14.11.1968
Neðri deild: 15. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

9. mál, Landsbókasafn Íslands

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta er stjórnarfrv. og samið af þeim dr. Finnboga Guðmundssyni landsbókaverði og Birgi Thorlacius ráðuneytisstj. að ósk menntmrh. Í því eru ekki nýmæli í l. um Landsbókasafn frá 1949. Eru flest þau ákvæði, sem í þessu frv. eru, þar, en það er nokkuð um orðalagsbreytingar, sem eru til bóta, og einnig nánar inn á viss atriði komið í samræmi við þá reynslu, sem orðin er af l. síðan þau voru sett. N. hefur lagt til að breyta einni grein frv. lítils háttar, en þar er ekki heldur um efnisbreytingu að ræða, heldur er sú breyting í samræmi við það, sem reynslan hefur kennt, að betur fari.

Landsbókasafnið er nú talið 150 ára, ef með er talið það tímabil, sem það hét Stiftsbókasafn. Í fyrstu hafði það aðsetur á lofti Dómkirkjunnar hér í Reykjavík og síðar um skeið hér í alþingishúsinu, en þegar nýtt safnahús var byggt 1905–1908 var það flutt þangað og var það hús mjög veglegt á sínum tíma og þar var auk Landsbókasafnsins Þjóðminjasafn og Náttúrugripasafn, sem síðan hafa verið flutt í önnur betri húsakynni.

Í Landsbókasafninu eru nú um 270 þús. bindi bóka og auk þess í Þjóðskjalasafninu, sem er í tengslum við það, um 12 þús. bindi handrita. Eins og að líkum lætur, hefur þetta safn vaxið ört á þessum tíma og er nú orðið mjög þröngt um það í húsakynnum þess.

Menntmn. gerði sér ferð til að skoða safnið og hafa viðræður við landsbókavörð og þjóðskjalavörð og varð ýmissa hluta fróðari eftir þá för, sem var mjög ánægjuleg. Þó að þröngt sé þarna um bækur og skjöl, hefur þó ýmislegt verið fært til betra vegar upp á síðkastið með því að nýta húsakynni betur og betur. M.a. má geta þess, að þarna hafa nýlega komið upp mjög vandaðir skápar fyrir skjalageymslur. Þá skoðaði n. enn fremur bókbandsstofu, sem þarna hefur verið rekin alllengi, og enn fremur kom hún, þar sem gert er við íslenzk handrit, og vinna þar tvær stúlkur og virðist það vera mjög nauðsynlegt verk, sem þar er um hönd haft. Í Landsbókasafninu er enn fremur nú verið að gera spjaldskrá yfir helzta efni og höfunda, sem ritað hafa í blöð og tímarit frá fyrstu tíð. Þetta er ekki mjög langt áleiðis komið, enn sem komið er, en þetta er til stórkostlegra bóta og þegar búið er að vinna þetta verk enn betur en nú er og lengra áfram, þá er það ákaflega mikið hagræði fyrir alla þá, sem þurfa til safnsins að leita um lestrarefni og upplýsingar um höfunda og ýmisleg mál í þjóðfélaginu.

Á Alþ. 1967 var samþ. ályktun þess efnis, að stefnt skyldi að því að byggja veglegt hús yfir bæði Landsbókasafn og Háskólabókasafn. Á fjárl. síðasta árs voru ætlaðar 500 þús. kr. í þessu skyni til undirbúnings og verður því að álykta sem svo, að nú sé gert ráð fyrir, að hafizt verði handa fljótlega um byggingu þessa. Ég tel ekki ástæðu til að ræða þetta frv. nánar. Það var nokkur grein gerð fyrir því í framsöguræðu og eins og fram kemur í nál., mælir menntmn. einróma með því að samþykkja frv., eins og það liggur fyrir, með þeirri breytingu, sem hún flytur á sérstöku þskj. og ég hef þegar minnzt á.