28.04.1969
Efri deild: 79. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

5. mál, veiting ríkisborgararéttar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er öldungis rétt hjá hv. síðasta ræðumanni, að mannanafnal. eru ekki framkvæmd að fullu og hafa aldrei verið framkvæmd frá því að þau hafa verið sett, í þau 45 ár, sem þau hafa nú gilt. Ég held, að allir ráðh., sem síðan hafa setið, og þeir, sem málið heyrir undir, sem mér skilst, að séu sumpart dómsmrh. og sumpart menntmrh., hafi talið, að l. væru í raun og veru alls ekki framkvæmanleg að fullu, alls ekki framkvæmanleg að fullu. Hér er ekki við yfirvöld ein að sakast, heldur kveður talsvert að því, að börn séu af prestum skírð ólöglegum nöfnum, nöfnum, sem ekki samrýmast reglum mannanafnal. Svo að í raun og veru, ef hér er hjá einhverjum einum aðila um ábyrgð að ræða, þá mundi ég segja, að hann væri hjá íslenzku prestastéttinni, sem hefur gefið börnum nöfn, sem ekki samrýmast að fullu reglum íslenzku mannanafnal. En það voru sannarlega gild rök fyrir því, þó segja megi, að seint væri, að byrja endurskoðun þessara l.

Ég hef fylgzt nokkuð með störfum n. og veit það og skil, að störfin eru mjög erfið. Hér er um mjög torleyst vandamál að ræða og n. því mikill vandi á höndum, og sömuleiðis Alþ., þegar það tekur frv. þetta til meðferðar á næsta hausti, og mun það þá áreiðanlega koma í ljós, að hv. alþm. muni sýnast mjög sitt hvað um ýmis mikilvæg atriði á þessu sviði. En ég ér hv. þm. algerlega sammála um það, að l. um þetta efni eins og önnur eiga að vera þannig, að þau séu framkvæmanleg, og þá ber að sjálfsögðu að framkvæma þau.