22.04.1969
Neðri deild: 80. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

128. mál, fiskveiðar í landhelgi

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, hefur áður hlotið samþykkt hv. Ed. Það hefur verið athugað og rætt í sjútvn. þessarar hv. d.

Nm. eru sammála um, að þeirri undanþáguheimild fyrir erlend veiðiskip til löndunar afla hér á landi, sem í frv. felst, eigi að beita mjög varlega, ef að lögum verður, og eingöngu, þegar sérstaklega stendur á, t.d. þannig, að fiskvinnslustöðvar hér á landi skorti hráefni. Telur n. það höfuðsjónarmið l. nr. 33 frá 1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi, að ekki beri að auðvelda erlendum veiðiskipum fiskveiðar á Íslandsmiðum, vera í fullu gildi. Hins vegar viðurkennir n., að stundum geti ýmis tilvik verið þannig, áð rétt sé að opna þá leið til frávika frá meginreglunni, sem frv. gerir ráð fyrir, m. a. með tilliti til vinsamlegra samskipta við aðrar þjóðir, og þarfa íslenzks fiskiðnaðar, þegar um hráefnisskort er að ræða, eins og ég nefndi áðan. Með þessum fyrirvara mælir sjútvn. d. með samþykkt frv., í trausti þess, að fyllstu varfærni verði gætt, þegar til þess kemur að veita undanþágur samkv. því. Hæstv. sjútvmrh. hefur raunar lýst því yfir, að þessarar varfærni verði gætt, a.m.k. meðan hann gegnir störfum sjútvmrh. Það hefur verið fært fram m. a. sem rök fyrir því, að rétt væri að opna þessa undanþáguleið, að gengið hafi treglega að útvega íslenzkum fiskiskipum rétt til löndunar á afla, aðallega í Noregi. Að vísu fengust lítils háttar leyfi til löndunar á afla þar s.l. ár, en þeim var kröftuglega mótmælt, sérstaklega af fyrirsvarsmönnum norskrar útgerðar, og munu löndunarleyfin þá hafa verið afturkölluð, m.a. á þeim forsendum, að ekki væri heimilt að landa afla af norskum skipum hér á Íslandi.

Ég viðurkenni fúslega, að það getur einstaka sinnum staðið svo á, þegar íslenzk skip veiða langt frá ströndum lands okkar, t.d. nálægt Noregi, að nauðsynlegt sé að greiða fyrir því, að þau geti fengið að landa afla þar. Hins vegar vara ég mjög við því, að mikið verði gert af þessu. Ég tel, að það geti verið mjög skaðlegt íslenzkum hagsmunum. Við gerum út stærstu og beztu skip okkar til síldveiða norður í höf, og þessi útgerð byggist m.a. á því, að það sé hægt að koma afla þeirra í verð til söltunar samkv. fyrirframgerðum samningum. Ef þessi skip kysu heldur að leggja afla sinn á land í Noregi í stórum stíl, gæti hæglega svo farið, að ekki yrði unnt að uppfylla þá samninga, sem við hefðum gert fyrirfram um sölu á saltsíld. Það má raunar segja, að það sama gildi um bræðslusíldina. Verulegur hluti af bræðslusíldarafurðunum er seldur með fyrirfram gerðum samningum, og það er auðvitað mjög mikilvægt, til þess að við getum haldið góðum viðskiptasamböndum á þessum sviðum, að við stöndum við afhendingu upp í gerða samninga, eins og hægt er. Og þá er að því að gæta, að Norðmenn eru einhverjir hörðustu keppinautar okkar, bæði á sviði saltsíldarframleiðslu og á sviði framleiðslu síldarlýsis og síldarmjöls. Það er þess vegna mín skoðun, og raunar allra sjútvn.-manna, að sem minnst beri að gera af því að leggja upp afla af íslenzkum síldveiðiskipum í Noregi. Norðmenn hafa gert alvarlegar tilraunir til þess að ná undir sig þeim saltsíldarmörkuðum, sem við höfum haft, t.d. í Svíþjóð og við eigum alls ekki að auðvelda þeim þá iðju. En einstaka sinnum getur það komið fyrir, að það standi þannig á, að auðveldasta leiðin fyrir stöku skip, til að koma afla sínum í verð, sé sú að leggja upp í Noregi, og þess vegna varð það niðurstaða okkar að mæla með þeirri undanþáguheimild, sem í frv. felst. Norðmenn geta þá heldur ekki sagt, að það séu allar leiðir lokaðar fyrir þá, til að leggja afla hér á land, þegar sérstaklega stendur á.

