07.05.1969
Sameinað þing: 47. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í D-deild Alþingistíðinda. (4010)

236. mál, verðlagsmál

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er nú fagurlega talað hér og margir tala, eins og síðasti ræðumaður um, að það sé hægt að breyta skipulaginu í verzluninni og fá meiri arð í vasa kaupmannsins, þrátt fyrir það að verðlagningin hækki ekki. Að sjálfsögðu er á hverjum tíma að þessu unnið og að því vinnur kaupsýslustéttin og hefur gert á margvíslegan hátt. Spurningin, sem þm. Framsfl. komast í rauninni ekki hjá því að svara, er þessi: Vilja þeir frjálsa álagningu? Vilja þeir hærri álagningu, frjálsa álagningu? Þetta er kannske sama sagan, þegar á að fara að framkvæma þetta, eins og við verðum varir við í launamálunum og þeim samningum og deilum; sem standa á þeim vettvangi. Þar segja framsóknarmenn og jafnvel formaður Framsfl. hér í þingsölunum, að launþeginn eigi auðvitað að fá alveg fulla vísitöluuppbót á sín laun. Svo ráða þessir menn fyrirtæki, þar sem er um að ræða einn stærsta vinnuveitandann í landinu og þar standa þeir auðvitað öndverðir gegn þessu og koma því til leiðar með sinni samstöðu þar við vinnuveitendur, að þetta sé ekki gert og þetta sé alveg fráleitt og bara til þess að kippa fótunum undan efnahagskerfi þjóðarinnar, — menn, sem eru þó frammámenn í Framsfl., þó að þeir séu ekki sumir hverjir hér á þingi, í sveitarstjórnum og annars staðar og eitt sterkasta pólítíska aflið í landinu, þar sem SÍS og kaupfélögin eru.

Það er á fleiri sviðum en þessum, sem þessi tvískinnungur framsóknarmanna hefur komið fram hér í þingsölunum í vetur og hefur oft verið haft orð á því og skal ég ekki lengja umr. með því að fara að rekja það. En sannleikurinn er sá, að ég man ekki eftir þessum áhuga á frjálsri álagningu, þegar þessir ágætu menn fóru sjálfir með völdin í landinu. Við skulum segja, að það eigi allir menn rétt á því að taka stakkaskiptum og breyta um skoðun, en þá eiga þeir að fylgja fram þessum sjónarmiðum, þegar þeir eiga að bera ábyrgðina og vera sjálfum sér samkvæmir.

En það, sem gaf mér tilefni til þess að rísa hér upp, var það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að forsrh. hefði vitnað til þess, að stjórnmálaskilyrðin hefðu verið óhagstæð hjá Sjálfstfl. síðasta áratug. Nú verður auðvitað að gera hér þáttaskil, sem hv. þm. hleypur yfir, því að frá því að Sjálfstfl. tók við stjórnarforustu 1959 og allt fram til ársins 1967 var blómaskeið hjá verzluninni hér í landi, þá var einnig mjög hagstætt árferði, afli og annað slíkt, verðlag á afla og útflutningsvörum okkar landsmanna og ég hygg, að það sé óhætt að fullyrða, að verzlun landsmanna hafi á engu öðru tímabili í raun og veru haft slíka aðstöðu til þess að bæta hag sinn sem á þessu tímabili. Það var líka á mörgum sviðum verzlunarinnar, sem þá var komin aðstaða til vegna samkeppni við aðflutta vöru að gefa frjálsa álagningu á vöruflokkum og það var gert, í hve ríkum mæli, hef ég ekki hér hjá mér og það getur verið, að menn hefðu óskað eftir, að það hefði verið í ríkari mæli, en varð. En það stefndi að því, að með blómlegum efnahag þjóðarinnar og auknu jafnvægi í þjóðarbúinu væri hægt að gefa frjálsa álagningu. Á þessu verður gerbreyting á árunum 1967 og 1968. Þá gengur yfir þjóðina ein sú erfiðasta kreppa, sem við höfum nokkurn tíma þurft við að glíma og það eru þessi erfiðu skilyrði, sem hafa leitt til þess, að allt vöruverð var tekið undir eftirlit aftur eða opinberar verðlagsákvarðanir, vegna þeirra erfiðleika, sem að þjóðarbúinu steðjuðu.

Ég held, að menn séu nokkuð sammála um það, að eðlilegt hafi verið 1967 og á árinu 1968 að spyrna fótum við hækkuðu verðlagi eða hækkaðri álagningu, eins og þá var gert eftir föngum. Hitt er svo augljóst mál, að á sama tíma verða tvær gengisbreytingar verzluninni ákaflega þungar í skauti og erfiðar, þar sem hún fær ekki á sama tíma hækkun á sinni álagningu og það er vegna þess að við fylgjum og höfum ekki treyst okkur til að fylgja annarri reglu, en þeirri, sem þekkist ekki annars staðar á Vesturlöndum, að verzlunin fær ekki að hækka sína vörulagera, þegar gengisbreytingar eiga sér stað. Þetta hefur jafnan gengið í gegn, held ég, við næstum því allar gengisbreyt., kannske ekki alveg allar, ég held, að það megi þó segja, að það hafi verið almenn regla og aldrei hafi komið fram nein rödd frá neinum fulltrúum annarra, neins stjórnmálaflokks, um, að þessu væri hægt að haga öðruvísi. En þetta rýrir í svo ríkum mæli greiðslugetu verzlunarinnar, að þetta getur orðið henni mjög hættulegt og fjötur um fót og verður auðvitað ekki til langframa undir risið.

