aldrei séu birtar fregnir frá Alþ., nema ráðh. séu taldir hafa sagt eitthvað frásagnarvert. Þessi staðhæfing er röng, ósönn. Engu að síður taldi ég fyrir mitt leyti rétt að leyfa fsp., beinlínis til þess að geta sýnt hv. alþm. og þjóðinni allri fram á það svart á hvítu, hversu alröng sú getsök er, sem í þessari röngu fsp. felst. Og þeim mun meira tilefni er til þess að leiðrétta þessa röngu staðhæfingu, sem á henni hefur verið alið talsvert í blöðum stjórnarandstæðinganna undanfarnar vikur og mánuði og þó alveg sérstaklega eftir að sjónvarpið tók til starfa og geri ég það því sérstaklega að umtalsefni í þessu tilliti, enda er spurningin um fréttastofu sjónvarpsins.

Um fréttaöflunina almennt segir fréttastjóri sjónvarpsins í mjög ýtarlegri og glöggri grg. um starfsemi fréttastofu sjónvarpsins þetta m. a.:

„Fréttastofa sjónvarpsins styðst varðandi fréttaöflun við texta þá, sem koma af fjarritum AP– og NTB–fréttastofnananna.“

Það er því einnig rangt, sem hv. þm. sagði í fsp. sinni, að fréttaöflun sjónvarpsins væri fyrst og fremst mótuð af brezk–bandarískum sjónarmiðum.

Fréttastjóri sjónvarpsins heldur áfram: „Ennfremur er hlustað eftir getu, þótt fáliðað sé, á erlendar útvarpsstöðvar, einkanlega ef mikil tíðindi eru að gerast úti í heimi. Og loks fær fréttastofa sjónvarpsins daglega fréttakvikmyndir frá UPITN—fréttastofunni í London og CBS í New York og með þeim myndum frétta textahandrit á ensku, sem síðan eru þýdd og endursögð á íslenzku og lesin með fréttamyndunum ásamt nýjum fréttum. Má geta þess, að fréttastofur sjónvarpsstöðvanna á hinum Norðurlöndunum skipta við UPITN og CBS eins og við, en sumar, eins og t.d. Svíar, við fleiri, svo sem Visnews, sem einnig er í London.“ Og ennfremur segir fréttastjórinn: „Síðast, en ekki sízt, er að minnast á samband fréttastofu sjónvarpsins við Nordvision, samband sjónvarpsstöðva á Norðurlöndum. Íslenzka sjónvarpið er í Nordvision og fær oft norrænar sjónvarpsdagskrár, en sjálfkrafa fréttamyndamiðlun frá Nordvision til Íslands er ekki fyrir hendi. Milli hinna Norðurlandaþjóðanna er hins vegar beint myndasamband og þær geta skipzt daglega á fréttakvikmyndum, tekið þær upp á myndsegulband úr beinni útsendingu hver hjá annarri, eins og oftast er gert. Íslenzka sjónvarpið eða fréttastofa þess hefur lagt á það endurtekna áherzlu við fréttamynda fyrirtæki sín, sérstaklega UPITN í London, að fá sem mest af fréttamyndum frá Norðurlöndum. En Norðurlöndin virðast ekki vera sérstaklega mikið í heimsfréttum UPITN , sem á að senda fréttamyndir af austurhelmingi jarðar. Þá hefur einnig verið reynd sú aðferð til að fá úr þessu bætt að biðja Nordvision—skrifstofuna í Kaupmannahöfn að senda okkur vikulega eftir þeirra eigin mati nokkrar norrænar fréttamyndir, sem mundu verða áhugaverðar fyrir okkur. Þetta var reynt í nokkra mánuði, en segja má, að ekkert hefðist upp úr þeirri tilraun og liggja til þess ýmsar ástæður, sem of langt yrði upp að telja.“ Og enn segir fréttastjórinn: „Eins og sakir standa, hefur fréttastofa sjónvarpsins ætíð samband við fréttastofur eða Nordvision—stofur hinna sjónvarpsstöðvanna á Norðurlöndum, þegar eitthvað á að fara fram, á að fara að gerast þar eða gerist þar óvænt, sem búast má við, að hafi sérstaka þýðingu eða veki sérstakan áhuga hér á landi, svo sem í sambandi við Sonning—verðlaunin nú síðast, handritamálið, þegar það er á dagskrá o.s.frv.“

Þetta er það, sem fréttastjóri sjónvarpsins hefur að segja almennt um það, hvernig fréttastofa sjónvarpsins framfylgir þeim ákvæðum laga og reglugerða, sem ég sumpart las og sumpart gat um áðan að því er fréttastofu sjónvarpsins varðar og hygg ég, að engum sanngjörnum manni geti í alvöru dottið í hug að ásaka fréttastofu sjónvarpsins um hlutdrægni eða nokkuð af þeirri tegund, þegar hafðar eru í hug þær starfsreglur, sem hún fylgir samkv. þessari skýrslu.