Ég skal geta þess, í sambandi við þetta mál, að ég hef orðið var við nokkurn áhuga ýmissa útgerðaraðila fyrir því að sigla af miðunum norður í höfum beint til sölulanda okkar, t.d. til Svíþjóðar, með saltsíld. Möguleika á því að losna við síldina þannig beint úr veiðiskipunum kannaði síldarútvegsnefnd s.l. ár, þegar rætt var við viðsemjendur okkar í Svíþjóð. Þeir svöruðu þeim eftirgrennslunum, sem þá fóru fram, á þá leið, að þeir teldu með öllu útilokað, að þeir gætu á þeim tíma árs, sem um væri að ræða, tekið á móti síld beint úr skipum. Þeir sögðust ekki hafa mannskap til þess að flokka síldina og til þess að vinna við hana, eins og þarf, þegar hún kemur beint úr veiðiskipi, því að þá er langt í frá, að síldin sé fullverkuð. Það er eftir mikil vinna við hana, til þess að hún geti orðið fullgild markaðsvara. Af ýmsum fleiri ástæðum töldu Svíar í fyrra, að þeir gætu ekki tekið við síld á þennan hátt. Það fóru fram hér í Reykjavík fyrir skömmu undirbúningsviðræður við Svía um kaup á saltsíld á þessu ári, og að beiðni 6 manna nefndar, sem hæstv. sjútvmrh. hefur skipað til þess að undirbúa síldarvertíðina á þessu ári, voru sænsku síldarkaupendurnir að því spurðir á þessum fundi, hvort afstaða þeirra til kaupa á síld beint úr skipi væri breytt frá s.l. ári, eða ekki. Þeir svöruðu því til, að þeirra afstaða væri algerlega óbreytt, og þeir töldu fram marga annmarka á því að taka við síldinni beint úr skipi,. m.a: að það yrði að „vraga“ síldina, eins og kallað er, upp úr skipunum, og þeir mundu ekki vilja borga fyrir hana nema hluta af því verði, sem þeir greiða fyrir fullverkaða síld og fullunna vöru. Það virðast þannig ekki vera möguleikar á því, að hægt sé fyrir síldveiðiskip okkar að losna við saltsíld beint til Svíþjóðar. Af öðrum ástæðum mundi það líka vera óhagkvæmt fyrir íslenzku skipin að sigla beint til Svíþjóðar með síldina, sem sé þeim, að ef síldin heldur sig á svipuðum slóðum og hún hefur gert undanfarin tvö ár, mun sigling til Svíþjóðar vera a.m.k. 11/2–2 sólarhringum lengri af miðunum en hingað heim til Íslands. Einnig gefur það að skilja, að þegar búið er að leggja í mikinn kostnað við það að koma síldarsöltunarstöðvun hér á landi í starfrækslu, og búið er að leggja í mikinn kostnað við ýmiss konar fyrirgreiðslu við íslenzka fiskiflotann langt norður í höfum, þá er á allan hátt óæskilegt, og ekki í samræmi við okkar hagsmuni, að íslenzk fiskiskip, sem þessar veiðar stunda, fari með aflann annaðhvort til Svíþjóðar eða Noregs.

Þetta taldi ég rétt, að kæmi fram í sambandi við þetta frv., og ég vil aðeins bæta því við, að nefnd sú, sem ég gat um áðan, að sjútvmrh. hefði skipað, hefur spurzt fyrir um það til ýmissa aðila, sem hlut eiga að máli, hvort þeir telji æskilegt, að íslenzkum veiðiskipum sé leyft að selja afla á hafinu beint yfir í annarra þjóða skip. Það mun hafa verið gert nokkuð af þessu s.l. ár, og samkv. skýrslum Fiskifélagsins munu íslenzk skip hafa selt á þennan hátt um 1200 tonn, sem sé beint úr nótinni, eða beint yfir borðið. Ég veit, að það er skoðun síldarútvegsnefndar, sem m.a. fékk þessa fsp. úthafsnefndar, að slíkt eigi alls ekki að leyfa. Það eru gerð út á sömu mið og við Íslendingar stundum bæði finnsk og færeysk skip, sem gengur oft illa að veiða, og þau vilja þá gjarnan kaupa síld af íslenzku skipunum á þennan hátt. Þetta er starfsemi, sem að mínu áliti brýtur algerlega í bága við íslenzka hagsmuni, og á alls ekki að leyfa. Hins vegar getur þannig staðið á, að íslenzkt skip sé með góða veiði, sem það geti ekki sjálft innbyrt, og að það séu engin önnur íslenzk skip nálægt. Þá horfir málið allt öðru vísi við, og í slíku tilfelli ætti ekki að taka hart á því, þótt þetta yrði gert. En að opna leið til þessa með því að leyfa slíka verzlun á hafinu, það álít ég, að eigi alls ekki að gera.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta mál, herra forseti. Sjútvn. mælir með frv., eins og ég hef getið um, en með þeim fyrirvara, sem ég vænti, að mér hafi tekizt að gera nokkurn veginn grein fyrir.