04.03.1969
Neðri deild: 60. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

10. mál, Handritastofnun Íslands

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Menntmn. þessarar hv. d. hefur haft til athugunar og afgreiðslu frv. til l. um Handritastofnun Íslands. Eins og fram kemur í áliti n. á þingskjali 297, þá er lagt til, að frv. verði samþ. með lítils háttar breyt., sem birt er á þessu sama þskj. Samkvæmt ósk, sem fram kom í n., var frv. sent til umsagnar Félagi íslenzkra fræða, og er brtt. í samræmi við ábendingar, sem fram komu í umsögn þessa félags. Brtt. snertir 3. málsgrein 4. gr. frv. Í málsgreininni eru ákvæði um, að við stofnunina starfi styrkþegar, sem ráðnir séu til skemmri tíma, en í brtt. er lagt til að við stofnunina starfi styrkþegar, sem ráðnir séu til náms og starfi um skamman tíma í senn.

Þá er einnig lagt til, að niður falli úr málsgr. orðið „annarra“, því að ljósmyndun handrita og vélritun á efni þeirra verður naumast talin til venjulegra skrifstofustarfa. Fleiri ábendingar var að finna í umsögn Félags íslenzkra fræða, en n. sá ekki ástæðu til þess að taka þær inn í frv. Frv. felur í sér smávegis breyt. á gildandi 1. um Handritastofnunina, en það eru nýleg lög, sem lítil reynsla er af enn. Það kom fram í n., að misskilja mætti 1. málsgr. 4. gr. frv., þar sem ákvæði er að finna um forstöðumann stofnunarinnar. Að athuguðu máli, þá telur n. það ótvírætt, að greinina beri að skilja svo, að hver, sem skipaður verði forstöðumaður stofnunarinnar, verði jafnframt prófessor við Háskólann með nokkurri kennsluskyldu, og það þótt hann hafi ekki verið áður prófessor við Háskólann. Ég vænti þess, að hv. þd. geti fallizt á að samþykkja þetta frv. með þeirri breytingu, sem menntmn. leggur til, að á því verði gjörð.