14.04.1970
Neðri deild: 72. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

174. mál, lax- og silungsveiði

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Síðan ég kvaddi mér hljóðs, hafa verið rædd hér þau atriði, sem ég hafði hugsað mér að segja nokkur orð um, og þá einkum nú síðast af hæstv. landbrh. Ég hafði ætlað mér að tala þar nokkuð með svipuðum hætti og hann um þær brtt., sem hv. 3. þm. Austf. hefur hér lagt fram. ég tel, að það sé nauðsynlegt, að það komi fram hér við þessa umr., eins og það gerði við 2. umr. frv., að landbn. flutti þær till. sameiginlega, sem hún varð sammála um. Einstakir hv. þm. hafa lagt fram nokkrar fleiri brtt., og það leiðir af því, sem ég hef þegar sagt, að n. er a.m.k. ekki einhuga um þær.

Ég skal ekki bæta miklu við það, sem hæstv. landbrh. hefur sagt um brtt. hv. 3. þm. Austf. En ég vil þó taka undir það, sem hann sagði um 4. brtt. hv. þm. um nýja liði til tekjuöflunar fyrir fiskræktarsjóð. Þau mál hafa verið mjög athuguð, bæði í n., sem undirbjó frv., og eins í landbrn. á milli þess, er frv. var lagt fram í fyrra, og þangað til það var lagt fram að nýju á yfirstandandi þingi, og þar hefur verið komizt að raun um, að þeir liðir, sem hv. þm. vill hér bæta inn í, væru einkar óheppilegir, og frá mínu sjónarmiði tel ég, að t.d. sala veiðimiða sé mjög erfið í framkvæmd og innheimta gjalds fyrir veiðimiða mundi hafa kostnað í för með sér, sem drægi mjög úr tekjum af sölu þeirra til fiskræktarsjóðs. Auk þess mundi það ákvæði að gera mönnum skylt að kaupa veiðimiða, ef þeir ætluðu sér að stunda veiði hér á landi á því ári, hafa mjög neikvæð áhrif á það, að einstakir menn gætu fyrirvaralaust látið það eftir sér að stunda veiði einn til tvo daga á sumrinu. Þetta hefði ekki að þessu leyti áhrif fyrir þá menn, sem ætla sér beinlínis að stunda veiðiskap, en alltaf koma til einhverjir, sem gjarnan vildu grípa tækifærið, þegar það gefst, jafnvel þó ekki sé um að ræða nema dagstund, og bregða sér einhvers staðar í veiðiá og renna þar fyrir lax eða silung, en þá væri það óheimilt, nema þeir hefðu áður keypt þessa veiðimiða. Þeir snúningar og aukakostnaður, sem því fylgdi, mundi í mörgum tilfellum verða til þess, að þeir yrðu að sjá af því að njóta þessarar skemmtunar og íþróttar.

Ég skal ekki blanda mér inn í þær umr., sem hér hafa farið fram um gjald af vatnsaftsstöðvum til fiskræktarsjóðs. Ég tek undir það með hæstv. forsrh., að það er óheppilegt að hafa margs konar orðalag á því í lögum, sem í daglegu tali er kallað nettótekjur og brúttótekjur, en allir nm. í landbn. og eins í þeirri ríkisskipuðu n., sem undirbjó þetta frv., voru, eins og fram hefur komið, sammála um það, að vatnsaflsstöðvunum bæri að leggja þarna eitthvert gjald fram. Hins vegar er það svo um umr. um þetta atriði á þessu stigi að segja, að þetta hefur þegar verið samþ. við 2. umr. frv.

Það kann sumum að þykja, að veiðifélögin og veiðiréttareigendur leggi helzt til lítið fram til þessa fiskræktarsjóðs, sem ég lít svo á, að sé eitt af hinum þýðingarmeiri nýmælum í þessu frv. Þess er þó að geta, sem hér hefur ekki verið á minnzt, að veiðifélögin, a.m.k. mörg þeirra, leggja fram verulegar fjárhæðir til fiskræktar hvert á sínu svæði. Þannig er það t.d. með það veiðifélag, sem ég þekki bezt og er félagsmaður í, að á síðustu þremur árum hefur það lagt til fiskræktar um 260 þús. kr. á ári að meðaltali. Og ef veiðifélögum þessum væri gert að leggja mjög háar fjárhæðir til fiskræktar almennt í landinu, þá hlyti það að koma niður á því fé, sem þau hafa til ráðstöfunar til fiskræktar á sínu eigin félagssvæði. Þess vegna er rétt að taka þessi atriði einnig með í reikninginn, og af þessum sökum verður að vera þarna nokkurt hóf á.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ítreka neitt frekar þau orð, sem hæstv. landbrh. lét falla um till. hv. 3. þm. Austf. En ég lýsi andstöðu minni við þær flestar. Ég tel ekki ástæðu til þess að búast við því, að landbrh, og veiðimálastjóri, hvaða menn sem þessum störfum gegna á hverjum tíma, misnoti þá heimild, sem gert er ráð fyrir, að þeir fái í hendur eftir þessu frv. um eyðingu óheppilegra fiskstofna úr einstökum veiðivötnum eða tjörnum, þar sem ætlunin væri að rækta upp nytjameiri fisk, né þá heldur að leyfa laxveiði í sjó á takmörkuðu svæði utan fiskeldisstöðva. Ljóst er þó, að þar verður að fara að með mikilli gát, því að sums staðar kunna fiskeldisstöðvar að verða settar upp, þar sem árósar veiðivatna liggja nærri, og ætti ekki að koma til greina að leyfa slíka sjávarveiði, þar sem svo hagar til.

Um frv. almennt vil ég segja það, að allir, sem við mig hafa látið uppi álit sitt á því, hafa verið sammála um eitt, að það sé vinningur að því að fá það lögfest, en það er hins vegar Ijóst, eins og margoft hefur hér komið fram í umr. um þetta mál, að um einstakar greinar þess eru uppi mjög sundurleitar skoðanir, sem a.m.k. erfitt eða sennilega ógerlegt væri að sætta allar saman. Og það er ekkert launungarmál, að við einstakir nm. í landbn. þessarar hv. d. hefðum kosið að fá því breytt í einstökum atriðum meir en þegar hefur verið gert og fram hafa verið bornar till. um, en ekki viljað hætta á, að það yrði til þess að stöðva framgang frv., og því látið í sumum atriðum kyrrt liggja.