Þá er að ræða nánar um hina röngu staðhæfingu fyrirspyrjandans, að aldrei séu birtar fréttir frá Alþ., nema ráðh. séu taldir hafa sagt eitthvað frásagnarvert. Um þetta atriði sérstaklega segir fréttastjórinn í grg. sinni:

„Fréttastofa sjónvarpsins, fréttastjórinn og allir starfsmenn fréttastofunnar leyfa sér að mótmæla því og hljóta að telja þá fullyrðingu fyrirspyrjanda vera fram borna gegn betri vitund, að aldrei séu birtar fréttir frá Alþ., nema ráðh. hafi sagt eitthvað frásagnarvert. Þeirri fullyrðingu er vísað heim til föðurhúsanna með hjálögðu yfirliti.“

Og síðan hefur fréttastofa sjónvarpsins gert yfirlit yfir fréttaviðtöl við ráðh. og fréttir af Alþ. og málum þar og stjórnmálafréttir almennt frá 1. ágúst 1968 til 24. apríl 1969 eða skömmu áður en fsp. var á dagskrá fyrir réttri viku. Ég held, að það sé mjög fróðlegt fyrir hv. alþm. og raunar fyrir landsmenn alla, sem hljóta að hafa áhuga á því að vita hið sannasta í hverju máli, að ég lesi þetta yfirlit fréttastofu sjónvarpsins um fréttaviðtöl við ráðh. á þessu tæplega 9 mánaða tímabili og fréttir frá Alþ. og málum þar og stjórnmálafréttir almennt.

Fréttaviðtöl við ráðh. eru 16 og ég skal segja, um hvaða efni þau hafa fjallað: um atvinnumálanefnd ríkisins, um Nordek–áætlunina, um fjárlagafrv. 1969, um ástandið í fjármálum þjóðarinnar, um fjárl. 1969, um 20% innflutningsgjaldið og brbl., um störf á sviði mannréttinda í heiminum, um norræna samvinnu vegna 50 ára afmælis Norrænu félaganna, um umsóknaraðild Íslands að EFTA, um breytingar á Tækniskólanum, um viðræður við viðskrh. Breta, um norræna eldfjallarannsóknarstöð, um birgðasöfnun vegna hafíshættu, um vegáætlun 1969—1972, um hægri umferð og um stóriðjumál.

Hv. þm. eru manna bærastir að dæma um, hvort nokkurt af þessum fréttaviðtalsefnum sé þess eðlis, að ástæðulaust hefði verið fyrir sjónvarpið að flytja fréttir um þessi efni.

