26.11.1968
Efri deild: 18. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (517)

77. mál, Lífeyrissjóður hjúkrunarkvenna

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er mjög einfalt í sniðum og þarf því ekki langa framsögu. Með því er lagt til, að heimilt verði, að þær hjúkrunarkonur, sem starfa að félagsmálum hjúkrunarkvenna á vegum Hjúkrunarfélags Íslands, njóti fullra réttinda í Lífeyrissjóði hjúkrunarkvenna.

Eins og lögin eru nú, eru það aðeins starfandi hjúkrunarkonur, sem hafa þennan rétt, en félaginu þykir það mikil nauðsyn að hafa a.m.k. eina sérmenntaða hjúkrunarkonu, sem starfi að félagsmálum stéttarinnar. Stjórn Lífeyrissjóðs hjúkrunarkvenna er sammála um það, að rétt sé að veita slíkri hjúkrunarkonu full réttindi í sjóðnum, og það er augljóst, að ekki er kostur á að fá slíka hjúkrunarkonu til starfa fyrir félagið, nema því aðeins, að hún njóti þessara réttinda. Áður hefur hliðstæð heimild verið veitt í sambandi við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, þar sem starfsmanni eða starfsmönnum BSRB var veitt full aðild að lífeyrissjóðnum.

Ég vænti þess, að ekki þurfi um þetta frv. að verða neinn ágreiningur, og sé ekki ástæðu til að fara um það fleiri orðum, en legg til, herra forseti, að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umræðu og hv. fjhn.