Ég minnist þess, þegar gengisbreyt. varð 1967, þá var gert ráð fyrir því og rætt um það við fulltrúa verzlunarinnar og tók ég m.a. þátt í þeim viðræðum að þeir yrðu að reyna að axla þær byrðar, sem þá lögðust á þjóðina, eins og aðrir, en að því bæri að stefna að koma á, eins og forsrh. sagði, öruggara og heilbrigðara skipulagi í verðlagsmálum og skapa verzluninni sómasamleg eða lífvænleg skilyrði. Það er enginn efi á því, að það urðu verzluninni mikil vonbrigði, þegar ekki reyndist fært að koma þessu í framkvæmd á árinu 1968, en vonir höfðu staðið til þess og það stafar m.a. af því, að í stað þess að gert var ráð fyrir því í þeim áætlunum, sem lágu til grundvallar gengisbreyt. 1967, að nokkuð mundi rætast úr, þá hallaði stöðugt undan fæti og svo geigvænlega, að þegar bæði árin eru tekin saman, þá er það næstum því um 50%, sem útflutningsverðmæti þjóðarinnar minnka.

Menn blanda því stundum saman, að það sé erfitt bæði fyrir launþega og við skulum segja verzlunina líka að bera afleiðingarnar af gengisfellingunum. Það eru í raun og veru ekki afleiðingarnar af gengisfellingunum, sem menn eru að bera, hvorki launþegar né verzlunin. Það eru afleiðingarnar af þeim áföllum, sem þjóðfélagið hefur orðið fyrir, því að ef gengi hefði ekki verið breytt á þessum tíma, var óhjákvæmilegt að gera aðrar ráðstafanir, til þess að útflutnings framleiðsluvegir gætu gengið og það, sem menn helzt töluðu um í því sambandi, var að fara aðra leið, sem þá var nefnd, svokallaða uppbótaleið og naumast var af alvöru hreyft öðrum leiðum. En það þýddi, eftir því sem útreikningar stóðu til á s.l. hausti, — og ég held, að ekki hafi verið mikill efniságreiningur um það t.d. milli fulltrúanna, sem voru í viðræðum stjórnmálaflokkanna á s.l. hausti, — stórkostlegar álögur á allan almenning, sem hlutu auðvitað að hafa gífurleg áhrif bæði á verzlunina sem slíka og kaupgetu almennings í viðskiptum við verzlunina. Hversu háa upphæð hefði verið hér um að ræða, skal ég ekki segja endanlega, en það hefur legið einhvers staðar á milli 1.000 og 1.500 millj. kr. Þetta segi ég til þess að vekja athygli á því, að bæði verzlunin og aðrar atvinnugreinar berjast nú ekki í bökkum í sjálfu sér vegna gengisbreyt. og vegna afleiðinga þeirra, heldur vegna þeirra áfalla, sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir og þurfti að mæta með einhverju móti. Auðvitað má deila um og ástæðulaust að fara út í þær deilur, með hverju þeim átti að mæta. En ef þeim var ekki mætt með gengisfellingu, þá varð að mæta þeim með öðrum ráðum, sem ég fyrir mitt leyti a.m.k. efast um, að þjóðarbúinu, einstökum atvinnugreinum og þar með verzluninni hefðu verið nokkuð æskilegri.

Aðalatriðið er hins vegar það, og það er mjög mikils virði, að verzlunin hefur sætt miklum ásökunum og að ósekju frá ýmsum aðilum í þessu þjóðfélagi og skal ég ekki skilgreina það nánar, fyrir það, að þetta væri meira og minna óþörf stétt og afæta í þjóðfélaginu. Þeir menn, sem þannig hafa talað, hafa fyrst og fremst verið úr hópi þeirra flokka, sem nú eru kallaðir stjórnarandstöðuflokkar. Ef á þessum skilningi er að verða veruleg breyting og hugarfarsbreyting til hins betra, tel ég það mikils virði fyrir verzlunina og spá góðu í því endurbótastarfi, sem þarf að vinna á verðlagskerfinu og öðrum reglum og löggjöf, sem að verzluninni lýtur. Við verðum að viðurkenna, að verzlunin gegnir sínu mikilvæga hlutverki í þjóðfélaginu ekki síður en aðrar atvinnugreinar og það verður á hverjum tíma að búa henni starfsskilyrði, sem eru lífvænleg, og setja hana ekki sem hornreku í þjóðfélaginu, miðað við aðrar atvinnugreinar, eins og margir fyrirsvarsmenn í þessu þjóðfélagi hafa oft viljað vera láta.