21.10.1968
Neðri deild: 4. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (736)

10. mál, Handritastofnun Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta mál er þáttur í þeirri fyrirætlan að setja ný lög um íslenzk söfn að Handritastofnuninni meðtalinni. Gildandi lög um þá stofnun eru tiltölulega ung, þ.e.a.s. frá árinu 1962, svo að ekki reynist þörf verulegra breytinga á þeirri lagasetningu. Þó var hún með sama marki brennd og lagasetningin um Landsbókasafn á sínum tíma, að í 1. um Handritastofnun er tala aðstoðarmanna forstöðumanns takmörkuð við 2. Þetta lagaákvæði hefur verið, ég vil ekki segja brotið, en það hefur verið sniðgengið í reynd, þ.e. að starfsmönnum Handritastofnunarinnar hefur verið fjölgað umfram þessa 3, en það hefur ekki verið hægt nema með lausráðningu þess starfsmanns, sem um er að ræða. Nú er gert ráð fyrir því, að tölutakmarkið verði numið úr gildi, og þá er hægt að ganga frá venjulegri skipun þess fræðimanns, sem hér er um að ræða, eins og annarra starfsmanna Handritastofnunarinnar. Auk þess stendur til innan skamms að fjölga starfsmönnum hennar enn meir, þ.e.a.s. í kjölfar heimflutnings handrita úr Árnasafni og Konungsbókhlöðu, og er þá ekkert í lögum þessarar stofnunar, eins og nú er, sem því væri til fyrirstöðu. Jafnframt er breytt ákvæðinu um skipun forstöðumanns á þann hátt, að gert er ráð fyrir, að hann verði skipaður með sama hætti og prófessorar, enda er hann nú samkv. gildandi l. prófessor við heimspekideild Háskólans.

Fleiri orð held ég, að ég þurfi ekki að hafa um þetta frv. og leyfi mér því að óska þess, herra forseti, að að lokinni þessari 1. umr. verði því vísað til 2. umr. og hv. menntmn.