En nú skal ég lesa aðrar fréttir frá Alþ. og málum þar, skrá yfir þær, en þær eru 34 eingöngu frá Alþ. og af málum þar á þessu tímabili. Ég held, að ég sleppi að lesa dagsetningar, til þess að spara hv. þm. tíma. Fyrst er alþingissetning, Hannibal Valdimarsson og Björn Jónsson kjósa með Framsókn á Alþ., viðtal við Hannibal Valdimarsson, kosnir forsetar Alþ. og sagt frá fjárlagafrv. og viðtal við fjmrh. um fjárlagafrv. nefnt áður, nefndakjör á Alþ., viðtal við Eystein Jónsson fyrrv. ráðh. um fjármál, viðskrh. mælir fyrir þáltill. um aðild að umsókn Íslands að EFTA, rætt við forvígismenn stjórnmálaflokkanna um afstöðu til umsóknarinnar, forsrh. mælir fyrir stjórnarfrv. um ráðstafanir vegna gengislækkunar, kafli úr framsöguræðu forsrh., rætt við fulltrúa stjórnmálaflokkanna í viðræðunefnd um efnahagsmál, Bjarna Benediktsson og Jóhann Hafstein, Ólaf Jóhannesson, Eystein Jónsson, Gylfa Þ. Gíslason, Emil Jónsson, Lúðvík Jósefsson og Björn Jónsson, forsrh. svarar fsp. frá Gísla Guðmundssyni um öryggisráðstafanir á hafíssvæðum, dómsmrh. segir frá fyrirhuguðu ískönnunarflugi með flugbátum, frv. ríkisstj. um ráðstafanir vegna gengislækkunar með lögum, sagt frá umr. í Sþ. um þáltill. ríkisstj. um aðildarumsókn að EFTA, þáltill. um vantraust á ríkisstj., flutt af Ó1afi Jóhannessyni og Lúðvík Jósefssyni, fsp. Ólafs Jóhannessonar til Gylfa Þ. Gíslasonar um gengisskráningu og stöðvun gjaldeyrissölu, sagt frá útvarpsumr. um vantraust á ríkisstj., vitnað í grg. Björns Jónssonar og sagt frá yfirlýsingu Lúðvíks Jósefssonar, stjfrv. um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytinga á genginu, sagt frá, að varamenn hafi tekið 17 sinnum sæti á Alþ., samþ. 10 lagafrv., m.a. ráðstafanir í sjávarútvegi, afgreiðsla fjárl., ný bókhaldslög, vitnað í frétt fjmrn., viðtal við Jón Sigurðsson, framhaldsfundir Alþ., fyrsti fundur eftir jólaleyfi, vitnað í ræður Lúðvíks Jósefssonar, Ólafs Jóhannessonar og Bjarna Benediktssonar, sagt frá stjfrv. til l. um yfirráðarétt íslenzka ríkisins yfir landgrunninu umhverfis Ísland, sagt frá stjfrv. um hækkun almannatrygginga, sagt frá stjfrv. til laga um lausn kjaradeilu útvegsmanna og yfirmanna á bátaflotanum, vitnað í frv. Eggerts G. Þorsteinssonar, höfð ummæli eftir Ólafi Jóhannessyni og Lúðvík Jósefssyni, sagt frá, að frv. um lausn kjaradeilu yfirmanna og útvegsmanna hafi verið samþ. sem lög frá Alþ., sagt frá fyrirhuguðum viðræðum um samgöngumál og samgrh. hafi lagt fram skýrslu um framkvæmd vegáætlunar, ennfremur, að skýrsla utanrrh. um utanríkismál verði tekin til umr., sagt frá, að forsrh. hafi flutt þinginu skýrslu um efnahagsmál, vitnað í ræður Ólafs Jóhannessonar, Gylfa Þ. Gíslasonar, Lúðvíks Jósefssonar og forsrh., sagt, að Emil Jónsson hafi flutt skýrslu utanrrh. um utanríkismál, að því loknu talaði Magnús Kjartansson, þáltill., sem þm. úr öllum flokkum standa að, um að skora á menntmrh. að beita sér fyrir, að teknar yrðu ákvarðanir um lóð handa Listasafni ríkisins, sagt frá fyrri umr. um þáltill. til vegáætlunar fyrir 1969—1972, sagt frá stjfrv. um breyt. á lögum um Háskóla Íslands, sagt frá skýrslu forsrh. um störf atvinnumálanefndar ríkisins og greint frá umsóknum um lán o.fl., fsp. frá Jónasi Jónssyni um, hvenær sjónvarp mundi ná til Norðurlands austan Vaðlaheiðar og til allra landshluta, vitnað í svar menntmrh., sagt frá umr. um iðnfræðslulöggjöfina og að iðnnemar hafi afhent ályktun.

Þetta er efni þeirra 34 frétta frá Alþ. og af málum þar, sem virðast hafa farið fram hjá hv. fyrirspyrjanda.

Þá er að segja frá 30 almennum stjórnmálafréttum, sem sjónvarpið hefur flutt á þessu sama tímabili, en það virðist líka hafa farið fram hjá hv. fyrirspyrjanda, en efni þeirra er svona:

