10.03.1969
Efri deild: 56. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

10. mál, Handritastofnun Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd. og var samþ. þar við 3. umr. með shlj. atkv. samkv. shlj. meðmælum hv. menntmn. Hið sama gildir um þetta frv. og annað mál, sem á dagskránni var, Listasafnið, að hér er um að ræða lið í endurskoðun og samræmingu íslenzkrar löggjafar um söfn þjóðarinnar. Löggjöfin um Handritastofnunina er einnig tiltölulega ný, frá árinu 1962, og reyndist því þörf mjög lítilla breytinga á þeirri lagasetningu. Eina breytingin, sem máli skiptir, er sú, að í l., sem nú eru í gildi, var tala starfsmanna stofnunarinnar ákveðin í l. sjálfum og bundin við 3, en hér í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að tala starfsmanna stofnunarinnar fari eftir því, sem fé er veitt til í fjárl. Í 4. gr. segir, að til aðstoðar forstöðumanni séu sérfræðingar, sem hafi fullt og fast starf við stofnunina,eftir því sem fé er veitt til í fjárlögum. En tala sérfræðinga í gildandi lögum er bundin við 3, enda eru þar 3 sérfræðingar starfandi núna auk styrkþega, sem gert er ráð fyrir, að geti verið þar áfram.

Nd. gerði þá eina breytingu á frv. að taka af öll tvímæli um það, að forstöðumaður stofnunarinnar skuli vera prófessor í heimspekideild, þegar hann er skipaður, en ekki að skylt sé að skipa forstöðumann stofnunarinnar einhvern af prófessorum heimspekideildarinnar. Það var aldrei meiningin með lagaákvæðunum, eins og þau nú eru, en ég get alveg fallizt á, að það mætti kannske skilja ákvæði í gildandi lögum þannig og þess vegna lagði menntmn. Nd. til, að tekin væru af öll tvímæli um þetta. Enda er sjálfsagt, að á því geti ekki leikið nokkur vafi, að það sé ekki skylt að taka einhvern af prófessorum heimspekideildarinnar sem forstöðumann stofnunarinnar, en hins vegar, að hann verði prófessor við heimspekideildina, þegar hann hefur verið skipaður. Auðvitað er frjálst að taka einhvern af prófessorum heimspekideildarinnar úr hópi umsækjenda, en tengsl við heimspekideildina verða auðvitað bezt tryggð með því, að forstöðumaður sé jafnframt prófessor við deildina, en þó án kennsluskyldu.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að óska eftir því, að þessu máli verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.