Ríkisstj. Íslands fordæmir innrásina í Tékkóslóvakíu, mótmæli Æskulýðsfylkingar og Alþb., talsmenn allra stjórnmálaflokka segja álit sitt á atburðum í Tékkóslóvakíu, fyrst að hluta í fréttum, svo í heild síðar um kvöldið, viðtal við Vilborgu Harðardóttur um Tékkóslóvakíu, viðtal við Björn Þorsteinsson um Tékkóslóvakíu, tilkynning frá forsrh. um, að allir stjórnmálaflokkar hefji viðræður um efnahagsmál þjóðarinnar, símaviðtal við Hannibal Valdimarsson vegna tilmæla forsrh. um viðræður allra stjórnmálaflokka nm efnahagsmál, viðtal við Ólaf Jóhannesson um sama efni, brbl. um breyt. á siglingalögum, en það voru fyrstu lög, sem dr. Kristján Eldjárn undirritaði sem forseti, viðræðufundir fulltrúa allra stjórnmálaflokka landsins um efnahagsmál, viðtal við Hannibal Valdimarsson um klofning í Alþb., viðtal við Ragnar Arnalds um klofning í Alþb., fréttatilkynning frá viðræðunefnd stjórnmálaflokkanna, viðræður um þjóðstjórn og Alþ. kvatt saman, flokksþing Alþfl., skipulag Sósíalistaflokksins og Alþb., landsfundur Alþb. settur, lesið upp bréf frá Hannibal Valdimarssyni, landsfundur Alþb. ákveður, að Alþb. skuli gert að stjórnmálaflokki, viðtal við Matthías Á. Mathiesen um störf Þingmannasambands Norður–Atlantshafsbandalagsríkjanna, fyrsti fundur viðræðunefndar stjórnmálaflokkanna, útifundur í Lækjargötu haldinn af miðstjórn Alþýðusambands Íslands, fyrsti viðræðufundur ríkisstj. og viðræðunefndar A.S.Í., miðstjórn A.S.Í. kýs 5 manna n. til viðræðna við ríkisstj., ríkisráðsfundur gefur út brbl. um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, frétt um að Sameiningarflokkur alþýðu Sósfl., hætti störfum frá og með árslokum 1968, frétt um útifund verkamannafélagsins Dagsbrúnar og Trésmiðafélags Reykjavíkur, frétt um nýtt málgagn Alþb. Ný útsýn, sagt frá Alþýðublaðinu í nýjum búningi, forseti Íslands staðfestir 7 lagafrv., sagt frá aðalfundi miðstjórnar Framsfl. viðtal við Ólaf Jóhannesson um Hannibal Valdimarsson og Björn Jónsson og aðalfund miðstjórnar Framsfl., sagt frá, að borizt hafi yfirlýsing frá Birni Jónssyni og Hannibal Valdimarssyni, og er vitnað í yfirlýsinguna. Og hér lýkur þessari skýrslu.

Af 80 fréttum, sem sjónvarpið hefur birt á þessu næstum 9 mánaða tímabili, eru 16 fréttaviðtöl við ráðh., en 64 fréttir frá Alþ. og almennar stjórnmálafréttir, þar sem, eins og allir þm. hafa án efa heyrt, ekki síður hafa verið nefnd nöfn stjórnarandstæðinga og leiðtoga stjórnarandstöðunnar heldur en stjórnarsinna eða ráðh.

Mér er einnig kunnugt um, að gerð hefur verið athugun á innihaldi viðræðu– og spurningaþátta, sem vakið hafa mikla athygli í sjónvarpinu og oft hafa fjallað um þjóðmál, stjórnmál og efnahagsmál, þar sem ráðh. og stjórnarsinnar og leiðtogar stjórnarandstöðu hafa oft verið fengnir til að leiða saman besta sína. Talning á þessum þáttum á þessu sama tímabili leiðir í ljós, að svo að segja nákvæmlega jafnmargir ráðh. og leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafa komið þar fram og í svo að segja nákvæmlega jafnmörg skipti. 7 ráðh. hafa komið þar fram, fleiri gátu það ekki verið, því að þeir eru ekki fleiri, en líka 7 leiðtogar stjórnarandstöðunnar, ráðh. í 13 skipti, og stjórnarandstöðuleiðtogarnir í 12 skipti. Jafnari held ég, að skiptin geti varla orðið.

Ég er mjög feginn því að hafa fengið þetta tækifæri til þess að koma þessum upplýsingum á framfæri og þar með ekki aðeins að andmæla ósannri staðhæfingu í fsp. á hinu háa Alþ., heldur jafnframt til þess að kveða niður þann leiða róg, sem hafður hefur verið uppi í málgögnum stjórnarandstöðuflokkanna um jafnágæta stofnun og íslenzka sjónvarpið er og þá ekki sízt fréttastofa þess.